09.04.1980
Neðri deild: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, þá er full ástæða til þess að lýsa furðu sinni á þeim ummælum sem hv. þm., formenn þingflokka, bæði Framsfl. og Alþb., hafa látið eftir sér hafa í viðtölum við blöð nú rétt fyrir páskahelgina. Að vísu kemur mér ekkert á óvart það sem haft er eftir hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, formanni þingflokks Alþb. Maður er ýmsu vanur úr þeirri átt og býst við ýmsu þaðan. En það vekur meiri furðu mína, að jafngrandvar þm. og hv. þm. Páll Pétursson hefur verið til þessa — líklega er hann að spillast — skuli bera á borð þau ósannindi, ég vil kalla það bein ósannindi, sem eftir honum eru höfð í Tímanum s. l. fimmtudag.

Það er furðulegt að lesa það haft eftir Ólafi Ragnari Grímssyni í Þjóðviljanum, að stjórnarandstaðan — þar leggur hann alla stjórnarandstöðuna undir einn hatt — sé með málþóf og sé að tefja mál eins og það sem hér er nú á dagskrá í sambandi við olíugjaldið. Ég veit ekki til þess að einn einasti þm. t. d. úr Alþfl. hafi talað um það mál nema örfá orð við 1. umr. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu eins og góðum mönnum ber að gera. En mér er ekki kunnugt um að nokkur þm. Alþfl. hafi talað í því máli að undanskildum þessum örfáu orðum við 1. umr. málsins hér í d. Þó lýsir hv. þm. Ólafur Ragnar því yfir, að við höfum staðið að málþófi og verið að tefja þetta mál.

Það tekur því kannske ekki að vera að elta frekar ólar við eða ræða ummæli þessara hv. þm. Vonandi verður þetta víti þeim til varnaðar svo að þeir sjái að sér og bæti sinn málflutning. En þetta er a. m. k. að mínu viti ekki til þess að stuðla að því, að mál eigi greiðari gang hér í gegnum þingið, ef um deilumál er að ræða á annað borð. Það er enn þá furðulegra að sjá þetta, lesa og heyra þegar til þess er litið, að ég veit ekki betur en ég sé aðili að meirihlutaáliti nefndar varðandi þetta mál. Þó er okkur borið það á brýn, Alþfl.-mönnum, að við höldum uppi málþófi og tefjum málið í meðferð þingsins. Það má segja, að sjaldan launar kálfur ofeldið í þessu sem og öðru. En ekki meira um það í bili a. m. k.

Eins og fram kemur á þskj. 278, nál. meiri hl. sjútvn., hef ég skrifað undir það álit með fyrirvara. Ekki ætla ég að standa að málþófi nú, en ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir því, vegna hvers ég hafði fyrirvara á þessari uppáskrift.

Ég greindi frá því við 1. umr. málsins, að auðvitað mætti um það deila og auðvitað hefðu sjómenn óskað þess, að hærra fiskverð hefði verið ákveðið nú eins og oft áður. Það er engin spurning um það. Hitt sagði ég sem mitt álit, að lækkunin á olíugjaldinu yrði metin að mínu viti af hálfu sjómanna sem nokkuð upp í hærri fiskverðsákvörðun heldur en þau 4% sem ákvörðuð voru í Verðlagsráði. Ég skal ekki fara frekar út í þá sálma hér. En ég er þeirrar skoðunar, að sjómenn almennt og sjómannasamtökin hafi verið andvíg olíugjaldinu og telji að það eigi að afnema. M. a. er sú deila, sem risin er nú á Ísafirði og víðar á Vestfjörðum, til komin vegna olíugjaldsins. Eftir að endurskoðun sjóðakerfisins var lokið vilja sjómenn koma í veg fyrir að aftur verði byrjað að hlaða upp sjóðakerfi gagnvart sjávarútveginum. En ég skal ekki ræða meira um það.

Ástæðurnar fyrir því, að ég skrifaði upp á þetta nál. með fyrirvara, eru raunar tvær, kannske þrjár ef grannt er skoðað. Eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson kom að áðan, þá gerðist það á fundi í sjútvn. beggja d., að fulltrúi sjómannasamtakanna í Verðlagsráði, fyrrv. forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Ingólfur Ingólfsson, upplýsti það, sem er furðulegt að mínu viti að heyra, að hæstv. sjútvrh. hefði ekki á neinu stigi máls haft samráð við fulltrúa sjómannasamtakanna varðandi verðlagninguna og ef ég man rétt hefði hann meira að segja neitað viðtali við hann. (Sjútvrh.: Það er alrangt.)

Ég held ég muni þetta rétt, ég skal ekki fullyrða um það. Sé það rangt munað, þá leiðréttist það væntanlega. Ég man ekki betur en að þetta kæmi fram á fundi. En það er furðulegt að heyra þessa afstöðu. Það er nóg í mínum huga að fá yfirlýsingu um það, að hæstv. sjútvrh. hafi ekki á neinu stigi máls haft samráð við fulltrúa sjómannasamtakanna um verðlagninguna, þó að við látum hitt liggja á milli hluta. Enn þá furðulegra er að þetta skuli eiga sér stað í ríkisstj. sem hefur í sínum sáttmála sem eitt meginmarkmið að hafa samráð við fulltrúa launafólks í landinu í sambandi við ákvörðun í launa- og efnahagsmálum. Og enn frekar er þetta óskiljanlegt þegar í gildi eru í landinu lög sem kveða svo á að hafa beri slíkt samráð. Það er skylda. Það er lagaskylda. Og í þessu tilfelli fremur hæstv. sjútvrh. — sem fer með þetta mál, málið heyrir undir hann — þá fremur hann lagabrot með því að hafa ekki samráð við aðila í þessu efni sem og mörgum öðrum, eins og hér hefur komið fram í umr. Þetta er furðulegt. Ég vil við þessa umr. lýsa furðu minni á því, að menn skuli standa þannig að málum, beinlínis egna upp á sig andóf og andspyrnu vegna þess að menn sinni ekki eðlilegum umgengnisvenjum við fulltrúa launafólks í þessu máli.

Ég minnist þess frá framboðsfundum á Vestfjörðum á s. l. hausti, að það var aldeilis ekki þetta hljóð í núv. hæstv. sjútvrh. þá, þegar hann lýsti því fjálglega yfir, ekki bara á einum fundi, heldur mörgum og margoft, að hann legði megináherslu á að hafa fullt og gott samráð við fulltrúa launafólks um ákvörðun mála sem þessa. En það virðist ekki eiga við þegar hæstv. ráðh. sjálfur er kominn í þá aðstöðu að eiga að sinna þeirri skyldu að hafa þetta samráð. Þá er það ekki gert.

Í öðru lagi vil ég greina frá því, að mér fannst það afar ólýðræðislega með málið farið og óeðlilega af hálfu stjórnarliða í sjútvn. að neita því beinlínis að forseti Sjómannasambands Íslands og forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands kæmu á fund n. til þess að n. gæti kynnt sér viðhorf þessara manna, fulltrúa sjómannasamtakanna í landinu, til þessa máls. Og enn og aftur skal vitnað til þess, að það er beinlínis lagaskylda að hafa slíkt samráð. En því var hafnað af stjórnarliðinu í n., að þessir aðilar yrðu kvaddir til fundar við nefndina. Þessu ber auðvitað að mótmæla. Þetta eru óeðlileg og óæskileg vinnubrögð og til þess eins fallin að fá upp enn meiri togstreitu og andúð, og ætti að vera augljóst að slíkt er ekki til þess fallið að greiða fyrir framgangi máls sem þessa, sem er vissulega deilumál í þinginu.

Það væri kannske full ástæða til þess að segja meira um þetta hér. En ég vil að síðustu að gefnu tilefni, vegna þess að ég tel að það heyri til þessu máli, spyrja hæstv. sjútvrh. um það — eða hæstv. forsrh. kannske ekki síður, hver meining hæstv. ríkisstj. sé í að standa við þau fyrirheit sem gefin voru sjómannasamtökunum vegna samninganna haustið 1978 um hinn margumtalaða félagsmálapakka. Hér liggja nú í þinginu a. m. k. tvö frv. sem lögð voru fram af starfsstjórn Alþfl. og snerta það að staðið verði við þessi gefnu fyrirheit. Annað frv. varðar sjómannalögin, fjallar um veikindagreiðslur til sjómanna til samræmis við það sem var í félagsmálapakka til landverkafólks, en hitt varðar lögin um lögskráningu sjómanna. Að þessu leyti hefur ekki verið efnt það loforð sem sjómannasamtökunum var gefið haustið 1978.

Til viðbótar þessu er rétt að forvitnast um hvað hæstv. ríkisstj. ætlast fyrir um efndir á þriðja loforðinu, varðandi sjómannastofur. Í félagsmálapakkanum var líka loforð til sjómannasamtakanna um að gert yrði átak til þess að greiða fyrir byggingu sjómannastofa víðs vegar á landinu. Að tilhlutan Alþfl.-stjórnarinnar voru settar í þetta um 28 millj. í árslok 1979, ef ég man rétt. Ekkert er í fjárlögum ársins 1980 til þessa verkefnis og það var fellt hér af stjórnarliðinu við 3. umr. fjárlaga að taka inn fjárhæð til þessa verkefnis, sem er beinlínis loforð stjórnvalda til sjómanna. Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. — eða hæstv. forsrh., sem ég hef meiri trú á að mundi svara: Ætlar hann að beita sér fyrir því, að við þessi gefnu loforð til sjómannasamtakanna verði staðið, eða á enn einu sinni að svíkja það sem sjómönnum hefur verið lofað? Ég vænti þess, að annar hvor hæstv. ráðh. veiti svör við þessum spurningum. Það er nauðsynlegt að fá það fram, það tilheyrir þessu máli, hvort á að standa við þessi gefnu fyrirheit eða ekki. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi yfirlýsingu um það, helst á þá leið að við þetta verði staðið.