01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

116. mál, fjárlög 1980

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þessari 3. umr. um fjárlagafrv. er rétt að ljúka. Hér hafa verið fluttar langar ræður og litríkar, m. a. var lesið alllengi upp úr stefnuskrá Alþb. og úr gömlum Þjóðvilja frá því fyrir 40 árum, og vil ég alveg sérstaklega þakka fyrir það hvort tveggja.

Oft hefur það verið, að fjmrh. hefur við 3. umr. fjárlagafrv, flutt sérstaka yfirlitsræðu um ríkisfjármálin. En hvort tveggja er nú, að ekki tel ég þetta réttan tíma sólarhringsins til að flytja ræðu af því tagi, enda fáir til að meðtaka boðskapinn, og eins hitt, að skammt er um liðið síðan 1. umr. fór fram. Þar voru gefnar upplýsingar um tekjuáætlun ársins sem er að líða og um útgjöld liðins árs og að sjálfsögðu er þar litlu við að bæta nú, aðeins tæpum fjórum vikum síðar.

Aðeins ein spurning hefur borist til mín í þessum umr. í dag, að því er ég best veit. Það var spurning frá hv. þm. Halldóri Blöndal. Hann spurði mig að því, hvort ég vildi ekki gefa þá yfirlýsingu að ég mundi ekki undir neinum kringumstæðum beita mér fyrir frekari skattlagningu en þegar hefði komið hér fram í frumvarpsformi af einu eða öðru tagi. Ég vil minna á það, að þegar ég flutti hér fjárlagaræðu tók ég það sérstaklega fram, að ef hin nýju tekjuskattslög skiluðu verulega miklu minni tekjum af atvinnurekstri en áætlað hefur verið og von er á, þá kynni að verða óhjákvæmilegt að leggja á viðbótarskatt til að rétta af þau hugsanlegu mistök sem kynnu að felast í tekjuskattslögunum. Það getur enginn sagt um það með nokkurri vissu, að ég tali nú ekki um með nokkurri nákvæmni, hvað tekjuskattslögin gefa og síst af öllu af atvinnurekstri. Þar er óvissan mest. Þess vegna verður að hafa þennan fyrirvara. Ég vænti þess hins vegar, að varla skeiki verulega miklu varðandi tekjuskatt af tekjum einstaklinga, og þess vegna hef ég ekki haft sérstakan fyrirvara um það efni.

Það er að sjálfsögðu eins um aðra þætti ríkisfjármálanna, að ef einhverjir verulegir tekjustofnar ríkisins bresta eða mikil og óvænt útgjöld koma í ljós, þá getur orðið þörf á aukinni fjáröflun á þessu ári eins og oft áður. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að ég tel hlutverk mitt ekki síður vera að beita mér fyrir sem mestu aðhaldi í ríkisrekstri og hugsanlega verulegum sparnaði, ef hægt væri að koma honum fram, og ég minni á það, að í fjárlagafrv. er heimild til fjmrh. að lækka ríkisútgjöld um allt að 2000 millj. kr. Það má vel vera að þörf verði á að beita þeirri heimild.

Ég vil svo að lokum ítreka þakkir mínar til fjvn., þótt mér sýnist að vísu ekki neinn fjvn.-maður hér viðstaddur til að meðtaka þakkirnar. En ég tel að fjvn. hafi unnið starf sitt með miklum ágætum við erfið skilyrði og hún eigi miklar þakkir skilið.