20.12.1979
Efri deild: 8. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

9. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að hjálpa til við að afla þeirra upplýsinga sem d. óskar eða nefnd. Ég tel eðlilegt að það komi þá til umfjöllunar í n. En ég held að sérstök ástæða sé til að benda á að við viðfangsefni eins og þetta sé rétt að hafa í huga að aðferðin sé þannig, að hún stuðli að olíusparnaði. Þetta var það grundvallaratriði sem menn höfðu í huga. Þess vegna er það áreiðanlega mjög varasöm leið, sem farin var hér áður fyrr, að greiða niður olíuna og stofna olíusjóð. Sú aðferð stuðlar ekki að því að menn ástundi sparnað í olíunotkun.

Það, sem gert er með þessu olíugjaldi eins og það er nú, er, eins og deildinni er kunnugt, það að hlutur útgerðarinnar í aflaverðmætinu er aukinn með þessum hætti til þess að unnt sé að standa undir þeim kostnaði sem af olíuverðsbreytingunum hefur leitt. Það er ekki um það að ræða, að hér sé neinn sjóður eða neitt af því tagi, heldur er hér fyrst og fremst um að ræða breytingu á hlut útgerðarinnar í þeim tekjum sem af fiskveiðunum fást.