02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

135. mál, orkujöfnunargjald

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Hv. 6. landsk. þm. hefur ítrekað varpað fram fsp. til forseta um fundarhald. Ég hygg að það sé misskilningur hans, að hv. 3. þm. Austurl. hafi krafist fundar á morgun eða um páskahelgi, heldur tók ég svo eftir að hann hafi vikið að því, að svo kynni að fara að fundarhald yrði hér á skírdag til þess að þau mál næðu í höfn sem hér eru til umr. Dagur er enn þá hátt á lofti og ástæðulaust fyrir forseta að taka neina afstöðu til þess enn sem komið er hvernig hagað verður fundarhaldinu. Það mun verða gert síðar og hv. þdm. tilkynnt um það jafnóðum. Nú eftir 12 mínútur eða svo er ákveðið að fresta fundi vegna þingflokksfundahalds, síðan hefst fundur í Sþ. kl. 3 og líklega lýkur honum ekki fyrr en um kl. 4. Þá er svo, að ef þingflokkar hyggjast notfæra sér hina föstu fundartíma miðvikudaga verður auðvitað ekki við því spornað, en farið fram á, ef svo skipast mál, að það verði þá stytt mjög til þess að hv. d. gefist kostur á að sinna áfram störfum sínum.

Til máls tekur hv. 7. landsk. þm., en ég minni hann á að hafi hann eigi lokið af ræðu sinni fyrir hálfþrjú, þá mun ég trufla þulu hans.