01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

116. mál, fjárlög 1980

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Á þskj. 277 flytja menntmn. beggja deilda Alþingis till. um skiptingu upphæðar sem á fjárlögum er áætluð sem heiðurslaun til listamanna samkv. ákvörðun Alþingis, en þessi upphæð er samtals 18 millj. kr. Nefndarmenn svo og aðrir þm. eru væntanlega allir sammála um að upphæðin er lág og sú upphæð, sem hver og einn fær, gerir engan ríkan. En það mun alla tíð hafa verið gert ráð fyrir að þétta yrði skoðað sem sæmdarlaun, heiðurslaun.

Því ber að fagna, að þjóðin á marga og merka listamenn á ýmsum sviðum, og um það eru nefndarmenn að sjálfsögðu sammála. Ekki þótti þó nefndinni eða nefndunum ýmissa ástæðna vegna rétt að fjölga þeim sem þennan flokk listamanna fylla. En nefndin gerir sér ljóst að erfitt er að velja á milli þeirra, sem þessar sæmdar skuli njóta, og hinna, sem ekki eiga nafn sitt á þessum lista að þessu sinni. En eins og við vitum verður einhvers staðar að setja mörkin, þó að enginn sé í raun ánægður.

Það er því till. nefndanna, að engin breyting verði gerð á þeim nöfnum frá því sem var á fjárlögum 1979, og vænta nefndirnar þess, að till. þeirra um þá 12 listamenn, sem á þskj. greinir, hljóti samþykki hv. Alþingis. Ég þarf ekki að benda á og það kom hérna fram áðan, að einn nefndarmanna, hv. þm. Halldór Blöndal, ritar undir nál. með fyrirvara og hefur hann með orðum sínum áðan gert grein fyrir afstöðu sinni. En ég vil að gefnu tilefni staðfesta það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði, að í menntmn. Nd. er enginn formaður sem stendur. Hæstv. menntmrh. var þar formaður og ég tók sæti hans þar. Varaformaður var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hefur nýr nefndarmaður nýskeð tekið við störfum hennar þar, og hefur hvorki verið kosinn formaður né varaformaður nefndarinnar upp á nýtt. En þetta var sameiginlegur fundur beggja nefndanna. Eyjólfur Konráð Jónsson er formaður menntmn. Ed. og Karl Steinar Guðnason varaformaður.

Hv. þm. Halldór Blöndal sagði í ræðu sinni áðan að framsóknarmenn réðu öllu, og það virðist nú vera svo komið að sjálfstæðismenn í Ed. geti ekki fengið nefndarfund þar, því að það var að minni forgöngu að það var haldinn nefndarfundur um daginn í báðum menntmn. þessara ágætu deilda, og eins var það að minni forgöngu, að þessi brtt. er hér komin fram.