09.04.1980
Neðri deild: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Örfá orð vegna þess sem hæstv. samgrh. sagði um afstöðu sjómannasamtakanna til frv. til l. um breytingu á sjómannalögum. Að frv. sé byggt á till. LÍÚ, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., er auðvitað hrein firra. LÍÚ er eðlilega andvígt öllum atriðum frv., þó mismunandi mikið andvígt hinum ýmsu greinum þess.

Um frv. var haft mjög víðtækt samráð við alla aðila, og þá fyrst og fremst fulltrúa sjómannasamtakanna, og ótal fundir haldnir með þeim, bæði hverjum fyrir sig og sameiginlega. Þess var freistað að ná sem allra víðtækastri samstöðu aðila og þá jafnframt reynt að taka tillit til þeirra atriða sem LÍÚ hafði mest á hornum sér. Þetta var gert í þeim tilgangi fyrst og fremst að freista þess að málið næði fram að ganga á hinu háa Alþingi.

Það voru tvö atriði sem ágreiningur var einkum um. Í fyrsta lagi vildu fulltrúar sjómanna að staðgengisreglan gilti ávallt, einnig í hinum mjög svo lengdu tímabilum sem sjómenn eiga að fá kaup í veikinda- og slysatilfellum ef frv. verður að lögum. Á þetta gat ég ekki fallist, enda ekki í samræmi við sambærileg lög sem sett voru vorið 1979 vegna landverkafólks.

Í öðru lagi — og það var í reynd aðalágreiningsatriðið — hvernig fara skyldi með tímabil þegar veiðar eru að tilstuðlan stjórnvalda bannaðar. Fulltrúar sjómanna vildu eðlilega að staðgengisreglan gilti á þessum tímabilum. Fulltrúar LÍÚ voru alfarið andvígir því og töldu sig hafa ýmis ráð til að komast fram hjá slíkum lögum, ef samþ. væru, m. a. að ráða sjómenn aldrei nema til skamms tíma í einu. Í frv. er ekki gert ráð fyrir sérstökum greiðslum í slíkum tilvikum. Þar á móti var reglum Aflatryggingasjóðs breytt þannig, að hann hefur heimild til að bæta sjómönnum, a. m. k. að hluta, tjón sem af slíkum aðgerðum stafar. Auðvitað eru þessi lög, sem hér er verið að tala um, lágmarksákvæði. Enginn bannar sjómönnum að semja um betri kjör.

Ég vil svo að lokum leiðrétta misskilning, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að þetta frv. sé hjá n. í hv. Ed. Ég náði ekki að tala fyrir þessu frv. fyrir síðustu stjórnarskipti. Hæstv. samgrh. verður því, ef honum sýnist svo, að tala fyrir málinu í hv. Ed., annaðhvort í núverandi mynd og þá með hugsanlegar breytingar í samgn. þeirrar deildar í huga, eða í breyttu formi ef hann telur það rétt vera. Aftur á móti er frv. til l. um breyt. á lögum um lögskráningu sjómanna komið til nefndar.