02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

135. mál, orkujöfnunargjald

Frsm. 2. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég verð að segja að umr. þær, sem nú fara fram hér á hv. Alþ., fara fram með — að mínum dómi — nokkuð óvenjulegum hætti. Hér er til umfjöllunar frv., sem í upphafi var gert ráð fyrir að legði á skattborgarana nýja skatta sem á 12 mánaða tímabili hefðu orðið sjálfsagt eitthvað á annan tug milljarða. Það er talinn eðlilegur gangur máls af þeim mönnum, sem beita sér fyrir þessu frv., að það sé kynnt Alþ. á mánudegi og reiknað með að afgreiðslu þess sé lokið þegar liðnar verða ekki yfir 50 klukkustundir. Það má vel vera að í augum þeirra, sem standa að þessu máli, sé það mikill hégómi að málið þarfnist skoðunar. Ég get verið sammála frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um að það er allajafna æskilegt að slík mál séu ekki lengi til meðferðar í þingi, og ég get verið sammála honum um að slík afgreiðsla sem þessi mál þurfa er allajafna með öðrum hætti og hraðari en mörg þau mál sem fjallað er um hér á Alþ. Ég get hins vegar ekki verið sammála þeim mönnum, sem telja ekki ástæðu til þess að um þetta mál fari fram á Alþ. umr., og ég get ekki verið sammála þeim mönnum sem ekki telja ástæðu til þess að þn. fái tækifæri til að skoða slíkt mál, fái tækifæri til að gera sér grein fyrir hvað í raun og veru verið er að gera.

Hér er gjarnan einblínt á þann útgjaldalið, sem er í sambandi við þetta frv., þ. e. fjármagn til olíustyrks, en það er af flestum látið fram hjá fara hvað í raun og veru hér er að gerast: hin mikla skattlagning og afleiðing hennar á efnahags- og fjármál ríkisins. Það er að mínum dómi svo stórpólitískt mál með hvaða hætti nú er lagt til að afla fjár til þessara útgjalda, að ekki er bjóðandi að tveir sólarhringar séu til athugunar þess og menn geri sér ekki grein fyrir því, hvert stefnir og hverjar afleiðingar af samþykkt þess í raun og veru eru.

Hv. frsm. 1. minni hl. vék að því áðan hvað þetta frv. þýddi í auknum launagjöldum í landinu, en á örfáum klukkustundum er alþm. ætlað að rétta upp hendur, þ. e. stjórnarliðinu, og greiða atkv. með slíkum útgjaldabagga á atvinnulífinu. Menn fá ekki tækifæri til að gera sér grein fyrir hver verður þróun verðbólgumálanna á þessu ári, og þegar fundur er haldinn í fjh.- og viðskn. þessarar d. eru þm., sem þar sitja, upplýstir um að vitlaus útreikningur hafi átt sér stað varðandi það frv. sem flutt hafi verið, það gefi ekki 7 milljarða, heldur eitthvað á níunda milljarð kr. — Ég er þeirrar skoðunar, að þetta mál þyrfti miklu meiri athugunar við en fjh.- og viðskn. hafði tækifæri til. Og ég held að sá tími, sem Alþ. er ætlaður til skoðanaskipta í þessu máli, sé líka með þeim hætti að upp á það sé ekki bjóðandi.

Með verðlagsforsendum fjárlaganna, sem nú er verið að afgreiða á Alþ., er gert ráð fyrir 31% hækkun á árinu. Þegar við nú við afgreiðslu fjárlaga erum að skoða málið er dæmið orðið þannig, að ekki munar um 10%, 20%, það er 50% skekkja komin í forsendur fjárlagafrv. Það má ekki gera ráð fyrir að verðlagsþróunin verði 31% heldur 45% eins og dæmið stendur — að minnsta kosti, var skotið fram í úr hliðarherbergi. Það er alveg rétt. Við höfum ekki enn, og gátum ekki vegna þess hversu mikill hraði var á afgreiðslu þessa máls, fengið upplýsingar um hver megi búast við að framfærsluvísitalan verði hinn 1. maí. Við fengum að vísu upplýsingar um að gera megi ráð fyrir, eins og dæmið nú stendur og miðað við að þetta frv. verði að lögum og þá miðað við 2% söluskattshækkun, að verði hækkun á framfærsluvísitölu 1. maí um 12.5%, nærri 13%. Þó er vitað að inn í þá útreikninga skortir upplýsingar. Þar er um að ræða þjónustugjöld sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um hversu mikið skuli hækka, en mér skilst að hækkunarbeiðnirnar séu á milli 40 og 50%. Hér er átt við Hitaveitu, Rafmagnsveitu og gjöld Strætisvagna Reykjavíkur. Aðeins 10% hækkun á þessum gjöldum kemur til með að hækka framfærsluvísitöluna um milli 0.6 og 0.7%. Það liggur því ljóst fyrir af þessu, að framfærsluvísitalan 1. maí verður ekki undir 13%.

Ég skal ekki vera með neinar hrakspár. Ég hef ekki lagt það í vana minn og hef heldur talið eðlilegra og réttara að við gerðum okkur grein fyrir málunum og virtum fyrir okkur hvað fram undan er. Ég held að það hafi ekki komið fyrir þegar ég hef talað úr þessum stól eða látið eitthvað frá mér fara í tölum varðandi þróun mála, hvort heldur það er í sambandi við efnahagsmálin eða fjármál ríkisins, að þær tölur hafi ekki fyllilega staðist. Því fer miður vissulega fyrir þjóðfélagið og þjóðfélagsþegnana, því að hversu hart sem við deilum í stjórnmálum skulum við þó alltaf vera með því hugarfari að það, sem aflaga hefur farið, sé því miður.

En ef við berum saman þróun mála á árinu 1979 og 1980 horfir uggvænlega, að mér sýnist, því að vísitöluhækkunin 1. febr. 1979 var 4.7%, en er 1. febr. 1980 9.11%. Hækkun framfærsluvísitölunnar 1. maí 1979 var 12.38%, en eins og ég sagði áðan verður hún ekki undir 13% 1. maí n. k. Árið 1979 endaði með því að framfærsluvísitöluhækkunin frá upphafi árs til loka var 61%. 13% framfærsluvísitöluhækkun þýðir að verðbólgustigið er komið yfir 63%, komið nærri 65%. Þegar lagt er svo fram frv. á Alþ. um 2% söluskattshækkun telja menn ekki ástæðu til þess að alþm., sem eiga að greiða atkv. um frv., fái tækifæri til að skoða málið og þaðan af síður tækifæri til að tala í málinu.

Hér er á ferðinni dæmigert frv. fyrir stefnuleysi núv. ríkisstj.: eitt frv. í viðbót um auknar skattaálögur, eitt frv. í viðbót til að auka á dýrtíðina, eitt frv. í viðbót til að minnka kaupmáttinn í landinu. Frv., sem innifelur öll þessi atriði, er ekki talið þess virði að tími sé gefinn til þess að ræða málin á þingi. Ég veit að hv. frsm. i. minni hl. fjh.- og viðskn. meinti ekki það sem hann sagði áðan þegar hann talaði um að halda umr. áfram á morgun. Ég er sannfærður um að það var sagt óhugsað. (Gripið fram í: En ég held að hann meini það. ) Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi verið óhugsað. Ég er sannfærður um að ef slíkt yrði gert væru hlutirnir farnir að breytast æðimikið á Alþingi Íslendinga. Ég hef ekki trú á að þessi hv. þm. óski eftir því, jafnvel þó hann tilheyri ungu kynslóðinni í Framsfl.

Það er enn fremur rétt að víkja að því hér, áður en komið er að efni frv., hvernig að þessu máli hefur verið staðið með tilliti til þeirra laga sem sett voru á síðasta þingi og ýmsir þm. voru hreyknir af að setja, en ég hefði hins vegar talið að væri skólabókardæmi um hvernig ekki á að semja lög. Það eru hins vegar í lögunum örfá ákvæði.

Þó þau séu nánast meira um stefnumið og þar að lútandi orðalag eru samt sem áður ákveðin atriði í lögunum sem segja til um með hvaða hætti fara skuli með ákveðin frv., þ. á m. það frv. sem hér um ræðir. Það er tekið fram í þessum ákveðnu lögum — ég á þar við lögum um efnahagsmál — hvernig fjárlög skuli lögð fram og hvað þeim skuli fylgja, þ. e. lánsfjáráætlun. Það er ekki bara nefnt orðið framkvæmda- og lánsfjáráætlun, heldur er talið upp til öryggis fyrir þá sem færu með stjórn landsmálanna hvað í lánsfjáráætlun skuli standa, frá hverju hún skuli skýra. Lánsfjáráætlun var lögð fram haustin 1975, 1976 og 1977 án nokkurrar lagaskyldu. Ég beitti mér fyrir því á sínum tíma að hún yrði samin og Alþ. gerð grein fyrir þessum hlutum á réttum tíma, þ. e. við afgreiðslu fjárlaga. Það þótti réttara, til þess að það væri ekki að dragast fram eftir hausti, til 2. umr., að leggja fram lánsfjáráætlun, að það skyldi lögbundið. Það átti að taka af allan vafa. Engin ástæða var til að líta í lánsfjáráætlanir frá fyrri árum, hvað í þeim hefði staðið, en það var lögfest til að taka af allan vafa hvað í lánsfjáráætlunum skyldi standa. En víð erum komnir að lokaafgreiðslu fjárlaganna. Það hefur að vísu verið lagt fram fskj. um lántökur vegna framkvæmda í A-hluta fjárlaga og B-hluta, en það bólar ekki á því, sem í raun og veru er mergurinn málsins þegar Alþ. er að ræða fjárlög, hver sé efnahags- og fjármálastefna ríkisstj.

Í lögunum um efnahagsmál er gert ráð fyrir að haft skuli samráð við ákveðna aðila þegar um sé að ræða ráðstafanir í efnahagsmálum. Og það er ekki aðeins að það standi í lögunum um efnahagsmál, heldur er það undirstrikað í stjórnarsáttmálanum að við framlagningu á tillögum í efnahagsmálum skuli haft samráð við ákveðna aðila þar að lútandi. Frv., sem hér er til umr., hefur aldrei verið sýnt aðilum vinnumarkaðarins. Þeir fengu enga vitneskju um málið. Þetta kom glöggt fram á fundum í fjh.- og viðskn. Ég veit að meðnm. mínir eru reiðubúnir að staðfesta það sem hér var sagt. Þessu var ekki mótmælt. Það var hvorki talað við þá aðila, sem gert er ráð fyrir í lögum að haft sé samráð við, né heldur að Alþ. hafi verið kynnt þetta mál með nokkrum fyrirvara áður en það var lagt fram.

Það kom fram áðan hjá form. þingflokks Alþfl., að á sunnudagskvöldið var fundur haldinn af hálfu forsrh. með formönnum þingflokka og þeim þar kynnt málið og spurðir álits á hvort þeir teldu möguleika á framgangi málsins fyrir hátíðar. Það staðfestir að stjórnarandstöðunni var ekki kunnugt um það. Og mig grunar að það gildi um fleiri þm. en þm. stjórnarandstöðunnar, að þeir hafi ekki haft hugmynd um þetta frv. fyrr en það var lagt á borð alþm. á mánudaginn eftir hádegið. Að því hefur einnig verið ýjað hér úr ræðustól, að jafnvel hafi menn ekki haft hugmynd um samkomulagið sem sagt var að gert hefði verið um að lækka 2% niður í 11/2%, og sumum hverjum fulltrúum í ríkisstj., ráðh., hafi ekki verið þetta ljóst fyrr en þeir heyrðu lesið upp í ræðustólnum af hv. 4. þm. Reykn. að samkomulag hefði tekist um að það skyldi nú ekki keyrð í gegn 2% hækkun, heldur aðeins 11/2%.

Ég segi: Þetta eru vinnubrögð sem við getum ekki viðhaft hér. Mér er mjög vel ljóst að ríkisstj. sækir oft eftir því að fá frv. sín fram og stundum finnst þm. það gerast með of miklum hraða. Ég skal viðurkenna að slíkt hefur átt sér stað, að menn hafa ætlað að hraða málum um of. En þá hafa forsetar Alþ., sem eru fulltrúar þm., tekið í taumana og beint mönnum inn á réttar brautir. Það hefur stundum gerst að stjórnarandstaðan hefur einmitt með því að ræða málin við ríkisstj. og ráðh., með því að ná samkomulagi um málsmeðferð getað komið að þeim sjónarmiðum og ríkisstj. náð málinu miklu fyrr fram en hefði orðið ef til slíkrar pressu hefði komið.

Það er nú komið svo í þingsalnum að ekki er einn einasti ráðh. viðstaddur. — Hæstv. forsrh. situr þarna í milliherberginu. Þar kom annar til viðbótar. Hann var kominn á þingmannabekk. Kannske er það fyrirboði, maður veit það ekki. — En ég veit að forsrh. hefur heyrt það sem ég sagði. Ég er líka sannfærður um að hann leggur vel við hlustirnar þegar á þarf að halda og vonandi verður árangur af því sem hann hefur heyrt.

En ég held að ef við ætlum okkur að fara að viðhafa slík vinnubrögð hér á Alþ. sé illa fyrir okkur komið. Við getum, eins og ég sagði áðan, skipst á skoðunum og haft harðar skoðanir og ákveðnar, en ég held að það geti aldrei komið til þess hér að við fáum ekki tækifæri til að skiptast á skoðunum í sölum Alþingis. Hvar annars staðar — ég segi: hvar annars staðar eiga þjóðkjörnir fulltrúar að skiptast á skoðunum, láta í ljós skoðanir sínar, en í sölum Alþingis? Ég veit að til eru víða þjóðlönd þar sem þess er ekki óskað að skoðanaskipti fari fram, en ég trúi því ekki að það séu neinir hér sem óski eftir því að færa störf Alþ. í það horf.

Ég vildi í upphafi gera nokkra grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi málsmeðferðina og því, að hér er ætlað að keyra áfram frv. um nýja skattlagningu, hér er ætlað að keyra áfram frv. sem kemur til með að magna verðbólguna og gera erfiðleikana, sem við eigum við að glíma í þeim efnum, miklu meiri. Ég taldi rétt að víkja að því og benda á að þegar rætt er um tekjuöflun ríkissjóðs til að ná peningum, sem fyrir hendi voru, í olíustyrk erum við að ræða miklu stærra mál. Við erum að ræða hvort við ætlum að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á — þeirri óðaverðbólgubraut. Ef fer sem horfir verður árið 1979 ekki lengur metár. Það met stendur ekki nema í eina 12 mánuði. Árið 1980 verður búið að slá það út. Menn telja ekki ástæðu til að staldra við. Menn telja ekki ástæðu til þess að setjast niður og gera sér grein fyrir þessum hlutum.

Ég vék áðan að því sem ég taldi að á skorti í sambandi við þessa málsmeðferð. Það er ákvæði í lögum um efnahagsmál um samráð við samtök launþega í landinu. Fjh.- og viðskn. taldi eðlilegt að gefa þessum aðilum kost á að tjá sig um málið, og þeir komu á fund eftir hádegið í gær og lögðu þar fram samþykktir sem sýna okkur hvernig á þessi mál er þar lítið. Það er eðlilegt og skiljanlegt þegar þessar samþykktir eru lesnar, en þær eru birtar sem fskj. með nál. 2. minni hl., hvers vegna menn vildu ekki hafa samráð. Ég hef ekki þá trú, að menn eigi aðeins að hafa samráð ef þeir reikna með jákvæðum undirtektum. Það er kannske minni ástæða til að hafa samráð ef menn eru sammála. Þá er e. t. v. minni ástæða til að heyra hvað gagnaðili segir. Það er einmitt þegar búast má við að menn séu ekki sammála að leitað er samráðs og reynt að finna leið til að ná sameiginlega að því markmiði sem hér var og er fyrst og fremst fjármögnun á olíustyrkjum.

Hjá hv. frsm. 1. minni hl. kom fram áðan að þessi 2% hækka launin í landinu um 4 milljarða. Það eru 4 milljarðarnir sem útgjöldin eiga að vera til olíustyrksins. Með því að ná 4 milljörðum í olíustyrk, sem er meginsjónarmiðið með þessu frv., er vísitalan látin hækka og launaútgjöld í landinu hækka um nákvæmlega sömu krónutölu. Sjá menn ekki í raun og veru hvað hér er að gerast? Ég hef ekki enn hirt um að víkja að því sem er til hliðar við þessa 4 milljarða, en það er að olíuverðshækkunin er notuð til að ná í viðbótartekjur í ríkissjóð. Það er ekkert verið að virða fyrir sér hvað í raun og veru þetta þýðir fyrir kaupmátt launa. Og einfaldlega vegna þess að menn áttu von á þeim yfirlýsingum, sem hér eru birtar sem fskj. leituðu menn ekki samráðs. Hæstv. ríkisstj. hefur þegar látið stuðningsmenn sína flytja tillögur við fjárlögin um tekjur og útgjöld og ætlar sér bersýnilega, eins og komið hefur fyrir áður hjá vinstri stjórnum, að samþykkja fjárlög áður en tekjuöflunarfrv. hafa verið samþykkt. Ríkisstj. ætlar sér bersýnilega að taka inn í fjárlagafrv. tekjurnar af 1.5% söluskatti og deila þeim út þannig: 4 milljarðar í olíustyrk, 500 milljónir í rannsóknir og afgangurinn til að styrkja stöðu ríkissjóðs. Ég held að það væri mun skynsamlegra fyrir ríkisstj. að óska eftir frestun á þessum umr. og taka til við málið strax og Alþ. kemur saman að loknu páskafríi, væntanlega miðvikudaginn eftir páska. Þá sýndist mér að eðlilegur tími til afgreiðslu þessa máls væri sú vika og þá væri hægt að ljúka afgreiðslu málsins. Þá fengju þm. tækifæri til að skoða það, gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og þeim afleiðingum sem frv. hefur.

Frv., sem hér er til umr., er til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð vegna olíuverðshækkana. Það er verið að nota hina miklu olíuverðshækkun og afleiðingar hennar til að afla ríkissjóði tekna. U. þ. b. 25% eða fjórðungur landsmanna hefur ekki aðgang að innlendum orkugjöfum og verður því fyrir barðinu á þeirri miklu olíuverðshækkun sem verið hefur á undanförnum árum og varð mikil á s. l. ári. Þessi olíuverðshækkun hafði áður verið að hluta til greidd niður með styrkjum frá ríkissjóði, en það er í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. þurrkað út. Ef ég man rétt var í fyrstu útgáfu frv. gert ráð fyrir 2.3 milljörðum í olíustyrk. Nú er ætlunin að hann verði 4 milljarðar. Leiðin til þess að hann verði 4 milljarðar er að þurrka út fyrst 2.3 milljarðana og leggja síðan á nýja skatta, ekki bara fyrir 4 milljörðum, heldur á ársgrundvelli fyrir þrisvar sinnum 4 milljörðum. Ég get vel ímyndað mér að söluskattstigið komi til með að skila nærri 6 milljörðum á ári, þannig að skattheimtan verði á þessu ári ekki nema 7 milljarðar, eins og gert er ráð fyrir með lækkuninni úr 2% í 1.5%. Og með því verður niðurstaðan ekkí 12, heldur 9.5 milljarðar, þ. e. einn tugur milljarða bætist við skattheimtuna. Þetta er gert í stað þess að halda þeim olíustyrk inni í fjárlagafrv. sem var og nota hluta af tekjuauka ríkissjóðs á s. l. ári vegna olíuverðs- og bensínhækkunar til að bæta við og ná þeim 4 milljörðum sem hér er hugsað að leggja til.

Mér var sagt í fyrrahaust að tekjur ríkissjóðs af hækkun olíu og bensíns á ársgrundvelli væru nokkrir milljarðar. Það var ekki talið sanngjarnt að nota eins og 1.7 milljarða til að auka olíustyrkinn og þá sleppa við nýja skattlagningu. Þetta kostaði auðvitað það, að fara varð ofan í saumana á ríkisútgjöldunum, eins og talað er um í stjórnarsáttmála ríkisstj. Það kostaði auðvitað það, að gæta varð aðhalds í rekstrargjöldum hjá ríkissjóði. En það var alls ekki hugsunin hjá hæstv. ríkisstj., heldur hitt, að ná í meira fjármagn til að eyða. Það sýnir sig best með því að með þessu frv. er ekki aðeins ætlað að ná inn fyrir olíustyrknum, heldur teknir nokkrir milljarðar í viðbót til að auka enn á útgjöld ríkissjóðs.

Sjálfstæðismenn gera sér mjög vel grein fyrir því, að olíustyrkur verður að vera í útgjöldum fjárlaganna, enda beittu þeir sér fyrir því á sínum tíma að greiddur yrði olíustyrkur, þegar olíuverðshækkunin mikla varð á árinu 1973. Í þessum sal var vakin athygli á því máli og stjórnarandstaðan þá gekk til liðs við stjórnarliða. Sjálfstæðismenn hafa því í meðferð fjárlaga gert tillögur um með hvaða hætti olíustyrkurinn skyldi fjármagnaður án þess að lagðir yrðu á nýir skattar. Það kostaði auðvitað að framkvæma varð samdrátt á öðrum sviðum. Það hafa menn ævinlega verið að tala um, en hafa átt erfitt með, a. m. k. vinstri flokkarnir þegar þeir hafa ráðið ferðinni, að draga saman og nota minna fjármagn af þjóðarframleiðslunni til hins opinbera. En þetta frv. stefnir að sjálfsögðu í hina áttina, að meira fjármagn rennur til ríkissjóðs, stærra hlutfall af þjóðarframleiðslunni, og þá verður minna fyrir þjóðfélagsþegnana til ráðstöfunar. Upphæð þess olíustyrks, sem sjálfstæðismenn leggja til, er 5 milljarðar, þ. e. 25% hærri tala en ríkisstj. hyggst hafa til meðferðar samkv. þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Með hvaða hætti menn hugsa sér þessa ráðstöfun hefur ekki fengist upplýst við meðferð málsins. E. t. v. skapast tími fyrir ráðh. til að vinna að því á þeim dögum sem Alþ. verður í leyfi. Það hvarflaði að mér, þegar hv. frsm. 1. minni hl. stakk upp á því að við yrðum hér á morgun í umr., að miklu skynsamlegra væri að ríkisstj. sæti á fundum á morgun til að gera sér grein fyrir því, hvernig hún hygðist útdeila þessum peningum, og þingið fengi vitneskju um það þegar það kæmi til funda aftur og þá lægi málið allt miklu ljósar fyrir.

Í nál. á þskj. 279 er skýrt tekið fram með hvaða hætti við sjálfstæðismenn höfum lagt til að þessum vanda verði mætt, og ég vonast til þess, að við afgreiðslu fjárlaga sýni stjórnarliðar okkur að þeir séu reiðubúnir til að draga saman útgjöld ríkissjóðs, reiðubúnir til að hætta við að leggja á nýja skatta og reiðubúnir til að veita fjármagn í olíustyrk. Það geta þeir gert með því að standa með okkar tillögum víð 3. umr. fjárlaga. (Gripíð fram í.) Jú, jú, aðrar slíkar till., sem koma og stefna í sömu átt, er að sjálfsögðu rétt að samþykkja.

En það er ekki úr vegi, þegar verið er að ræða olíustyrkinn, að örlítið sé vikið að þeirri viðbótarskattlagningu sem átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum. Það er ekki einu sinni hægt að segja: undanförnum árum, því að tæp 2 ár eru liðin síðan vinstri stjórnin tók við völdum og svo háar upphæðir í viðbótarskattlagningu hafa verið lagðar á þjóðfélagsþegnana að ástæða er til að rifja þær upp, ég tala nú ekki um þegar verið er að leggja á á annan tug milljarða í nýjum sköttum.

Mér telst svo til, að ef þetta frv. verður að lögum nemi ný skattlagning frá því á miðju ári 1978 40 — 45 milljörðum kr. Ef þær álögur giltu í dag sem giltu fyrir valdatöku ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1978 væru skatttekjur ríkissjóðs minni sem næmi 40–45 milljörðum kr. Og þegar verið er að auka þessa skattbyrði um 25%, eins og með þessu frv., telja menn ekki ástæðu til þess að Alþ. eyði svo mikið sem hálfum degi til að ræða þessi mál. Menn telja bara að af því að frv. hafi verið lagt fram þurfi það að fara í gegn, hversu vitlaust sem það er og hversu slæmar afleiðingar sem það kemur til með að hafa. Af því að það var lagt fram skal það í gegn, hversu vitlaust sem það er og hversu slæmar sem afleiðingarnar verða. Ef við alþm, eigum að lifa eftir slíkri forskrift bið ég guð að hjálpa mér, hafandi þessa ríkisstj. Hvaðan svo sem menn hafa þessa forskrift ætla ég að vona a. m. k. að fulltrúar þm., þ. e. forsetarnir, láti ekki ríkisstj. komast upp með slíkt.

En víkjum að þessum sköttum öllum saman. (Gripið fram í: Það er nú bara einn.) Það er rétt. Við erum að ræða hér um nýjan skatt. En þá spyr ég: Er ekki ástæða til að spyrja hv. þm. hvort það hafi verið nokkurn tíma lagður á nýr skattur frá því að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók við 1978? Og er þá kannske ekki ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hyggist halda öllum sömu sköttunum og vinstri stjórnin setti og hvort hann ætli svo að bæta við nýjum sköttum? Ég man ekki betur en þegar hann var á „Beinni línu,“ og það hefur verið birt í blöðum, hafi hann sagt: Það verða ekki nýir skattar lagðir á. (Gripið fram í.) Ég held að ég fari alveg rétt með það. Hann lýsti því þar yfir að það yrðu ekki lagðir á nýir skattar. Hann ætlar samt sem áður að viðhalda hækkuðum tekjuskatti frá vinstri stjórn. Hann ætlar að viðhalda hækkuðum eignarskatti frá vinstri stjórn. Hann ætlar að viðhalda 2% hækkun söluskatts frá vinstri stjórn. Hann ætlar að viðhalda hækkun vörugjalds. Hann ætlar að viðhalda nýbyggingagjaldinu. Hann ætlar að viðhalda sköttunum á verslunarhúsnæði. Hann ætlar að bæta við sköttum: Hækkanir á bensíni umfram verðlagshækkanir 10 milljarðar. Þetta er ekki neitt í hans huga. Og ég segi: Er þá nema eðlilegt að menn velti því fyrir sér, hvaða skoðanir hæstv. forsrh. hafi haft á þessum málum? Er það rétt að það, sem við höfum lesið og hlustað á hann segja í sambandi við skatta og skattbyrði, hafi allt verið í þá veru að hann vildi hækka skatta, hann vildi þyngja skattbyrði? Var þetta þá allt þannig? Mér fannst einhvern veginn að ég hefði heyrt hann segja að hann vildi lækka skatta, hann teldi að skattbyrðin mætti ekki komast upp fyrir ákveðið hlutfall, þá færi að draga úr löngun manna til að vinna, draga úr sjálfsbjargarviðleitninni.

1977 var skattbyrðin af tekjum þess árs 10.6%, og þótti mörgum nóg innheimt af þáv. fjmrh. og töldu að það mætti vera minna. Nú er skattbyrðin komin upp í 14.2%. Ríkisútgjöldin sem hlutfall af þjóðarframleiðslu voru þá 27%. Hann þótti ógurlegur eyðsluseggur, sá fjmrh. Ég minnist þess, að þáv. orkumálaráðherra talaði um að setja þak á fjárlögin, menn gerðu sér þá fyrst grein fyrir hvað þeir ætluðu að eyða miklu, hvað þeir ætluðu að hafa miklar tekjur og svo eyddu þeir ekki meira en þeir hefðu í tekjur. (Gripið fram i.) Ég sagði það. Þáv. iðnaðar- og orkuráðherra.

Núna er dæmið þannig, að þegar menn eru komnir upp í hæsta skattstigann greiða þeir orðið allt upp í 85% til ríkisins. Beinu skattarnir hafa hækkað, og hæstv. forsrh. ætlar að viðhalda því, um 25%. Óbeinu skattarnir hafa hækkað líka. Um 4 kr. af hverjum 5 kr., sem þessir aðilar hafa, ganga til ríkisins í heild þegar komið er upp í hæsta skattstiga.

Ég veit að hæstv. forsrh. hafði ekki þessar skoðanir þegar hann á sínum tíma var fjmrh. Í ræðu á Alþ. 1972 vék hann sérstaklega að skattamálunum og nefndi alveg ákveðnar tölur um það sem hann taldi vera algjört hámark hjá skattgreiðanda svo að sjálfsbjargarviðleitnin væri ekki drepin. Með leyfi forseta ætla ég að lesa úr ræðu sem hæstv. forsrh. flutti hér 1972 við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1973. Þá segir hann:

„Varðandi skattamálin skal ég fara fljótt yfir sögu. Það gefast önnur tækifæri til að ræða þau mál. En það er algjör nauðsyn að spyrna hér við fótum og lækka stórlega hina beinu skatta, sem ríkið tekur til sín. Sumpart verður það auðvitað að gerast með verulegri lækkun ríkisútgjaldanna og sumpart með því að taka þarfir ríkissjóðs meira með óbeinum sköttum en beinum. Um rökstuðninginn fyrir því þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum. Það er ljóst og er held ég reynsla flestra þjóða, að háir beinir skattar draga úr vinnulöngun manna.“ — Og síðan kemur: „Þeir minnka þjóðartekjurnar, því að þegar skattborgari hefur náð hámarksskattstiga og önnur hver króna“ — takið eftir: „önnur hver króna eða jafnvel 2 af hverjum 3, sem hann vinnur sér inn til viðbótar, fara í skatt, þá finnst mönnum sem þeim sé refsað fyrir framtak og sjálfsbjargarviðleitni, og háir beinir skattar vinna gegn sparifjársöfnun, valda stóraukinni hættu á undandrætti og skattsvikum, auk þess sem beinir skattar eru dýrari í álagningu og innheimtu en óbeinir skattar.“

Þegar þetta hefur verið lesið og borið saman við framkvæmd núv. hæstv. ríkisstj. í skattamálum undir forsæti Gunnars Thoroddsens, sem þetta sagði, er hér mikill munur á. Það, sem hann sagði í þessari ræðu, er enn í gildi að mínum dómi. Það má vel vera að hann hafi skipt um skoðun og hann telji í dag að það dragi ekki úr sjálfsbjargarviðleitni manna að greiða háa beina skatta, — ég tala nú ekki um þegar bæði beinir og óbeinir skattar eru orðnir svo háir, eins og ég sagði áðan, að af seinustu 10 kr., sem maðurinn vinnur sér inn, fari 8 til ríkisins.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að það sé skynsamlegast í þessu máli að þessari umr. sé frestað fram yfir páska og að ríkisstj. fari að tillögum frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. og komi sér niður á það á morgun — eða hvaða aðra daga þeir nota — hvernig þessu gjaldi eða þessum tekjum skuli útdeilt, þannig að menn viti, þegar verið er að samþykkja slíkt frv., til hvers nota skuli fjármagnið.

Ég held að þau vinnubrögð, sem ríkisstj. hefur viðhaft, séu þess eðlis að þau eigi að forðast. Það er enn möguleiki á að gera það. Ég trúi því, að forseti deildarinnar kanni það, þar sem nú er senn liðið að hádegi, hvort menn telji þetta ekki skynsamlegra en að hér fari fram umr. og hér sé reynt að pressa fram afgreiðslu á svo stóru máli sem ég hef hér lýst. Slík málsmeðferð sem hér á að viðhafa er ekki að mínum dómi Alþ. til sæmdar.

Eins og fram kemur á nál. á þskj. 279 og heyra má af máli mínu mæla fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. gegn samþykkt þessa frv., hvort heldur er með þeirri brtt., sem fram er borin, eða ekki.