09.04.1980
Neðri deild: 58. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

135. mál, orkujöfnunargjald

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Alþfl. er þeirrar skoðunar, að meðal mikilvægustu viðfangsefna Alþ. sé að gera tafarlausar ráðstafanir til að jafna húshitunarkostnað landsmanna með fjárveitingu úr ríkissjóði og með breyttum og bættum reglum um framkvæmd jöfnunar á kyndikostnað. Til þess að svo geti orðið hefur Alþfl. á undanförnum vikum þrívegis flutt tillögur á Alþ. um jöfnun kyndikostnaðar. Minnihlutastjórn Alþfl. lagði til í fjárlagafrv. sínu að 2.3 milljörðum kr. yrði varið úr ríkissjóði sem framlagi hans til lausnar vandans án þess að fjárins yrði aflað með hækkuðum sköttum. Að auki lagði minnihlutastjórn Alþfl. fram frv. til l. um orkuskatt til frekari jöfnunar á orkukostnaði. Bæði við 2. og 3. umr. fjárlaga nú á dögum lagði þingflokkur Alþfl. til að 4 milljörðum yrði varið úr ríkissjóði til jöfnunar á húshitunarkostnaði og jafnframt gerði þingflokkurinn tillögu um að önnur tiltekin útgjöld ríkissjóðs yrðu lækkuð að sama skapi. Af þessu má ljóst vera að þingflokkur Alþfl. hefur gert sér sérstakt far um að berjast fyrir tafarlausum aðgerðum til jöfnunar á kyndikostnaði og er eindregið þeirrar skoðunar að slík aðgerð krefjist ekki aukinnar skattheimtu. Frv. um 1.5% orkujöfnunargjald á söluskattsstofn er ekki ráðstöfun til að jafna kyndikostnað, heldur almennt tekjuöflunarfrv. fyrir ríkissjóð og mikil skattahækkun, þar sem húshitunarvandamálið er notað sem skálkaskjól fyrir hækkun söluskatts um hartnær einn tug milljarða á ári. (Forseti: Er þetta þula, en ekki grg.?) Ég er að verða búin hæstv. forseti. — Alþfl. er andvígur slíkri skattahækkun, sem hann telur ástæðulausa kjaraskerðingu gagnvart launafólki. Af þeim ástæðum greiða þm. Alþfl. atkv. gegn frv., þótt þeir séu eindregnir stuðningsmenn jöfnunar á kyndikostnaði, og þá segi ég loks nei.