09.04.1980
Efri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

135. mál, orkujöfnunargjald

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. lauk ræðu sinni með því að minna á að nauðsynlegt væri að afgreiða þetta frv. nokkuð skjótlega. Mér fannst hann bera nokkurn ugg í brjósti um að það væri kannske ekki hægt. En hann sagði að það hefði verið samið um þetta milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu. Ég verð að gefnu tilefni að minna hann á að stjórnarandstaðan stendur alltaf við sína samninga.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri sameiginleg skoðun alþm. að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til að létta byrðar þeirra sem búa við olíukyndingu í landinu. Ég tek undir það. Ekki hefur verið neinn ágreiningur um það. En einmitt í ljósi þess að svo er er saga þess frv., sem við nú ræðum, harla einkennileg þegar við höfum í huga að þarna er um að ræða mál sem er almenn samstaða um, þ. e. að greiða niður olíu hjá þeim sem nota hana til upphitunar húsa sinna, en það er sagt að sú sé ástæðan fyrir þessu frv. En auðvitað fjallar frv. þetta um annað. Það fjallar um hækkun á söluskatti.

Það hefur verið svo, að frá árinu 1977 hefur olía til upphitunar húsa verið greidd niður af fé sem til þess hefur verið ráðstafað á fjárlögum. Það hefur verið talið svo sjálfsagt að svara þessum mikilvægu þörfum að menn hafa talið eðlilegt að verja fé til þess af almennum skatttekjum ríkissjóðs. Menn hafa ekki á undanförnum árum verið með neinar refjar í þessu efni. Og ef menn meina eitthvað þegar þeir tala um þörfina á niðurgreiðslu olíu hlýtur það að þýða að ekki sé minni ástæða að gera ráð fyrir þessum útgjöldum ríkissjóðs af almennum skatttekjum ríkisins en hinum mörgu öðru útgjöldum. Það var líka þannig, að þegar byrjað var að leggja fram fjárlagafrv. fyrir árið 1980 var í fyrsta fjárlagafrv. gert ráð fyrir fjármagni til niðurgreiðslu á olíu og var gert ráð fyrir að það væri tekið af almennum skatttekjum ríkissjóðs. Í frv., sem núv. hæstv. viðskrh. Tómas Árnason lagði fram, var gert ráð fyrir að það væri varið til niðurgreiðslu á olíu 2.3 milljörðum kr. Það virtist svo sem ætlunin væri að halda áfram þeirri stefnu að verja fé í þessu skyni af atmennum skatttekjum ríkissjóðs: Að vísu var það svo að þessi upphæð, 2.3 milljarðar kr., var allt of lág ef halda átti jafnmikilli niðurgreiðslu og niðurgreiðslan er nú og var þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Þegar annað fjárlagafrv. var lagt fram var enn á ný gert ráð fyrir að það yrði varið 2.3 milljöðrum kr. til niðurgreiðslu á olíu. En það er sama um þá upphæð að segja og áður, að hún var allt of lítil til að svara þessum þörfum, miðað við að það yrði ekki dregið úr niðurgreiðslunni.

Með tilliti til þessarar forsögu málsins kom það harla spánskt fyrir sjónir þegar núv. hæstv. fjmrh. leggur fram fjárlagafrv. þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum útgjöldum til þessara þarfa. Það sýnir að annaðhvort hefur ekki verið mikið að marka það sem þessi hæstv. ráðh. og stjórnarliðið hafa á undanförnum mánuðum sagt um þýðingu þess að greiða niður olíu til upphitunar húsa eða þá að það eru einhverjar annarlegar ástæður fyrir því, að ekki var gert ráð fyrir fjárframlögum í fjárlagafrv. í þessar þarfir. Og auðvitað er um annarlegar ástæður að ræða. Það verður ekki annað séð en tilgangur þessa hafi verið að draga út úr fjárlögum ríkisins verulega upphæð útgjalda til að lækka fjárlögin og sér í lagi til að geta aflað tekna til að mæta þessum útgjöldum án þess að þær kæmu fram á fjárlögum. Auðvitað er það svo með stjórnarherrana núv. eins og allan almenning í þessu landi, að þeim hlýtur að blöskra skattheimtan þó þeir standi sjálfir fyrir henni. En þeim þykir þægilegra ef þeir geta dreift skattheimtunni og fært hana í ýmsan búning ef með þeim hætti væri ekki eins ljós sú óhæfa sem framferði þeirra allt er.

Nú er það svo, að mikill dráttur hefur orðið hjá stjórnarliðinu á að koma sér niður á með hverjum hætti það ætlaði að snúast gegn þeim vanda sem olíuniðurgreiðslan er. Og það hefur verið vitað, og það var ekki heldur annað ráðið af ummælum hæstv. fjmrh. hér áðan, en að verið hefði verulegur ágreiningur um það efni innan ríkisstj. Hæstv. ráðh. talaði í þessu sambandi um orkuskatt. Það var næstum því að maður aumkaðist yfir hæstv. fjmrh., því að svo mikill var söknuður hans yfir því að ekki hefði verið farin hin frábæra leið sem Alþfl. hefði bent á, þ. e. farin leið orkuskattsins, og hæstv. fjmrh. vitnaði þá sérstaklega til þess frv. sem þáv. iðnrh., Bragi Sigurjónsson, flutti á Alþ. í haust eða vetur. Hæstv. fjmrh. segir nú að þetta frv. sé eitt það besta eða kannske albesta sem Alþfl. hafi nokkru sinni komið fram með. Og við heyrum þennan boðskap. En ég er ekki viss um að margir fleiri en hæstv. fjmrh. séu hrifnir af þessu — og kannske einhverjir, ef einhverjir eru, í hans flokki sem eru honum sammála um þetta efni. Mig grunar að það sé svo, að jafnvel Alþfl. kæri sig ekki um að fá lögfest frv. sem lagt var fram af ráðh. þeirra fyrr í vetur um orkuskatt. En hæstv. núv. fjmrh. virðist telja að það hefði verið besta leiðin. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvers vegna fór hann ekki bestu leiðina? Hverjir voru á móti því að farin væri þessi besta leið sem hann taldi? Og hver eru rökin af hans hálfu að fara ekki bestu leiðina, því að auðvitað hefur fjmrh. sjálfur haft mest um að segja hvaða leið væri farin? (StJ: Vill hv. þm. ekki fara hinn breiða veg og veit hann hvert hann stefnir?) Það er ekkert á móti því að fara hinn breiða veg ef hann stefnir í rétta átt, hv. þm. Stefán Jónsson. Það er það, sem skilur á milli feigs og ófeigs, að fara í rétta átt.

Nú vil ég segja hæstv. fjmrh. það til lofs, að heldur hefur hann sveigt í rétta átt með því að hvika frá hugmyndinni um orkuskattinn og til þess, sem hér er lagt til með frv., að hækka söluskattinn. En ég segi: Heldur sveigt í rétta átt. Það er ekki mikið sagt með því, því að miðað við þær aðstæður, sem eru í þjóðfélaginu, er það ekki góður kostur að fara þá troðnu slóð að hækka söluskattinn. Og mátt hefði ætla að hér væri um svo þýðingarmikið mál að ræða, þar sem er niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa, að það hefði réttlætt að fara aðra leið en þessa.

Nú segir hæstv. fjmrh., og það er gert ráð fyrir því í grg. með frv., að 4 milljarðar kr. fari til niðurgreiðslu á olíu. Ég sagði áðan, að í tveim fjárlagafrv., fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar og fjárlagafrv. Sighvats Björgvinssonar, hefði verið gert ráð fyrir fjármagni í þessu skyni að upphæð 2.3 milljarðar kr., en ég sagði jafnframt að það hefði verið allt of lítil upphæð. Í grg. fjárlagafrv., sem hæstv. núv. fjmrh. hefur lagt fram, er gerð grein fyrir því hver fjármagnsþörfin er í þessu skyni. Þar er sagt að miðað við óbreyttar styrkveitingar vegna olíukyndingar þurfi á árinu 1980 3.6 milljarða kr. Nú er lagt til að það sé varið 4 milljörðum í þessu skyni. Ég leyfi mér að fullyrða að talan 3.6 milljarðar er síst of há. Ég leyfi mér jafnframt að halda því fram, að miðað við 4 milljarða kr. á þessu ári geti niðurgreiðsla á olíu ekki orðið meira en áþekk því sem hún er og hefur verið. M. ö. o.: Það er í raun og veru ekki gert ráð fyrir neinni breytingu í þessu efni. Eftir allt tal manna um mikilvægi þess að gera átak í þessum efnum, eftir allt tal manna um þá sérstöku erfiðleika sem fólkið víðs vegar um landsbyggðina býr við, það sem býr við upphitun húsa sinna með olíu, eftir lýsingar á raunverulegu neyðarástandi í þessum efnum víðs vegar um land leyfir hæstv. ríkisstj. sér eftir allar vangavelturnar, eftir allan dráttinn í undirbúningi þessa máls, að leggja til að ástandið verði óbreytt. Ég verð að segja: Að óreyndu hvarflaði ekki annað eins að mér. Mér kom aldrei annað í hug en að hæstv. ríkisstj. mundi manna sig upp í það að gera eilítið betur.

En það er ekki nóg með þetta, heldur er það svo, að til þess að láta olíukyndingarfólkið verða þeirrar náðar aðnjótandi að forminu til að búa við það sama og það hefur búið við á undanförnum mánuðum er þessu fólki gert raunverulega að greiða fyrir það í hækkuðum söluskatti. Og miðað við það, sem þessi söluskattur, sem gert er ráð fyrir í frv. því sem við hér ræðum, gefur á ársgrundvelli, mætti ætla að það fólk, sem býr við olíukyndingu, muni greiða um 1.5 milljarð á ári í hækkuðum söluskatti til að verða þeirrar náðar aðnjótandi að fá að forminu til jafnmikla niðurgreiðslu á olíu og hingað til. Og þá er þess látið ógetið, að auk þess þarf sama fólk að greiða um 800 millj. á ársgrundvelli í aðflutningsgjöld fyrir þá olíu sem það notar til upphitunar húsa sinna.

Þetta er ljót saga. Mig grunar að hæstv. fjmrh. og aðrir í hæstv. ríkisstj. finni þetta. Ég kemst ekki hjá því að láta mér koma til hugar að það sé einmitt vegna þessarar sektarkenndar sem í grg. frv. er farið að tala um aðra hluti varðandi orkumál en niðurgreiðslu á olíu. Og þá á ég við það, að í grg. eru því gerðir skórnir að greiða eigi um 500 millj. til orkusparandi ráðstafana. Ekkert segir frekar um hverjar þær orkusparandi aðgerðir eigi að vera og með hverjum hætti eigi í raun og veru að ráðstafa þessu fé. Það orkar að sjálfsögðu ekki tvímælis að nauðsynlegt er að gera orkusparandi ráðstafanir. En það verð ég að segja, að það orkar tvímælis, svo ekki sé meira sagt, að klípa utan úr fjármagni sem eðlilega ætti að fara til að leysa úr bráðustu neyð þeirra sem búa við olíukyndingu. Í raun og veru er það svo, að það þarf, ef á að gera markvert átak í þessu efni, stórar fjárhæðir, einnig þarf að skipuleggja markvissar aðgerðir í því efni og á ekki að tengja það ráðstöfunum til að greiða niður olíu og allra síst í því skyni að klípa utan úr því fjármagni sem réttilega ætti að fara til niðurgreiðslu á olíu.

Það þarf að gera heildaráætlun um þetta. Það vill svo til, að ég og níu samflokksmenn mínir hafa flutt till. til þál. um framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar þar sem gert er ráð fyrir þessum þætti málanna.

Þá er í grg. fyrir frv. því, sem við nú ræðum, enn fremur talað um að gert sé ráð fyrir verulegum framlögum til Rafmagnsveitna ríkisins og til annarra verkefna á sviði orkumála og að þau framlög hafi veikt stöðu ríkissjóðs. Það verð ég að segja, að nokkra óskammfeilni þarf til að tefla fram rökum sem þessum. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að hæstv. núv. ríkisstj. hefur staðið að afgreiðslu fjárlaga sem í ýmsum efnum er einsdæmi hvað varðar orkumálin. Í fjárlögum, sem við vorum að samþykkja og afgreiða fyrir nokkrum dögum, er ekki ráðstafað fjármagni til sveitarafvæðingar. Þar er ekki ráðstafað fjármagni til styrkingar dreifikerfa rafmagns í sveitum. Það er ekki ráðstafað fjármagni af fjárlögum til jarðhitaleitar. Það er ekki ráðstafað fjármagni af fjárlögum til hitaveituframkvæmda. Allt þetta, sem ég hef nú nefnt, eru einir þýðingarmestu þættir í orkumálum landsins og sér í lagi með tilliti til þess að leysa olíuna af hólmi sem orkugjafa til húshitunar.

Ef við athugum nánar, hvers eðlis fjárframlögin eru til þeirra þátta orkumála sem ég nefndi, sjáum við hvílík fjarstæða þetta framferði hæstv. ríkisstj. er. Ég vil, til þess að taka af öll tvímæli, láta þess getið að komið hefur fyrir að aðrar ríkisstj. hafi brotið af sér í þessum efnum. En ég held því hiklaust fram: Það hefur engin ríkisstj. hagað sér eins og núv. ríkisstj. vegna þess að alltaf áður hefur einhverju fjármagni úr ríkissjóði verið ráðstafað til þessara þátta orkumálanna þar til í ár. (StJ: Þessi ríkisstj. er undir forustu Sjálfstfl.) Ég heyri að einmitt þetta kemur við hjartað í hv. þm. Stefáni Jónssyni. En ef hv. þm. Stefán Jónsson finnur svona til, hvað mætti þá segja um mig sjálfan ef ég tryði þeirri fjarstæðu, sem hv. þm. slær hér fram, að ríkisstj. sé undir forustu Sjálfstfl.?

Ég sagði: Það hefur aldrei komið fyrr fyrir að ríkisstj. hafi gjörsamlega þurrkað út öll framlög úr ríkissjóði til þessara þátta orkumálanna. Við skulum athuga þetta nánar. Þetta eru framlög til Orkusjóðs. Orkusjóður á að ráðstafa því sem fer til sveitarafvæðingar til óafturkræfra framlaga. Það eru óafturkræf framlög sem á að ráðstafa til styrkingar rafdreifikerfa í sveitum, og það er að miklum þætti óafturkræft sem ráðstafað er til jarðhitaleitar. En ráðslag og búhyggindi núv. hæstv. ríkisstj. eru þau, að það á að útvega Orkusjóði lán með þeim vaxtakjörum, sem nú eru á hinum almenna markaði, til að afhenda svo peningana sem óafturkræft framlag. Hæstv. fjmrh. var í ræðu sinni áðan að tala um að stinga höfðinu í sandinn. Ég held þetta sé gott dæmi um hvernig menn fara að því.

Ég sagði áðan að frv. það, sem við hér ræðum, væri frv. til laga um hækkun á söluskatti. Þetta er liður í allsherjaraðför hæstv. ríkisstj. gegn skattborgurum landsins. Þetta er liður í þeirri skæðadrífu skattheimtufrumvarpa sem dynja yfir okkur, hvort heldur er fyrir eða eftir páskahelgi. Við vitum öll hvað þessar skattahækkanir þýða. Og sú vinstri stjórn, sem nú situr, á ekki sökina á öllum skattahækkunum sem hafa orðið frá því að giltu þau skattalög sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar bar ábyrgð á og hæstv. núv. forsrh. var ráðh. í. En hækkunin samtals má ætla eins og er að nemi a. m. k. 25 milljörðum í beinum sköttum og öðru eins í óbeinum sköttum. Og nú er hér um að ræða eitt skattafrv. enn.

Ég sagði áðan að það kynni að vera að hæstv. ríkisstj. gerði sér einhverja grein fyrir hvílík óhæfa væri þetta framferði hennar í álögum á fólkið í landinu. En ef það kynni að vera einhver vafi um að hæstv. ríkisstj. gerði sér grein fyrir þessu, þá er enginn vafi á að almenningur í landinu gerir sér grein fyrir þessu og hin margvíslegu hagsmunasamtök. Á Alþ. höfum við verið sérstaklega áminnt um þetta hina síðustu daga, því að það hefur borið svo við að við höfum þurft í ýmsum þingnefndum að leita álits, t. d. aðila vinnumarkaðarins, um þau skattamál sem við hófum verið að ræða. Og það er vitað að einmitt forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins bera mikinn kvíðboga fyrir þessum málum vegna hinna almennu skattahækkana, sem ekki síst koma niður á því fólki sem er innan Alþýðusambands Íslands og BSRB, svo að eitthvað sé nefnt. En jafnframt hefur það komið fram í viðræðum og viðtölum við forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins, að þeir bera þungar áhyggjur út af þróun þessara mála vegna þeirra áhrifa sem hún hlýtur að hafa á framvindu kjaramálanna og þeirra samningaumleitana sem nú fara fram.

Ég vil leyfa mér, til þess að skýra þetta betur fyrir hv. d. og leggja áherslu á þessi sjónarmið, að lesa upp álit sem við höfum fengið í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar varðandi þessi efni. Þannig segir í áliti, sem við fengum frá Alþýðusambandi Íslands 1. apríl, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi viðræðunefndar Alþýðusambands Íslands í dag var fjallað um þær auknu álögur sem boðaðar eru í formi útsvarshækkunar, hækkunar tekjuskatts og söluskatts. Alþýðusambandið minnir á að þetta gerist á sama tíma og kaupmáttur launa minnkar stöðugt. Aðgerðir stjórnvalda nú hljóta að auka dýrtíðina og rýra almenna kaupgetu. Aðgerðirnar eru þannig síst til þess fallnar að greiða fyrir kjarasamningum, og mótmætir viðræðunefndin þeim því harðlega.“

Hér heyrum við boðskap Alþýðusambands Íslands. En ég er með í hendi annan boðskap sem við fengum í fjh.- og viðskn. frá stjórn BSRB. Ég vil leyfa mér að lesa það álit, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn BSRB. mótmælir þeim starfsaðferðum ríkisstj. við undirbúning efnahagsráðstafana að hafa ekki samráð við samtök launafólks um heildarstefnu í þessum málum. Í lögum er gert ráð fyrir samráði við samtök launafólks og slík samráð eru einnig boðuð í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. En engin samráð hafa verið höfð við launþegasamtökin.

Þær nýju stórfelldu álögur á almenningi sem þegar hafa verið samþ. á Alþ. eða fyrirhugaðar eru samkv. stjfrv., þ. á m. um orkujöfnunargjald, eru olía á verðbólgueldinn, sem enn hlýtur að magnast við gengislækkanir sem sífellt eru framkvæmdar.

Því mótmælir stjórn BSRB. eindregið þessum nýju álögum.“

Frá Vinnuveitendasambandi Íslands hafa fjh.- og viðskn. borist athugasemdir vegna frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem liggur fyrir n., og frv. til l, um orkujöfnunargjald, þ. e. frv. það sem við hér ræðum nú. Ég vil leyfa mér að lesa seinni hluta þessa bréfs til að tefja ekki tíma deildarinnar of mikið, en það fjallar einmitt um það frv. sem við hér ræðum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er varðar frv. til l. um orkujöfnunargjald, sem felur í sér 9% hækkun söluskatts, vill Vinnuveitendasambandið taka fram, að með því er beinlínis verið að magna verðbólguna. Jafnframt mun þessi aðgerð auka kostnað atvinnufyrirtækja og þrengja kost þeirra. Augljóst má vera að sérhvert skref í þá veru getur haft alvarlegar afleiðingar við núverandi aðstæður.

Sérstök ástæða er til þess að brýna fyrir Alþ. að allar þessar skattahækkunarráðstafanir geta valdið miklum erfiðleikum við þá endurnýjun kjarasamninga sem nú stendur fyrir dyrum. Að því hefur verið stefnt, að nýir kjarasamningar leiddu ekki til aukinnar verðbólgu. Skattahækkanirnar ganga því þvert á ríkjandi stefnu í launamálum og eru í algjörri mótsögn við þau markmið sem sett hafa verið í þeim efnum. Verðbólguáhrif þessara ráðstafana gætu af þeim sökum orðið miklu meiri en þegar má sjá fyrir. Í ljósi þessara aðstæðna mótmælir Vinnuveitendasambandið þessum ráðstöfunum harðlega.“

Ég þarf ekki með fleiri orðum að lýsa því hver alvarlegum augum aðilar vinnumarkaðarins líta á framferði núv. hæstv. ríkisstj. í skattamálunum. Og það er ekki ein báran stök hjá núv. hæstv. ríkisstj. í viðskiptum hennar við hagsmunasamtök almennings í landinu. Hæstv. ríkisstj. virðir ekki þessi samtök viðlits, hefur engin samráð, engar viðræður um þau mikilvægu mál, sem skattamálin hljóta alltaf að vera, og um mál, sem svo er kveðið á í lögum að haft skuli samráð við þessa aðila. Hæstv. ríkisstj. er ber að því að virða einskis þessa löggjöf. Þó var þessi löggjöf eitt af því sem ýmsir, sem nú eiga sæti í hæstv. ríkisstj., voru að stæra sig af þegar hún var sett. En þegar þeir virða svo að vettugi og fyrirlíta landsins lög er kannske ekki að furða þó að þeir leggi lítið upp úr eigin stjórnarsamningi. Og það get hvorki ég né aðrir láð þeim, því að það gerir raunar enginn.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rætt nokkuð tilefni þessa frv., sögu málsins og ýmsa sérstaka þætti sem við hana koma. Þetta hefur verið gert að gefnu tilefni, því að þó frv. sé að formi til ekki annað en hækkun á söluskattinum eru ástæður fyrir því sagðar þær að fjármagnið, sem hækkun söluskattsins gefur, renni til niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa. Það er stórt mál og ég og ýmsir aðrir í öllum flokkum höfum talið fram á síðustu daga að það þyrfti að gera miklu meira í þeim efnum en nú er talað um. Við sjálfstæðismenn lögðum til við afgreiðslu fjárlaga að varið yrði 5 milljörðum kr. til niðurgreiðslu á olíu og ekki lagður á neinn nýr skattur til að mæta þeim útgjöldum, heldur yrðu önnur útgjöld ríkissjóðs skorin niður. Menn sjá hve hlutur þess fólks, sem býr við olíukyndingu, hefði getað orðið betri ef farið hefði verið að ráðum okkar sjálfstæðismanna. Því miður var það ekki gert. Ákveðnir voru aðeins 4 milljarðar á fjárlögum til niðurgreiðslu olíu og jafnframt ákveðið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að lagður yrði á skattur, sem þetta fólk, sem í nauðum er statt, verður að verulegu leyti að standa sjálft undir til þess að því hlotnist þeir 4 milljarðar sem um er rætt.

En þó að við höfum ekki getað fengið lögfest það sem við vildum við afgreiðslu fjárlaga varðandi 5 milljarða til niðurgreiðslu olíu, þá mætti segja að hálfur sigur væri unninn ef við núna felldum þetta frv. Það stæði eftir sem áður að ríkissjóður ætti að greiða 4 milljarða til niðurgreiðslu olíu. Og það verður að gera þá kröfu, jafnvel til slíkrar ríkisstj. sem nú situr, að hún geti fundið leiðir til að spara og skera niður óþörf útgjöld til að mæta þessum þörfum.