20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mjög þessar umr.

Síðasti ræðumaður virðist hafa haft samviskubit eftir frammistöðuna í vor í sambandi við þetta mál. Þeir voru tveir sem vildu vísa því til ríkisstj., fulltrúar Alþb. og Framsfl. Þetta mál var þó búið að fá mjög ítarlega meðferð í Ed. og ná samkomulagi þar um málið, og víðtækt samkomulag var um afgreiðslu málsins líka í Nd., þar sem fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. mæltu með afgreiðslu málsins. Hins vegar er það rétt hjá hv. þm., að tími var orðinn naumur vegna þess að n. klofnaði um afgreiðslu málsins. Ef n. hefði skilað samhljóða áliti er ég alveg hárviss um að forseti d. hefði tekið málið fyrir og það verið afgreitt við 2. og 3. umr. og orðið að lögum. En síðan hefur engin breyting orðið á frá því sem við lögðum til í meiri hl. nefndarinnar.

Ég ætla ekki að fara að karpa við þennan hv. þm. um þetta atriði, en ég gleðst þó yfir hverjum einum syndara sem iðrast og vill bæta ráð sitt.