01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

116. mál, fjárlög 1980

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins gera hér grein fyrir þeim brtt. sem ég flyt á þskj. 243 ásamt hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, Magnúsi H. Magnússyni og Karvel Pálmasyni. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessar brtt., en við 2. umr. fjárlaga gerði ég grein fyrir því, að ég mundi flytja þær brtt., sem um ræðir á þskj. 243, ef ekki kæmi fram leiðrétting á fjárlögum þannig að þessir sjóðir yrðu teknir upp að nýju eða aukið framlag til Framkvæmdasjóðs öryrkja, sem nú virðist ætlunin samkv. þessum fjárlögum að yfirtaki verkefni þessara sjóða án þess að til komi sú aukning á fjármagni að hann geti sinnt þeim verkefnum.

Ég sé á þskj. 272 frá fjvn. að tekið hefur verið upp að nýju framlag til eins af þessum sjóðum, 15 millj. kr. byggingarstyrkur til Sjálfsbjargar. Er hér um sömu upphæð að ræða og fram kemur í c-lið brtt. á þskj. 243. Er ánægjulegt að sjá að hv. fjvn. hefur séð að sér og gert till. um að þetta framlag til Sjálfsbjargar verði áfram á fjárlögum. En eftir stendur að engin till. er frá fjvn. varðandi Styrktarsjóð vangefinna og Styrktarsjóð fatlaðra og vil ég því gera nokkra grein fyrir a- og b-liðum till. á þskj. 243.

Við 2. umr. fjárlaga rökstuddi ég ítarlega þörfina á auknu fjármagni til þeirra verkefna sem þessir sjóðir hafa haft á hendi. Nú er ætlun fjárveitingavaldsins, eins og ég sagði, að Framkvæmdasjóður öryrkja yfirtaki verkefni þeirra. En Framkvæmdasjóður öryrkja hefur hvorki lagaheimild né fjármagn til þess að standa undir verkefnum t. a. m. Styrktarsjóðs vangefinna. Sá sjóður hefur fjármagnað byggingarframkvæmdir við heimili sjálfseignarstofnana. Í því sambandi er rétt að undirstrika að í aths. við fjárlögin er ekki rétt farið með þegar sagt er að frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja hafi verið við það miðað að þessir sjóðir féllu niður.

Það kom fram í máli mínu við 2. umr. fjárlaga, að verkefni þau, sem Framkvæmdasjóði öryrkja var ætlað í upphafi að fjármagna, voru stóraukin í meðferð Alþingis um málið þegar hann var felldur inn í lög um aðstoð við þroskahefta. Verkefni Framkvæmdasjóðs öryrkja voru í upphafi, þegar frv. var lagt fram, við það miðuð að fjármagna framkvæmdir vegna sérkennslumála þroskaheftra, sem lengi höfðu verið í fjársvelti þrátt fyrir skýr ákvæði um uppbyggingu þeirra mála og fjármögnun í grunnskólalögunum, — auk þess að fjármagna ýmsar framkvæmdir samkv. lögum um endurhæfingu, svo sem verndaða vinnustaði, dvalarheimili og endurhæfingarstöðvar fyrir öryrkja. Til þessara framkvæmda var gert ráð fyrir 1000 millj. kr. verðtryggðu framlagi ár hvert sem nú hefur verið verulega skert. Í meðförum Alþingis bættust svo á sjóðinn mörg verkefni vegna framkvæmdar laga um aðstoð við þroskahefta án þess að fjármagnið væri aukið.

Til þess að gefa hugmynd um þá miklu þörf sem er á þessu fjármagni má geta þess, að þegar hafa borist beiðnir um framlög vegna ýmissa afskiptra verkefna öryrkja að upphæð um 1850 millj. kr. Og nú er ætlun ríkisstj. og fjárveitingavaldsins að bæta á hann enn fleiri verkefnum en honum voru í upphafi ætluð, fella niður framlög til ýmissa sjóða sem sinnt hafa málefnum öryrkja, auk þess sem framlag til sjóðsins hefur verið skert um 400 millj., en hann ætti að vera um 1450 millj. miðað við verðtryggingarákvæði það sem um getur í lögum um framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs öryrkja. Því er borin von að ætla að þessi sjóður geti orðið lyftistöng í málefnum öryrkja ef sífellt á að skera hann niður og bæta á hann auknum verkefnum án þess að til komi aukið fjármagn. Færi betur á því, að það litla aðhald, sem fjárlög hæstv. ríkisstj. sýna í ríkisumsvifum, bitnuðu á öðrum en þroskaheftum, sem hafa litla möguleika á að standa sjálfir vörð um sjálfsögð mannréttindi sín á ýmsum sviðum sem þjóðfélagið ætti að sjá sóma sinn í að láta þeim í té möglunarlaust, eins og að skapa þeim skilyrði til menntunar og þroska sem heilbrigðum þykja sjálfsögð sér til handa, að ekki sé talað um að stjórnvöld séu sífellt að krafsa í þau réttindi sem þegar hafa áunnist, eins og það að vera sífellt að krafsa og reyna að toga til sín aftur það fjármagn sem áunnist hefur í réttindamálum þeirra og Alþ. hefur samþykkt til að hrinda í framkvæmd ýmsum nauðsynlegum málum til að þroskaheftum sé búin aðstaða til þess að geta náð þeim þroska sem þó væri hægt að ná sé þeim sköpuð sæmilega mannsæmandi aðstaða til þess. Og það er sannarlega smánarblettur á hv. Alþ., ef nú eru afgreidd fjárlög þannig úr garði gerð, að aðhaldsaðgerðir, þær litlu sem bólar á í þessum fjárlögum, séu látnar bitna á öryrkjum og ráðist þannig á garðinn þar sem hann er lægstur. Fyrir mér eru það léttvæg rök, þó að miðað við framlög til öryrkja undanfarin ár sé með tilkomu þessa sjóðs látið meira af hendi rakna til þessa hóps í þjóðfélaginu, því að þessi framkvæmdasjóður, sem ekki gekk þrautalaust fyrir sig að fá samþykktan hér á Alþ. á síðasta þingi, er til kominn vegna þess að fjárveitingavaldið hefur haft uppbyggingu og málefni öryrkja í fjárhagslegu svelti mörg undanfarin ár, sem er til skammar því velferðarþjóðfélagi sem við þykjumst þó lifa í.

Við framkvæmdasjóðinn bundu öryrkjar miklar vonir, og Alþ. viðurkenndi í raun, með því að samþykkja 1000 millj. kr. verðtryggt framlag til hans, að málefnum öryrkja hefði ekki verið sinnt sem skyldi. En nú á þessum fjárlögum reynir krumla ríkisvaldsins eina ferðina enn að hala eitthvað af því til baka sem samþykkt var á síðasta þingi til málefna öryrkja.

Þegar frv, um Framkvæmdasjóð öryrkja var hér til umr. á síðasta þingi kom einmitt fram ótti sumra þm. við það, að svo gæti farið að fyrr en seinna yrði reynt að bæta á sjóðinn verkefnum án þess að til kæmi aukið fjármagn. Beindi t. d. hv. þm. Helgi Seljan því til þm., að þeir þyrftu að vera vel á verði í því sambandi. Ég held að það væri einmitt fróðlegt fyrir hv. þm. að rifja upp þau viðvörunarorð sem hv. þm. viðhafði þá. Í ræðu hér á hv. Alþ. 9. maí 1979 sagði hv. þm. Helgi Seljan, sem unnið hefur mikið og gott starf að framgangi málefna þroskaheftra, þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi framkvæmdasjóðinn vildi ég aðeins segja, að vissulega er það mikilsverður áfangi þegar tryggt er fjármagn til þeirra verkefna sem hér er verið að vinna að. Þegar sagt er hins vegar að ríkissjóður skuli árlega leggja sjóðnum til a. m. k. 1000 millj. kr., og sú fjárhæð skuli hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu árið 1979 að grunni, skulum við gæta vel að því, hvað kann að verða gert við undirbúning fjárlaga næsta ár varðandi hina einstöku liði sem gætu hugsanlega fallið hér undir. Við skulum sem sagt vera vel á verði um að ekki verði allt of mikill hluti af þeim verkefnum, sem nú eru t. d. á fjárlögum eða hugsanlega gætu orðið á fjárlögum næsta ár, færður undir framkvæmdasjóð. Ég er síður en svo að vanmeta þetta, en ég vil að okkur þm. sé almennt ljóst, að sú hætta vofir yfir okkur að í meðförum þeirrar ágætu stofnunar, sem er fjárlaga- og hagsýslustofnun, muni verða reynt að kippa út úr vissum verkefnum, sem nú þegar eru á fjárlögum, og fella þau undir framkvæmdasjóð. Þar verðum við að vera vel á verði, þannig að tryggt sé að sá tilgangur, sem með þessu ákvæði er, nái fram og við séum með í höndunum á næsta ári verulega aukningu fjár til þeirra verkefna sem Framkvæmdasjóður öryrkja á samkvæmt þessu frv. að taka að sér. Við skulum gæta vel að því. Aðvörun þessi er ekki bara frá mér persónulega. Við, sem vinnum að þessum málum, óttumst þetta að fenginni miður góðri reynslu í sambandi við meðferð á tölum í rn.“

Þessum orðum hv. þm. Helga Seljans ættu þm. einmitt að gefa gaum. Þau gefa tilefni til að ætla að þessi brtt. á þskj. 243 njóti stuðnings a. m. k. þeirra stjórnarsinna sem vilja vera vel á verði um að ekki skerðist fjármagn það sem í Framkvæmdasjóði öryrkja er.

Þessi sjóður, sem hér er gerð till. um að fari inn á fjárlög að nýju, hafði á síðustu fjárlögum 170 millj. kr. Gerði félmrn. tillögu til fjárveitingavaldsins um að þessi framlög yrðu hækkuð á fjárlögum 1980 í 239 millj. kr. Hér er því um að ræða sömu fjárhæðir í 2. lið till. á þskj. 243 og félmrn. gerði till. um til þessara sjóða á fjárlögum 1980.

Um þann niðurskurð á fjárlögum, sem hér er gerð till. um á móti, þarf ekki að hafa mörg orð. Við 2. umr. fjárlaga komu fram tvær brtt. um lækkun útgjalda á liðnum 09 989 Vegna launa og verðlagsmála. Önnur um 1600 millj. kr. niðurskurð og hin um rúmlega 900 millj. kr. niðurskurð. Hér eru gerðar till. um aðhalds aðgerðir í ríkisrekstrinum, sem nema mun lægri upphæð, eða 239 millj. kr., og er það varla nein ofrausn eða til of mikils mælst með því, að ekki sé talað um ef slíkur sparnaður í ríkisrekstrinum rennur til framkvæmda í þágu afskiptra verkefna þeirra sem illa eru settir í þjóðfélaginu, til öryrkjanna, eins og hér er gerð till. um.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þessa brtt. frekar, nema tilefni gefist til, og vænti stuðnings hv. þm. við þessar brtt.