09.04.1980
Neðri deild: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það, sem veldur því að ég sé ástæðu til þess að standa upp, eru undarleg ummæli hæstv. sjútvrh. hér áðan, þegar hann var að fara í mannjöfnuð við hv. 1. þm. Vestf. um það, hvor hefði reynst happadrýgri sjútvrh. Ég verð að segja að mér finnst hann vera fullfljótur á sér að ætla að fara að líkja þeim saman strax. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá sem hv. 1. þm. Vestf. sagði áðan, að með því hvernig staðið er að þeim vanda sem útflutningsatvinnuvegirnir í heild standa frammi fyrir, er vissulega verið að ýta á undan sér hlassinu. Það er verið að slá á frest nauðsynlegum ráðstöfunum. Við vitum ofur vel að sú ríkisstj., sem nú situr, er að auka kostnaðinn við ríkisbáknið. Hún er að þyngja skattana, hækka álögurnar í staðinn fyrir að draga úr kostnaði. Með því að haga sér þannig er verið að kasta fleiri sprekum á verðbólgueldinn. Þetta vita allir menn. Þetta vita hæstv. ráðh., sem þarna sitja, að þannig hefur þetta verið.

Við getum aðeins íhugað hvernig ástandið er. Þegar þeir tóku við um mánaðamótin jan.—febr., þá byrjaði niðurtalningin. Núna er talið að verðbólgan til 1. maí muni verða einhvers staðar í kringum 13% a. m. k. Það þýðir að gera megi ráð fyrir að kaupgjaldsvísitalan hækki um 11–12%. Og ef menn rifja upp ummæli fulltrúa sjómanna við fiskverðsákvörðunina, þá hafði hann einmitt orð á því, að 2.6% eða svo hefðu ranglega verið tekin frá sjómönnum um áramótin og núna 2.67%. Þetta eru tæp 5.3%. Og ef við bætum þessu ofan á þær verðbætur sem óhjákvæmilega koma á almenn laun í landinu hinn 1. júní n. k., eins og ráðslagið hefur verið hjá þessari ríkisstj., þá mun þarna vera um að ræða kröfur frá sjómönnum um hækkun á launum til sín einhvers staðar á bilinu 16–17%, bara leiðréttingin. Eru þá ótalin í fyrsta lagi öll þau svik sem þeir ráðh., sem áttu sæti í síðustu vinstri stjórn, og hinir, sem síðan hafa bæst í hópinn, hafa, eftir því sem þeir hafa haft tíma til, framið á sjómönnum í sambandi við félagsmálapakkann, þar sem siðast var við nafnakall hér á Alþ. um daginn tekið frá þeim þetta lítilræði sem þeir höfðu von um að geta fengið þá. Ef við tölum jafnframt um þá miklu þyngingu á skattbyrði sem sjómenn hafa orðið fyrir, þvert ofan í það sem þeim var lofað, því að þeir voru sviptir kauphækkun um 2% með lögum 1. des. 1978 af því að það átti að lækka skattana, þá kemur í ljós að svikin og brigðin við sjómannastéttina eru ekkert lítil þegar allt er talið. Það er ekkert smáræði sem þarna hangir á spýtunni. Og það er ekki undarlegt þó hæstv. ríkisstj. sé hreykin og sé að státa sig, — það er ekki undarlegt eins og allt er í pottinn búið.

Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá, og það er alveg furðulegt um þessa ríkisstj., að það má ekki einn einasti maður, sem hefur laun eitthvað í samræmi við framtak sitt, er með launahvetjandi taxta og þar fram eftir götunum, bera eðlilega úr býtum það sem honum ber. Það verður að fara dýpra og dýpra ofan í vasann. Við skulum aðeins líta á eitt sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur mjög státað sig af. Það er persónufrádrátturinn. Við getum litið á það, hvernig skuldlaus sjómaður kemur út úr þeim skattalögum sem nú gilda. Ofan á þá miklu hækkun, sem þessum knöppu skattþrepum fylgir, er sjómannafrádrátturinn að hálfu frá þeim tekinn með flötu 10% frádráttarreglunni. Þar er einnig vegið að sjómönnum, vegið í sama knérunn. Og þegar allt er talið er enginn vafi á því, að sú kjaraskerðing, sem sjómannastéttin hefur orðið fyrir, er mjög veruleg þegar saman kemur í fyrsta lagi það, sem við kemur þeirra skattgjaldstekjum, í öðru lagi það, sem af þeim hefur ranglega verið tekið í sambandi við fiskverðsákvörðun, og síðast en ekki síst það, að þeir hafa ekki að einu eða neinu leyti fengið það sem þó aðrir hafa fengið að litlu í sambandi við félagsmálapakkann. Ég held að menn verði að hafa þetta sterklega í huga þegar verið er að tala um kjör þeirra. Ég verð einnig að geta þess, að fulltrúi sjómanna kom á fund í sjútvn. Alþingis og hann sagði ekkert þar sem gat gefið það í skyn, að eitthvað sérstakt leynisamkomulag hefði verið gert við hann í sambandi við þessa fiskverðsákvörðun, eins og hæstv. sjútvrh. gaf hér í skyn, heldur sagði hann þvert á móti að ráðh. hefði verið upptekinn við að tala við alla fremur en sjómenn í nefndinni, þó svo að þeir hafi hist á einum fundi.

Ég vil einnig að það komi alveg skýrt fram, án þess að ég ætli að lengja þessar umr. frekar en orðið er, að það er ekki rétt hjá hæstv. sjútvrh. að frekar megi búast við lækkun á olíu framundan á þeim tíma sem þessi fiskverðsákvörðun tekur til. Við höfum þvert á móti fengið upplýsingar um það í sjútvn., að þær olíubirgðir, sem keyptar voru til landsins á hærra verðinu og sumar á enn hærra verði en verið er að selja núna undanfarið, muni endast út maímánuð og vel það. Það eru af þeim sökum ekki neinar horfur á að olíuverðið lækki. Það er einhvers staðar úti í blámóðu fjarskans sem sú lækkun er, enda er ég hræddur um að flestir verði að láta segja sér oftar en einu sinni og kannske oftar en fimm sinnum áður en þeir trúa því að eitthvað fari lækkandi hjá þessari ríkisstj.