01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

116. mál, fjárlög 1980

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. til fjárlaga á þskj. 243 um fjárveitingu til nýbyggingar sjúkrahúss Vestmannaeyja. Nauðsynlegt er að fara nokkrum orðum um aðdraganda og tilefni brtt.

Þegar eldgosið braust út í Vestmannaeyjum var myndarlegt sjúkrahús þar í smíðum og hafði að hluta verið tekið í notkun. Meðan á eldgosinu stóð var reynt eftir fremsta megni að verja húsið og búnað þess skemmdum. Eigi að síður urðu skemmdir miklar, enda þykkt vikurfalls á þessu svæði yfir 3 m og 20 m hár hraunkanturinn stöðvaðist í aðeins 95 m fjarlægð frá húsinu. Strax og gosinu lauk um mitt ár 1973 voru menn sammála um að flýta viðgerðum á húsinu eftir fremsta megni og ljúka byggingarframkvæmdum á eins skömmum tíma og mögulegt væri. Menn voru á einu máli um að fullkomin heilbrigðisþjónusta væri ein af grundvallarforsendum öflugs uppbyggingarstarfs, m. a. vegna mikillar slysahættu, ekki síst fyrir börn, að hálfhrundum og hrynjandi húsum og glóandi hrauni í hlaðvarpanum, auk hættu á gaseitrun. Auk þess hefði það verið tvíverknaður og peningasóun að endurbyggja gamla sjúkrahúsið sem slíkt, þar eð nýja húsið var allvel á veg komið.

Segja má að lokið hafi verið viðgerðum gosskemmda um áramótin 1973–1974. Þá var af miklum krafti haldið áfram byggingarframkvæmdum. Á sama tíma féll sjúkrahúsið út af fjárlögum ríkisins. Starfsmenn rn. hafa líklega ekki búist við því um mitt ár 1973, þegar unnið var að fjárlagagerð, að neitt yrði aðhafst í byggingarframkvæmdum á árinu 1974. Formlega séð hafa þessar framkvæmdir því varla verið heimilar að mati embættismanna og af því fáum við enn að súpa seyðið.

Langstærsti hluti framkvæmdanna var unninn árið 1974, en greiðslur ríkissjóðs að sínum hluta fóru að mestu fram árið 1978, þá króna fyrir krónu. Ef byggingarkostnaður er framreiknaður til núvirðis er hann 3.2 milljarðar kr., og ef framlög ríkissjóðs eru á sama hátt framreiknuð til núvirðis nema þau 1.3 milljörðum kr. — í reynd því aðeins 41% byggingarkostnaðar í stað 85%, eins og lög gera ráð fyrir, m. ö. o. innan við helming af því sem löggjafinn ætlast til.

Til að gera þennan mikla byggingarhraða mögulegan var miklu af styrktarfé, sem skilyrt var til uppbyggingar í Vestmannaeyjum, beint til þessarar framkvæmda. M. a. var aðallega á árinu 1974 varið 45.1 millj. kr. af gjafafé til kaupa á húsbúnaði og tækjum. Við uppgjör krafðist ríkissjóður, þess að þetta fé væri dregið frá byggingarkostnaði áður en hlutur ríkissjóðs væri reiknaður út, m. ö. o. nyti ríkissjóður 85% af þessu gjafafé, en bæjarsjóður 15%. Með núverandi verðlagi næmi þessi hlutur ríkissjóðs nm 300 millj. kr. Þess ber þó að geta að hluti af þessari fjárhæð var notaður til tækjakaupa erlendis frá sem ríkissjóður felldi niður aðflutningsgjöld af.

En hvernig er þá staða málsins í dag og hvernig stendur á því að ekki er áætluð ein einasta króna til framkvæmdarinnar á fjárlögum fyrir árið 1980? Ástæða þess er sú, að fjmrn. taldi sig haustið 1978 vera búið að gera endanlega upp hluta ríkissjóðs af byggingarkostnaðinum. Rn. taldi sig við uppgjör í sept. 1978 skulda 26.8 millj. kr. og sú upphæð var sett á fjárlög fyrir árið 1979. Gallinn var bara og er sá, að byggingarframkvæmdum var ekki lokið og er því miður ekki lokið enn. Er það staðfest af framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins.

Ýmsar framkvæmdir við endanlegan frágang hafa vegna fjárskorts dregist mun lengur en æskilegt hefði verið. Í ár er áætlað að vinna fyrir 38 millj. kr. á verðlagi síðasta árs, og er þar aðallega um að ræða brunavarnakerfi, neyðarlýsingarbúnað og frágang lóðar. Segja má að með þessu sé byggingarframkvæmdum að mestu lokið. Þó eru sérstakar eldvarnarhurðir ekki með í þessari tölu. 85% hluti ríkissjóðs af þessum framkvæmdum er 32.3 millj. kr. Þar við bætist 17.6 millj. kr. skuld ríkissjóðs vegna framkvæmda síðustu ára eða samtals 49.9% millj. kr. Ég endurtek að framkvæmdir eru áætlaðar á verðlagi síðasta árs.

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum sendi á s. l. ári framkvæmdaáætlun og óskaði eftir fjárveitingu til að mæta henni og til skuldaskila. Sú ósk var e. t. v. nokkuð seint fram komin. Það skiptir þó ekki höfuðmáli, heldur hitt, að fjmrn. taldi verkinu lokið þegar árið 1978 og það uppgert.

Mitt mat er það, að hvergi í kerfinu ráði embættismannavaldið jafnmiklu og við gerð fjárlaga og virðast hv. alþm. láta sér það vel lynda. En það er önnur saga.

Herra forseti. Ég veit að það er erfitt fyrir hv. þm., sem styðja ríkisstj. á hverjum tíma, að samþ. brtt. við fjárlagagerð frá þm. stjórnarandstöðunnar. Samt leyfi ég mér að vona að þegar hv. þm. hafa kynnst forsögu málsins, sérstaklega því að ríkissjóður hefur í reynd aðeins greitt innan við helming af því sem lög gera ráð fyrir af framkvæmdakostnaðinum, og þeirri staðreynd, að byggingarframkvæmdum er ekki lokið enn, þá muni hv. þm. treysta sér til að styðja brtt. mína.