01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

116. mál, fjárlög 1980

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér hafa mörg orð fallið í þessari umr. um fjárlögin. Ég skal ekki gerast langorður, en mig langar í upphafi til þess að minna á að fjárlög eru ekki einungis heimild til skattaálagningar og til útgjalda, heldur eru þau líka stjórntæki sem beita má með ýmsum hætti til þess að ná árangri í efnahagsmálum. Og í þriðja lagi spegla fjárlög og fjárlagafrv. viðhorf og viðleitni ríkisvaldsins um það, hvernig umhorfs skuli vera í þjóðmálum hjá okkur, hvernig efnahagslífinu skuli háttað. Þau sýna hvernig ríkið vill að þegnarnir haldi á sínum málum. Fjárlögin eru m. ö. o. dæmi öðrum til eftirbreytni.

Ef við lítum á þetta seinasta afbrigði, þá er athyglisvert að spyrja sig þess, hvaða fordæmi ríkisvaldið sýni þá með þeim fjárlagatillögum sem hér liggja fyrir og stuðningsmenn ríkisstj. hafa lýst yfir stuðningi við. Meginviðhorfið í þessum till. er sú stefna ríkisstj. að hrifsa meira og meira handa sér. Ríkisstj. fylgir þeirri aðferð að hafa allt sitt á þurru. Hvað sem líður aðhaldshjali í málefnasamningi og í almennri umræðu fyrir kosningar, þá gildir það ekki hjá ríkisstj. núna. Þessi ríkisstj. boðar aðhald hjá öðrum, en hún vill ekki skera niður hjá sjálfri sér, heldur heimtar tekjur á móti óskalistum sínum. Þetta er það fordæmi, sem speglast í fjárlagafrv. ríkisstj. og þeim till. sem hér hafa birst frá stjórnarflokkunum. Og hvernig getur þá ríkisstj. ætlast til aðhalds af öðrum: Er það ekki svo, að eftir höfðinu dansa limirnir?

Ríkisstj. hefur birt boðskap sinn. Hann er í stuttu máli þessi: Engar grunnkaupshækkanir. 4.5% skerðing kaupmáttar vegna verðlagsþróunar og síðan stórhækkun skatta, t. d. 27% hækkun tekjuskatts frá því frv. sem ríkisstj. Alþfl. lagði fram; um 5 milljarða heimild til sveitarstjórna og núna seinast 2 eða kannske 1.5% viðbót við söluskatt. Ofan á þetta allt saman er svo útlit fyrir um 100 milljarða kr. lántökur eða jafnvel allt að tvöföldun milli ára. Hvernig getur sú ríkisstj., sem birtir vilja sinn með þessum hætti, vænst þess að hlustað sé á boðskap hennar um aðhald hjá öðrum? Hún getur ekki vænst þess. Og hún hefur komið efnahagsstærðunum þannig fyrir, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir að aðhald verði á öðrum sviðum efnahagslífsins.

Fyrir kosningarnar og í sambandi við stjórnarmyndunina boðuðu fulltrúar Alþb. alveg sérstaklega þann boðskap, að allir flokkar vildu kjaraskerðingu nema þeir. Það var ræða í stílnum: Ó, nema ég. En þegar boðskapurinn liggur nú fyrir, þá er hann í rauninni: Ó, einmitt ég. Einmitt við Alþb.-menn ætlum að ganga á undan í því að skerða kjörin. — Þó er það svo, að þessir sömu menn og nú standa að þessari ríkisstj. hafa oft haft á orði að aðhalds og sparnaðar væri þörf í ríkisrekstri. Hver minnist ekki þess sem hæstv. fjmrh. hefur haft um það að segja á undanförnum árum? En þegar hann heldur um ríkiskassann verður ekki úr verki í þeim efnum, heldur þvert á móti.

Hver minnist ekki þess, að hæstv. núv. forsrh. hefur boðað það linnulaust — ég held áratugum saman — að það ætti að draga úr tekjuskattinum? En hver er árangurinn þegar hann kemst til æðstu metorða? Þá er tekjuskatturinn hækkaður alveg sérstaklega. Hver minnist þess ekki, að Alþb. hefur boðað að draga ætti úr óbeinum sköttum og alveg sérstaklega þeim óréttláta skatti, söluskatti? Hver er svo árangurinn þegar Alþb. fer með fjmrn.? Þá er 1.5% hækkun söluskatts ákveðin einn sunnudag síðdegis.

Er það ekki svo, að Alþb. hefur haft það að meginstefnumiði að ekki megi lækka gengið, það sé ljótt að fara gengisfellingarleiðina? Árangurinn er sá, að þegar þeir Alþb.-menn komast til valda og áhrifa í lykilaðstöðu, þá lækka þeir gengið í matartímanum um 3% og halda síðan áfram dagana á eftir. Það er ekki nema von að fólki þyki að svikist hafi verið að sér. Það er í rauninni allt framkvæmt þveröfugt við það sem menn hafa boðað. Ég minnist þess t. d., að hæstv. núv. forsrh. hefur minnst þess með sérstöku stolti, að hann hafi lækkað tekjuskattinn á þeim árum sem hann var fjmrh. í viðreisnarstjórninni. En nú er greinilega útlit fyrir að sköpunarverk hans verði kórónað með sérstakri hækkun á tekjuskatti.

Sú aðferð, sem beitt hefur verið við fjárlagagerð á undanförnum árum, ég vil segja allan þennan áratug, hefur verið að ákveða útgjöldin fyrst og síðan hvers ætti að afla í tekjum. En það hefur aldrei gengið eins langt í þessum efnum og nú. Þessi aðferð er hreinskilnislega sagt röng. Ríkisvaldið á, alveg á sama hátt og heimilin, að lifa eftir eðlilegum ramma. Við Alþfl.-menn höfum bent á það, að fyrst eigi að ákveða heildarumsvifin með tilliti til þjóðfélagslegra aðstæðna og efnahagslegra markmiða. Innan þess ramma á ríkið, rétt eins og heimilin, að marka útgjöld sín. Einmitt nú er alveg sérstök aðhaldsþörf vegna verðbólgunnar og af ýmsum orsökum. Þess er þörf til að draga úr spennu, þess er þörf til að sýna fordæmi fyrir aðra þjóðfélagshópa, og þess er sérstaklega þörf í skattamálum vegna fólksins í landinu, vegna hins almenna launþega, að ekki sé gengið of hart að fólkinu í landinu, að launþegum, heldur einmitt — þegar aðhald þarf að vera á öllum sviðum þjóðlífsins og til mikils er ætlast af fólkinu í landinu — að þá komi ríkið til móts við það með því að draga úr skattheimtunni en ekki auka hana.

Alþfl. sagði fyrir seinustu kosningar og fyrir kosningarnar 1978: Það er þörf aðhalds á öllum sviðum og það þarf að vera samstillt átak. Það þarf aðhald í verðlagsmálum, það þarf aðhald í rekstri ríkissjóðs, í peningamálum og í rekstri opinberra stofnana og auðvitað í launamálum. — En þá höfum við Alþfl.-menn líka viljað koma til móts við fólkið í landinu, launafólkið, alla hina almennu launþega, en þó sérstaklega þá sem verst eru settir, með því að lækka tekjuskattinn.

En hver eru svo afrek núv. ríkisstj.? Verðlagsmálin eru komin í hnút. Niðurtalningarráðherra Framsfl. hefur lýst því yfir að hann þurfi að telja upp verðbólguna fyrst, hann verði að hleypa svo og svo miklu í gegn áður en hann geti hugsanlega komist í niðurtalningarbuxurnar. Er honum ekki ljóst, að undanlátssemi í þessum efnum þýðir það að niðurtalningin hefst aldrei? Er honum ekki ljóst, að með því að fara þannig í málin hrapar þetta allt úr höndum hans?

Í peningamálum — sjáum við einhverja aðhaldsstefnu þar, eitthvað í samræmi við það sem menn hafa boðað svo fjálgum orðum? Er það aðhaldsstefna sem birtist í lánsfjáráætlunarfrv.? Er það aðhaldsstefna sem birtist í þeirri stefnu ríkisstj. að láta vextina standa kyrra og draga þannig úr sparnaði í landinu? Nei, aldrei hefur seðlaprentun verið meiri en nú, en hún mun enn aukast í framtíðinni. Er að sjá eitthvert aðhald í verðlagningu hjá opinberum stofnunum? Nei.

Sérstaklega í dag er það tekið fram, að hækka eigi sér á parti hina opinberu þjónustu langt umfram samanlögð upptalningarmörk fyrir tvö næstu tímabil eins og þau hafa verið skilgreind af hálfu ríkisstj. Hvernig er hægt að ætlast til þess af öðrum fyrirtækjum í landinu, að þau sýni aðhald í verðlagningu hjá sér, þegar ríkið gengur á undan í því að hækka verð á opinberri þjónustu?

Við 2. umr. um fyrirliggjandi frv. flutti Eiður Guðnason ítarlegar till. sem ganga í þá átt að sýna aðhald í ríkisrekstrinum. Þessar till. gengu út á það að lækka tekjuskatt einstaklinga um 7.2 milljarða, að leggja sérstaklega til jöfnunar húshitunarkostnaði 4 milljarða og að leggja sérstaklega til félagslegra aðgerða í húsnæðismálum 1 milljarð kr. Til að mæta þessum útgjöldum voru jafnframt gerðar till. um sparnað í tekjuöflun upp á ekki bara 12 milljarða, heldur 12.2 milljarða kr.;

Hv. þm. Friðrik Sophusson sagði áðan í sambandi við till. Alberts Guðmundssonar, að það væri óvenjulegt að þm. bæru fram sparnaðartillögur eða till, um lækkun útgjalda. Þetta fékk þó þingheimur að sjá sem aðaltillögur Alþfl. við afgreiðslu þeirra fjárlaga sem nú liggja fyrir. Þetta fékk þingheimur að sjá við 2. umr. Og þetta fær þingheimur líka að sjá endurtekið við 3. umr. En till. okkar fundu ekki náð fyrir augum meiri hl. þingsins. Og auðvitað verða sömu till. ekki bornar upp oftar en einu sinni. Enn viljum við þó freista þess að fá ríkisstjórnarflokkana, fá meiri hl. Alþingis til þess að sýna aðeins vott af aðhaldi og þá til þess að mæta verkefni sem ætla verður að allir þm. telji brýnt að leysa. Það verkefni varðar olíustyrk vegna húsahitunar og 500 millj. kr. í sérstakar orkusparandi viðbótaraðgerðir til þess að einangra og bæta íbúðarhúsnæði. Þessu viljum við með sama hætti og áður mæta með niðurskurði á ríkisútgjöldum. Þessu viljum við ekki mæta með enn frekari skattahækkunum, heldur með því að ríkið sýni aðhald í búskap sínum, með því að auka ekki álögur á þjóðina, heldur halda þessu innan þess ramma sem þó er þegar orðinn æðiviður á fjárlögunum.

Til samræmis við þessi markmið og til þess að reyna enn á það, hvort meiri hl. Alþingis vill ekki sýna fólkinu í landinu ofurlitla viðleitni í aðhaldsátt, þá höfum við, undirritaður og Karvel Pálmason fyrir hönd Alþfl., flutt till. á þskj. 271 í þessa veru. Við gerum till. um það í fyrsta lagi, að til jöfnunar á upphitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis komi 4 milljarðar kr., sem útdeilt verði í gegnum Byggðasjóð, og komi því til nýr liður í fjárlögunum í þessu samhengi. Það er eðlilegt, þar sem hér er um raunverulegt byggðamál að ræða, að Byggðasjóður hafi umsjón með þessu verkefni. Kannske er ekkert sem veldur jafnmiklu misvægi í byggð landsins og einmitt upphitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis. En það er ekki síður ástæða til þess að veita sérstaka upphæð til orkusparandi breytinga á íbúðarhúsnæði. Þess vegna höfum við í annan stað gert ráð fyrir því, að það komi nýr liður undir viðfangsefnum Húsnæðismálastofnunar ríkisins í þessu skyni upp á 500 millj. kr.

Til þess að mæta þeim útgjöldum, sem hér um ræðir, innan þess ramma sem fjárlögin eru nú í gerum við till. um lítillega lækkun á uppbótum á útfluttar landbúnaðarafurðir eða sem nemur 600 millj. kr. Einmitt í þessu efni er brýn nauðsyn að Alþ. sýni vott af stefnumörkun til þess að draga úr offramleiðslu á þessu sviði sem er orðin hrikaleg skattpíning á fólki í landinu.

Í annan stað viljum við mæta þessari útgjaldaaukningu með ofurlitlu aðhaldi í launa- og rekstrargjöldum ríkisins. Við gerum í rauninni till. um að þau útgjöld verði lækkuð um 1/2%, eða um 500 millj. kr. Við 2. umr. fjárlaga gerðum við till., sem ekki hlaut náð hér í þinginu, um lækkun sem nemur 1%. Nú viljum við freista þess, hvort meiri hl. Alþingis vilji ekki a. m. k. ganga skrefið til hálfs og taka 1/2%, niðurskurð á þessum lið til þess að sýna fólkinu í landinu fram á að það sé líka hugmynd Alþingis og ríkisstj. að hafa ofurlítið aðhald í eigin málum.

Jafnframt gerum við till. um það í þriðja lagi til þess að mæta þessum útgjöldum, að vasapeningar fjmrh. verði skertir um 400 millj. kr. Vasapeningar fjmrh. samkv. fyrirliggjandi frv. — að maður spyrji nú ekki að því sem boðað hefur verið hér í dag — eru hrikalega háir og langtum, langtum hærri en nokkurn tíma hefur viðgengist. Skyldi hann ekki geta séð af svo sem eins og 400 millj. kr. úr þessari púlíu?

Og í fjórða lagi viljum við mæta þessu með því að draga nokkuð úr niðurgreiðslum á vöruverði, eða sem nemur 3 milljörðum kr., en um það höfðum við áður flutt till. um lækkun sem nemur 3.4 milljörðum kr.

Þessar till. ná auðvitað allt of skammt að okkar áliti í aðhaldsátt, og verður að skoða þær í ljósi þess, að þegar hefur verið hafnað till. okkar Alþfl.-manna um mun viðtækari aðhaldsaðgerðir. En við vildum þó enn freista þess að leita stuðnings við till. um olíustyrk til húshitunar sem mætt væri án frekari skattahækkunar. Og þótt við berum hér einungis fram takmarkaðar till., þá vil ég ítreka meginstefnu okkar Alþfl.-manna um lækkun, en ekki hækkun tekjuskatts.

Það er kannske ekki úr vegi á þessari stundu, þegar fjallað er um efnahagsmál í víðum skilningi, að doka aðeins við og líta á það efnahagskerfi sem við höfum búið við í áratug, allan þennan áratug, — líta á það efnahagskerfi sem hefur skilað okkur 40–60% verðbólgu og erlendri skuldasöfnun í meira mæli en nokkru sinni fyrr, — það efnahagskerfi sem hefur skilað okkur óreiðu og sukki í fjármálum, þ. á m. í skattsvikum og fjármálaafbrotum, í meira mæli en nokkru sinni fyrr, — efnahagskerfi og efnahagsstefnu sem hefur haft það í för með sér, að við höfum á þessum áratug dregist aftur úr grannlöndum okkar í lífskjörum um 15–25%, — það efnahagskerfi sem gilt hefur þennan áratug, sem hefur boðið og býður upp á vaxandi landflótta.

Aðferðin við stjórn efnahagsmálanna hefur í megindráttum verið þessi: Í fyrsta lagi hefur verið fylgt algerri undanlátssemi í fjárlagagerð. Óskalistar útgjaldanna hafa verið ákveðnir fyrst og síðan hefur skattheimtan verið ákveðin á eftir. Í öðru lagi hefur hún einkennst af undanlátssemi í verðlagningu opinberrar þjónustu þar sem hagsmunir fólksins eru að engu hafðir, en ríkisforstjórarnir eiga ævinlega greiðan aðgang að ráðh. og koma sínu fram.

Aðferðin hefur í þriðja lagi verið,fólgin í því að hafa neikvæða raunvexti allan þennan tíma og sífellt neikvæðari þannig að stolið hefur verið af sparifé, sparnaður hefur stórlega dregist saman, verðbólgufjárfestingar hafa aukist og fé hefur ekki verið fyrir hendi til þess að leggja í skynsamlegar fjárfestingar, eins og þurft hefði til þess að auka framleiðni, til þess að auka afköst vinnandi handa og bæta þannig lífskjörin í landinu. Af þessum sökum hafa líka lífskjörin sífellt verið að rýrna.

Í fjórða lagi hefur aðferðin einkennst af meðgjöf með offramleiðslu á landbúnaðarafurðum. Bændur hafa verið ginntir til þess með því kerfi, sem í gildi hefur verið, að slíta sér út við að framleiða vöru sem verður að skattleggja þjóðina stórkostlega til þess að geta selt ofan í útlendinga að mestu leyti.

Í fimmta lagi hefur stefnan einkennst af því, að sífellt hefur verið haldið uppi stækkun skipastólsins og skuldasöfnun vegna þess, þrátt fyrir það að fiskstofnar umhverfis landið væru ofnýttir og það væri augljós staðreynd að viðbætur við skipastólinn bitnuðu á afkomu sjómanna og útgerðar og þar með þjóðarbúsins í heild.

Í sjötta lagi hefur stjórnarstefnan einkennst af tómlæti um framþróun í fiskvinnslu og iðnaði. Þar hafa framfarir verið allt of litlar og fjármagnsútvegun í skynsamlegar umbætur allt of rýr. Þar hefur ekki heldur átt sér stað sú skipulagsbreyting í framleiðslunni sem nauðsynleg er, ef við ætlum að bæta hér lífskjörin og ná verulegum hagvexti.

Enn hefur stjórnarstefnan á þessum áratug einkennst af margföldum verðstöðvunum, sem hafa í rauninni skilað meiri verðbólgu en nokkru sinni fyrr. Er það ekki þversögn, að þegar margföld verðstöðvun er í gildi skuli verðhækkanir verða meiri en nokkru sinni fyrr? Gefur þetta ekki tilefni til þess að verðmyndunarkerfið sé skoðað frá grunni? Gefur þetta ekki tilefni til þess að ætla að þær aðferðir, sem hafa verið notaðar til að ákveða verðlag í landinu áratugum saman með handauppréttingu úti í bæ, dugi ekki?

Enn hefur stjórnarstefnan á þessum áratug einkennst af misheppnuðum opinberum framkvæmdum sem hafa orðið sérstakur baggi á þjóðinni. Flaustursframkvæmdir eins og t. d. í Kröflu eru stórkostlegur baggi á þjóðinni vegna þess eins, að ríkisvaldið sjálft hefur ekki haft manndóm í sér til þess að undirbúa framkvæmdir sínar með eðlilegum og réttum hætti.

Meðan þessi stjórnarstefna hefur verið í gildi hafa menn hrakist úr einni bráðabirgðaaðgerðinni í þá næstu án þess að nokkur frambúðarlausn fengist. Sjálfsagt hafa einhverjir bundið vonir við það, að núv. ríkisstj. mundi breyta út af þessari stefnu, losa sig úr farvegi vanans og undanlátsseminnar. En það er öðru nær. Aldrei hefur farvegur vanans verið ríkari en einmitt nú, aldrei hefur undanlátssemin og aðhaldsleysið verið meira en einmitt nú. Þetta er ógæfusamlegt fyrir íslenska þjóð.

Ég hef hér áður rakið hverra umbóta væri þörf í fjárlagagerðinni, hvernig ákveða ætti umsvifin fyrst og gjaldþol þegnanna áður en óskalistarnir væru settir upp. Ég vil hér líka ítreka það sem ég sagði áðan, að ekki er að vænta árangurs í viðleitninni til þess að draga úr verðbólgu nema verðlagningu opinberrar þjónustu verði settur fastur rammi, sem sé skýrari og ætlist til meira af stjórnendum opinberra fyrirtækja en af öðrum í landinu, þannig að fordæmi sé veitt.

Hæstv. viðskrh. kvartaði undan því í ræðu hér fyrir skömmu, að ekki væru til fjármunir í landinu til þess að standa undir ýmsum úrbótum, sem þörf væri á að gera, eða til þess að standa undir eðlilegri verslun í landinu sem hann hafði þó mestar áhyggjur af. Þessi sami viðskrh. hefur staðið fyrir því, að horfið yrði frá raunvaxtastefnu. Það nást engin tök á efnahagsmálunum hér nema raunvaxtastefnan verði látin gilda, að stefnt verði á jákvæða raunvexti.

Við munum ekki heldur ná árangri í efnahagsmálum nema algjör stefnubreyting eigi sér stað varðandi landbúnaðarmálin, sú stefnubreyting að miða framleiðsluna fyrst og fremst við innanlandsþarfir og draga úr framleiðslunni í áföngum. Auðvitað kostar það átak, en einmitt á þessu sviði á að fara leið niðurtalningarinnar sem Framsfl. boðaði af mikilli þrautseigju fyrir kosningar, en náttúrlega um allt, allt annað.

Það á líka við, að ef við ætlum að ná betri hagvexti, betri lífskjörum hér, þá verður að sporna við stækkun skipastólsins, hamla gegna stækkun skipastólsins. Núv. ríkisstj. fylgir þveröfugri stefnu í því máli. Núv. sjútvrh. stærir sig af því að hafa nú opnað fyrir skipainnflutning erlendis frá. Sá innflutningur, jafnvel þótt skip fari úr landi, getur ekki orðið til annars en að stækka skipastólinn, nema jafnframt verði dregið úr innlendri skipasmíði, sem sér þó ekki merki um í stefnu núv. ríkisstj.

Einn mikilvægasti vaxtarbroddur í hagkerfi okkar liggur áreiðanlega í framförum í fiskvinnslu og iðnaði. Að því er iðnað varðar má líta á tvö atriði: Annars vegar stóriðjuna, sem við höfum ekki nýtt okkur í þeim mæli sem við hljótum að gera, og í annan stað annan iðnað, þar sem verkmenntun og skipulagning framleiðslunnar eru stærstu verkefnin og hafa orðið út undan. En menn skulu gæta að því, að þær framfarir verða að gerast í fyrirtækjunum sjálfum. Það þarf að skapa ytri aðstæður af hálfu ríkisins til þess að þær framfarir geti gerst í fyrirtækjunum sjálfum og fyrir áhuga þeirra í þeim efnum. Framþróun fiskvinnslunnar er verkefni sem nokkuð var hafið á þeim tíma sem ég gegndi embætti sjútvrh. Þá var útlánareglum Fiskveiðasjóðs breytt til þess að stuðla að auknum útlánum til hagræðingar og tæknivæðingar og endurskipulagningar í fiskvinnslunni.

En það var líka stigið annað skref. Það voru lagðar ákveðnar línur fyrir stjórn Fiskveiðasjóðs um það, hvernig hann skyldi haga útlánum sínum. Það var lagt fyrir hann, að meginstefnan skyldi vera sú, að helmingur útlánanna skyldi vera til fiskveiða og hinn helmingurinn til fiskvinnslu. En fram undir þetta hefur hlutfallið verið um 80% til fiskveiðanna, en einungis 20% til fiskvinnslunnar. Og aðferðin hefur verið sú, að fiskveiðarnar voru afgreiddar fyrst og síðan fór það eftir aðstæðum hvort eitthvað yrði afgangs fyrir fiskvinnsluna. Það var líka tekin upp sú nýbreytni að fá samtök framleiðenda í lið með sjútvrn. til þess að ákvarða hver væri lánsfjárþörf Fiskveiðasjóðs á árinu 1980. Fyrir þessu gerði ég þáv. fjmrh., Sighvati Björgvinssyni, sérstaka grein. Niðurstaða okkar af þeirri athugun var sú, að heildarútlán Fiskveiðasjóðs þyrftu að nema 15 milljörðum kr. á árinu 1980, 7.5 milljörðum til fiskveiða og 7.5 milljörðum til fiskvinnslu.

Um fiskveiðarnar er það að segja, að 7.5 milljarðar eru algjört lágmark og allar áætlanir um lægri fjárhæðir munu reynast óraunhæfar. Við getum haft til samanburðar að á árinu 1979 voru lánaðir 7 milljarðar til þessa þáttar og var þó ekki um að ræða þenslu í skipasmíðum það ár. Í annan stað getum við lítið á það, að afkastageta skipasmíðastöðvanna, bæði til nýsmíði og breytinga, er a. m. k. 2000 lestir á ári og hver lest kostar í framleiðslu um 5 millj. kr. Ef Fiskveiðasjóður á að lána 75% af matsverði, eins og gera verður ráð fyrir, þá þýðir það 7.5 milljarða til þessa þáttar. Og þá er ekki meðtalin endurnýjun á vélum og tækjum, sem ætla má að hafi verið rúml. 1 milljarður á s. l. ári.

Því rek ég þetta, að reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að sé eigi til fjármagn til nauðsynlegra skipalána, þ. e. til að halda eðlilegum verkefnum hjá skipasmíðastöðvunum, þá hefur verið gengið á það fé sem ætlað er til fiskvinnslunnar. Sú saga má ekki endurtaka sig einu sinni enn, þegar við vitum öll að þarna liggur sérstakur vaxtabroddur í efnahagslífi okkar. En þessar áætlanir gera ekki ráð fyrir neinum innflutningi á skipum, svo að þegar hæstv núv. sjútvrh. hefur opnað fyrir þær flóðgáttir þarf sjálfsagt enn þá meira í þennan þáttinn.

Ef við lítum á fiskvinnsluna, þá er ljóst að það er mjög nauðsynlegt að koma á hagræðingu í frystihúsum, bæði fjárhagslegri og tæknilegri, sem mundi stuðla að mun betri nýtingu hráefnis, meiri framleiðni og meiri afköstum. Auk þess er sérstaks átaks þörf einmitt í þessari grein til þess að bæta aðbúnað verkafólks.

Á vegum sjútvrn. var, eins og ég drap á áðan, aflað sérstakra upplýsinga hjá sölusamtökum þeim, sem hafa með frystinguna að gera, um þarfir frystihúsanna í þessum efnum. Þær kannanir leiddu í ljós að til forgangsverkefna — þ. e. fyrst og fremst til tæknilegrar hagræðingar og til þess að Fiskveiðasjóður geti staðið við fyrirheit um lán sem voru gefin á árinu 1979 — muni þurfa upp undir 5 milljarða kr. til frystiiðnaðarins á árinu 1980, við skulum segja 4.7 milljarða kr. Og þá er ekki gert ráð fyrir neinum nýbyggingum á þessu sviði.

En það er fleira í fiskiðnaði en frystihús. Fiskmjölsverksmiðjurnar hjá okkur hafa verið að drabbast niður. Það er alkunnugt að þar eru mörg brýn verkefni óleyst, ekki hvað síst hvað varðar fjárfestingu sem mundi stuðla að betri nýtingu hráefnis, sem er mun lélegri hjá okkur en í ýmsum samkeppnislöndum okkar, og ekki síst til þess að ná fram mengunarvörnum í leiðinni og orkusparnaði. Til þessara þarfa má áreiðanlega ekki áætla minna en 2.5 milljarða kr. Þá er ótalin saltfisksvinnsla, skelfisks- og rækjuvinnsla, svo eitthvað sé nefnt. Til þeirra hluta má varla ætla minna en 500 millj. kr. Ef þetta er allt talið saman, þá er hér í rauninni um 7.7 milljarða kr. að ræða.

Kannske er rétt að taka það fram í leiðinni, að fyrirliggjandi umsóknir frá fiskvinnslunni um lán úr Fiskveiðasjóði á árinu 1980 nema hátt á annan tug milljarða kr., þannig að hér er einungis um að ræða brot af því sem sótt hefur verið um, einungis það brýnasta til þess að halda framþróun í greininni.

Ég hef rakið fáeina þætti sem nauðsynlegt er að taka á ef brjótast á út úr þeim vítahring sem hér hefur verið gildandi í heilan áratug, — þeim vítahring sem hefur skapað óbærilega óvissu í þessu þjóðfélagi, óbærilega óvissu hjá öllum þeim sem fást við rekstur í landinu, en ekki síst óbærilega óvissu hjá öllum almenningi í landinu, — óvissu launþegans sjálfs um kaup sitt og kjör. Enginn getur við þessar aðstæður lagt skynsamleg áform, hvorki í rekstri né í heimilishaldi, ekkert varðandi lífshlaup sitt.

Það sem er sorglegast í sambandi við þau spor, sem núv. ríkisstj. hefur stigið, er að hún hefur enn aukið á þessa óvissu. Hún hefur enn aukið á spennuna í þjóðfélaginu. Hún hefur enn stigið skref til þess að draga úr hagvextinum og auka verðbólguna. Hvert einasta spor þessarar ríkisstj. á undanförnum vikum hefur verið brennt af merki vanans og undanlátsseminnar og er verra en það versta sem við höfum áður séð. Hrikalegast af öllu þessu er það, að á þeim sviðum, sem ríkisstj. ætti að sýna fordæmi, á þeim sviðum þar sem hún hefur algjör yfirráð, eins og í ríkisfjármálum og peningamálum, þar er slappleikinn mestur. En það var einmitt á slappleika á þessum málasviðum sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar fór flatt á sínum tíma. Það var á þeim slappleika sem viðleitni hennar á fyrri hluta tímabilsins til þess að draga úr verðbólgunni rann út í sandinn. Það fordæmi, sem sýnt er í fyrirliggjandi fjárlagafrv. og því sem boðað hefur verið í ríkisfjármálum, kippir stoðunum undan aðhaldsaðgerðum á öllum öðrum sviðum þjóðfélagsins. Sá sem ekkert vill gera í aðhaldsátt hjá sjálfum sér getur ekki vænst þess af öðrum, hefur ekki rétt til að vænta þess af öðrum.

Sumir hefðu kannske haldið að Alþb. væri róttækur flokkur, flokkur sem vildi kerfisbreytingar. Aldrei hafa áhrif Alþb. í ríkisstj. verið eins mikil og núna. Aldrei er eins fyrir það brennt, að nokkrar breytingar séu gerðar á kerfinu, heldur einungis magnað upp það kerfi sem við höfum og verstu þættir þess gerðir enn þá verri. Þetta er íhaldssamasta aðferð sem hægt er að hugsa sér við stjórn ríkisins. Ég held að Alþb. hafi gleymt því, hvers konar flokkur það vildi vera og þóttist vera. Og niðurtalningarleið Framsfl., sem boðuð vár af miklum fjálgleik, reynist upptalningarleið í ríkisfjármálum og í verðlagsmálum. En eftir sem áður ætlar Framsfl., sínum vana trúr, að heimta það af launþegum að þeir sýni aðhaldssemi.

Þingmenn Sjálfstfl. hafa oft talað um það á undanförnum árum, að aðhald og sparnað þyrfti í ríkisrekstrinum. En eru ekki einhverjir þm. Sjálfstfl. í núverandi ríkisstj.? Öll þeirra áform í þessum efnum, öll þeirra orð um þetta efni eru fyrir bí. Það liggur við að ég taki mér í munn orð kunningja míns, sem ég hitti á götu í morgun, þegar hann var búinn að hlusta á boðskap seinustu daga. Hann sagði: „Hvern fjandann er ríkisstj. eiginlega að fara? Æ-jú, ég held hún sé að fara með allt til fjandans.“

Ég verð að segja það eins og er, að ég hef áhyggjur af því ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu. Það er óvissan, sem er verst. Það þarf þjóðarvakningu til þess að ná sér upp úr verðbólgufarveginum. Þá gildir ekki já-já-stefnan við öllum óskalistum, — sú já-já-stefna sem núverandi ríkisstj. fylgir og sendir síðan skattþegnum reikninginn fyrir. Það þarf auðvitað kjark og forustu til að brjótast úr hringrás vanans og undanlátsseminnar. Ekkert af því hefur núv. ríkisstj. Og það þarf breytt vinnubrögð við fjárlagagerð. Það þarf breytt vinnubrögð í allri efnahagsstefnunni, í ríkisfjármálunum og í atvinnuvegastefnu. Um ekkert af þessu sjást merki hjá núv. ríkisstj. Því segi ég það, að ég hef áhyggjur af því, hvernig ástandið er í okkar þjóðfélagi. Allar aðgerðir, allar till. núv. ríkisstj. stefna í þveröfuga átt við það sem menn hefðu trúað að væri markmið þeirra sem vilja stjórna landinu, sem setjast að landsstjórn. Þær stefna í þveröfuga átt við þær yfirlýsingar að sporna gegn verðbólgunni. Þær stefna ekki að stöðugleika, þær stefna að enn þá mein óvissu. Þær stefna ekki að aðhaldi á neinu sviði, heldur undanlátssemi. Ef till. okkar Alþfl.-manna hefði verið fylgt í þessum efnum, þá hefði verið unnt að vænta nokkurs árangurs í baráttunni við verðbólguna, — nokkurs árangurs í því að koma hér á stöðugra efnahagslífi, — nokkurs árangurs í því að koma hér á hagvexti og okkur tækist að minnka muninn á lífskjörum hjá grannþjóðunum og okkur. En nú stefnir allt til þveröfugrar áttar, og verst af því öllu er fjárlagafrv.