02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

135. mál, orkujöfnunargjald

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. fékk þetta frv. til meðferðar aðfaranótt þriðjudags og hélt fund um það snemma í gærmorgun, aftur eftir hádegið og enn aftur seinni hluta dagsins. Ég vil leggja á það áherslu fyrir mitt leyti, og við nm. allir, sem í n. störfum, erum að ég held, sammála um að mjög mikilvægt er að afgreiða þetta mál. Það er út af fyrir sig rétt, að ýmislegt má að finna varðandi vinnubrögð í sambandi við þetta mál og ýmis önnur og svo hefur tengi verið á hv. Alþ., en Alþ. hlýtur að bera ábyrgð, þegar mál er komið í hendur þess, að það sé afgreitt með einu eða öðru móti. Þegar um hækkun söluskatts er að ræða er svo mikilvægt að því máli sé ráðið til lykta að það hlýtur að vera skylda Alþ. að gera allt sem í stofnunarinnar valdi stendur til að ganga frá því máli.

Varðandi það, eins og fram kom í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að fyrir liggi mjög takmarkaðar upplýsingar um þetta mál, vil ég geta þess, að við í n. öfluðum allra þeirra upplýsinga sem um var beðið í n., að undanskilinni beiðni um að fyrir lægju upplýsingar um hvernig þessu gjaldi skyldi ráðstafað. Það er ljóst að þörfin fyrir þetta fjármagn er svo gífurleg að það verður ekki vandamál að finna því farveg hvernig því skuli ráðstafað, en það þarf að gerast með sérstakri löggjöf. En ég hygg að allir þm. séu sammála um það, sem ég hef heyrt til, að hér sé um algera lágmarksupphæð að ræða í þessu skyni.

Mér finnst það vera dálítið undarlegur tónn sem oft kveður við á Alþ., ekki bara nú, heldur oft áður, að það sé einhver sérstakur greiði við ríkisstj. að afgreiða mál sem til Alþ. koma. Það er náttúrlega fyrst og fremst hlutverk Alþ. að taka á þeim málum og þar er ekki um neinn greiða við ríkisstj. að ræða. Ég vil leggja á það áherslu að þetta mál verði afgreitt og ef það verður ekki hægt í dag, þá verði notaður til þess helgidagur á morgun. (Gripið fram i.) Ég vildi síður nota hann en morgundaginn.

Varðandi meðferð málsins að öðru leyti komu upplýsingar til n. um þann gífurlega mun sem er á upphitunarkostnaði í landinu, og allir nm. fengu þær í hendur. Þar kemur í ljós að upphitunarkostnaður með hitaveitu er miðað við olíu allt niður í 15.5% og er þá miðað víð að 1200 lítra af gasolíu þurfti til að kynda hverja 100 rúmmetra af íbúðarhúsnæði, sem ég hygg að sé frekar í lægra lagi en hitt. Nauðsynin á jöfnun í þessu skyni er því öllum ljós og var öllum nm. ljós og ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þann þátt málsins á þessu stigi, en vil aðeins leggja áherslu á að hér hlýtur að vera um algera lágmarksupphæð að ræða í þessu skyni.

Frv. gerði ráð fyrir að lagt yrði á 2% orkujöfnunargjald á söluskattstofn, sem þýðir að ofan á þann stofn koma 2%. Heildarálagning söluskatts að viðbættu orkujöfnunargjaldi yrði þá 24%. N. reyndi að kanna sem best hvaða tekjur mundu af þessu gjaldi koma. Samkv. áliti Þjóðhagsstofnunar, sem barst n., kom fram að það væri rétt að miða við að söluskattsstigið skilaði 500 millj. kr. á mánuði miðað við verðlagsforsendur fjárlagafrv.

Miðað við 7.5 mánaða innheimtu gætu þá heildartekjur af orkujöfnunargjaldinu numið 7.5 milljörðum. Áætlun Hagstofu Íslands um hækkun framfærsluvísitölu 1. maí n. k. bendir til að verðbreytingar frá upphafi til loka árs 1980 verði hins vegar meiri en reiknað er með í fjárlagafrv. Nýjar verðlagsspár fyrir árið allt voru ekki fyrirliggjandi þegar n. starfaði að málinu, en allt bendir hins vegar til þess að gera megi ráð fyrir að söluskattsinnheimta á árinu geti orðið hæst 550 millj. kr. á hvert stig í innheimtu á mánuði á síðari hluta ársins 1980. Með því móti yrði heildarinnheimtan á hvert stig rúmir 4 milljarðar á árinu 1980.

N. taldi ástæðu til að kanna hvaða áhrif þessi hækkun hefði á framfærsluvísitölu. Fram kom að búast má við að hvert söluskattsstig hækki vísitölu um 0.45 stig eða hún hækki samtals um 0.9, en frá megi draga vegna ákvæðis laga um efnahagsmál o. fl. í kaupgjaldsvísitölu allt að 0.2, sem er ákvörðunaratriði kauplagsnefndar, en miðað við fyrri reynslu megi reikna með slíku. Þessi hækkun á vísitölu hefur að sjálfsögðu áhrif á allt kaupgjald í landinu miðað við þær reglur sem gilda um vísitölubætur. Það má reikna með að laun á marsverðlagi í landinu séu 505–510 milljarðar, þá eru bændur og sjómenn ekki taldir með, og lífeyrisbætur 42 milljarðar. Þessar greiðslur eru því samtals 550 milljarðar. Auk þess má búast við að laun sjómanna séu um 52 milljarðar og bænda 23 milljarðar, en þeir aðilar eru ekki beint háðir því vísitölukerfi sem aðrir launþegar eru. Hitt er svo annað mál, að þeir eru það óbeint, því að hækkanir launa á einu sviði hljóta að hafa áhrif á launakröfur og samninga alla. Því má búast við að í fyrstu lotu hækki laun um 3850 millj. við það að leggja á tvö söluskattstig. Þannig hlýtur í ljósi þess að vera mjög mikilvægt að slík álagning eigi sér ekki stað nema brýn ástæða sé til.

N. taldi fulla ástæðu til að kanna hvort ekki væri mögulegt að lækka þessa álagningu. Því lauk með því, að um það náðist samkomulag að orkujöfnunargjaldið yrði 1.5% í stað 2%, en vissulega hefði verið æskilegt að þetta gjald hefði getað orðið lægra.

N. leitaði eftir upplýsingum frá aðilum vinnumarkaðarins um afstöðu þeirra. Það kom engum á óvart að þeir voru mótfallnir þessari ráðstöfun. Ég hafði hugsað mér að gera grein fyrir áliti þeirra, en ég sé, að 2. minni hl. n. hefur dreift þessum álitsgerðum með þskj. 279 til allra hv. alþm., og sé því ekki ástæðu til að gera grein fyrir þeim. 2. minni hl. hefur tekið af mér það ómak. Ég vísa til þeirra skjala, en þar koma almennt fram fyrirvarar og mótmæli vegna þessarar álagningar.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu máli. Ég verð þó að láta í ljós, að það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af þeim skattstofni sem söluskattur er. Hann er uppistaðan í tekjuöflun ríkisins. Undanþágum frá þeim skatti hefur farið mjög fjölgandi á undanförnum árum, sem gerir hann erfiðari í framkvæmd og allt eftirlit með honum erfiðara. Því er orðið mjög brýnt að taka allar þessar undanþágur til rækilegrar endurskoðunar í því skyni að tryggja öruggara eftirlit með skattinum og öruggari innheimtu. Það er einnig ljóst, að eftir því sem þessi skattur verður hærri þeim mun meiri ástæða er til að hraða því máli.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja á það áherslu fyrir mitt leyti að allt verði gert til þess að þetta mál geti orðið að lögum áður en Alþ. fer heim. Ég tel að Alþ. beri skylda til að skilja ekki við þetta mál í vindinum, ef svo mætti segja. (HBl: Það er engin þörf á þessari skatthækkun. ) Ég vildi gjarnan losna við samtöl. Ef engin þörf er á þessari skattlagningu getur Alþ. fellt málið. Ég á við, að fyrir liggi hvað þarna á að gerast, hvort Alþ. ætlar sér að samþykkja þetta mál eða ekki. Ef Alþ. telur að engin þörf sé á þessari skattahækkun mun Alþ. væntanlega fella málið.