01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

116. mál, fjárlög 1980

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á þskj. 271 flyt ég ásamt nokkrum öðrum þm., hv. þm. Karvel Pálmasyni, Kjartani Jóhannssyni, Matthíasi Bjarnasyni og Sverri Hermannssyni, brtt. við frv. til fjárlaga sem ég hef áhuga á að fylgja úr hlaði með örfáum orðum áður en ég vík nokkrum orðum að afgreiðslu fjárlagafrv. sem hér fer væntanlega fram á morgun.

Eins og menn muna var gert samkomulag við sjómannasamtökin í tilefni af gerð kjarasamninga fyrir rösku einu ári þar sem þáv. hæstv. ríkisstj. lofaði ákveðnum tilteknum aðgerðum til umbóta í félagsmálum fyrir sjómenn. Einn þáttur þeirra aðgerða, sem þáv. hæstv. ríkisstj. lofaði sjómönnum, var að verja fé úr ríkissjóði til styrktar við sjómannastofur, ekki til rekstrarstyrkja við sjómannastofur, því að þeir styrkir hafa tíðkast um nokkurra ára skeið, heldur til stofnkostnaðar við sjómannastofur í landinu til byggingar þeirra.

Ég þarf að sjálfsögðu ekki að lýsa því í mörgum orðum hver nauðsyn er á að slíkar sjómannastofur verði settar upp, t. d. á þeim stöðum úti á landi þar sem um tímabundið skeið er mikil aðsókn aðkomusjómanna, svo sem á loðnuvertíð, sem hvergi eiga höfði sínu að að halla. Á þeim stöðum eru mjög víða sjómannastofur sem eru búnar með miklum vanefnum. Út af fyrir sig hefur verið unnt að halda rekstri þeirra gangandi, m. a. með stuðningi fjár frá ríkissjóði, en hins vegar eru þessar sjómannastofur mjög illa búnar húsgögnum, illa búnar blaðakosti og öðru því sem til gamans getur verið og dægradvalar.

Undir lok s. l. árs kom hins vegar í ljós að hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafði gert næsta lítið til að efna loforð sín við sjómennina, m. a. um sjómannapakka sem svo var kallaður. M. a. hafði ekkert fé verið útvegað og engar ráðstafanir gerðar til fjárútvegunar til neins þess sem hæstv. þáv. ríkisstj. hafði lofað að útvega sjómönnum og sjómannastarfi. Hæstv. núv. fjmrh., sem þá gegndi embætti samgrh., hafði legið með flestöll þessi mál í rn. sínu án þess að hafa látið til skarar skríða um lausn þeirra, og þegar minnihlutastjórn Alþfl. tók við völdum 15. okt. s. l. hafði sama og ekkert af loforðunum, sem þáv. ríkisstj. hafði gefið sjómönnum, verið efnt. Þ. á m. höfðu engar ráðstafanir verið gerðar til að afla fjár til aukinnar veðurþjónustu við sjómenn, eins og lofað hafði verið að gera, og ekkert hafði heldur verið gert til að útvega fé til að efla fræðslustarf sjómanna, eins og lofað hafði verið. Ekkert hafði verið gert til að útvega fé til stofnstyrktar fyrir sjómannastofur, eins og einnig hafði verið lofað að gera.

Ríkisstj. Alþfl. ákvað að reyna að efna þau loforð sem gefin höfðu verið mörgum mánuðum fyrr, en þáv. hæstv. samgrh. lítið sem ekkert gert til að reyna að efna. Hins vegar var, eins og ég tók fram áðan, ekkert fé fyrir hendi í árslok m. a. til að verja til stofnstyrktar við sjómannastofur, svo að brugðið var á það ráð að fjárlagaliður, sem ekki hafði verið notaður, þ. e. línuuppbót til sjómanna, sem var að mig minnir í kringum 30 millj. kr., var tekinn til þessarar ráðstöfunar. Honum var skipt á fjóra staði í landinu, þar sem sjómannastofur fengu stofnstyrk í lok desembermánaðar til húsbúnaðarkaupa og fleira slíks. Þegar núv. fjárlagafrv. var lagt fram sáust þess hins vegar hvergi merki að hæstv. ríkisstj. ætlaði að reyna að standa við síðari hlutann af því fyrirheiti sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar gaf í þessu sambandi.

Í fjárlagafrv. núna er hvorki ákvæði um framlag til sjómannastofa, þ. e. til stofnkostnaðar, né heldur ákvæði um framlag til uppbótar á línufisk. Hvort tveggja þetta hefur fallið niður úr fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. Ég vona að annar liðurinn a. m. k., þ. e. liðurinn um framlag úr ríkissjóði til búnaðar sjómannastofa, hafi fallið niður af vangá. Sú er ástæða þess að við, þessir tilteknu þm., berum nú fram á þsk. 271, í lið IV, till. um að vinnumálaliður félmrn. verði hækkaður um 20 millj. kr. og því fé varið til stofnframlags til sjómannastofa, sem yrði væntanlega skipt í samráði við sjómannasamtökin, Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, eins og gert var í desembermánuði s. l. Ég vil leyfa mér að treysta því, að hæstv. núv. ríkisstj. fáist til þess að samþykkja slíka fjárútvegun. Þetta er ekki meira fé en varið var í þessu skyni í desembermánuði s. l. Þetta er fjármagn sem búið er að lofa sjómannasamtökunum að útvega, en ekki var staðið við fyrr en seint á síðasta ári o ekki virðist eiga að standa við samkv. fjárlagafrv. nú. Ég vil leyfa mér að álíta að þetta séu mistök hjá hæstv. ríkisstj., hafi fallið út fyrir vangá, og vona fastlega að hv. stjórnarliðar sjái mistök sín og vilji fallast á þá till. okkar að 20 millj. kr. verði varið til stofnbúnaðar við sjómannastofur í landinu. En það mundi nema um það bil 5 millj. kr. í framlagi til þeirra staða sem fengu álíka framlag í desembermánuði s. l.

Ég vil svo, hæstv. forseti, ekki fara öllu fleiri orðum um þessa till., en ítreka þá ósk mína að menn sjái að sér í þessu sambandi og afgreiði ekki fjárlög án þess að gera ráð fyrir þessum útgjaldalið, einkum og sér í lagi vegna þess að hér er einfaldlega um að ræða efnd á loforðum sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. gaf sjómannasamtökunum á sínum tíma og staðið var við, þótt seint væri, á s. l. ári, en stendur upp á hæstv. ríkisstj., a. m. k. samkv. fjárlagafrv. sem hún hefur lagt fram, að efna á þessu ári eins og loforðin stóðu til.

Ég vil þá fara örfáum orðum um afgreiðslu fjárlagafrv. Ég verð enn að undrast það, að þegar lagt er svo mikið kapp á að afgreiða mál af hálfu hæstv. ríkisstj. á Alþ. skuli það gerast æ ofan í æ að ekki einn einasti ráðh. sé viðstaddur umr. Ég víti þetta framferði hæstv. ríkisstj. og vil óska eftir því við hæstv. forseta að hann geri enn ráðstafanir til þess, ég held að það sé í fjórða eða fimmta sinn sem þarf að óska eftir því við hæstv. forseta, að náð verði sambandi við hæstv. ráðh. og umr. ekki haldið áfram öðruvísi en einhverjir forsvarsmenn hæstv. ríkisstj. séu viðstaddir. (Gripið fram í.)

Ég vil leyfa mér að lýsa því yfir, hæstv. forseti, að ég hef setið á Alþ. síðan 1974. Það er að vísu ekki langur tími, en samt nokkur ár, lengur en t. d. hæstv. ráðh. sem nýlega er genginn í salinn. Á þeim tíma hafa aldrei verið fleiri ráðh. en þær fáu vikur sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum. Ég man aldrei til þess að annarri ríkisstj. hafi legið jafnmikið á að afgreiða mál og þessari hæstv. ríkisstj. En mig rekur ekki minni til þess að ræðumenn hafi fimm sinnum við sömu umr. um sama málið þurft að krefjast þess af hæstv. forseta að ráðh. yrðu sóttir vegna þess að þeir væru annaðhvort að sóla sig úti í Alþingishúsgarði eða væru einhvers staðar á rölti um húsið gersamlega áhugalausir um að taka þátt í umr. eða vera við til að hlýða á umr. Það ætti a. m. k. ekki að vera vanda undirorpið fyrir tíu ráðh. að skiptast á og vera þó við einn í einu. Ég skal ekki gera neitt sérstakt veður út af því þó að það sé að þessu sinni hæstv. iðnrh. sem stendur vaktina, en enginn sé viðstaddur, hvorki frá Framsfl. né þeim bandingjum sem drattast á eftir fulltrúum flokkanna tveggja í ríkisstj.

Löng stjórnarkreppa á s. l. hausti sætti meiri tíðindum en menn kynnu að halda við fyrstu sýn. Sú stjórnarkreppa var miklu meira en það eitt að nokkrir einstaklingar ættu erfitt með að koma sér saman um að mynda ríkisstj. Þetta var miklu meira en venjuleg stjórnarkreppa, miklu meira en erfiðleikar í persónulegri sambúð stjórnmálaforingja og flokka. Stjórnarkreppan á s. l. hausti og vetri stóð í raun réttri um hvort unnt væri að endurnýja enn á ný þingmeirihluta til stuðnings við þá stjórnleysis- og óðaverðbólgustefnu sem komst til valda í þessu landi árið 1971 þegar Framsfl. og kommúnistar komust í stjórnarstólana eftir 12 ára útlegð. Þessi stjórnarstefna, sem ríkt hefur í landinu s. l. 10 ár, hefur skilið efnahagslíf okkar Íslendinga eftir í algerri rúst. Hér er meiri verðbólga í landi en var á stríðstímum, þegar allar aðdráttar- og samgönguleiðir landsins við útlönd voru lokaðar. Seðlaprentun er svo hömlulaus að hún er aðhlátursefni útlendinga og fréttaefni í víðlesnum erlendum blöðum. Íslenska krónan er orðin verðlaus mynt sem enginn landsmaður ber lengur minnstu virðingu fyrir. Skuldasöfnun hefur aldrei verið meiri og vex nú hröðum skrefum með hverjum deginum sem liður. Þessi sömu viðhorf hafa verið ráðandi hjá öllum ríkisstj. síðan árið 1971 að 12 ára útlegð Framsóknar og kommúnista lauk hér á þessu landi.

Fyrst var slík ríkisstj. stofnuð með tilstyrk Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Þeir veittu slíkri ríkisstj. þann þingmeirihl. sem hún þurfti. Hvað entist sá stuðningur lengi? Í um það bil tvö ár. Hver gafst þá upp?

Forsvarsmaður Alþýðusambands Íslands, Björn Jónsson, og hans félagar. Þá létu þeir stuðningi sínum við framsóknarkommúnismann lokið.

Þá kom nýr liðsmaður, flokkur hv. þm. Geirs Hallgrímssonar. Hann myndaði ríkisstj. fyrir Framsfl. til að viðhalda sömu stefnu óbreyttri. Að vísu var hv. þm. Geir Hallgrímsson í forsæti fyrir þeirri ríkisstj. að nafninu til, en stefnan var stefna Ólafs Jóhannessonar, Framsfl. og kommúnista, enda urðu engar breytingar á stjórn efnahagsmála í þessu landi eða á efnahagslífinu á Íslandi með stjórnarskiptunum 1974. Þar var haldið áfram sama stjórnleysinu, sama framsóknarkommúnismanum, enda féll sú ríkisstj. við lítinn orðstír.

Það er engin ástæða til að víkjast undan því, að við Alþfl.-menn tókum það á okkur á næstliðnu hausti að veita slíkri ríkisstj. áfram skjól um nokkurt skeið, þegar annar þingmeirihl. hennar var brostinn. Okkar stuðningur við framsóknarkommúnismann stóð í aðeins eitt ár eða helmingi skemur en stuðningur Björns Jónssonar og Samtakanna.

Þannig stóð eftir áratug. Menn höfðu fyrir augunum hvaða afleiðingar höfðu orðið af þeirri stjórnarstefnu, sem fyrst komst að á Íslandi árið 1971. Þrír aðilar höfðu veitt henni skjól á þessu tímabili, en langlundargeð allra þriggja var þrotið. Stjórnarkreppan eftir kosningarnar síðustu stóð fyrst og fremst um hvort finnanlegur væri einhver örlítill þingstyrkur til viðbótar við þingfylgi Framsfl. og Alþb. til að veita þessum framsóknarkommúnisma áttunda áratugsins skjól eilítið lengur. Hann var ekki finnanlegur hjá Alþfl., það var alveg ljóst. Það var ljóst að Alþfl. vildi ekki setjast í ríkisstj. með óbreytta stefnu frá þeirri ríkisstj. sem hann var í um eins árs skeið. Það varð því að finna þann meirihlutastuðning annars staðar. Það lá ljóst fyrir, að ef hann fyndist ekki mundu aðstæðurnar neyða Alþingi Íslendinga til stjórnarmyndunar á öðrum grundvelli, ekki endilega með öðrum flokkum, heldur á öðrum grundvelli en allar ríkisstj. hafa verið myndaðar á á Íslandi á s. l. 10 árum.

Því miður fyrir Alþ., því miður fyrir ríkisvaldið og því miður fyrir íslensku þjóðina lyktaði þessari löngu stjórnarkreppu með ósigri þeirra afla sem vildu breyta til, sem vildu brjóta í blað. Nokkrir einstaklingar gengu á síðustu stundu til liðs við áframhaldandi stefnu framsóknarkommúnismans og veita henni nú skjól. Enn er haldið áfram á sömu braut og byrjað var að feta árið 1971. Sjálfsagt getur þetta samstarf staðið nokkra hríð. Vonandi stendur það sem lengst þannig að þegar ríkisstj. fellur verði fall hennar nægilega mikið, hún falli nægilega hátt til þess að mönnum sé ljóst í eitt skipti fyrir öll að ef von á að vera til að ná árangri í stjórn efnahagsmála á Íslandi verði það ekki gert með öðrum hætti en þeim að hverfa frá þeirri óstjórn sem setti svip sinn á störf ríkisstj. Íslands á árunum 1971–1974, hélt áfram að móta störf ríkisstj. sem sat að völdum 1974–1978, var óbreyttri haldið áfram af ríkisstj. sem sat 1978–1979 og einkennir öll störf og öll verk þeirrar ríkisstj. sem er nýlega tekin við.

Það er ekkert sem út af fyrir sig bendir til annars en að þetta stjórnarsamstarf geti staðið talsverðan tíma enn. Síst hörmum við það, því að með hverjum deginum sem líður verður þjóðinni þá betur og betur ljóst að bæði þarf að skipta um menn og stefnu. Halda menn t. d. að það sé líklegt að þeir þrír sjálfstæðismenn, sem eiga að sitja í ráðherrastólum nú, en gera það ekki, muni spyrna við fótum? Hver er staða þeirra í ríkisstj.? Hafa menn veitt því athygli — þm. hafa sjálfsagt gert það — að í dag og í gær hafa þingflokkur Framsfl. og þingflokkur Alþb. setið á stöðugum fundum til að leysa alvarleg ágreiningsefni sem komið hafa upp í stjórnarliðinu? Þessir þingflokkar voru búnir að halda fundi í dag frá kl. 2 til kl. 5 og náðu loks samkomulagi. En hvar var garmurinn hann Ketill? Hvar var þriðji aðilinn í stjórnarsamstarfinu? Ráðh. voru hérna að dandalast eins og höfuðsóttarrollur um allt hús og voru einu mennirnir hér inni, að stjórnarandstöðunni meðtalinni, sem höfðu ekki hugmynd um hvað var að gerast. Engum datt í lifandi hug að leita til þeirra og spyrja þá um hvaða álit þeir hefðu eða leita ráða hjá þeim eða spyrja þá um eitt eða neitt. Þeir bara dönduluðust hér í húsinu og voru að spyrja menn sem þeir hittu: Ja, hvað haldið þið að framsóknarmenn séu að ræða? Eru kommarnir enn þá á fundi og um hvað eru þeir að tala?

Að loknum fundi þingflokka Alþb. og Framsfl. sagði einn af forustumönnum annars þingflokksins við kunningja sinn að nú væri búið að ná samkomulagi á milli Framsfl. og Alþb. um lausn þess deilumáls sem fundirnir voru haldnir út af, en það er, eins og öllum er kunnugt, 2% hækkun á söluskatti sem til stóð. Þá var hann spurður: En hvernig er með Gunnar og hans lið? Svarið var: Ég bara veit ekki hvort það er búið að spyrja þá.

Þessir menn skipta ekki lengur nokkru máli. Þetta var gjaldgeng mynt á meðan verið var að mynda ríkisstj., en er nú orðin falsmynt sem enginn vill taka við. Þessir ágætu þm. og hæstv. ráðh. eru eins og íslenska krónan er í útlöndum: Það vill enginn taka við þeim. Það er ekki hægt að skipta þeim. Og hvernig halda menn að þessir einstaklingar hafi einhverja stöðu í ríkisstj.? Hvað hafa þeir á bak við sig? Þeir hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson halda sér dauðahaldi í hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen, sem vissulega er mikill persónuleiki, eins og drukknandi maður í bjarghring. En ef þeir hafa ekki lengur slíkt tak, í hvað halda þeir sér þá? Og hvað skyldu þessir menn gera ef þeir ættu að spyrna við fótum og segja nei? Hvert eiga þeir að fara ef þeir fara út úr þessari hæstv. ríkisstj.? Aftur í þingflokk Sjálfstfl. eins og lúbarðir hundar? Og hvað munu þeir gera? Hver er staða þeirra í íslenskri pólitík? Þeir eru afkvæmi stjórnarinnar. Hæstv. ríkisstj. þarf ekki einu sinni við þá að tala, hún þarf ekki að ráðgast við þá um eitt eða neitt, það þarf ekki að spyrja þá álits á einu eða neinu, hún þarf varla einu sinni að láta þá vita um niðurstöður sínar.

T. d. má nefna að þegar hv. þm. Geir Gunnarsson tilkynnti úr ræðustól í dag að það væri búið að ná samkomulagi í stjórnarliðinu um að lækka fyrirhugaða söluskattshækkun úr 2% í 1.5% sat hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson í ráðherrastólnum fyrir framan okkur og honum kom þetta gersamlega á óvart. Þeir höfðu gleymt að segja hæstv. ráðh. frá þessu. Hann vissi þetta ekki.

Slík er staða þessara hv. þm. og nú ráðh. í ríkisstj. Þeir voru mikils virði, það var þungt í þeim pundið þegar ríkisstj. var mynduð, en eftir að ríkisstj. hefur verið mynduð er þetta orðinn verðlaus peningur; eins og vélarlaust flak sem verður að hanga aftan í Alþb. og Framsfl. svo lengi sem þessir tveir flokkar kæra sig ekki um að skera þá aftan af sér. Þó að þessir tveir ágætu ráðh. hafi sín fullu atkv. hér á þingi eins og hver annar hafa þeir enga viðspyrnu, þeir hafa enga vigt. Vera þeirra í ríkisstj. er nákvæmlega gagnslaus. Þeir eru ekki annað en atkv. sem Alþb. og Framsfl. vantaði. Þeir flokkar hafa fengið atkv. þeirra og geta haldið þeim svo lengi sem þeir kæra sig um vegna þess að þessir ágætu menn hafa ekkert annað að fara, — ekki neitt. Þeir gætu lagst út hér í þinginu, en þeir gætu ekkert annað gert. Og látið þið ykkur detta það í hug, ágætu þm., að það sé einhver viðspyrna í þessum mönnum, ríkisstj. muni ekki lifa eins lengi og Alþb. og Framsfl. telja henta vegna þessara manna? Nei, það er engin ástæða til annars en að halda að hæstv. ríkisstj. og stjórnarsamstarfið, sem nú er nýhafið, geti enst talsvert lengi. Það skyldi enginn ætla annað.

Það er líka annað sem til kemur þar. Það er einfaldlega að Alþb. hefur tekið algerri myndbreytingu á fáum mánuðum. Alþb. var talsvert virðingarverður flokkur áður fyrr. Alþb.-menn höfðu „prinsip,“ sem oft stönguðust á við staðreyndir, þeir voru oft blindir fyrir staðreyndum, það skal viðurkennt, en þeir héldu sér mjög fast í þessi „prinsip“ sín og það er virðingarvert. Og Alþb. gerði meira. Alþb. seldi sig yfirleitt mjög dýrt. Alþb. fór ekki í ríkisstj. nema gegn ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði voru mjög ströng. Þau stönguðust oft á við raunveruleikann. Þau stönguðust jafnvel á við almenna þekkingu og almenna skynsemi, en þetta voru „prinsip“ Alþb. og Alþb. seldi sig dýrt. En hvað nú? Nú er Alþb. orðið hreinn kerfisflokkur, eins og vinur minn, hv. þm. Vilmundur Gylfason, mundi orða þetta. Nú ræður Alþb. „gáfumannafélagið,“ sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson kallar svo. Það eru menn úr lávarðadeildinni, bæði litlir og stórir lávarðar. Það eru menn sem ekkert eiga skylt við þá sem lengstum hafa ráðið ferðinni í Alþb. og selt sig dýrt.

Það er ekki að ástæðulausu sem Alþb.-mönnum liggur nú lifandis ósköp mikið á að leggja á 2% söluskatt fyrir páska og fella gengið fyrir páska. Af hverju þarf Alþb. endilega að klára þetta allt fyrir páska? Skýringin er ákaflega einföld. Um páskana kemur Lúðvík Jósepsson, heim, og Alþb.-mennirnir, sem eru búnir að selja sál sína, vilja klára þetta áður en Lúðvík kemur heim, vegna þess að þeim er það jafnvel ljóst og mér að þeir hefðu aldrei fengið að gera þetta allt saman, fella gengi og hækka söluskatt, ef Lúðvík hefði verið í landinu. Þess vegna liggur hæstv. ráðh. svo lífið á að þeir voru að hugleiða í dag að hafa deildafundi kl. 4 í nótt og féllust svo loks á til málamynda að hafa ekki fund fyrr en kl. 10 í fyrramálið. Og ég er sannfærður um að þeir eiga sér ekki aðra ósk heitari en að Flugleiðir felli niður allar ferðir til landsins þangað til búið er að samþykkja bæði fjárlög, skattahækkun og fella gengið. — Hæstv. fjmrh. eru hæg heimatökin þar. Mér skilst að hann sé enn þá að ræða við þá flugleiðamenn um ríkisábyrgð og fleira og sé að setja skilyrði. Hann gæti sjálfsagt sett um það skilyrði að flytja ekki Lúðvík Jósepsson heim fyrr en hann segði til.

Þetta er nefnilega hin nýja ímynd Alþb. -ekki hæstv. fjmrh. Hann tilheyrir gömlu kynslóðinni ef einhver ráðh. gerir það. — Hin nýja mynd Alþb. er hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson, sem situr þarna, hæstv. ráðh. Svavar Gestsson, sem á að sitja þarna, og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Þetta er lávarðadeildin í Alþb. Þetta er „gáfumannafélagið“ sem nú ræður ferðinni og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson kallar svo. Þessir hv. þm. eiga ekki lengur nein stór „prinsip,“ eins og þeir Lúðvík Jósepsson og Magnús Kjartansson áttu. Þessir menn selja ekki lengur Alþb. dýrt. Það þarf enginn að óttast það.

Það vill svo til að við Alþfl.-menn þekkjum svipaðan kafla úr okkar sögu. Það vill svo til að við munum eftir svona þætti í flokkssögu okkar. Við áttum líka einu sinni okkar gáfumannadeild, okkar lávarðadeild. Við munum hvar flokkurinn stóð og hvernig flokknum farnaðist undir stjórn hennar. Og við vitum alveg hvað bíður Alþb. núna. Og hann Guðmundur J. Guðmundsson, hv. þm., veit það líka. Þess vegna er hann ekki hér í kvöld.

Þeir eru sjálfsagt fleiri hér inni, Alþb.-mennirnir sem grunar sitthvað í þá átt sem við Alþfl.-menn vitum, því að hvað skyldi það vera sem þeir Alþb.-menn eru nú að gera? Þeir hafa samþykkt — samþykktu það í gærmorgun — að fella gengið. Þar er ekki lengur neitt „prinsip“ til. Þeir leggja nú fram frv. um og berjast fyrir söluskattshækkun upp á 2 stig. Og af öllum flokkum er það Framsfl. sem er í því hlutverki að veita þeim mótspyrnu í þessu sambandi. Þeir boða ekki bara launastefnu með fjárlagafrv. sínu. Þessir sömu menn sögðu í vetur, þegar þeir voru að ræða við okkur um stjórnarmyndun, að það væri það versta af öllu illu ef ríkisstj. ætlaði að leggja upp með skoðun á launamálum. Það er ekki aðeins að þeir boði launastefnu í fjárlagafrv. sínu þvert ofan í fyrri yfirlýsingar sínar, heldur boða þeir launastefnu, sem gengur út á að skerða launakjörin á árinu um a. m. k. 4.5%, og eru nú að leggja fram tillögur um enn frekari kjaraskerðingu.

Þeir eru búnir að afgreiða hér útsvarshækkun. Þeir eru búnir að afgreiða hér tekjuskattshækkun. Þeir eru búnir að fá mótmæli, harkaleg mótmæli, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja við stefnu sinni, frá Alþýðusambandi Íslands, frá sínum eina þm. sem orðaður er enn við verkalýðshreyfinguna í landinu, hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, sem Vilmundur Gylfason kallaði síðasta „móhíkommann.“ Þetta er hið nýja Alþb. Þetta er Alþb. sem þeir eru fulltrúar fyrir, hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson, hæstv. ráðh. Svavar Gestsson og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Þetta er Alþb. þeirra. Þetta er ekki Alþb. Lúðvíks Jósepssonar. Þetta er ekki Alþb. Magnúsar Kjartanssonar. Og þetta er því síður og síst af öllu Alþb. Guðmundar J. Guðmundssonar. En þetta er Alþb. sem nú er í ríkisstj.

Núv hæstv. ríkisstj. lætur tvennt gott af sér leiða. Í fyrsta lagi losar hún Sjálfstfl. væntanlega við frekari áhyggjur af Gunnari Thoroddsen, og er það gott út af fyrir sig því að þá verður flokkurinn e. t. v. viðræðuhæfur. Í öðru lagi losar hún okkur Alþfl.-menn við frekari áhyggjur í bili af Alþb.

Þegar ríkisstj. tók við eftir langa stjórnarkreppu í vetur og mjög óvanalega ríkisstjórnarmyndun héldu margir að nú kynni að vera brotið blað í íslenskum stjórnmálum, nú væri eitthvað nýtt í aðsigi, nú væru líkur á kaflaskiptum í stjórnmálum, þó svo að ætti að vera ljóst öllum áhugamönnum um stjórnmál að stjórnarkreppunni lauk með tapi þeirra, sem vildu nýsköpun í stjórnmálum og efnahagsmálum, en sigri þeirra, sem vildu óbreytt ástand.

Fólk hefur bundið miklar vonir við þessa ríkisstj., meiri vonir en við margar aðrar ríkisstj. sem myndaðar hafa verið á undanförnum árum. En sennilega ætlar þessi ríkisstj. að vera fljótari að bregðast vonum fólks en nokkur önnur ríkisstj. sem mynduð hefur verið a. m. k. á s. l. áratug og er þá mikið sagt. Ég man t. d. ekki eftir því að nokkur önnur ríkisstj. hafi verið jafnfljót að fá verkalýðshreyfinguna í landinu upp á móti sér og þessi. Hún er nú þegar búin að fá verkalýðshreyfinguna í harða andstöðu við sig.

Við Alþfl.-menn tókum þá ákvörðun og skýrðum frá henni þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við störum, að við mundum gefa ríkisstj. starfsfrið, við mundum ekkert gera til þess að leggja stein í götu ríkisstj., við mundum gefa henni þann tíma sem hún þyrfti til að ráða ráðum sínum, við mundum gefa henni það svigrúm m. a. hér í þinginu, sem hún þyrfti til að geta gengið frá málum sínum, við mundum gefa henni lausan tauminn eins og hún sjálf mundi biðja um fyrstu vikur starfa sinna. Við höfum gert þetta og nú er stefna ríkisstj. komin í ljós. Nú er ekki lengur aðeins vitnað í orðagjálfrið í málefnasáttmálanum. Nú er það alvaran sjálf sem er boðuð. Og hver skyldi hún vera? Hver eru umskiptin sem hæstv. ríkisstj. lét í veðri vaka að mundu fylgja því þegar hún tæki við völdum?

Á s. l. rösku ári lagði þáv. ríkisstj. á 19 nýja skatta. Þessir skattar hækkuðu skattbyrði um u. þ. b. 50 þús. millj. kr. Hvað hefur núv. ríkisstj. gert til að breyta því? Framsfl. sagði þegar ríkisstj. var mynduð að eitt væri víst, að ekki yrðu lagðir á meiri skattar. Sama sagði hæstv. forsrh. En hvað hefur verið gert? Útsvar hefur verið hækkað um 10%. Þar hafa skattar á landslýð verið hækkaðir allt að 5.1 milljarði? Og á hvaða fólki lenda þessir skattar fyrst og fremst? Útsvarið er flatur brúttóskattur. Hann tekur ekkert tillit til tekna fólks. Þessi skattur lendir ekki síður á lágtekjufólki en öðrum. — Þetta var fyrsta skattahækkunin sem hæstv. ríkisstj. afgreiddi. Þetta var fyrsta svarið. Þetta var fyrsta breytingin. Þetta voru fyrstu merkin um nýju stefnuna sem ríkisstj. þóttist vera að boða.

Tekjuskattur hefur verið hækkaður úr 30 milljörðum, eins og hann var í fjárlagafrv. Alþfl., í 38.2 milljarða eða um rösk 40%. Þetta heitir víst á máli hæstv. forsrh. að hækka ekki skatta. Þetta heitir í málefnasáttmála hæstv. ríkisstj. að brjóta í blað, taka upp nýja stefnu.

En það er ekki nóg. Hæstv. ríkisstj. hefur látið að því liggja á Alþ. að skattstigarnir, sem hún sjálf gerði tillögur um fyrir nokkrum dögum, séu ekki nógu háir, það hafi orðið mistök í sambandi við tilorðningu þeirra sem hafi í för með sér að það þurfi að flytja brtt. við skattstigafrv. um hækkun á skattstiganum. Nú efast ég um að þm. öllum sé ljóst að nýlega er búið að framkvæma nýtt úrtak úr skattframtölum manna í Reykjavík og Hafnarfirði. Það eru ekki nema 2–3 dagar síðan það úrtak var gert. Það úrtak bendir til þess að tekjuhækkun á milli ára 1978 og 1979 sé mun meiri en 45%, en 45% tekjuhækkun milli áranna var ein af meginforsendum skattstigans sem tillögur voru gerðar um af hæstv. ríkisstj. á Alþ. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að skattstiginn, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram, muni að líkindum gefa 2–3 milljörðum meira í tekjur en hæstv. ríkisstj. lét í veðri vaka vegna þess að tekjuaukningin hefur orðið meiri milli áranna 1978 og 1979. Engu að síður telur hæstv. ríkisstj. sig þurfa að leggja til á Alþ. að skattstiginn, sem hún sjálf gerði tillögur um, verði hækkaður. Ekki eru þetta ný tíðindi, hæstv. forsrh. Er þetta ekki svipuð stefna og flokkur hæstv. forsrh. þóttist berjast gegn í síðustu kosningum?

Þá hefur verið boðað af hæstv. ríkisstj. að til standi á þessu ári að leggja á landsmenn sem svarar 365 þús. kr. byrði á hverja meðalfjölskyldu í landinu til að borga niður innlenda landbúnaðarframleiðslu ofan í erlenda neytendur. Er þetta ný stefna? Er þetta fráhvarf frá niðurgreiðslu- og útflutningsbótapólitík fyrri ára? Síður en svo. Þetta er ekkert nýtt. Þetta er engin stefnubreyting. Þetta er áframhaldandi sama vitleysa og ráðið hefur ríkjum í þessum málaflokki undanfarinn áratug.

Þá hefur verið lögð fram á Alþ. af hálfu hæstv. ríkisstj. tillaga um að hækka flugvallagjald. Er það ný stefna? Er það eitthvað sem er öðruvísi en menn hafa verið að gera undanfarinn áratug?

Þá hefur hæstv. ríkisstj. lagt til að hækka söluskatt um 2%. Það var síðast gert af fyrrv. hæstv. ríkisstj. fyrir einu ári eða tæplega það. Er það þá til marks um að það sé verið að brjóta í blað í stjórnmálum og efnahagsmálum og stjórn ríkisfjármála að leggja til að feta svo dyggilega þá skattahækkunarslóð?

Nú á dögunum var verið að tilkynna það, ég las það í öllum blöðum nema Vísi, að ríkisstj. hafi samþ. gengisfellingu. Vísir segir, og hefur það eftir hæstv. viðskrh., að það sé ekki satt. Þessi gengisfelling, sem hæstv. ríkisstj. er búin að samþykkja, mun eiga að nema 8% á einum mánuði. Fyrsta skrefið hefur verið tekið: 3% gengislækkun sem þegar er komin til framkvæmda. Og ég spyr: Eru þetta ný vinnubrögð? Er þetta eitthvað blaðbrot í íslenskum efnahagsmálum eða ríkisfjármálum? Er það þetta sem átti að gera til að ná tökum á verðbólguvandanum? Er það svona sem á að telja verðbólguna niður, hæstv. viðskrh., með því að fella gengið? Er þetta uppfinning sem aldrei hefur verið áður notuð? Er þetta eitthvað nýtt? Eru þetta ný vinnubrögð?

Hvað um launamálastefnu ríkisstj.? Í fjárlagafrv. stendur að verðbólga á árinu samkv. forsendum frv. sé 46.5%, en kaup hækkar aðeins um 42%. Þetta er launastefna sem boðar 4.5% kauplækkun. Og ég spyr: Er þetta ný stefna? Eru þetta nýju vinnubrögðin sem átti að taka upp við myndun þessarar hæstv. ríkisstj., eða eru þetta vinnubrögð og aðgerðir sem menn kannast við frá störfum þeirra ríkisstj. sem setið hafa að völdum á Íslandi undanfarin 10 ár?

Á fyrstu vikum ársins 1980, áður en hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum, var því spáð að ekki yrði viðskiptahalli við útlönd og á því voru allar efnahagsforsendur reistar. Nú hefur hæstv. ríkisstj. setið að völdum í nokkrar vikur. Þá var gefin út ný spá þar sem áætlað er, miðað við störf hæstv. ríkisstj., að það verði 20 milljarða kr. halli a. m. k. á viðskiptum Íslands við útlönd á þessu ári. Ég spyr: Er þetta kannske nýja stefnan? Eru þetta nýju vinnubrögðin? Eða kannast menn kannske eitthvað við þetta frá fyrri tíma?

Samkv. áliti Seðlabanka Íslands nam lántökuþörf í erlendum gjaldeyri 65 milljörðum kr. á árinu 1980. Framreiknaðar lántökur ársins 1979 til ársins 1980, miðað við breyttar verðlagsforsendur, námu 69 milljörðum. Seðlabankinn varaði við því að farið yrði á árinu 1980 fram yfir 70 milljarða í erlendum lántökum. Hæstv. fjmrh. sagði þessar tölur vera svo gamlar að þær væri ekkert að marka, gengisforsendur hefðu breyst. Hagfræðingur Seðlabankans sagði mér í símtali í gær að svo væri ekki. Gengisforsendur hefðu ekki breyst frá umsögn Seðlabankans, hún stæði óbreytt. 70 milljarða kr. erlend lántaka á þessu ári mun þýða greiðslubyrði upp á ca. 15.9% af þjóðartekjum. Það er hækkun frá árinu í fyrra um ca. 0.6%.

Nú þegar liggur fyrir fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir ríkisframkvæmdir á árinu 1980. Samkv. fjárlagafrv. því, sem minnihlutastjórn Alþfl. lagði fram, var gert ráð fyrir að þessar lántökur næmu 28.4 milljörðum til A- og B-hluta. Samkv. fjárlagafrv., sem hæstv. núv. viðskrh. lagði fram í haust, var gert ráð fyrir að lántökur til A- og B-hluta vegna ríkisframkvæmda næmu 29.8 milljörðum kr. Hæstv. ríkisstj. segist byggja á þessu fjárlagafrv. En í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni um ríkisframkvæmdir á árinu 1980, sem dreift var í gær, er búið að hækka lántökur úr 29.8 milljörðum, eins og þær voru í frv. Tómasar Árnasonar, hæstv. fyrrv. fjmrh., um 36.5 milljarða. Hvernig skyldi hækkunin vera fengin? Hún er fyrst og fremst fengin með hækkun á erlendum lántökum. Það er ekki gert ráð fyrir miklu meiri innlendum lántökum til ríkisframkvæmda á árinu 1980 samkv. áætlunum núv. hæstv. ríkisstj. en hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómas Árnason gerði ráð fyrir. Þessi mikla aukning á lántökum til A- og B-hluta fjárlaga er fyrst og fremst fengin með því að hækka lántökur í erlendri mynt. Og hvaða lántökur er verið að hækka? Er verið að hækka lántökur vegna aukinna framkvæmda í landshöfnum? Nei. Er verið að hækka lántökur vegna þess að það þarf að auka við hlutafjárframlag í Járnblendiverksmiðju á Grundartanga vegna gengisbreytingaforsendunnar? Nei. Hvað er verið að hækka? Það er verið að taka t. d. lán erlendis að upphæð 1.5 milljarðar kr. til að greiða niður með þeim hætti vexti og afborganir af öðru erlendu láni upp á 3.9 milljarða kr. vegna Kröflu. Íslenska ríkið þarf á árinu 1980 að borga 3.9 milljarða í vexti og afborganir af erlendum lánum sem tekin voru vegna Kröflu og skila engum arði. Og það er gert ráð fyrir að hækka erlendar lántökur um 1.5 milljarða til að afla fjár til þess að borga vexti og afborganir af þessu erlenda láni. Menn eru sem sé farnir að slá erlent lán til að borga afborganir af erlendu láni sem varið er í arðlausa fjárfestingu. Eru þetta nýju vinnubrögðin, hæstv. iðnrh.? Eru þetta ekki sömu vinnubrögðin hæstv. iðnrh. og þú og ýmsir flokksbræður þínir notuðu í síðustu ríkisstj.? Ég sé ekki betur. Ég sé ekki að þarna hafi í neitt blað verið brotið. Ég sé ekki að þarna hafi nein ný sannindi verið boðuð eða tekin upp stefna sem ekki hafi verið fylgt undanfarinn áratug.

Hvað halda menn að nýorðin gengisfelling um 3% og sú hækkun söluskatts, sem boðuð er, auki verðbólguhraðann frá því sem hann er? Samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar auka söluskattshækkunin og gengislækkunin verðbólguhraðann um 2–3%. Svo segist hæstv. ríkisstj. vera að telja niður verðbólguna! Þegar hún er spurð nánar um hvernig hún ætli að gera það segist hún ekki hafa alveg tíma til þess í dag, hún ætli kannske að byrja á morgun, þó sé það ekki alveg víst, það geti verið að hún fresti því fram yfir hátíðarnar vegna þess að hún þurfi fyrst að telja verðbólguna upp áður en hún geti byrjað að telja verðbólguna niður. Og auðvitað gefur það auga leið, að þegar ríkisstj. gerir sjálf ráðstafanir til að auka verðbólguskriðinn með þeim hætti sem hún er nú að gera kemst hún aldrei í það að fara að telja verðbólguna niður. Og það er bókstaflega hlægilegt að á sama tíma og ríkisstj. er að leggja kapp á að afgreiða slíkar verðbólguhvetjandi ráðstafanir á hinu háa Alþingi gerir hún ráð fyrir því í tekjuspám sínum, t. d. af hækkun söluskattsins, að verðbólga á árinu 1980 verði ekki nema 31%. Þetta er öll reikningskúnstin. Hæstv. ríkisstj. byggir enn á því, þegar komið er fram á 1. apríl árið 1980 og verðbólguskriðurinn er að magnast af völdum hennar sjálfrar, að verðbólga á árinu 1980 verði ekki nema 31%. Allar tölur í fjárlögum eru við það miðaðar, tekjuspáin um tekjur ríkissjóð vegna 2% hækkunar söluskatts er við það miðuð svo og allar hennar aðgerðir.

Það er ekkert nýtt í þessum ráðstöfunum. Þetta er ekkert orðagjálfur í málefnasáttmála. Þetta er alvaran sem stjórnin boðar. Það er ekkert nýtt fólgið í því að hækka útsvar um 10%, að hækka tekjuskatt um 40%, að hækka útflutningsbætur með landbúnaðarafurðum á einu einasta ári þannig að sérhver meðalfjölskylda í landinu þurfi af þeim sökum að taka á sig byrðar sem samsvara 365 þús. kr. útgjöldum. Það er ekkert nýtt í því að hækka flugvallagjald. Það er engin ný ráðstöfun að hækka söluskatt um 2% og ekki einu sinni þó að söluskatturinn sé hækkaður um 1.5%. Það er ekkert nýtt fólgið í því að fella gengið um 8%. Það er ekkert nýtt fólgið í því að boða kauprán upp á 4.5% í fjárlagafrv. Það er ekkert nýtt fólgið í því að breyta hagstæðri stöðu við útlönd í 20 milljarða viðskiptahalla á fimm vikum. Það er ekkert nýtt fólgið í því að boða hækkun upp á ca. 40% í raungildi á erlendum lántökum þannig að greiðslubyrði komist í 16–17% á næstu 1–2 árum. Það er engin ný stefna fólgin í neinu af þessu. Þetta er sama gamla óreiðustefnan, sami gamli framsóknarkommúnisminn og var leiddur til öndvegis í þessu landi árið 1971 og hafði fyrst skjól af Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Þegar þau gáfust upp var stuðst við íhaldið. Þegar það brást gengust Alþfl.-menn undir okið í eitt ár og fengu nóg af. Og nú eru það Gunnar og félagar, hæstv. forsrh. og félagar hans, sem ganga undir okið, höfuðsóttarkindurnar sem ráfuðu um sali Alþingis í dag án þess að hafa hugmynd um hvað var að gerast.

Hæstv. forseti. Ég sagði áðan að við Alþfl.-menn hefðum tekið þá ákvörðun að gefa ríkisstj. nægan tíma og starfsfrið til að undirbúa störf sín og koma fram málum sínum. Hveitibrauðsdögum hæstv. ríkisstj. er nú lokið. Nú er hún að boða stefnu sína í hverju frv. á fætur öðru. Nú er líka ástæðulaust fyrir okkur Alþfl.-menn að vera neitt að bíða meira. Nú förum við í harða stjórnarandstöðu við hæstv. ríkisstj. — þá stjórnarandstöðu sem Alþýðusamband Íslands er komið í við hana og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, þá stjórnarandstöðu sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er kominn í við ríkisstj.

Ég er alveg sannfærður um að hvort sem hæstv. ríkisstj. lifir lengur eða skemur verður hún þjóðinni holl og þörf lexía. Hún verður þjóðinni svo holl og svo þörf lexía að ég er sannfærður um að þegar starfstímabili ríkisstj. loksins lýkur, hvort sem það verður fyrr eða seinna, verða þau stefnumið, sem hún hefur á oddinum og sett hafa svip sinn á störf allra ríkisstj. á undanförnum áratug, lögð í ís og það verður til lengri tíma en til 10 ára og það verður líka til lengri tíma en 12 ára.

Ég sagði að það væri þó eitt sérstaklega ánægjulegt við störf þessarar ríkisstj. að veita athygli þeirri myndbreytingu sem orðin er á Alþb.-flokknum sem einu sinni átti allra flokka mest af „prinsipum,“ hvort sem þau voru viturleg eða heimskuleg, flokknum sem einu sinni seldi sig allra flokka dýrast þegar hann fór í stjórnaraðstöðu, flokknum sem einu sinni hlýddi e. t. v. öðrum flokkum fremur á rödd verkalýðshreyfingarinnar, táglaunafólks og annarra launamanna, flokknum sem nú kemur fram í nýrri mynd, hvers ímynd eru hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson og Svavar Gestsson, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og aðrir slíkir úr „gáfumannafélaginu,“ litlir og stórir lávarðar. En ég ráðlegg hæstv. ráðh. Alþb. að fara nú varlegar en þeir hafa hingað til viljað gera, a. m. k. eftir að hinn gamli foringi flokksins, Lúðvík Jósepsson, er kominn heim. Það segi ég satt, að þær aðgerðir, sem ráðh. Alþb. eru að reyna að berja í gegn þessa dagana, hefðu þeir aldrei lagt í nema vegna þess eins að Lúðvík Jósepsson er ekki lengur á landinu. (Gripið fram í.) Ég er ansi hræddur um það, hæstv. ráðh., að meginástæða þess að ráðh. Alþb. kröfðust þess að haldnir yrðu deildafundir kl. 4 í nótt til að afgreiða 2% hækkun á söluskatti var vitneskja þeirra um að sá gamli heiðursmaður er að koma heim um páskana. Og það segi ég alveg satt, að flokkur þeirra hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, Lúðvíks Jósepssonar, fyrrv. þm. Magnúsar Kjartanssonar og þeirra félaga er mun þekkilegri flokkur en flokkur hæstv. ráðh. Hjörleifs Guttormssonar, hæstv. ráðh. Svavars Gestssonar og hv. alþm. Ólafs Ragnars Grímssonar — þess farandverkamanns í íslenskri pólitík.