20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla efnislega um þetta mál við þessa umr., ekki síst vegna þess að hv. síðasti ræðumaður gerði málinu mjög góð skil og í þeim anda sem ég hefði vel getað hugsað mér að tala sjálfur. En þannig stendur á um þetta mál, að það var notað mikið í kosningabaráttunni af Alþfl.-mönnum að við Alþb.-menn og einkum ég persónulega hefðum stöðvað þetta mál í þinginu í fyrra. Það kom einnig fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf. við fyrri umr. að ég hefði komið í veg fyrir að þetta mál kæmist í gegn á næstsíðasta þingi, í vor, með því að leggja til að því yrði vísað til ríkisstj.

Sannleikurinn um afgreiðslu málsins á síðasta vori er að fundur var haldinn í heilbr.- og trn. síðasta þingdaginn, sama daginn og þingi var slitið, þá um morguninn, og þá skiluðum við á sama tíma nál., ég fyrir hönd minni hl. og, að því er mig minnir, hv. þm. Vilmundur Gylfason fyrir hina. (MB: Nei.) Það hefur þá kannske verið hinn Vilmundurinn þarna, hv. þm. Matthías Bjarnason. Ég sé nú ekki mikinn mun á því. (Gripið fram í: Eruð þið ekki báðir ættaðir að vestan?) Jú, en það eru nú fleiri. — En þannig fór, að þessum álitum var skilað mjög fljótt eftir að fundi lauk og þetta mál var ekki einu sinni tekið fyrir á fundinum, og er ekki við neinn að sakast um það, ósköp einfaldlega vegna þess að ekkert tóm var til og enginn tími til og ekkert ráðrúm til að afgreiða eitt einasta mál á þeim fundi sem ekki hafði hlotið fullnaðarumr., ekki einu sinni svo ágætt mál sem frv. um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hæstv. fyrrv. menntmrh. reyndi að hnoða áfram á síðustu mínútunum. Sem betur fór tókst að stöðva það.

Till. um ákvæði til bráðabirgða, sem fylgir nú afgreiðslu þessa frv. og gerir kleift að hægt er að afgreiða málið án sundurþykkis í þinginu, sýnir í fyrsta lagi að það var slæm hugmynd í upphafi að leggja byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóð þegar lögum um fæðingarorlof var böðlað í gegnum þingið af hv. 1. flm. þess máls. En þessi till. sýnir líka að málið var alls ekki nægilega vel undirbúið á þinginu í fyrra og það var ekki heldur nægilega vel unnið. Á því voru þeir gallar sem urðu til þess að komið hafa hér fram dylgjur frá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og fleiri. En þessi till. sýnir einnig að það var réttmætt af minni hálfu að skila þessu nál. eins og það leit út við afgreiðslu málsins á s.l. vori.

Herra forseti. Ég vil ekki verða til að tefja afgreiðslu þessa máls að þessu sinni fremur en í fyrra. En að lokum vil ég segja að ég fagna því að þetta mál skuli fá hér afgreiðslu. Það er mikið jafnréttis- og nauðsynjamál fyrir það fólk sem nýtur góðs af. Ég vil lýsa sérstaklega ánægju minni yfir að þetta skuli ganga svona vel, og ég mun styðja frv. að sjálfsögðu.