10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

109. mál, tollskrá

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef áður í umr. um þetta mál lýst stuðningi mínum við það frv. sem hér um ræðir. Hins vegar hef ég haft ýmislegt við það að athuga. Í fyrsta lagi, eins og fram kemur í brtt. okkar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, höfum við allan hug á því að þessar breytingar, sem þurfa að verða á hverju ári á eftirgjöf, fylgi einhverjum ákveðnum „skala“ sem þá breytist ár frá ári, eins og verðlagsvísitölu, framfærsluvísitölu eða byggingavísitölu. Einnig má hugsa sér að eftirgjöfin fylgi breytingum á gengi. Það fyrirkomulag, sem nú er á þessum málum, er bæði seinvirkt og það er ósvinna að þingið skuli þurfa á hverju ári að taka ákvörðun um þessi mál.

Ég gat þess einnig, þegar ég ræddi um þetta mál, að endurskoða þyrfti allt það kerfi sem fylgir úthlutun þeirra leyfa sem hér um ræðir, — leyfa til þeirra karla og kvenna sem fá lækkun á verði bifreiðar vegna fötlunar. Ég minnti á það, og ég vænti þess, að hæstv. ráðh., sem um þessi mál fjallar, hugleiði það, hvort ekki væri unnt að koma á því formi við afhendingu og úthlutun þessara leyfa að meira tillit væri tekið til efnahags þeirra sem leyfin fá. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að fólk með háar tekjur, góðar tekjur, fái niðurfellingu á gjöldum af bifreiðum ef það á annað borð hefur full ráð á því vegna eigin efnahags að festa kaup á bifreiðum á því verði sem allur annar almenningur kaupir þær á. Ég vildi eindregið mælast til þess að þetta mál verði athugað mjög gaumgæfilega og það fólk, sem hefur það erfiða hlutverk að úthluta þessum leyfum, geri sér fulla grein fyrir því, að hér er mjög erfitt mál á ferðinni. Þau vandamál, sem komið hafa á borð þeirra í hvert sinn sem leyfaúthlutun fer fram, eru stór og mikil, einfaldlega vegna þess hversu allt er laust í reipunum.

Mig langar vegna fram kominnar brtt. frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að varpa fram þeirri spurningu, hvort með brtt. sé ekki verið að binda einum of mikið það fólk, sem þessa bíla fær, með því beinlínis að banna því að selja bíla sína. Einhvern veginn leggst það þannig í mig að betra væri að orða ákvæðið á þann veg, að viðkomandi fengju ekki lækkun fyrr en eftir svo og svo mörg ár, í stað þess að banna því að selja bíla sína, sem eru nokkrir fjötrar á hverjum manni í kapítalísku þjóðfélagi.

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu og tek undir það að flýta þurfi afgreiðslu þessa máls eins og unnt er vegna þess að mikill fjöldi manna bíður eftir að fá þessar bifreiðar. Þær eru tengiliðir fatlaðs fólks við tilveruna, ef þannig má að orði komast, sú brú sem tengir heimili og vinnustaði þess og umhverfið sem það lifir í. Við þurfum að hraða því að það geti fengið bíla á því verði sem það ræður við.

En að endingu vil ég endurtaka það, að ég tel mikla nauðsyn á að það verði kannað vandlega hvaða breytingar megi gera á þeim úthlutunarreglum sem nú eru í gildi. Og einkum og sér í lagi vil ég leggja þunga áherslu á að mér finnst ekki koma til nokkurra greina, eins og mörg dæmi eru um, að stórefna fólk, sem hefur getað sýnt læknisvottorð um einhverja örorku af einhverju tagi, fái niðurfellingu á bifreiðaverði og fái ódýrari bila, rétt eins og fólkið sem hefur tvímælalaust mjög brýna þörf fyrir þá.