09.04.1980
Neðri deild: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Út af spurningum hv. þm. Karvels Pálmasonar vil ég fyrst segja það, að eins og kom fram hjá honum eru í þinginu tvö frv. sem eru úr sjómannapakkanum. Þau voru lögð fram af fyrrv. hæstv. samgrh. og ég fagna því. Ég hef síðan átt einn fund með fulltrúum sjómanna og ASÍ, sem hafa mótmælt mjög harðlega frv. um breyt. á sjómannalögum, því miður mjög harðlega, og hafa afhent mér víðtækar aths. við það frv. og reyndar fullyrt við mig að þar sé nánast í einu og öllu farið að till. LÍÚ, en ekki sjómanna. Ég ræddi strax í beinu framhaldi af þessu við formann þeirrar nefndar, sem er með frv., og óskaði eftir því, að formaður sjómannasamtakanna og fulltrúar ASÍ yrðu kvaddir á nefndarfund svo að þeir gætu gert grein fyrir þeim breyt. sem þeir telja nauðsynlegar á því frv. Ég harma að svona skyldi til takast, en mér sýndist það vera fljótlegri leið til að mæta — eins og þingið telur þá rétt — óskum sjómanna en að fara að leggja fram nýtt frv., sem kom til greina, því að það fyrra er komið til nefndar.

Um frv. um lögskráningu mun ekki vera sérstakur ágreiningur enda minni háttar mál. En áformin um sjómannastofur er vitanlega sjálfsagt að standa við og ég veit ekki betur en fullur vilji sé til þess að standa við þau.

Stærsta málið var breytingin á sjómannalögunum og það er afar slæmt að svo skyldi til takast sem ég hef rakið. En ég vænti þess, að sú hv. n., sem er með málið í Ed., taki það til meðferðar og lagi það.

Hér hafa ýmsir gert að umræðuefni samráð við sjómenn og yfirleitt við menn í Verðlagsráði sjávarútvegsins, m. a. hv. 1. þm. Vestf., sem að venju er ekki í þingsal þegar verið er að svara honum. En ég vil segja öðrum, að ég átti einn fund með öllum þessum aðilum. Ég átti einn fund með fulltrúum útvegsmanna og sjómanna saman. Og ef menn óska að fá að vita nákvæmlega dag og stund á þeim fundi, þá get ég upplýst það. Og mér þykir satt að segja undarlegt að það skyldi ekki koma fram hjá þeim. Ég átti einn slíkan fund þar sem þeir gerðu mér grein fyrir kröfum sínum og á hverju þær væru byggðar. Ég átti einn fund með fulltrúum fiskvinnslunnar. Hins vegar vil ég lýsa þeirri skoðun minni og skýra þá staðreynd, að fulltrúi ríkisstj. í Verðlagsráði er oddamaður, þaulkunnugur þessum málum, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, hinn mætasti maður, hygg ég að síðasti hv. ræðumaður geti tekið undir með mér. Hann situr á stöðugum fundum með hverjum einstökum þessum aðila og gerir ráðh. síðan grein fyrir því, hvernig málin horfa við. Ég er satt að segja ekki viss um að rétt sé að ráðh. sé að grípa fram fyrir hendur á þeim manni nema hann óski þess. Hann óskaði eftir því í einu tilfelli að ég staðfesti ákveðna hluti sem hann taldi að gætu orðið til samkomulags. Ég varð þegar við því og þar á ég við fiskvinnsluna. (Gripið fram í.) Hann skýrði mér jafnframt frá því, að hann hefði í samráði við fulltrúa sjómanna fengið vilyrði fyrir ákveðinni lausn, sem hann taldi að lægi á borðinu ef vissir hlutir gengju fram gagnvart fiskvinnslunni. Ég er því dálítið ósammála því sem hér hefur verið haldið fram. Að sjálfsögðu á ráðh. að koma til skjalanna, ef nauðsynlegt er til að leysa mál. Þetta lá fyrir, að þeir mundu fallast á ákveðna lausn með hjásetu sinni, þá lausn sem varð ofan á. Ég vil jafnframt geta þess, að ég átti fundi með formanni LÍÚ, sem hafði tjáð sig á móti, og það var athugað hvort einhver grundvöllur væri til að fá því breytt, en það reyndist ekki vera. Það er nú svona, sumir vilja vera með nefið í hvers manns koppi, en ég er ekki viss um að það sé æskilegasta leiðin í svona málum. Ég held að það sé réttara að treysta svo færum manni sem fulltrúa ríkisstj. og oddamanni í nefndinni til að fara sem mest með þetta mál, en vera reiðubúinn til, eins og ég sagði, að koma til skjalanna ef hann óskar og telur það nauðsynlegt. Þetta er sá starfsháttur sem ég tel eðlilegan. Aðrir kunna að vilja hafa annan hátt á e. t. v. að ráðh. taki sæti oddamannsins í nefndinni. En ég er ekki þeirrar skoðunar.

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál. Þær eru orðnar langar, ef páskar eru meðtaldir. En ég skal ekki vera að kenna neinum um þá töf út af fyrir sig. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, að ég tel afar æskilegt að þetta mál verði afgreitt án tafar, og ég veit að það verður, því að um það hefur orðið samkomulag og fagna ég því.

Ég ætla ekki að gera önnur atriði að umræðuefni utan eitt. Menn hafa deilt um það, hvort með þessu frv. séu brotnir samningar á útvegsmönnum. Ég hef einnig, frá því að umr. urðu fyrir páska, rætt við lögfróðustu menn um það, hvernig þeir líti á slíkt. Ég endurtek það sem ég sagði þá, að ekki einn einasti þeirra hefur tjáð mér að hann líti svo á að samningar væru brotnir. Lögin, sem sett voru í janúar, voru til staðfestingar á samningi fjögurra aðila. Tveir aðilar sögðu þeim grundvelli upp sem lögin voru á byggð, og því er forsenda fyrir þeim lögum brostin. Lögin eru til eins árs og með þeim rökstuðningi sem hér hefur komið fram má vitanlega hugsa sér að einn aðili hefði nánast neitunarvald um hvers konar breytingar á þeim lögum, t. d. formaður eða fulltrúi útvegsmanna, hann hefði þar með neitunarvald samkv. þeim rökum sem hér hafa komið fram. Ég vil láta þess getið, að ég kannaði þetta bæði fyrir og eftir þær umr. sem urðu síðast um málið. Allir hinir lögfróðustu menn hafa tjáð mér að því verði alls ekki haldið fram, að gengið sé á bak þeirra orða sem þá voru gefin, því að þau voru byggð á þessum grundvelli sem ég hef hér nefnt.

Margt fleira hefur komið fram í þessum umr., og mér skilst að menn hefðu sumir hverjir talið þann kostinn vænstan að fallast á 6.67% hækkun. Um það hefði getað orðið samstaða við sjómenn og útvegsmenn. Ég hef vakið athygli á því, að því hefði fylgt að sjálfsögðu verulega meiri leiðrétting gagnvart fiskvinnslunni, sem að sjálfsögðu hefði haft í för með sér meiri hækkun verðbólgu, ég held að menn þurfi ekki að deila um það.

Ég ætla alls ekki að fara að gera mikið úr launum sjómanna langt frá því. Þeir eru sannarlega þess verðugir sem þeir fá, á því er ekki nokkur vafi. Ég vil hins vegar segja það, að í öllum svona samningum er vitanlega jafnframt skoðað hvort rauntekjur hafa aukist og hvort að einhverju leyti megi rekja þær til meiri framleiðni, bættrar aðstöðu o. s. frv., og ýmsir telja að það megi í þessu tilfelli. Hv. 1. landsk. þm. er því ósammála. Hann þekkir þessi mál og ég er ekki að vefengja rök hans fyrir því. En aðrir sem eru þessu ekki síður kunnugir, hafa haft aðra skoðun.

Ýmislegt var það í ræðu hv. 1. þm. Vestf., sem gaman hefði verið að ræða. Ég veit að hann er manna fróðastur um sjávarútveg, enda kom það mjög rækilega fram í ræðu hans að fáir aðrir viti svo mikið sem hann, ég tala nú ekki um hæstv. forsrh. Hann veit að hans mati ekkert um sjávarútvegsmál. Ég held nú satt að segja að hér sé um svo viðkvæm mál að ræða, að menn eigi ekki að vera með slíkan málflutning, og von mín að ekki verði miklu meira af því hér.