01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

116. mál, fjárlög 1980

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Svo sem venja er til við 3. umr. fjárlaga koma fram allmargar till. til breytinga, sem fjvn. stendur að í heild, og mun ég gera nánari grein fyrir þeim hér á eftir. Þá hefur ríkisstj., svo sem alkunna er, lagt fram frv. til tekjuöflunar, m. a. til jöfnunar á hitakostnaði. Stuðningsmenn ríkisstj., sem skipa meiri hl. fjvn., munu gera grein fyrir þeim brtt. sem af ráðstöfunum ríkisstj. leiðir. Af hálfu þriggja fulltrúa Sjálfstfl. í fjvn. hefur hér verið dreift sérstöku nál. og munu þeir gera grein fyrir því í þessum umr.

Ég mun, er ég hef gert grein fyrir þeim till. sem n. flytur sameiginlega, gera stutta grein fyrir afstöðu Alþfl., en að því er varðar þau B-hluta fyrirtæki, sem brtt. eru gerðar við, tek ég það skýrt fram að Alþfl. tekur ekki afstöðu til þeirra gjaldskrárhækkana sem þar er gert ráð fyrir, enda eru þær alfarið ákvörðun ríkisstj. og ekki í einu eða neinu á ábyrgð Alþfl., en ég mun gera lauslega grein fyrir þeim breytingum.

Það eru þá fyrst brtt. frá fjvn. á þskj. 262.

Við 3. gr. Liðurinn Gjald af seldum vindlingum. Fyrir 68 millj. koma 136 millj. Nánari grein verður gerð fyrir þessu þegar kemur að 6. gr. fjárlaga.

Við 3. gr. Liðurinn 0671 Gjald af eyðublöðum heillaskeyta. Fyrir 400 þús. koma 2 millj.

Við 4. gr. Íþróttasamband Íslands. Fyrir 126 millj. 140 millj. 620 þús.

Við 4. gr. Fuglaverndarfélag Íslands. Fyrir 150 þús. koma 250 þús.

Við 4. gr. liðurinn Landgræðslusjóður: Þar leggur n. til að fyrir 27 millj. 180 þús. komi 46 millj. 560 þús.

Við 4. gr. er sömuleiðis lagt til að liðurinn Æðarræktarfélag Íslands breytist. Í staðinn fyrir 150 koma 200 þús. kr.

Við 4. gr. komi nýr liður: Laxastigi í Laxá, Suður-Þingeyjarsýslu 45 millj. Gert er ráð fyrir að 45 millj. þurfi til að ljúka framkvæmdum við laxastiga í Laxá, en gert er ráð fyrir að þessi framkvæmd verði lánsfjármögnuð að þessu sinni sem hingað til.

Liðurinn Hjálparstofnun kirkjunnar breytist þannig, að fyrir 1150 þús. komi 2 millj.

Við 4. gr., liðinn Vinnumál 07981, verði sú breyting, að í staðinn fyrir lið, sem áður hét: Fræðslumál BSRB, BHM og samtaka sjómanna, sem falli niður, komi nýir liðir að tillögu fjvn.: 1. Fræðslumál BSRB 10 millj. 2. Fræðslumál BHM 2 millj. 3. Fræðslumál annarra samtaka launafólks 3 millj.

Lagt er til að í stað 50 millj. á liðnum Slysavarnafélag Íslands í 4. gr. komi 64 millj. 620 þús.

Þá er lagt til að þarna bætist við nýr liður, Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, byggingarstyrkur, 15 millj. kr. Við 4. gr. Liðurinn Ríkisspítalar og heilsugæslustöðvar. Fyrir 347 millj. 605 þús. komi 367 millj. 605 þús. Hér er um að ræða hækkun á launalið. Verður þessari upphæð endanlega skipt í fjvn. svo sem venja mun hafa verið, en að meginhluta til mun féð renna til ríkisspítalanna.

Þá er komið að liðnum bygging sjúkrahúsa o. fl. Þar leggur n. til að breyting verði á lið er varðar Borgarspítalann og 1. tölul. þessarar greinar orðist þannig: 1. a. Reykjavik, Borgarspítali, B-álma 300 millj. 1. b. Reykjavík Borgarspítali G-álma 120 millj. — Þessi breyting er lögð til að höfðu samráði við þm. Reykjavíkurkjördæmis.

Þá er lagt til að sú breyting verði gerð við lið nr. 11, Hólmavík H 1, að orðið „undirbúningur“ falli þar niður.

Nýr liður bætist við á liðnum 08381, Hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi 22 millj.

Þá leggur n. til hækkun á framlagi til Krabbameinsfélags Íslands. Í stað 60 millj. komi 79 millj. 380 þús. Á liðnum Samtök áhugamanna um áfengisbölið komi 10 millj. fyrir 8 millj.

Enn fremur er lögð til breyting við liðinn Áfengisvarnir. Fyrir 30 millj. 924 þús. komi 33 millj. 924 þús. Þessi hækkun ætlast n. til að renni einkum til starfsemi þriggja samtaka: Íslenskra ungtemplara, Áfengisvarnaráðs og Samtaka áhugamanna um áfengisbölið sem hafa stofnað samtök gegn útbreiðslu vímuefna, og er ætlast til að hækkunin renni sérstaklega til þeirrar starfsemi.

Við 4. gr. Liðurinn Styrktarfé og ýmis eftirlaun, embættismenn. Lagt er til að hann hækki um 1.2 millj. og liðurinn 09384 Styrktarfé og ýmis eftirlaun, ekkjur, hækki um 900 þús.

N. leggur til að framlag til Sjóslysanefndar 2 önnur rekstrargjöld hækki. Fyrir 3 millj. 225 þús. komi 4 millj. 225 þús.

Þá er lagt til að framlag til Heimilisiðnaðarfélags Íslands hækki úr 125 þús. kr. í 500 þús. kr.

Í liðinn Orkusjóð leggur n. til að komi nýr undirliður: Hólsfjallabæir 15 millj. Þetta er vegna jöfnunar hitakostnaðar samkv. samþykkt ríkisstj. frá í fyrra, en sú fyrirgreiðsla er m. a. talin nauðsynleg til þess að þessir bæir haldist í byggð.

Þá er komið að þeim breytingum er varða B-hluta fyrirtæki.

Vegagerð ríkisins. Þar er lagt til að launaliður hækki úr 3.1 milljarði í 3.7 milljarða. Önnur rekstrargjöld: Í stað 300 millj. komi 400 millj. Viðhald: Sá liður hækki úr 5 milljörðum 870 millj. í 7 milljarða 650 millj. Gjaldfærður stofnkostnaður breytist úr 10 milljörðum 31 millj. í 9 milljarða 320 millj. Og liðurinn Til sveitarfélaga verði 2 milljarðar 705 millj. — Heildarútgjöld til vegamála nema alls 23 milljörðum 975 millj. kr. Útgjöldin eru fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum að upphæð 14 milljarðar 675 millj. samkv. tekjuáætlun fyrir fjárlagafrv. 1980. Að auki er áætluð lántaka að upphæð 8 milljarðar og 300 millj. og að framlag úr ríkisjóði nemi 1 milljarði.

Ríkisútvarpið, hljóðvarp. Þar er lagt til að laun hækki þannig að í stað 812 millj. komi 1 179 328, afskriftir breytist úr 358 millj. í 325, yfirfærslur breytist í 245 millj. 67 þús. og liðurinn Seldar vörur og þjónusta hækki nokkuð. Fjárfestingar: Í staðinn fyrir 300 komi 325. — Skylt er að geta þess til skýringar, að þau B-hluta fyrirtæki, sem hér er um fjallað, hafa verið tekin út úr sérstaklega og þeir liðir, er þau varða, færðir upp til verðlags þessa árs. — Gert er ráð fyrir að fjárfestingarlið Ríkisútvarpsins, sem nemur 325 millj. kr., verði að hluta varið til uppbyggingar dreifikerfisins, svo sem verið hefur, og að hluta væntanlega til að kaupa búnað þannig að unnt verði að hefja tilraunaútsendingar í stereó, en það er ekki illa til fundið þegar þessi stofnun á nú 50 ára afmæli.

Þá verða og breytingar á liðnum Ríkisútvarp, sjónvarp. Launaliður hækkar þar úr 1 milljarði 131 millj. 167 þús. í 1 milljarð 526 millj. 127 þús. Liðurinn Afskriftir breytist þannig, að í stað 650 kemur 500. Seldar vörur og þjónusta hækka úr 3 milljörðum 158 millj. í 3 milljarða 393 millj. og 80 þús. Í fjárfestingu er reiknað með 800 millj. kr., sem m. a. verði varið til uppbyggingar dreifikerfis, eins og að því er útvarp varðar, til að endurnýja endurvarpsstöðvar, sem úr sér hafa gengið, og í öðru lagi til kaupa á svokölluðum örbylgjusendi þannig að unnt sé að sjónvarpa atburðum jafnóðum og þeir gerast. —Í lögum nr. 20/1979, um heimild til lántöku, ríkisábyrgðir o. fl., var veitt heimild til innlendrar eða erlendrar lántöku að fjárhæð 300 millj. kr. til að greiða framkvæmdakostnað við dreifikerfi sjónvarps á árinu 1979. Á árinu 1980 er ráðgerð lánsfjáröflun að fjárhæð 300 millj. kr. til áframhaldandi framkvæmda við uppbyggingu dreifikerfisins, en í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir 500 millj. kr. í sama skyni.

Liðurinn Bjargráðasjóður Íslands. Veitt lán, fyrir 310 millj. 789 þús. komi 1810 millj. 789 þús., og nýr liður: 992 Tekin lán 1500 millj. kr. — Ríkisstj. ákvað að Bjargráðasjóður aðstoðaði bændur og aðra sem urðu fyrir erfiðleikum vegna vorharðinda á Norðausturlandi, en til þess að gera þetta kleift er áformað að afla sjóðnum lántökuheimildar að fjárhæð 1500 millj. kr., en þess fjár verður aflað í innlendum lánastofnunum.

Þá er komið að liðnum Póstur og sími, en nánar er sundurgreint á þskj. 263 í hverju framkvæmdir þar og fjárfesting er fólgin og mun ég því aðeins stikla á stóru. Launaliður hækkar þar mjög verulega, enda er, sem áður sagði, mjög fært upp til verðlags á þessu ári eða úr 8 milljörðum 852 millj. í rúma 14 milljarða. Önnur rekstrargjöld hækka í 7 milljarða úr 5 milljörðum 596 millj. — Meginþættirnir í fjárfestingu Pósts og síma á árinu 1980 eru: Sjálfvirkar símstöðvar: Stækkanir á eldri stöðvum 410, svonefnd Karlssontalning 100 millj. Línukerfi fyrir símnotendur: Í bæjum og kauptúnum 450 millj., í sveitum 501. Landssímasambönd: Jarðsímaleiðir 1350, fjölsímar 631 millj. og radíoleiðir 287 millj. Þetta eru helstu liðirnir í fjárfestingu Pósts og síma, en þetta er nánar til tekið á þskj. 263.

Skipaútgerð ríkisins. Fyrir 736 millj. 125 þús. komi 1 milljarður 15 millj. 380 þús. Liðurinn Laun hækkar úr 835 millj. í 958 og Önnur rekstrargjöld í 1067 millj. Seldar vörur og þjónusta: Í stað 740 kemur 1129 millj. 291 þús. Lántaka að upphæð 200 millj. kr. er fyrirhuguð vegna smíði á vöruskemmu í Reykjavík. Framlag ríkissjóðs til Skipaútgerðarinnar er aukið um 279 millj. kr., og er þá við það miðað að leiguskip verði í förum allt árið 1980. Auk þess eru gjöld og tekjur færð til verðlags 1980, eins og gildir um önnur þessi fyrirtæki.

Flugmálastjórn. Fyrir 2 milljarða 594 millj. 465 þús. komi 2 milljarðar 744 millj. 465 þús., en það er hækkun um 150 millj.

Við 5. gr. Flugmálastjórn, Fjárfestingar: Fyrir 900 millj. komi 1450 millj. og við bætist nýr liður: Tekin lán 400 millj. — Samkv. áætlun tekna í frv. til fjárlaga fyrir árið 1980 var gert ráð fyrir að flugvallagjald næmi 700 millj. kr. Áætlað er að hækkun flugvallagjalds leiði til 350 millj. kr. hækkaðra tekna. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs til framkvæmda á sviði flugmála yrðu um 900 millj. Hér er lagt til að framlag ríkissjóðs verði aukið um 150 millj. Enn fremur er ráðgerð 200 millj. kr. lántaka vegna vörukaupa og 200 millj. kr. lántaka vegna malbikunar flugbrauta. Fjárfesting á sviði flugmála nemur því 1450 millj. kr. Allt er þetta sundurliðað á sérstöku þskj., þskj. 263, og þar er nánar tilgreind upphæð til hvers flugvallar. Þar að auki eru 60 millj. kr. til almennra sjúkraflugvalla o. fl. Sú skoðun hefur komið fram í fjvn., að eðlilegast væri að þm. hvers kjördæmis skiptu þeirri upphæð í umboði fjvn.

Við 5. gr. breytist liðurinn Kröfluvirkjun þannig að fyrir 750 millj. kemur 1750 millj., og liður 492: Tekin lán, fyrir 750 millj. komi 1750 millj. — Lánsfé vegna Kröfluvirkjunar er áætlað 1750 millj. og verður fénu varið til gæslu virkjunarinnar auk borunar tveggja hola í suðurhlíðum Kröflu og tengingar þeirra. Í fjárlagafrv. var áætluð lántaka að upphæð 750 millj. til borunar og tengingar einnar holu. Áætlanir um orkuöflun og virkjunarframkvæmdir eru nú til ítarlegrar endurskoðunar.

Þá er liðurinn Byggðalínur. Fjárfestingar. Fyrir 5 milljarða 809 millj. komi 5 milljarðar 579 millj. Tekin lán breytast með sama hætti. — Ráðgerð er 5 milljarða 579 millj. kr. lántaka vegna byggðalína, en meginverkefni ársins 1980 er lokaáfangi við byggingu Vesturlínu, en til þess verks eiga að renna alls 4 milljarðar 387 millj. Áformað er að orkuveitusvæði Mjólkárvirkjunar tengist aðalorkuveitusvæði landsmanna haustið 1980. Þá er gert ráð fyrir að 1120 millj. renni til hönnunar, efniskaupa og byrjunarframkvæmda við suðausturlínu til Hornafjarðar. Stefnt er að því að sú lína nái til Hornafjarðar 1981. Önnur byggðalínuverkefni eru: 40 millj. kr. til frágangs á Norðurlínu og 32 millj. vegna tengingar Austurlínu á Akureyri.

Þá er liðurinn Rafmagnsveitur ríkisins og þar hafa tölur sömuleiðis verið færðar á verðlag þessa árs. Laun: Fyrir 1 milljarð 210 millj. komi 2 milljarðar 40 millj. Önnur rekstrargjöld: Fyrir 1 milljarð 880 þús. kr. komi 3 milljarðar 460 þús. Hráefni og vörur til endursölu: Fyrir 5 milljarða 140 komi 5 milljarðar 500 þús. Vextir: Fyrir 1160 komi 1700 þús. Afskriftir: Fyrir 1460 þús. komi 2300. Seldar vörur og þjónusta: Fyrir 7 milljarða 750 millj. komi 11 milljarðar og 900 millj. Afborgun lána: Fyrir 1460 millj. komi 3 milljarðar 300 millj. Í lið 983. Liðurinn orðist svo: Fjárfestingar, almennar, 4 milljarðar 926 millj.— dreifikerfi í sveitum 1 milljarður 86 millj. Tekin lán: 2 milljarðar 896 millj. verði 4 milljarðar 726 millj. Afskriftir breytist. 1 milljarður 1460 millj. verði 2 milljarðar 300 millj. Annað, Orkusjóður: Fyrir 1235 millj. kemur 1086. - Tekjur og gjöld þessa fyrirtækis hafa verið færð til verðlags 1980, eins og áður sagði. Ekki er gert ráð fyrir að gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins breytist nema til samræmis við breytt raforkuverð annarra rafveitna.

Ráðgert er að almennar framkvæmdir nema 4 milljörðum 926 millj. kr. og skiptist þannig: Til virkjana fari 40 millj., til stofnlína 1272, til aðveitustöðva 1267, til innanbæjarkerfa 1830, til dísilstöðva 217 og til véla og tækja 300 millj. En nánari sundurliðun þessarar fjárfestingar og þessara framkvæmda er á þskj. 263.

Fjármögnun er ráðgerð með heimtaugargjöldum 200 millj. og lántökum 4 milljörðum 726 millj. Auk þessara framkvæmda er gert ráð fyrir að Rafmagnsveitur ríkisins annist framkvæmdir við styrkingu dreifikerfa í sveitum fyrir 1 milljarð 86 millj.

Þá er gert ráð fyrir að við 5. gr. bætist nýr liður: Sveitarafvæðing og einkarafstöðvar: Fjárfestingar 455 millj. Annað, Orkusjóður 455 millj.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að lántaka til sveitarafvæðingar sé 415 millj. og lántaka vegna einkarafstöðva 20 millj. Lántaka vegna einkarafstöðva er aukin um 20 millj. og verður 40 millj., en á undanförnum árum hefur RARIK alfarið séð um þessar framkvæmdir. Nú er fjárhæðin 455 millj. færð á sérstakan lið: Sveitarafvæðing og einkarafstöðvar, og verður færð á framkvæmdaaðila þegar orkuráð hefur skipt upphæðinni á verkefni.

Þá er liðurinn Orkusjóður 90, yfirfærsluliðurinn, orðist svo: Yfirfærslur, til RARIK 4 milljarðar 186 millj., til Orkubús Vestfjarða 775 millj., sveitarafvæðing og einkarafstöðvar 455 millj. Veitt lán: Fyrir 1100 millj. kemur 1250. Tekin lán: Í stað 4 milljarða 825 millj. komi 5 milljarðar 281 millj. Ráðstöfun eigin fjár: Fyrir 1332 millj. komi 1638. — Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að Orkusjóður taki að láni 800 millj. kr. til styrkingar dreifikerfa í sveitum. Upphæðin var hækkuð um 286 millj. og verður 1 milljarður 86 millj. Sú upphæð ásamt 3100 millj. kr. samkv. frv. myndar yfirfærsluna hjá RARIK sem er 4 milljarðar 186 millj. Þá er yfirfærsla úr Orkusjóði vegna sveitarafvæðingar og einkarafstöðva að upphæð 455 millj., og er það 20 millj. kr. hærri fjárhæð en sú sem tilgreind er í frv.

Lántökur Orkusjóðs eru vegna eftirtalinna verkefna: Byggðalína 3090 millj., dreifikerfa 1 milljarður 86 millj., sveitarafvæðingar 455, hitaveitulána 500 og jarðhitaleitar 150. Samtals eru þetta 5 milljarðar 281 millj. kr. Til jarðhitaleitar er auk þess ætlað 600 millj. kr. framlag úr ríkissjóði.

Þá er komið að 6. gr. frv. Á sérstöku þskj., 270, er gerð grein fyrir þeim liðum sem n. leggur til að falli niður. Það er í fyrsta lagi að tölul. 5. 2, um heimild til að selja jörðina Fornahvamm, falli niður. Þetta þótti ekki brýnt og ástæðulaust að hafa þessa heimild í frv. 5. tölul. 4, sem fjallar um sölu húseigna í Vík í Mýrdal, fellur niður, þar sem þessar húseignir hafa fyrir alllöngu verið seldar, og sömuleiðis 5. tölul. 6, um sölu á húseign við Keilufell. Hann fellur niður þar sem sú húseign er þegar fyrir nokkru seld.

En svo að ég víki aftur að B-hluta fyrirtækjum, sem sagt þeim fyrirtækjum sem fjvn. fjallaði sérstaklega um, gerði ég fyrirvara um þetta af hálfu Alþfl., en geri grein fyrir því hér. Einu fyrirtæki til viðbótar væri kannske sérsök ástæða til að víkja að og það er Landhelgisgæslan. Þar hefur komið í ljós að talið er að verulegt fjármagn vanti bæði til launa og rekstrar. Mér er óhætt að segja að það sé skoðun fjvn., að það mál þurfi allt að taka til athugunar og endurskoðunar, m. a. með tilliti til rekstrar gæslunnar, hversu mörg skip og hversu stóran flugflota hún eigi að reka og hvernig sá floti nýtist best. Nú hafa menn lesið um það í blöðum, að væntanleg sé hingað ný þyrla sem væntanlega mun kosta sitt, en hins vegar er ekki vitað til þess að ákvarðanir hafi verið teknar um það enn að verja fé til þeirra kaupa. Það er skoðun n. að þetta þurfi að athuga vel.

Þá eru breytingar við heimildagreinina, 6. gr. Þær eru taldar upp á þskj. 262., brtt. frá fjvn.

Það er þá í fyrsta lagi að bæta tjón á vatnsveitu í Kelduneshreppi, tjón sem varð af völdum jarðskjálfta, og það tjón verði bætt í samræmi við reglur um bætur vegna hliðstæðra tjóna.

2. tölul. 1 er að gefa út fyrir hönd ríkissjóðs til sölu innanlands ríkisskuldabréf eða spariskírteini að fjárhæð allt að 2 milljörðum 800 millj.

3. liður 2 er að ábyrgjast lán vegna Hríseyjarferju. Lánið má vera verðtryggt. Þetta er nokkur viðbót við það sem stendur á frv., miðað við lánskjaravísitölu eða jafngildi allt að 103 millj. kr. í erlendri mynt og tekur ábyrgð jafnt til greiðslu afborgana, vaxta, verðbóta og annars kostnaðar.

Þá er lagt til að við bætist nýr liður, 3. tölul. 6, að ábyrgjast með einfaldri ábyrgð lán er Akureyrarbær kynni að taka til byggingar tengiálmu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þetta mál bar nokkuð á góma við 2. umr. fjárlaga.

Liður 4.11: Að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af rafbíl ásamt fylgihlutum fyrir Háskóla Íslands, einnig að fella niður eða endurgreiða þungaskatt af bílnum fyrir árin 1979 og 1980. Þarna er um að ræða viðbót við grein sem áður var og fjallar um endurgreiðslu þungaskatts.

Þá er brtt. frá n. við tölul. 4. 13. Sá liður orðist svo, að heimilt sé að endurgreiða söluskatt af orgeli fyrir: a) Söfnuð aðventista á Selfossi, b) söfnuð Lundarkirkju, c) söfnuð Stóra-Laugardalskirkju.

Þá er lagt til að heimilað verði að selja prestssetursbústaðina í Vestmannaeyjum, nr. 2 við Sóleyjargötu og nr. 51 við Heiðarveg, og verja andvirði þeirra til að kaupa eða leigja nýtt prestssetur.

Þá er lagt til að heimilað verði að selja hlut ríkissjóðs í húsnæði Iðnskólans á Selfossi, þ, e. nr. 1 við Sigtún, að festa kaup á húsnæði fyrir Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt öðrum rekstraraðilum skólans og taka til þess nauðsynlegt lán, að selja hluta ríkissjóðs í gamla barnaskólahúsinu á Borðeyri, að festa kaup á húsnæði fyrir Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði og taka til þess nauðsynleg lán, að hafa makaskipti á hluta ríkissjóðs í húseigninni Ketilsbraut nr. 20 á Húsavík og samsvarandi eignarhluta í íbúðinni að Garðarsbraut 39 á sama stað, að selja Reykjavíkurborg um 20 hektara af landi Póst- og símamálastofnunar í Gufunesi vegna Kirkjugarða Reykjavíkur, að selja eignarhluta ríkissjóðs í húseigninni nr. 30 við Heimagötu í Vestmannaeyjum, að festa kaup á húsnæði á 2. og 3. hæð húseignarinnar nr. 118 við Laugaveg í Reykjavík, — til skýringar skal þess getið að þar eru Rafmagnsveitur ríkisins nú með sínar skrifstofur, — að heimila Síldarverksmiðjum ríkisins að hafa makaskipti á hluta af starfsmannahúsi Síldarverksmiðja ríkisins á Reyðarfirði og annarri húseign á sama stað, enda takist samningar um það, að festa kaup á fasteigninni Lyngási 7–9 í Garðakaupstað til skólahalds og festa kaup á húsnæði í stjórnsýslumiðstöð á Dalvík fyrir bæjarfógetaembættið þar, að fengnu samþykki fjvn. Alþ. að kaupa fyrir landshöfn Keflavíkur-Njarðvíkur viðlegukant í eigu Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur hf., enda náist samningar um kaupverð og greiðsluskilmála, að taka lán allt að 50 millj. kr. til endurbóta á húsnæði Námsgagnastofnunar að Laugavegi 166, Víðishúsi svonefndu, enda verði húseignir Ríkisútgáfu námsbóka að Brautarholti 6 og Tjarnargötu 10 í Reykjavík seldar, sbr. lið 5.5 í fjárlagafrv., að taka lán til kaupa á húsnæði fyrir bæjarfógetaembættið í Vestmannaeyjum, að gera í samráði við fjvn. Alþingis samning við Reykjavíkurborg um skuldir ríkissjóðs vegna framkvæmda í heilbrigðismálum.

Á þskj. 270 er svo enn ein till. til breytinga við 6. gr., þ. e. við bætist nýr liður: að breyta kröfum ríkissjóðs á hendur Olíumalar hf. í hlutafé að fengnu samþykki fjvn. Alþingis. — Þetta mál var nokkuð rætt í fjvn. Það er skoðun n. að athuga beri rekstur þessa umrædda fyrirtækis gaumgæfilega og fyrir verði að liggja glöggar upplýsingar um framtíðarskipulag og rekstur þessa fyrirtækis áður en gengið verði til áðurgreindra samninga.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þessum till., en aðeins fáein orð í viðbót.

Að hálfu Alþfl. voru lagðar fram ítarlegar brtt. við 2. umr. fjárl. Þær till. gerðu ráð fyrir niðurskurði ýmissa liða, m. a. lækkun framlaga til nokkurra landbúnaðarliða, niðurgreiðslna og svo til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Á móti þessum niðurskurði eða lækkun ríkisútgjalda lagði Alþfl. til tekjuskattur einstaklinga yrði lækkaður um 7 milljarða kr. rúmlega, varið yrði 4 milljörðum til jöfnunar hitakostnaðar og 1 milljarði til félagslegra aðgerða í húsnæðismálum. Allar þessar till. voru felldar við 2. umr. Síðan hefur það gerst að eftir miklar deilur, að því er virðist, sem raunar virðist enn alls ekki vera lokið, er hér lagt fram stjfrv. um 2% hækkun söluskatts. Nokkrum hluta þessarar hækkunar, aðeins hluta þó, skal verja til jöfnunar hitakostnaðar, en um helmingurinn er almenn skattheimta. Þetta er viðbótarskattheimta þrátt fyrir öll loforð ríkisstj. og þótt hæstv. forsrh. hafi sagt við þjóðina í sjónvarpi, hygg ég frekar en hljóðvarpi, að hann gæti að vísu ekki lofað því, að skattar mundu lækka, en þeir mundu ekki hækka. Þetta eru efndirnar á því.

Varðandi hitakostnaðinn skal það skýrt tekið fram, sem raunar hefur áður fram komið, að Alþfl. er fylgjandi jöfnun hitakostnaðar, að léttar verði byrðar þeirra sem þurfa að kynda hús sín með olíu. Alþfl. hefur haft frumkvæði í þeim efnum og lagt til, að á móti væru útgjöld ríkissjóðs nokkuð lækkuð, og komið með beinar tillögur í þá átt. Þau sjónarmið hafa ekki fundið náð fyrir augum þeirra, sem styðja þessa ríkisstj., og augum ríkisstj., að unnt væri að leysa þetta mál innan ramma fjárlaga, heldur er hér efnt til nýrrar skattheimtu væntanlega aðeins byrjunina á því sem síðar mun koma.

Það var sagt hér af hálfu Alþfl. bæði við 1. og 2. umr. fjárlaga, að forsenda þess, að unnt yrði að afgreiða fjárlög fyrir páska, hlyti að vera sú og væri sú, að fram yrðu lögð drög að lánsfjáráætlun, svo sem raunar ber skylda til að landslögum, þótt skylt sé að vísu að geta þess, að ýmis gangur hefur verið á framkvæmd þess í gegnum árin. Um miðjan dag í gær fékk fjvn. í hendur drög að lánsfjáráætlun, en aðeins að því er varðar A- og B-hluta fjárlaga. Það segir auðvitað ekki nema hálfa sögu og illa það. Þrátt fyrir ítrekaðar fsp. hafa ekki fengist svör fjmrh. um hver verði rammi lánsfjáráætlunar á þessu ári. Svör hans til þessa hafa verið teygjanleg á svona 30 milljarða bili. Ljóst er og — það er mat allra sem til þekkja — að nú stefni í a. m. k. 110 milljarða kr. lánsfjáröflun, ef ekki enn hærra. Þetta er auðvitað langt umfram það mark, sem í upphafi var sett, og langt umfram það sem þeir, er gerst til þekkja telja óhætt að fara. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna að hér stefni í óefni. Það virðist ljóst að þessi ríkisstj. muni slá öll fyrri met í skuldasöfnun og er það vafasamur heiður, að ekki sé meira sagt. Allt tal um að draga úr verðbólgu, niðurtalningu og hvað það nú heitir er auðvitað hrein markleysa í ljósi þess sem nú liggur fyrir.

En þrátt fyrir að ekki liggi fyrir nema mjög óljósar upplýsingar um endanlega gerð lánsfjáráætlunar telur Alþfl. ekki rétt í núverandi stöðu og við núverandi aðstæður að tefja fyrir því með neinum hætti að fjárlög verði afgreidd. Því verða ekki af hálfu Alþfl. hafðir uppi neinir tilburðir í þá átt, enda er nú fjórðungur fjárlagaársins liðinn og ekki seinna vænna að koma þessu frá sér. Það er hins vegar skoðun okkar, að að því er varðar ríkisfjármálin stefni nú í algert óefni, og í því efni lýsum við fullri ábyrgð á hendur ríkisstj.

Ég vil svo að lokum þakka meðnm. mínum fyrir mjög gott og þó umfram allt drengilegt samstarf.