20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Vegna þess, sem komið hefur fram í þessum stuttu umr. að þessu sinni, og vegna þess, sem fram kom við 1. umr. málsins, sé ég ástæðu til að fara nokkrum orðum um þetta mál og þó sérstaklega til að leiðrétta hv. 8. landsk. þm. vegna þeirra orða sem féllu í ræðu hennar um að undir till. hennar hafi sjálfstæðismenn tekið í heilbr.- og trn. Að sjálfsögðu var tekið undir hana, vegna þess að hún var í beinu samræmi við þær aths. sem hér höfðu komið fram við 1. umr. málsins. Sú till. var jafnframt í beinu samræmi við það sem fram hafði komið í aths. stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs strax á s.l. vori, en þá átti fulltrúi Sjálfstfl. fulla aðild að þeirri samþykkt.

Þegar boðað var til fundar til að kjósa formann og varaformann í heilbr.- og trn. og það hafði verið gert var þetta mál tekið fyrir. Þá kom strax fram till. frá nýkjörnum formanni n., þar sem var harla óljóst loforð um að viðkomandi ráðh. eða núv. ríkisstj. mundi beita sér fyrir mjög 6tiltekinni fyrirgreiðslu ríkissjóðs til að standa undir hugsanlegum kostnaði sem lenti á Atvinnuleysistryggingasjóði, eða eitthvað á þá leið var þetta orðað af munni formanns, sem var ekki hægt að gera betur þá því að formaðurinn hafði ekki með sér skriflega till. á þeirri stundu. En þá benti ég strax á að að sjálfsögðu væri rétt að við tækjum okkur tíma til þess að athuga skoðanir og álit stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á málinu svo og þeirra aðila sem málið varðaði, sem eru að sjálfsögðu samningsaðilarnir sem stóðu að því að samkomulag um eftirlaun aldraðra var gert á sínum tíma. Þetta samkomulag var gert á tímum ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. og fór þá strax til athugunar. Að vísu var búinn að vera mikill undanfari að því innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að það, sem þá gerðist í þessum málum, hafi e.t.v. verið eitt með fyrstu jákvæðu sporunum í þá átt á vegum fólksins sem hefur í samningum og af fé sínu knúið fram þessa þýðingarmiklu lífeyrissjóði, — verið fyrsta vitlega sporið sem stigið hafi verið á þeirra eigin vegum þegar menn buðust til að stuðla að því að þeim, sem væru út undan í þjóðfélaginu, undanskildir þessum tryggingum, væri hjálpað til að ná til þeirra. Það er því allkaldranalegt að hugsa til þess, að ríkisstj. eftir ríkisstj. skuli vefja málinu um höfuð sér ítrekað, og er ég ekki að undanskilja neina ríkisstj. í því efni, það skuli komið þannig fram að það sjálfsagða mál nái ekki fram, þegar þeir aðilar, sem kannske síst skyldi, bjóðast til að leggja hluta af eigin fé til að koma á móti þessum kostnaði sem fjölmargir í þjóðfélagi okkar hafa af fé skattborgaranna og hafa haft um langan tíma. Þetta er, eins og ég segi og vil endurtaka, fyrsta sporið til þess að öll þjóðin geti búið við verðtryggðan lífeyri í ellinni. En það er eins og oft áður með blessað gamla fólkið okkar, að það er talað stundum og oftast mikið um allt sem þurfi að gera fyrir það, en þegar kemur að því að standa við það virðist vera nokkru þyngra að ná því fram.

Ég bað um frest í gær á nefndarfundinum fram eftir degi vegna þess að boðaður hafði verið fundur í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og ég vildi sannfærast um það þar, hvort nokkur breyting hefði orðið á afstöðu í stjórn sjóðsins, en á s.l. vori mótmælti stjórnin, sem er þingkjörin að hluta, en skipuð fulltrúum Alþýðusambands og vinnuveitenda að hinum hlutanum, mjög harðlega því að þessi baggi væri lagður á sjóðinn til viðbótar því sem áður hefur verið á hann lagt, sérstaklega þó að lagður væri á hann sá baggi að koma til móts við og greiða fyrir fólk sem aldrei hefur borgað krónu til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Að sjálfsögðu mun sjóðurinn, vegna þess að um það var gert samkomulag af stórum hluta þeirra sem að honum standa á sínum tíma, standa við að greiða með því fólki sem fellur undir I. kafla þessa frv. til l. um eftirlaun til aldraðra. Stjórnin mótmælti hins vegar algerlega að taka á sig nýjar kvaðir og taldi og telur enn að nauðsynlegt sé, eins og reyndar var fyrirheit um strax í byrjun þegar hinum þýðingarmikla áfanga var náð um fæðingarorlof verkakvenna, að þeim kvöðum yrði smám saman létt af Atvinnuleysistryggingasjóði, hann væri aðeins þarna að létta undir þangað til öllum konum á Íslandi væri tryggður sá réttur, en þeim bagga yrði létt af sjóðnum og sú kvöð féll síðan á almannatryggingar. Það hefur ekki enn verið gert. Það var eitt af grundvallarskilyrðum stjórnar sjóðsins, að til þess að rétta við slæman fjárhag hans væri þessum bagga létt af honum. Ég mun koma betur að því síðar í máli mínu.

Á fundi í stjórn sjóðsins í gær var því lýst yfir af öllum stjórnarmönnum, að þeir hefðu ekki breytt um skoðun í þessu máli, og vitnuðu til yfirlýsingar hæstv. ráðh. um að fæðingarorlofinu yrði létt af sjóðnum á næstunni. En þegar frv. kom fram og þegar formaður heilbr.- og trn. mælti með því að við samþykktum það eins og það kemur fyrir, þ. á m. 3. tölul. 25. gr., og það með mjög lauslegri till. þess efnis að greiðslur komi ekki til úr Atvinnuleysistryggingasjóði nema samsvarandi léttir fáist á fæðingarorlofi sem greitt er úr sjóðnum, töldum við sjálfstæðismenn að þetta gæti ekki verið þannig. Þá lagði hv. 8. landsk. þm. till. um að hlutur Atvinnuleysistryggingasjóðs yrði greiddur alfarið úr ríkissjóði. Ég taldi rétt, og á það féllust meðnm. mínir, fulltrúar Sjálfstfl., að sú till. væri raunhæfari og hún væri í samræmi við það samkomulag sem gert hefði verið á milli aðila og við aðila og að við yrðum að koma á móti þeim sjónarmiðum sem kæmu fram frá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, hafandi í huga fjárhagsstöðu sjóðsins sem hefur auðvitað á undanförnum árum farið mjög versnandi vegna pinkla og bagga sem í sífellu er verið að leggja á þann sjóð. En það hefur verið mjög hátt í huga mjög margra hv. þm. og ráðamanna á undanförnum árum, að þessi sjóður væri ótæmandi og hægt væri að ganga í hann hvenær sem væri þegar eitthvað þyrfti að gera til að bæta um í hinum ýmsu þáttum félagsmála hér á landi. Þessu fordæmi hefur kannske aldrei verið tryggilega fylgt síðustu misserin, þegar kaupskapurinn hefur verið hvað mestur með hin áunnu félagslegu réttindi verkafólks, sem hafa gengið kaupum og sölum yfir búðarborð stjórnmálaflokkanna að undanförnu, en það ver8ur bara ekki í sambandi við þetta mál, því að ekki er hægt að leggja meira á sjóðinn, eins og ég sagði áðan.

Það hefur oft verið vitnað til þess um borð í íslenska flotanum, að fyrstu fréttir, sem skipshöfn heyrir, heyrist oft frá matsveininum. Við heyrðum það á fundi í fyrradag í hv. d., og voru það upplýsingarfrá einum starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins, að fyrir lægju gögn um að búið væri að ofáætla tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs fyrir árið 1979 um upphæð sem næmi 1.4 milljörðum. Þetta var upplýst áður en löglega kjörin stjórn sjóðsins fékk nokkuð um þetta að vita, en þetta kom fram á fundi í gær. Það vakti satt að segja undrun stjórnarmanna, að þeir höfðu ekki fengið að vita um þetta áður og til viðbótar skyldi einmitt standa þannig á að þessi fjórðungshækkun tekna í áætlun fram yfir það, sem fyrir var séð að mati starfsmanna Tryggingastofnunarinnar, skyldi allt í einu liggja fyrir þegar átti að reyna að fá Alþingi Íslendinga til að samþykkja frv. til l. á þennan veg. Ég tel að það sé skylda, ef einhvern tíma hefur verið siðferðileg skylda hjá rannsóknarmönnum Alþingis, að athuga hvaðan slík áætlanagerð er upprunnin og hvort hún kannske hafi orðið til þess að fá Alþingi Íslendinga til að leggja nýja bagga á Atvinnuleysistryggingasjóð. Það hefur, guði sé lof, nú komið í ljós að þetta mun ekki vera nema rúmur milljarður, en það mun einmitt nægja fyrir þeim nýju böggum sem með frv. óbreyttu átti að leggja á sjóðinn.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa mörg fleiri orð um þetta, vegna þess að við höfum tekið þá ákvörðun að tefja ekki mál sem hér eru lögð fram. Hins vegar vil ég aðeins undirstrika að þessi mál, eftirlaun aldraðra, hafa verið áhugamál sjálfstæðismanna og okkur kappsmál að þau næðu fram að ganga. Það sýnist auðvitað sitt hverjum um hvaðan á að afla tekna fyrir nauðsynlegum útgjöldum, svo staðið verði undir slíkum tryggingum. Ég tel að verkalýðshreyfingin og reyndar vinnuveitendur líka hafi komið vel og drengilega á móti með samkomulagi sínu og með gerð sinni og það sé siðferðileg skylda Alþingis að koma eins á móti því fólki sem á hvergi höfði sínu að halla. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að þeir sjóðir, sem kannske verða til eftir langa og stranga kaupgjaldsbaráttu, geti borið uppi öll félagsleg vandamál ákveðinna sviða sem upp koma í þjóðfélaginu. Á ég þá að sjálfsögðu við það fólk sem þarna kemur til viðbótar og fellur undir II. kafla þessa frv. Það er auðvitað skylda ríkissjóðs og sveitarfélaganna, sem í mörgum tilfellum hafa notið teknanna af arðbærri vinnu þessa fólks á liðnum áratugum og kannske haft það í vinnu hjá sér jafnframt, alla vega margt að koma vel á móti á efri árum og leggjast á árina með til þess að þetta geti orðið.

Ég rakti þann fund, sem var í n. í gærmorgun, en síðdegis var aftur fundur og þá vitnaði formaður nefndarinnar til samkomulags sem hafði verið gert 27. sept. í ríkisstj. Ekki batnaði málið þá að mínu mati, því að þá var vitnað til bókunar ríkisstj. sem hafði verið samþykkt í sambandi við þetta mál. Bókunin er þannig, með leyfi forseta:

Ríkisstj. samþykkir að beita sér fyrir því, að frv. til l. um eftirlaun aldraðra verði samþykkt sem lög á haustþinginu og taki gildi frá og með næstu áramótum. Í því sambandi mun ríkisstj. beita sér fyrir því að greiðslum fæðingarorlofs verði létt af Atvinnuleysistryggingasjóði og færðar yfir á atmannatryggingar, enda er það einróma tillaga þeirrar nefndar, sem annars vegar hefur unnið að endurskoðun laga um Atvinnuleysistryggingasjóð og hins vegar að endurskoðun laga um atmannatryggingar.“

Þetta er auðvitað alveg jafnloðið og ekkert út úr því að hafa, enda er það bókað aðeins nokkrum klukkustundum áður en þeir, sem vitna til þessa máls núna, kveiktu í þeim tundurþræði sem sprengdi sömu ríkisstj. í loft upp. Ég fæ því ekki séð hvernig hægt er að vitna til slíkra hluta fyrir okkur, sem utan stóðu þar, og fá okkur til að gera slíka samþykkt frá slíkri ríkisstj. að einhverju heilögu orði fyrir okkur eða þingheim til að fara eftir.

Ég sé svo ekki ástæðu til, hverra forseti, að hafa fleiri orð um þetta. Ég vildi aðeins láta þessi orð koma hér fram vegna þess að ég er stjórnarmaður í Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er hins vegar annað mál, að fullkomin ástæða er til að fá hér fram, þótt ég sé ekki að óska eftir því við hæstv. ráðh. núna, þær till. sem uppi eru um breytingar eða fyrirhugaðar breytingar, sem verða lagðar fyrir þingið, á Atvinnuleysistryggingasjóði. Áður var Atvinnuleysistryggingasjóði fært að tryggja innheimtu sína hjá sveitarfélögunum með því að skuldajafna með lánum sem sjóðurinn gat um langt árabil lánað sveitarfélögum, einstaklingum og öðrum atvinnurekstri. Meðan það var hægt var skuldajafnað og gerð krafa til þess að sveitarfélögin stæðu við framlag sitt. Nú er slíkt úr sögunni og nú er svo komið að það standa ekki aðeins milljónatugir, heldur jafnvel hundruð millj. úti sem vangreitt framlag frá sveitarfélögunum. Við þetta verður auðvitað ekki unað þegar það er haft í huga að útgerðin, sem víða berst í bökkum, og reyndar allur atvinnurekstur verður að greiða sitt framlag mánaðarlega til sjóðsins. Samkv. fyrirmælum um greiðslur opinberra aðila eiga sveitarfélögin að greiða framlag sitt eftir að manntalsgjöld hafa verið ákveðin, — mig minnir að ákvæðin séu eitthvað á þá leið, — en þetta er dregið vegna þess að það eru engin ákvæði um dráttarvexti og ekkert aðhald um innheimtuna, eins og þegar lánveitingar voru frá sjóðnum. Og það merkilega við þá skrá, sem liggur fyrir um skuldara, er að þau sveitarfélög, sem virðast búa við mestu atvinnuna og hafa mestu veltuna heima fyrir og fá mest úr sjóðnum, ekki í atvinnuleysisbætur, heldur í fæðingarstyrki, — það er mikið og fjörugt athafnalíf á þessum stöðum, — eru skuldugust við Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég held að þegar ráðh. gefur þinginu skýrslu um þetta og vonandi leggur fram frv. um breytingar sem nauðsynlegar eru orðnar, og margir eru einnig sammála um ákveðnar breytingar sem ættu að geta gengið fyrir sig og komist í gagnið, þá verði það örugglega fróðlegt fyrir þingheim að fá yfirlit yfir hvernig þessi mál standa hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Ég vil svo aðeins árétta það sem kemur að sjálfsögðu fram í nál., að við fulltrúar Sjálfstfl. erum sammála því og mælum með að þetta frv. gangi í gegn með þeirri breytingu sem hv. formaður n. lýsti áðan.