10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

109. mál, tollskrá

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. og formanni fjh.- og viðskn. gafst æðilítill tími til skoðunar á þessu máli eins og mörgum fleiri sem verið hafa til umræðu eða umfjöllunar í þinginu á undanförnum vikum. Það kom líka greinilega fram hjá síðasta hv. ræðumanni, Guðrúnu Helgadóttur, að m. a. s. stjórnarsinnunum sjálfum er farið að þykja nóg um hversu erfitt er að fylgjast með öllu því sem ætlast er til að menn afgreiði hér svo að segja án þess að sjá það.

Ég skal ekki ræða frekar um það. En eins og kom fram hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni var hér flutt brtt. af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna Gunnarssyni. Því miður var það nú svo, að sú brtt. kom aldrei til umfjöllunar í n., en það eru mistök. Ég vil ekki ásaka formann með þessum orðum. Þau mistök stöfuðu að sjálfsögðu af því hinu sama og hv. þm. Guðrún Helgadóttir nefndi áðan, að menn höfðu bókstaflega ekki tíma til að átta sig á hlutum sem var verið að gera. Ég vænti þess að brtt. valdi ekki neinum deilum í þinginu.

En út af því, sem Guðrún Helgadóttir sagði áðan, þá er meiningin með þessari brtt. að við 1. gr. bætist. Það stendur þarna: „Við 2. mgr. 1. gr. bætist“, en á að vera: Við 1. gr. frv. bætist. Ef forseti óskar sérstakrar brtt. sem lagfæri textann verður að sjálfsögðu orðið við því. En meiningin með brtt. er sem sagt að við 1. gr. bætist.

Við þessa brtt. hef ég flutt brtt. á þskj. 256. Í till. þeirra Jóhönnu og Árna segir: „Heimild er að hækka þessa undanþágu árlega með tilliti til verðlagsþróunar á hverjum tíma.“ — Mín brtt. er um að í stað „verðlagsþróunar“, sem þarna er nefnd, komi: þróunar framfærsluvísitölu. Þannig sé það ákveðið sem við er miðað og þá alveg á hreinu að þessar breytingar eigi að fylgjast að eftir því hver þróun framfærsluvísitölu er.

Það er út af fyrir sig rétt sem fram kom hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, að það er spurning í hve miklum mæli eigi að binda í löggjöf að allt hafi sjálfvirkar verkanir. Ég held þó að í þessu tilfelli geti menn verið sammála um að málið sé svo sjálfsagt að ekki eigi að þurfa, ef það á að breyta til hækkunar, í hvert skipti sex umr. á Alþ. til að fá slíka breytingu fram. Þó er ég ekki með þessum orðum að segja að ég sé því samþykkur að tekið verði alfarið upp að hafa viðmiðanir sem þessar sjálfkrafa í öllu kerfinu. En þetta mál tel ég að sé þess eðlis að réttlætanlegt sé að þarna gerist slíkt með þessum hætti og ekki þurfi að eyða í það tíma, kannske löngum, eða bíða eftir því að svona leiðrétting fáist með sex umr. í báðum deildum.

Ég þarf að sjálfsögðu ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess, að hv. þm. séu sammála um þetta þó að svo hafi til tekist að brtt. á þskj. 182 fékk ekki umfjöllun í n. Vegna þess að það varð ekki skrifaði ég upp á nál., sem hér liggur fyrir, með þeim fyrirvara að ég flyt brtt. við þessa till. En ef hæstv. forseti óskar sérstakrar brtt. með hliðsjón af því sem hér hefur komið fram verður hún að sjálfsögðu flutt.