02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 278 liggur fyrir nál. frá meiri hl. sjútvn. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa. Það hljóðar svo:

„Nefndin hefur athugað frv. og kvaddi til fundar Jón Sigurðsson forstjóra Þjóðhagsstofnunar og Ingólf Ingólfsson.

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 254.

Alþingi, 1. apríl 1980.

Garðar Sigurðsson, Páll Pétursson, Halldór Ásgrímsson, Karvel Pálmason, með fyrirvara.“

Eins og menn hafa vafalaust tekið eftir eru mjög skiptar skoðanir um þetta mál. Það urðu miklar umr. hér þegar það var til 1. umr. og menn fundu því margt til foráttu. Að sjálfsögðu orkar olíugjald yfirleitt tvímælis. En afstaða mín er sú, að það sé mikilvægt að koma á fiskverði. Og eins og segir í frétt frá Verðlagsráði sjávarútvegsins er það forsenda þessarar ákvörðunar að lögum nr. 3 frá 1980, um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, verði breytt þannig að olíugjald lækki úr 5% í 2.5% af skiptaverði frá og með 1. mars 1980. Ríkisstj. hefur lýst því yfir, að frv. þessa efnis verði lagt fram á Alþ. í dag. Þegar tillit hefur verið tekið til þessarar væntanlegu lagabreytingar má lýsa niðurstöðum fiskverðsmálsins að þessu sinni í meginatriðum á eftirfarandi hátt:

Skiptaverð til sjómanna hækkar um 4%. Hlutur útgerðar í fiskverði hækkar um 0.6%. Hráefniskostnaður fiskvinnslunnar hækkar um 1.7%. Mér sýnist réttmætt að fara þessa leið af ýmsum ástæðum. Dregið hefur verið í efa hér að þetta hefði stoð í lögum. Ekki gerðu nm. í Verðlagsráði það og voru þó sérstaklega eftir því inntir áður en gengið var frá málinu í Verðlagsráði. Eyjólfur Ísfeld Eyjólfsson lét m. a. bóka: „Ég efast ekki um lagalegt gildi þessarar fiskverðsákvörðunar, en tel þó þessa afgreiðslu neyðarúrræði.“

Það eru fordæmi fyrir því, að fiskverð hafi verið ákveðið með tveimur atkv. Árið 1963 var verð á karfa ákveðið með tveimur atkv., þrír sátu hjá, og 1974 var með sömu atkvæðatölum ákveðið verð á loðnu.

Hvað varðar afturvirkni þá sem er í þessu frv., ef að lögum verður, þá er afturvirknin leiðinleg aðferð. En því miður hefur iðulega farið svo, að hún hefur verið látin gilda. Fiskverð var t. d. ákveðið í janúarlok í vetur, og það var ákveðinn olíustyrkur þá; ofan í ástand þar sem enginn styrkur var fyrir. Nú er þetta fiskverð miðað við 1. mars og þá er ekkert óeðlilegt að olíuverðið sé samferða.

Það þurfti að finna milliveg í Verðlagsráði. Sjómenn vildu fá 6.67% hækkun á fiskverði. Fiskvinnslan vildi láta fiskinn lækka um 12%. Niðurstaðan er sem sagt þessi: 4% hækkun til sjómanna. Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram í þessum umr., að kjör sjómanna þurfa að vera góð. Og ég vil gera það að lokaorðum mínum, að ég tel nauðsynlegt að gera vel við sjómenn. Þeirra starf er undirstaða undir því þjóðfélagi sem við lifum í í dag. Það verður ekki of rækilega undirstrikað, að við eigum þeim allt gott upp að unna. En ef við erum að reyna að stemma stigu við verðbólgu, þá verðum við að standa að nokkrum jöfnuði í launamálum, og þar með hygg ég að Verðlagsráðið hafi hitt á lausn sem eðlilegt sé að nái fram að ganga. Ég treysti því, að menn sýni því skilning að við þurfum að fá fiskverð og við komumst ekki af án þess að láta það taka gildi sem allra fyrst. En eins og ég sagði áðan er þessi lagasetning undirstaðan undir því að það geti öðlast gildi.