09.04.1980
Neðri deild: 57. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

135. mál, orkujöfnunargjald

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. Að vísu hefur hv. 6. þm. Reykv. tekið af mér ómakið af því að mæla fyrir minni eigin brtt. um breytingu á nafni fyrirsagnar þessa frv., en hann benti réttilega á það, sem og ég hef haldið fram og geri með flutningi brtt., að hér er að sjálfsögðu ekki um annað að ræða en breytingu á söluskattinum til hækkunar.

Ég undirstrika við þá sveitarstjórnarmenn, sem hafa kvartað um að lítið kæmi í hlut sveitarfélaga frá ríkissjóði, og jafnframt þá sveitarstjórnarmenn, sem enn eru með böggum hildar yfir því að meiri hl. í sumum viðkomandi sveitarstjórnum ætlar sér að beita þeirri heimild, sem hér var samþykkt með meiri hluta atkvæða stjórnarliðsins, að bæta tólfta prósentinu við útsvarið: Ef við samþykkjum brtt., sem ég hef lagt fram, eru möguleikar til að afstýra þessu. Það gerist með því, að ef önnur fyrirsögn verður á frv. og frv. heitir það sem ég legg til, þá mun að sjálfsögðu hluti af þeim umframágóða, umframskattheimtunni, sem ríkisstj. ætlar sér að heimta renna samkv. lögum um söluskatt í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og skiptast þaðan eins og lög mæla fyrir um.

Það hefði satt að segja verið full ástæða til að ræða þetta mál á víðari grundvelli en hér hefur verið gert í kvöld. Þar á ég að sjálfsögðu við hina eilífu togstreitu um hagsmuni þeirra sem búa á þéttbýlissvæðinu, búa við hitaveitu eða ódýra rafmagnshitun, og hina, sem búa víðs vegar um landið og þurfa að nota olíu til kyndingar húsa sinna. Við höfum hins vegar, held ég, öll á hv. Alþ. verið sammála um að okkur beri að taka úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til að létta undir með þeim sem hvað þyngsta bagga bera vegna þessa. Að því er verið að stefna með þessari leið, þótt það sé ekki sú leið sem við sjálfstæðismenn t. d. lögðum til að farin yrði við afgreiðslu fjárlaga eða höfum lagt til í sambandi við önnur mál sem sjálfstæðismenn hafa flutt á þingi.

Það er líka alveg rétt, sem hv. 3. þm. Vestf. hefur komið inn á, að þegar söluskatturinn er orðinn þetta hár, eins og við horfum fram á að hann muni verða, 23.5%, er orðin gífurleg freisting fyrir þá sem hafa með innheimtu þess skatts að gera, ef þeir hafa einhvern möguleika á, að svíkja undan honum. Það kemur jafnvel fram í einu dagblaðanna í dag frá einum af ábyrgðarmestu mönnum verslunarinnar, sem skrifar um þetta atriði og bendir líka réttilega á það, að þeir aðilar, sem er skipað með íslenskum lögum að gerast innheimtumenn ríkisins fyrir þessum gífurlega stóru upphæðum, hafa aldrei fengið krónu í sinn hlut fyrir slíka innheimtu. Ef þeir hafa fengið eitthvað, það eru kannske einhverjir sem hafa þá orðið að taka það sjálfir.

Ég minnist þess, að Skúli heitinn Guðmundsson alþm. flutti till. um þetta á sínum tíma þegar söluskatturinn sá fyrst dagsins ljós á hv. Alþ. Ég tók þessa till. hans upp og flutti hana nokkrum sinnum, en hún átti ekki fylgi að fagna hjá þáv. ráðamönnum.

Hér hefur verið talað um kjarasamningana og um mótmæli viðkomandi sambanda og um lagabrot, sem eru mjög í tísku um þessar mundir hjá hæstv. ríkisstj.,-brot á svokölluðum Ólafslögum. Að vísu hef ég alltaf haft þá skoðun, að það væri afskaplega lítið að brjóta, því þau væru bæði léleg og illa að þeim staðið, illa unnin og hefðu aldrei átt að vera í gildi stundinni lengur en kannske setningardaginn sjálfan eða samþykktardaginn, enda var það eitt af stefnumiðum sjálfstæðismanna í kosningabaráttunni að þessi lög yrðu þegar felld úr gildi. Við sjáum hér árangurinn af störfum sjálfstæðismannanna sem eiga sæti í núv. hæstv. ríkisstj.: Þeir hafa náð nokkru fram af kosningastefnuskrá Sjálfstfl., a. m. k. því, að óvirða þessi lög með öllu svo að þau eru talin hrein markleysa af þeim og öðrum.

En það, sem fékk mig til að koma upp í ræðustólinn að þessu sinni, og mér þykir leitt að þurfa að horfa upp á þann fýlusvip sem kom á andlit hæstv. forseta vegna þess að hann hélt að umr. væri lokið, það voru hinar einkennilegu umr. sem urðu á milli þeirra félaganna fyrrv., hv. 3. þm Vestf. og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundssonar, 7. þm. Reykv. Þarna þurftu þeir að kenna hvor öðrum um: þessi hefði viljað fara þessa leiðina til að skera af kjörum launþega og atmennings. Annar sagði að hinn hefði viljað fara hina leiðina, sem væri verri leið, en einnig í því fólginn að skera af kjörum launþeganna, og það hefði ekki verið hægt að ná samvinnu við Alþfl. á s. l. hausti um myndun ríkisstj. því hann hefði viljað lækka kaupmátt verkalýðs og annarra launþega. Þá stóð upp fyrrv. fjmrh. Alþfl. og sagði: Nú vill Guðmundur J. Guðmundsson, form. Verkamannasambandsins, rýra þessi sömu kjör og kaupmátt launa með nýrri og nýrri og sífellt aukinni skattheimtu á sama fólkið. — En bíðum nú við. Hvernig væri nú að líta aðeins aftur í tímann, líta aftur í stjórnartíð þá sem hefur verið kennd við Geir Hallgrímsson, þegar þessir sömu tveir menn stóðu hlið við hlið og þessir sömu tveir flokkar? Hvað sögðu þeir þá? Hver var stefna þeirra í þessum málum þá? Var hún sú þá, að það þyrfti að skera af kaupmætti fólks? Ó nei, hún var sú, að það mætti stórauka hann, eins og reyndar stóð til og var gert í samningum sem þó var allt of langt gengið fram í. Þetta segi ég um leið og ég skal viðurkenna, til þess að við þurfum ekki að standa í neinum frekari umræðum út af því, að kaupmáttarskerðingin á undanförnu tímabili til að ná okkur upp úr þeirri lægð, sem þjóðarbúið var komi í, gekk út í öfgar í þeirri stjórnartíð. Hitt er staðreynd, að það tókst að vega sig upp úr þessu.

En það var ekki talið nóg af þessum stjórnmálaflokkum þá eða fulltrúum þeirra, hvorki þeim þm., sem hér hafa talað í kvöld frá Alþfl., né Alþb. Þeir tala þveröfugt nú við það sem þeir töluðu þá. Þá var allt talið hægt. Strax eftir lögin í febr. 1978 og reyndar miklu fyrr var með aðgerðum, sem staðið var fyrir innan verkalýðshreyfingarinnar, og komu þó sérstaklega við sögu hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, hv. þm. Guðrún Helgadóttir innan sinna samtaka o. fl. o. fl., þá var barist fyrir kaupmáttaraukningu á Alþingi og í öllum stéttarfélögum landsins, þau misnotuð eins og hægt var pólitískt til að koma þáv. ríkisstj. frá völdum vegna þess að hún treysti sér ekki og vissi að það var ekki hægt að halda uppi þeim kaupmætti sem samið var um vorið 1977 við verkalýðshreyfinguna. Og þótt það hefði verið hægt út af fyrir sig var ekki hægt að semja eins við alla þá sem í kjölfarið komu, enda var ráðist að þessari aðgerð í febrúaraðgerðunum í stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar, vegna þess að sú ríkisstj., allavega forsrh. þeirrar ríkisstj. og stuðningsmenn hans, sagði sannleikann og tók út þá refsingu sem þessir tveir hv. þm., Guðmundur J. Guðmundsson og Sighvatur Björgvinsson, töldu að hún hefði átt skilið. Það gerðist í kosningunum 1978 og þeir komust til valda. Hvað gerðu þeir? Hvað varð af öllum stóru kröfuorðunum og loforðunum frá þeim? Og hvar eru þau í dag? Nú rífast þeir um hvort þessi eða hin leiðin sé betri til að svíkja enn betur og meir þá launþega sem þeir segja að þeir séu hinir einu og sönnu baráttumenn fyrir. — Og Guðmundur J. Guðmundsson leyfði sér að segja úr ræðustól áðan: Alþfl. er skömminni skárri, þegar á að gæta hags launþega, en Sjálfstfl. Ég hef einu sinni sagt í ræðu á þessum sólarhring á hv. Alþingi: Ja, svei! Og ég ætla að ljúka þessari ræðu með þeim orðum.