09.04.1980
Neðri deild: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

56. mál, mat á sláturafurðum

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er til l. um breyt. á lögum nr. 30 28. ágúst 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, er flutt af fyrirrennara mínum, Braga Sigurjónssyni. Frv. var lagt fyrir hv. Ed. og hefur hlotið þar afgreiðslu óbreytt eins og það var lagt fram.

Um s. l. áramót rann út frestur sá sem landbrh. hefur til að veita sláturleyfi í ólöggiltum sláturhúsum. Þó að mikið hafi verið unnið í uppbyggingu sláturhúsa á undanförnum árum er samt fyrirsjáanlegt að enn þarf að veita nokkur sláturleyfi í húsum sem ekki hafa hlotið löggildingu. Þetta er gert í samráði og samvinnu við yfirdýralækni eða héraðsdýralækni og að þeirra mati.

Það er nauðsynlegt að ná afgreiðslu á þessu máli og hefði í raun og veru þurft að afgreiða það á haustþingi, en eins og ástæður urðu þá hefur afgreiðsla þess dregist til þessa. Frv. veitir ráðh. heimild til þess að gefa slíka undanþágu sem hér um raðir til eins árs í senn í tvö ár, eða til ársloka 1982. Mál þetta er einfalt í sniðum og er venjubundið að afgreiða lög um þetta efni til skamms tíma í senn.

Ég leyfi mér að óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.