02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. S. l. sunnudag kl. hálfsjö að kvöldi voru forustumenn þingflokka stjórnarandstöðunnar kallaðir fyrir hæstv. forsrh. að hans ósk. Tilgangurinn var að óska eftir samráði við þingflokkana, þ. á m. þingflokka stjórnarandstöðunnar, um hvernig háttað skyldi afgreiðslu mála til páska. Markmiðið með fundinum var augljóst. Fyrir lá að mjög naumur tími var til stefnu fram að páskaleyfi og nauðsynlegt væri fyrir stjórn þingsins, til þess að þinghaldið gæti farið eðlilega fram, að vita hvað unnt væri að gera á þeim tíma og hvað ekki. Okkur kom ekki til hugar annað en að hugmynd ríkisstj. með því að leita eftir samráði við þingflokkanna að þessu leyti væri að reyna að haga störfum hér á Alþ. eftir því. Að vísu var seint af stað farið með beiðni um samráð. En til okkar stjórnarandstæðinga var beint tilteknum spurningum. Við vorum beðnir að svara því, hvort við gætum hugsað okkur að afgreiða fimm tiltekin mál á þessum fáu klukkutímum fram að páskahléi með tilteknum hætti.

Þingflokkur Alþfl. vildi einskis láta ófreistað að auðvelda gang þingmála og stjórn þingsins og var fús að veita hæstv. ríkisstj. umbeðið samráð, þó seint væri eftir því leitað. Þess vegna tókum við Alþfl.-menn þá ákvörðun að flýta þingsflokksfundi okkar, sem átti að vera klukkan fjögur á mánudag, til klukkan ellefu sama dag þannig að afstaða til óskar ríkisstj. gæti legið fyrir áður en þingfundir hæfust. Ég veit að sama gerðist hjá hinum stjórnarandstöðuflokknum, Sjálfstfl. Klukkan hálftvö á mánudaginn gengum við á fund með formönnum þingflokka stjórnarliðsins og tilkynntum þeim afstöðu okkar til óska ríkisstj.

Við höfðum verið beðnir, eins og ég sagði áðan, um að svara tilmælum um afgreiðslu mála. Við Alþfl.-menn tilkynntum klukkan hálftvö á mánudag að við værum í fyrsta lagi fúsir til að standa að afgreiðslu fjárlaga fyrir páska, að því tilskildu að við fengjum tilteknar upplýsingar um lánsfjáráætlun. Við þetta höfum við staðið. Við sátum hér til klukkan fjögur í nótt til þess að hægt væri að ljúka 3. umr. um fjárlög. En ég vil leyfa mér að benda á að meginhluta kvöldsins og alla nóttina var aðeins einn ráðh. viðstaddur. Hæstv. forsrh. sást hér ekki í allt gærkvöld og alla nótt. Hæstv. landbrh. kom ekki í þetta hús. Hæstv. dómsmrh. mun eitthvað hafa komið inn fyrir dyr, en gert stuttan stans og sást ekki í þingsölunum. Hæstv. menntmrh. var fjarverandi. Hæstv. sjútvrh. tók engan þátt í þessum fundarstörfum. Stjórnarandstaðan gerði þó allt sem í hennar valdi stóð til þess að afgreiða fjárlögin með því að sitja á fundum til klukkan fjögur í nótt, en hæstv. ríkisstj. hafði ekki meiri áhuga á þessu máli sínu en lýsti sér í mætingum ráðh. í gærkvöld.

Í öðru lagi lýstum við því yfir að þm. Alþfl. væru reiðubúnir til að standa að afgreiðslu frv. um tekjustofna sveitarfélaga fyrir páska. Það frv. hefur nú verið afgreitt sem lög frá Alþingi.

Í þriðja lagi lýstum við því yfir, að við værum reiðubúnir til samkomulags um afgreiðslu frv. um skattstiga, þannig að menn gætu gengið að afgreiðslu málsins að loknu páskaleyfi, eins og hæstv. ríkisstj. óskaði eftir. Einnig á þá beiðni féllumst við og hefur samkomulag um afgreiðslu þegar verið gert.

Í fjórða lagi lýstum við yfir, að við værum reiðubúnir til að greiða götu frv. um olíugjald til fiskiskipa á Alþ. fyrir páska, við samþ. að falla frá því að ræða það mál til að auðvelda afgreiðslu þess og gætum fyrir okkar leyti staðið að því að unnt væri að afgreiða það mál fyrir páska, sem þó hafði ekki enn verið sýnt á hinu háa Alþingi á sunnudaginn þegar við vorum kvaddir á fund hæstv. forsrh.

Fimmta málið, sem við vorum beðnir að taka afstöðu til, var frv. um hækkun söluskatts um tvö stig. Við lýstum því yfir á fundinum klukkan hálftvö með formönnum þingflokka stjórnarliðsins, að við teldum í fyrsta lagi mjög vafasamt að samfara afgreiðslu allra umræddra mála, sem ég hef þegar getið, gæfist tími til að klára á fáum klukkutímum þrjár umræður í Nd. og þrjár umræður í Ed. um jafnumsvifamikið mál. Í öðru lagi lýstum við því yfir, að við teldum óverjandi að taka það mál til 2. umr. fyrr en fyrir lægi: Í fyrsta lagi afstaða allra aðila vinnumarkaðarins til málsins, eins og fyrir er mælt í lögum. Í öðru lagi að sýnt hefði verið frv. sem hæstv. ríkisstj. boðaði um hvernig verja skyldi umræddum 4 milljörðum til að greiða niður húshitunarkostnað. Í þriðja lagi tókum við fram, að Alþfl. væri andvígur þessari aðferð til tekjuöflunar, þar sem flokkurinn hefði þegar flutt — ekki einu sinni, heldur tvívegis — tillögur um að fjár til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði væri aflað innan ramma fjárlaganna með niðurskurði annarra útgjalda. Alþfl. mundi að sjálfsögðu vilja fá að ræða slíkt mál, sem hann væri í mikilli andstöðu við, og væri því ekki þess að vænta að hægt væri af þeim sökum að afgreiða svo umdeilt mál á fáum klukkutímum.

Við réðum hæstv. ríkisstj. og formönnum þingflokka hennar þannig frá því að leggja fram frv. um hækkun söluskattsins s. l. mánudag, þar sem við töldum mjög ólíklegt að unnt væri að afgreiða það mál fyrir páska. Engu að síður var frv. þetta lagt fram á hinu háa Alþingi á mánudaginn, þrátt fyrir að afstaðan lægi fyrir, sem eftir var leitað á sunnudag, og hún lægi fyrir það tímanlega að hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar væri hún ljós áður en þingstörf hófust á mánudag -og til þess höfðum við Alþfl.-menn allt gert, við höfðum flýtt fundum okkar, við höfðum haldið okkar reglubundnu fundi árdegis í stað síðdegis til að geta veitt hæstv. ríkisstj. þessar upplýsingar og auðvelda henni þannig stjórnina á þinginu.

En hvað hefur síðan verið gert í þingstörfum? Starfstíminn í fyrradag var sáralítið notaður. Þrívegis þurfti þá að fresta fundum Alþingis, í fyrsta lagi vegna þess að einn af flokkum ríkisstj. hafði ekki eða virtist ekki hafa rætt málið um hækkun söluskattsins um tvö stig og krafðist þingfundarhlés í reglulegum þingfundatíma til að halda þingflokksfund um það mál sem við stjórnarandstæðingar notuðum árdegið til. Á meðan lágu þingstörf niðri á hinu háa Alþingi. Tvívegis þurfti þennan sama dag að fresta fundum þingsins vegna þess að hæstv. fjmrh., sem átti að vera viðstaddur umr. um fjárlög, hafði ekki tíma til að sinna þeim þingskyldum sínum. Þannig fór um sjóferð þá, að mikið af eðlilegum og reglulegum fundartíma Alþ. í fyrradag fór fyrir ekki neitt.

Og hvernig var í gær? Þá hófust ekki þingstörf fyrr en klukkan fimm síðdegis. Ástæðan var sögð sú, að þingskjöl vegna fjárlagaafgreiðslunnar væru ekki til. En það var mætavel hægt að halda fundi í deildum þingsins í gær á eðlilegum fundartíma þó að þskj. væru ekki til vegna umr. um fjárlög, enda var sú ekki ástæðan fyrir því að menn sátu hér aðgerðalausir í gær. Ástæðan var sú, að þingflokkar stjórnarliðsins, stjórnarliðarnir allir að undanskildum hæstv. forsrh. og hinum tveimur fylgisveinum hans, þurftu að sitja á fundum vegna ágreinings, sem upp kom í þeirra liði, allan eðlilegan starfstíma þingsins í gær. Þannig voru þingflokksfundir stjórnarliða frá klukkan tvö til klukkan fimm í gærdag og á meðan var ekkert starfað í þinginu.

Svo ætlar ríkisstj. að leyfa sér, eftir að menn — að vísu ekki hún sjálf, en aðrir þm., þ. á m. stjórnarandstöðuþingmenn flestir hverjir — eru búnir að vera á fundum til klukkan þrjú í fyrrinótt og til klukkan fjögur í nótt til að reyna að greiða gang þeirra mála sem hún óskar eftir, að hæstv. ráðh. þó flestum fjarstöddum, þá ætlar hæstv. ríkisstj. að mælast til þess klukkan tíu árdegis síðasta dag fyrir páska, þegar fundur hefur verið boðaður klukkan þrjú til að greiða atkvæði um fjárlög, að hv. alþm. afgreiði á þessum tveimur og hálfa klukkutíma, sem líklega er til ráðstöfunar, ekki aðeins frv. um olíugjald til fiskiskipa, sem við Alþfl.-menn erum reiðubúnir til að standa að afgreiðslu á, heldur einnig frv. um hækkun söluskatts sem nú á að nema 1.5%. Þetta er að sjálfsögðu ekki hægt. Stjórnarandstæðingar hafa lýst andstöðu sinni við þetta frv. og hafa óskað eftir því við hæstv. ríkisstj., að hún gerði ekki tilraun til að fá frv. afgreitt fyrir páska, og ráðlagt hæstv. ríkisstj. að reyna ekki einu sinni að leggja frv. fram til að koma sér ekki í þá klípu sem hún er komin í. Hæstv. ríkisstj. ætlast samt til þess af okkur, sem erum andvígir frv. og viljum berjast gegn slíkri skattahækkun, að við föllumst á að að afgreiðslu þess verði staðið með þeim óeðlilega hætti að andstæðingar frv. fallist á að taka ekki til máls. Hæstv. ríkisstj. ætlar sér að krefjast þess að við sviptum okkur sjálfa málfrelsinu á Alþ. um þetta viðkvæma deilumál. Það er augljóst að ef við samþykkjum ekki slíkt er ekki unnt að afgreiða málið.

Mér er fyllilega ljóst að hæstv. ríkisstj. og Alþ. eru komin í klípu með því að leggja fram frv. eins og þetta um stórhækkun á söluskatti og verða að horfast í augu við þá staðreynd, að sú öxi sé reidd yfir höfðum manna dögum saman án þess að unnt sé að afgreiða málið. Slíkt kallar að sjálfsögðu á hvers kyns brask. Slíkt kallar að sjálfsögðu á kaupæði og þrýsting. En þetta er klípa sem hæstv. ríkisstj. hefur sjálf komið sér í. Hún hefur sjálf ákveðið að leggja fram þetta frv., þótt fyrir lægi að stjórnarandstaðan teldi ekki æskilegt og ekki eðlilegt að afgreiða málið á þeim stutta tíma sem til stefnu var, samhliða öllum þeim öðrum málum sem hæstv. ríkisstj. óskaði afgreiðslu á. Ef menn eru komnir í klípu í þessu sambandi hefur hæstv. ríkisstj. aðeins við sjálfa sig að sakast og engan annan.

Það er út af fyrir sig allt í lagi þó að hæstv. ríkisstj. geri nú tilraunir til að tvö viðkvæm deilumál, sem bæði sæta mikilli andstöðu í þinginu, afgreidd á einum og hálfum klukkutíma með þeirri óbeinu ósk við stjórnarandstöðuna að hún tali ekki í þessu máli. Við Alþfl. menn erum reiðubúnir að afgreiða olíugjald til fiskiskipa umræðulítið, en okkur kemur ekki til hugar að neita okkur um að tala gegn hækkun söluskatts um 1.5% og nota til þess þann rétt sem við höfum sem alþm. Við munum ekki beita neinu málþófi í því sambandi, en við munum taka okkur þann tíma til að ræða það mál sem við teljum okkur þurfa. Hv. þm. Stefán Valgeirsson glottir að slíku. Mér er ósköp vel ljóst að honum finnst það ekki stór baggi þó að lagður sé á 1.5% söluskattur, einkum og sér í lagi ef hann sjálfur og starfsbræður hans ættu að njóta góðs af þessu fyrir milligöngu ríkissjóðs í útflutningsbótum eða einhverju slíku. En eitt sinn gerðist það nú á hinu háa Alþingi, hæstv. forseti, að menn voru sviptir atkvæðisrétti þegar kom að því að greiða atkvæði um fjárútgjöld úr ríkissjóði til fjárþarfa þeirra sjálfra. En látum það vera.

Ég vil láta þetta koma fram og leyfi mér að benda á að þessi afstaða hefur legið fyrir alveg frá því um hádegi s. l. mánudag. Og ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, að klukkan er nú að verða hálfellefu síðasta starfsdag Alþ. fyrir páska og það er óeðlilegt, óæskilegt og óheilbrigt, eins og búið er að halda á þingstörfum af hálfu hæstv. ríkisstj. tvo síðustu daga, að láta sér koma til hugar að hægt sé á einum og hálfum eða tveimur klukkutímum að afgreiða jafnviðkvæmt deilumál og stórhækkun á sköttum, þegar litið er jafnframt til þess, hvernig stjórn hæstv. ríkisstj. á þinginu hefur verið undanfarna fáa daga. Ég vil því mælast til þess að hæstv. ríkisstj. geri sér ekki leik að því að hafa umr. af þessu tagi þann tíma sem eftir lifir af starfstíma Alþ. fyrir páska. En ég ítreka það, að við Alþfl.-menn erum reiðubúnir á þeim stutta tíma til að standa að afgreiðslu frv. um olíugjald umræðulítið, nánast umræðulaust. Afstaða okkar til hins málsins hefur legið fyrir síðan fyrir hádegi á mánudag. Hæstv. ríkisstj. er um hana kunnugt. Það er alveg af og frá að hægt sé að fallast á að afgreiða málið um hækkun söluskattsins með þeim takmörkuðu upplýsingum, sem fram eru komnar, og á þeim takmarkaða tíma, sem eftir lifir. Við Alþfl.-menn munum ekki beita neinu málþófi til að koma í veg fyrir þá afgreiðslu sem ég tel ekki mögulega, en við teljum okkur þurfa meiri tíma til að koma sjónarmiðum okkar að en svo, að hægt sé á tveimur klukkutímum að afgreiða málið gegnum 2. umr. í þessari hv. d. og síðan með afbrigðum gegnum 3. umr., taka það síðan fyrir með afbrigðum til 1. umr. í Ed., vísa því þar til n., ljúka þar nefndarstörfum, ljúka síðan 2. umr. með afbrigðum í þeirri hv. d, og 3. umr. með afbrigðum þegar í kjölfarið. Það er ekki rétt af hæstv. ríkisstj. að óska eftir því, að þannig sé staðið að afgreiðslu mála síðustu klukkutímana fyrir páskahlé. Það er ekki hægt að ætlast til þess af hæstv. ríkisstj., eins og hún hefur haldið á stjórn þingsins á undanförnum dögum, að Alþ. fallist á að afgreiða umdeilt mál með þeim hætti.