10.04.1980
Efri deild: 62. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

135. mál, orkujöfnunargjald

Frsm. 3. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, að fjh.- og viðskn. hefur haft heldur nauman tíma til að fjalla um þetta mál.

Ég hafði óskað eftir því í dag að fengnar yrðu umsagnir um þetta frv., efni þess og tilgang, frá fleiri aðilum en gert hefur verið til þessa. M. a. hygg ég að ekki hefði verið ófróðlegt að heyra hvað Verkamannasamband Íslands hefði haft um málið að segja svo og Stéttarsamband bænda. Skemmst er frá því að segja að til þessa vannst ekki tími. Lofað hafði verið að afgreiða þetta mál með tilteknum hætti á tilteknum tíma og við það verður auðvitað staðið.

Ég hygg að flestir muni hafa nokkurn grun um hvers eðlis umsagnir aðilanna tveggja hefðu orðið, hefðu þær náð hingað. Þetta frv. gerir sem sagt ráð fyrir að söluskattur hækki um 1.5%. Þá er söluskattur hér orðinn með því alhæsta sem nokkurs staðar þekkist, eftir því sem mér er kunnugt um. Flest lönd hafa raunar tekið upp virðisaukaskatt í stað söluskatts. Söluskattur er þó enn í Finnlandi í sömu mynd og hér og er þar 16.28%. Sé litið til annarra landa hér í kring er virðisaukaskattur alls staðar lægri, og hníga sterk rök að því, að því hærri sem þessi skattur er þeim mun lakar muni hann innheimtast.

Það hefur oft verið haft á orði á Alþ. að ekki muni allur sá söluskattur, sem á er lagður, komast til skila rétta boðleið til ríkisins. Ég held að sá hluti, sem eftir verður, muni ekki minnka við þessa breytingu, síður en svo.

Það hefði verið ástæða til samhliða þessu að herða eftirlit með innheimtu söluskattsins. En það er eins og annað, að það virðist ekki sérstakur áhugi á því hjá þeirri ríkisstj. sem nú situr. Um skattaeftirlit eru þrjú orð í stjórnarsáttmálanum. Þau eru, með leyfi forseta: „Skattaeftirlit verði hert“, annað ekki. (StJ: Er það ekki aðalatriðið?) Það væri kannske ekki úr vegi að eitthvað meira væri sagt, en auðvitað er rétt hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni að aðalatriðið er að skattaeftirlitið verði hert. En þegar hvorki eru hafðir uppi tilburðir til þess að gera það né neitt annað í þessu sambandi fer auðvitað svo, eins og með fleira sem stendur í þessari ágætu bók, að gildi hennar verður, held ég, minna eftir því sem menn lesa hana oftar og eftir því sem tíminn líður. (StJ: Stjórnin hefur aðeins setið tvo mánuði.) Ég held að þetta verði æ marklausara plagg og það muni sannast þegar lengra líður og lítið verður til baka.

Hluta þess, sem söluskattshækkunin á að skila, á að verja til að jafna upphitunarkostnað. Svo sem margsinnis hefur komið fram er ekki um það deilt hér, heldur hvernig þessa fjár skuli aflað. Við afgreiðslu fjárlaga var á það bent af hálfu Alþfl. og fluttar um það till. að fjár til olíustyrkja mætti afla innan ramma fjárlaganna með því að skera niður útgjöld, án þess að kæmi til nýrrar skattlagningar. Hin ágæta ríkisstj., sem nú situr, valdi hins vegar skattlagningarleiðina þrátt fyrir fyrri loforð og yfirlýsingar. Till. Alþfl. um að afla þessa fjár með öðrum hætti voru allar felldar. Um það sáu stuðningsmenn ríkisstj.

Alþfl. er andvígur þessu frv., eins og það er, og telur að innan ramma fjárlaga sé hægt að afla þess fjár sem hér skortir. Það á ekki að notfæra sér neyðarástand þeirra, sem eru svo illa í sveit settir að þurfa að hita upp hús sín með olíu, og hafa það að yfirvarpi fyrir stóraukinni skattheimtu. Alþfl. leggur til að frv. verði fellt, en fjár til jöfnunar kyndikostnaðar verði aflað innan ramma fjárlaganna, enda sýnist skattheimta ríkisstj. yfirleitt stefna í þann, farveg að slíkt ætti að vera næsta auðvelt. Og það hlýtur í raun að vera hlálegt og það hlýtur að vera erfitt hlutskipti fyrir hæstv. núv. forsrh., sem var kosinn til setu á Alþ. undir kjörorðinu að nú skyldi afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar, að sitja nú í hinum virðulega stól ráðherrans og beita sér fyrir hverri skattbylgjunni á fætur annarri sem nú brotnar á þegnum þjóðfélagsins. Það er sannarlega ekki öfundsvert hlutskipti.