09.04.1980
Efri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég vil fara fáeinum orðum um það frv. sem hér er til umr.

Það var mikill vandi sem Verðlagsráði sjávarútvegsins var á höndum þegar það var að taka fiskverðsákvörðun í janúar. Eftir því sem mér hefur skilist var gefið ákveðið vilyrði á þeim tíma um hratt gengissig, sem síðan var ekki staðið við, og því hefur mjög sigið á ógæfuhliðina fyrir fiskvinnslunni nú síðustu vikur og mánuði. Það var þá þegar ljóst að fiskvinnslan gat ekki búið við það fiskverð, sem þá var fyrir hendi, vegna mjög aukins innanlandskostnaðar, bæði hráefnis og launa. Segja má að það sé kannske ekki það, sem hér er til umr., heldur fyrst og fremst þetta olíugjald, og það má lengi skiptast á skoðunum um réttmæti þess. Þó held ég að við verðum að líta svo á, að olíugjaldið hafi í upphafi verið viðurkenning á auknum tilkostnaði útgerðarinnar og það hafi ekki eingöngu verið olían, heldur og veiðarfærin, sem þar ættu hlut að máli. Mikið af veiðarfærum er einmitt framleitt úr olíuvörum og hækkar að sama skapi og olían. Mér finnst ekki óeðlilegt þó að útgerðarmenn hafi reiknað með því að sú ákvörðun um olíugjaldið, sem tekin var í byrjun mars, stæði út árið og þeir gætu í áætlunum sínum um rekstur ársins reiknað með því sem föstum lið í tekjum sínum.

Það má segja að nú hafi farið svo, að með þeirri fiskverðsákvörðun, sem tekin er, hafi einskis manns vandi verið leystur, heldur aðeins aukinn vandi annars. Ég held að full þörf hafi verið á því að þetta olíugjald héldist, 5%, og ekki aðeins héldist, heldur jafnvel hefði verið hækkað, vegna þess að ég held að útgerðin í landinu þurfi á ákveðnum hvata að halda til þess að skipunum verði haldið úti. Mikill hluti landsmanna byggir að mestu leyti á togveiðiútgerð yfir vortímann og sumartímann og atvinna margra byggðarlaga byggist að mestu leyti á togveiðum. Og það vita allir, sem þekkja eitthvað til sjávarútvegs, að olíukostnaður við togútgerð í dag er allt að því 30–40% af útgerðarkostnaðinum og jafnvel af tekjum skipanna. Því held ég að þetta, að olíugjaldið hefur verið lækkað, geti haft þær afleiðingar að útgerð dragist nokkuð saman, sérstaklega hjá bátaflotanum hér sunnan- og suðvestanlands, bæði við fiskvinnslu, fiskveiðarnar og humarveiðarnar, og þess vegna horfi mjög alvarlega í þessum efnum.

Ég ætla ekki að halda því fram, að hér hafi verið brotin lög við þessa ákvörðun. Það dettur mér ekki í hug að álíta, því að vissulega var búið að segja því samkomulagi upp, sem þarna hafði verið gert, og fullur réttur til að taka nýja ákvörðun. En þar fyrir held ég að það hafi verið röng ákvörðun, sem þarna var tekin. Mér finnst að þarna hafi menn í rauninni stungið höfðinu í sandinn, ekki viljað horfa á þann mikla vanda, sem fyrir hendi er bæði hjá fiskvinnslunni og sjávarútveginum, og látið vandamálin óleyst.

Hæstv. ráðh. benti á auknar tekjur sjómanna, sem hefðu miklum mun betri kjör nú en landverkafólk, sem tekjur þeirra hafa verið bornar saman við. Ég held að við megum vara okkur á því að einblína um of á þennan samanburð. Við sjáum það hér þegar við förum með höfninni, að mörg af okkar glæsilegustu og bestu fiskiskipum liggja bundin í höfn og verða þar á næstu mánuðum. Sjómönnum er bannað að bera sig eftir björg. Og svo mun verða um stóran flota landsmanna á næstu mánuðum. Og því alvarlegra er einmitt þetta mál, að vandi fiskvinnslu og sjávarútvegs hefur ekki verið leystur, að nú er sá tími sem framleiðsla er hvað mest og því þörf á því að fyrirtækin skili góðri afkomu til þess að búa sig undir þann erfiða tíma sem fram undan er í sumar og haust. Við vitum það, að þorskveiði er þegar komin langt fram úr því sem áætlað var og talið æskilegt, og því þarf að hefta mjög veiðar sjómanna okkar á næstu mánuðum og það sem eftir er af árinu. Þeir munu því bera mjög skarðan hlut frá borði, og því held ég að það sé ákaflega varhugavert að bera tekjur þeirra saman við tekjur annarra stétta, eins og þær hafa verið á þessu ári, því að vertíðin hefur gengið vel. Við vitum að á næstu mánuðum verður mjög að draga saman sjósókn.

Ég vildi aðeins láta það koma fram, að ég er á móti þeirri leið sem þarna hefur verið valin, því að ég tel að full þörf hafi verið á því að hvetja útvegsmenn, bæði togara og báta, til útgerðar frekar en að draga úr þeim. Ég tel að þarna hafi enginn vandi verið leystur, hann aðeins verið fluttur til.