14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

108. mál, ávöxtun skyldusparnaðar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að tala í þessu máli og skal þess vegna gera það að litlu leyti, þótt auðvitað sé ástæða til að ræða vaxta- og verðbótamál á hv. Alþingi.

Hér er verið að ræða um anga af stóru máli, þ. e. það sem snýr að verðbólgunni, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason benti réttilega á. Okkur er væntanlega ljóst að með verðbótum eða bundnum vöxtum, raunvöxtum sem hann kallar svo, er ekki verið að koma í veg fyrir sjálfa verðbólguna, heldur það sem skiptir kannske enn meira máli: koma í veg fyrir verstu afleiðingu hennar, þ. e. þá afleiðingu sem lýsir sér í því að fjármagnið rennur til framkvæmda, sem ekki eru arðbærar, og að þannig eru lífskjör almennings rýrð. Það liggur í augum uppi að skyldusparendur hljóta að eiga að njóta forgangs um ávöxtunarkjör. Þeir hafa um það lítið að segja og peningarnir eru af þeim teknir án þess að þeir séu spurðir. Það gegnir þess vegna jafnvel öðru máli um þá en þá sem vegna þess að þeir eiga til skiptanna, eiga umfram það sem þeir þurfa að nota á hverjum degi, geta keypt ríkisskuldabréfin. Þannig finnst mér vera algjörlega augljóst mál að skyldusparendur eiga að ganga fyrir og njóta bestu kjara, ef við á annað borð erum að burðast með skyldusparnaðarkerfi.

Ég skal gjarnan viðurkenna það, og ég held að gott sé að þau sjónarmið komi fram hér í sölum hv. Alþingis, að ég hef stundum velt fyrir mér hvort réttlætanlegt sé að efna til skyldusparnaðar á borð við þann sem hér er verið að ræða um, einfaldlega vegna þess að eftir reglum um hann er ekkert farið. Þeir, sem eru skyldaðir til að spara, njóta t. d. ekki þess hjá Húsnæðismálastofnuninni að fá lán eða ganga fyrir um lán, þótt það standi skýrum stöfum í reglunum. Til viðbótar er fjöldi manna, eins og hér hefur komið fram og er gamalt mál, undanþeginn þessum reglum, en aðrir þurfa samt að sæta því að peningar séu af þeim teknir, geymdir í ákveðinn tíma og borgaðir síðan á verðbólgutímum, ekki síst þegar við höfum hæstv. ríkisstj. sem tryggir okkur upp í 60–70% verðbólgu á ári, nánast án nokkurra vaxta. Þannig var það til skamms tíma.

Ég stóð hér upp til að segja frá því m. a., að ég rak á sínum tíma mál fyrir iðnnema hér í bænum sem ákvað að geyma peninga sína með þessum hætti og njóta seinna þeirra fríðinda sem skyldusparnaðarreglurnar áttu að bjóða honum. Hann fékk ekki skattfrádrátt út á þetta, vegna þess að honum var heimilt að fá peningana endurgreidda. — Þetta nefni ég hér vegna þess að ríkisvaldið og þeir, sem standa að framkvæmd laga, reyna oftast eins og þeir geta að hlunnfara þá sem lána þeim fé, eins og hér er um að ræða, og ekki síst þá sem ekki hafa kosningarrétt og geta ekki talað sínu máli í þjóðfélaginu í almennum kosningum. Það er þess vegna spurning hvort það sé réttlætanlegt yfirleitt að efna til skyldusparnaðar á borð við þennan sparnað, hvort ekki sé kominn tími til þess að vaxtakjörum í landinu sé breytt á þann veg, að hver og einn sem vill geti lagt til hliðar fjármagn og fengið það að fullu endurgreitt. Þá á ég við að höfuðstóllinn komi að fullu til baka.

En á meðan við höfum ríkisstjórnir í þessu landi sem sinna ekki einu sinni lögum sem meiri hl. þeirra hefur staðið að verður auðvitað að fara þá leið sem hér er verið að leggja til. Á meðan við höfum ríkisstjórnir í þessu landi sem hundsa lög eins og svokölluð Ólafslög, en í þeim segir skýrt og skorinort að í lok þessa árs eigi að vera komið það vaxtastig í landinu að fólk eigi að fá höfuðstólinn bættan, þá er auðvitað nauðsynlegt að efna til andstöðu á þinginu með öllum tiltækum ráðum til að ná því fram sem menn vilja fá fram. Ég skil vel hina ungu þm. Framsfl., að þeir skuli gera uppreisn með þessum hætti gegn þeim herrum sem þeir hafa sjálfir valið til forustu í landinu, og ég lýsi því yfir að ég mun styðja viðleitni þeirra til þess.