14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

126. mál, launa- og kjaramál

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 217 ásamt hv. 1. landsk. þm., Pétri Sigurðssyni, og hv. 1. þm. Norðurl. v., Páli Péturssyni, till. til þál. um bætta skipan launa- og kjaramála. Till. sjálf hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa samstarfsnefnd eftir tilnefningu frá aðilum vinnumarkaðarins, er falið skuli að athuga og gera tillögur um breytta og bætta skipan íslenskra launa- og kjaramála.

Meginmarkmið og verkefni slíkrar athugunar skulu vera:

1. Að gera tillögur um, hvernig einfalda megi og samræma uppbyggingu launakerfa í landinu með því m. a. að afnema eða draga úr álögum á kaup og aukagreiðslum, en fella þessa þætti inn í taxtakaup.

2. Að endurskoða kauptaxta hinna ýmsu starfsstétta með hliðsjón af raunverulegu lágmarkskaupi. Í kjarasamningum verði í auknum mæli miðað við greidd laun, en ekki taxtakaupið eitt.

3. Að endurskoða reglur um ákvæðisvinnu, uppmælingartaxta og bónusgreiðslur.

4. Við gerð kjarasamninga verði viðfangsefni sérviðræðna afmörkuð betur en nú tíðkast, þannig að árangur þeirra liggi sem gleggst fyrir áður en aðalsamninganefndir hefja samningaviðræður.

5. Að efla almennar kjararannsóknir og í því sambandi að endurskoða starfssvið og starfshætti Kjararannsóknarnefndar.

6. Að gera tillögur um, á grundvelli fyrirliggjandi vitneskju og gagna, hvernig stuðla megi að aukinni innbyrðis samvinnu og samráði helstu heildarsamtaka launþega og koma á markvissri umræðu og fræðslu á þeim vettvangi um ástand efnahagsmála hverju sinni og um grundvallaratriði atvinnu- og efnahagslífs þjóðarinnar.

7. Sú upplýsinga- og fræðslustarfsemi, er felst í 6. lið, haldist í hendur við traust og skipulegt samráð ríkisvaldsins við aðila vinnumarkaðarins.

Samstarfsnefndin skal hraða störfum svo sem kostur er og skila álitsgerð og tillögum áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.“

Þannig hljóðar sjálfur texti till. Ég hafði í upphafi vonast til að ég fengi þm. úr öllum flokkum til að gerast meðflm. till. og leitaði nokkuð fyrir mér í því skyni. Þrátt fyrir mjög svo vinsamlegar undirtektir við efni till. treystust þó Alþb. og Alþfl. ekki til þess, þegar á hólminn kom, að standa að flutningi hennar. Það var haft á orði af hálfu Alþb. að till. væri í sumum atriðum of afdráttarlaus, og af hálfu Alþfl. var því haldið fram, að önnur till. sama efnis lægi fyrir Alþ., flutt af þremur Alþfl.-mönnum. Hér er annars vegar till. um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum, flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Karli Steinari Guðnasyni og Karvel Pálmasyni, á þskj. 14. Um þetta vil ég segja að gefnu tilefni, að mér var fullkunnugt um till. þeirra þremenninganna. Ég hafði kynnt mér hana vandlega og tel hana um margt merkilega og athyglisverða og vissulega í svipuðum anda og till. sú er hér liggur fyrir. En á till. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga hennar er, að ég tel, sá höfuðgalli að hún er allt of yfirgripsmikil. Þar er færst of mikið í fang eigi till. á annað borð að taka alvarlega og eigi hún að öðlast samþykkt á Alþingi. Ég rökstyð þetta álit mitt ekki frekar hér, til þess þyrfti mjög langan tíma. Mér finnst að þetta liggi nokkuð í augum uppi.

Í till., sem hér er fjallað um á þskj. 217, er leitast við að draga fram nokkur meginatriði sem við flm. teljum að geti skipt sköpum í framkvæmd launa- og kjaramála í landi okkar. Hún felur vissulega ekki í sér neinn stórasannleik eða eitthvað sem aldrei hefur heyrst áður. Þvert á móti eru þar settar fram ábendingar og hugmyndir sem hafa flestar verið að velkjast um árum saman í almennri umræðu og karpi um þessi mál.

Enginn hefur haft sig upp í það, ekki mannað sig upp í það að spyrna fótum við þeirri óheillaþróun, sem orðið hefur í þessum málum, til að koma fram umbótum og leiðréttingum sem ég tel að flestir séu í rauninni alveg hjartanlega sammála um að þurfi að gera. Það, sem við þurfum nú, eru því ekki fleiri orð, svo ég vitni til grg. till. Við þurfum að taka markvissar ákvarðanir strax, framkvæma aðgerðir í jákvæðum sáttaanda með velferð þjóðarheildarinnar fyrir augum án þess þó að gleyma neinum. Flokkspólitískt rifrildi og pex má ekki standa í vegi fyrir því, að menn geti tekið höndum saman og unnið að því af alvöru og einlægni að ráða bót á því öngþveiti sem launamál og kjarasamningamál eru komin í nú. Það er sannfæring mín, að það sé hægt ef nægur vilji og skilningur er fyrir hendi hjá þeim aðilum sem mestu ráða um stefnumörkun og ákvarðanir á þessu sviði.

Ég hygg að þegar liggi fyrir nægilega mikið af upplýsingum og gögnum til að hægt væri að hefjast handa strax um undirbúning að breytingum þeim og endurbótum á skipan launa- og kjaramála sem farið er fram á í till. Eftir nokkrar vangaveltur um hvaða leiðir mundu heillavænlegastar og árangursríkastar til að ná fram þeim markmiðum, sem felast í till., varð niðurstaðan þó ekki frumlegri en raun ber vitni, að skora á ríkisstj. að skipa samstarfsnefnd til að vinna að þessu mikilvæga verkefni. Lagafrv., þar sem farið væri fram á að þessum málum væri skipað í lögum, hefði að mínu áliti verið óeðlilegt. Alþ. setur ekki lög um slíka hluti. Það reynir að ná þessum málum fram í samráði við þá menn, sem þekkja gerst til, og slíkt samkomulag er margfalt vænlegra til árangurs en ef Alþ. segði verkalýðshreyfingunni fyrir með lögum hvernig þarna skuli skipað málum.

En um nefndarskipunina segir svo í grg.:

„Það er þannig ekki til lítils ætlast af samstarfsnefnd þeirri, sem hér er gerð tillaga um, og varðar öllu að vel takist til um skipan hennar. Það er með ráði gert að tiltaka ekki nánar en gert er í till. um það, hvernig hún skuli skipuð. Eðlilegt er og sjálfsagt að leitað sé til aðila vinnumarkaðarins um tilnefningu nefndarmanna. Það er hins vegar skoðun flm., að nefndin eigi að vera fámenn, 3–5 menn með staðgóða þekkingu og reynslu á sviði verkalýðs- og kjaramála án þess þó að tilheyra hinum innsta hring í forustusveit launþega og vinnuveitenda, sem alfarið bera hita og þunga samningamálanna. Nefndin ætti þannig að vera eins hlutlaus og unnt er, skipuð hæfum og velviljuðum mönnum, sem njóta almenns trausts og eru líklegir til að meta málin af yfirsýn og óhlutdrægni.“

Fyrstu tveir töluliðir till. fjalla um atriði sem fullyrða má að séu nú eitt hið brýnasta markmið og verkefni sem leysa þarf, þ. e. einföldun og samræming í uppbyggingu launakerfa í landinu og aðlögun kauptaxta að raunverulegu lágmarkskaupi. Í dag eru greidd laun á Íslandi eftir 600–700 mismunandi launatöxtum. Aðeins innan eins fyrirtækis nema kauptaxtar 500, hjá Flugleiðum hf. Hjá Sláturfélagi Suðurlands eru þeir tæplega 350, hjá Slippstöðinni á Akureyri 85. Ég tel fráleitt að störf innan þessara fyrirtækja séu í eðli sínu svo margbreytileg eða svo misjafnlega mikilvæg fyrir viðgang þeirra að slík aðgreining í launum geti átt nokkurn rétt á sér eða samrýmist yfirleitt heilbrigðri skynsemi — og það, sem er verra og okkur er öllum jafnvel kunnugt um, er sú staðreynd, að allur þessi aragrúi af mismunandi kauptöxtum er síður en svo í þágu jafnvægis og réttlætis, heldur nánast markleysa ein, þar sem óteljandi álögur og aukagreiðslur skekkja kauptaxtann svo að hin raunverulega kaupgreiðsla er meira og minna á huldu þegar upp er staðið.

Ég tel að einmitt þarna sé einn hinn versti þrándur í götu fyrir skynsamlegri og réttlátri framkvæmd íslenskra launa- og kjaramála. Hinn almenni launþegi er ráðvilltur, veit ekki lengur sitt rjúkandi ráð. Hann hefur svo sem engin tök á því að fylgjast með og skilja hvernig launin, sem hann fær fyrir vinnu sína, eru til komin. Fyrir hann er það í senn neikvætt og niðurlægjandi og til þess fallið að skapa tortryggni og spennu milli starfsstétta, jafnvel á milli fólks sem vinnur hlið við hlið á sama vinnustað.

Hér þurfum við því að ganga beint til verks og hreinsa til, skýra línurnar og umfram allt að gera hlutina einfaldari. Það væri öllum aðilum jafnt í hag: launamanninum, þeim, sem greiðir honum launin, og hinum, sem fer með hið vandasama hlutverk samningamannsins í umboði samningsaðila. Það mundi bæta andrúmsloftið í samningaviðræðum og draga úr, ef ekki binda endi á baktjaldamakkið allt og laumuspilið sem einkennt hefur í allt of ríkum mæli öll vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Það ætti jafnframt að tryggja aukið jafnvægi á launamarkaðinum, meiri frið um kaup og kjör og skiptingu hinnar svokölluðu „þjóðarköku“.

Þriðji og fjórði liður till. eru í beinu áframhaldi og tengjast beint og óbeint tveimur þeim fyrstu. Hin svokölluðu „hvetjandi launakerfi“ hafa rutt sér mjög til rúms hérlendis á síðari árum. Mun óhætt að segja að sú þróun er æskileg, og víst væri allra best að hver fengi borgað eftir því sem hann vinnur til. En þó eru hér ýmsir agnúar á og vafalaust eiga þessi launakerfi, bónusgreiðslur, uppmælingataxtar og önnur ákvæðisvinna, sinn þátt í því hve umsamdir launataxtar eru í mörgum tilvikum lítt til marks um hið raunverulega kaup eða ráðstöfunarfé sem launþeginn fær í hendur. Full þörf er þess vegna á að endurskoða gildandi reglur í þessum efnum, sem í reynd munu mjög svo margbreytilegar. Munu margir vera þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að setja þarna eitthvert hámark eða þak, sem þá tengist einnig spurningunni um eftir — og næturvinnu, en segja má að eftirvinna sé orðin landlægur ávani — eða öllu heldur óvani — á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er ekki eingöngu spurning um peninga, heldur jafnframt og e. t. v. öllu fremur um vinnuvernd og um leið fjölskylduvernd. Tvímælalaust verður að stefna að því allra hluta vegna að draga svo sem unnt er úr eftirvinnunni, en borga hins vegar betur fyrir dagvinnu.

Þess ber einnig að gæta þegar talað er um ákvæðisvinnu, bónusgreiðslur og fleira, að því er ákaflega misskipt milli launþega í landinu hvaða tækifæri launþeginn hefur til að afla sér aukatekna eftir slíkum leiðum. Það út af fyrir sig eru nokkur hlunnindi, þrátt fyrir að okkur er að vissu leyti þyrnir í augum hve bónusgreiðslurnar og yfirvinna koma þungt niður, stundum of þungt, á fólki sem vinnur við framleiðslustörfin. Þá á ég ekki hvað síst við fiskvinnsluna, þegar bjarga þarf verðmætum, oft með óhæfilega löngum vinnudegi, hvort sem fólkið vill það eða vill ekki. Hins vegar eru það að öðru leyti hlunnindi að geta drýgt tekjur sínar svo verulega sem þetta fólk á kost á. Stórir starfshópar hafa enga möguleika á slíkum tekjuauka.

Ég vil einnig í sambandi við yfirvinnuna og vinnutímann minnast á atriði, sem mér er mikið áhugamál, en það er að koma á sveigjanlegum vinnutíma sem víðast á vinnustöðum. Sjálfstfl. hefur gert þetta mál að stefnumáli sínu. Við sjálfstæðiskonur, Landssamband sjálfstæðiskvenna og sjálfstæðiskvennafélagið Hvöt hér í Reykjavík, héldum ráðstefnu um þetta efni í nóvember 1978 þar sem gerð var rækileg könnun eftir því sem hægt var að gera á viðhorfum til þessarar nýbreytni á vinnumarkaðinum. Sú nýbreytni er í rauninni komin á sums staðar. Olíufélagið Skeljungur reið á vaðið fyrir allmörgum árum, 5–6 árum hygg ég, og fleiri hafa komið í kjölfarið. Það er einróma álit þeirra, sem vinna við slíka vinnutilhögun, að hún sé til stórra bóta. Á henni eru auðvitað bæði kostir og gallar og það er ekki alls staðar hægt að koma þessum sveigjanlega vinnutíma við, en meginkjarni þessarar hugmyndar er í stuttu máli að gefa fólki kast á að aðlaga vinnutíma sinn persónulegum kjörum og einkahögum miklu meira en nú tíðkast, draga dálítið úr harðstjórn stimpilklukkunnar og hins afmarkaða fast setta vinnutíma, sem margir eiga nokkuð bágt með að halda þannig að öllum kröfum sé fullnægt.

Ég hlýt að benda á að fyrir Alþ. liggur nú þáltill., flutt af tveimur sjálfstæðismönnum, hv. þm. Friðrik Sophussyni og Salome Þorkelsdóttur, þar sem farið er fram á að ríkisstj. geri athugun á möguleikum á sveigjanlegum vinnutíma á opinberum stofnunum á vegum ríkisins. Ég vænti þess, að sú till. fái góðan byr og að hæstv. ríkisstj., hvort sem það verður þessi eða einhver önnur sem fær það til framkvæmdar, láti ekki sitja við orðin tóm.

Þessi atriði, svo ég víki aftur að sjálfri till., undir þriðja og fjórða lið munu að jafnaði meðal viðfangsefna sérviðræðna í kjarasamningum, en sérviðræður taka oft miklu lengri tíma en góðu hófi gegnir. Jafnframt verður ætíð sú raunin á, að einstakir þrýstihópar ná í gegnum sérkröfur sínar launa- og kjarabótum sem skekkja hið almenna launamat sem niðurstöður aðalsamningsins byggðust á. Afleiðingin er auðvitað gamalkunn og síendurtekin: launalægsta fólkið, almennir verkamenn, iðnverkafólk, Sóknarkonur, verða að láta sér lynda að aðgangsharðir sérkröfuhópar fái drjúga kaupauka eftir ýmsum krókaleiðum ofan á aðalsamninginn sem gengið var frá áður. Í kjarasamningunum 1977 náðu sérkröfur hjá sumum sérgreinasamböndunum á annað hundrað prósentum. — Ég hef þessar upplýsingar sem og ýmislegt fleira, sem ég byggi á mína tillögugerð, úr mjög fróðlegri og merkilegri bók eftir Baldur Guðlaugsson lögfræðing, sem heitir „Hvernig kaupin gerast á eyrinni“. Ég hygg að öllum þeim, sem hafa áhuga á þessum málum, væri mikill fengur að því að lesa þá bók. Mér sýnist hún samin bæði af þekkingu og lofsamlegri hlutlægni.

Við þurfum í þessu efni, að því er kjarasamningana varðar og sérviðræðurnar, þess vegna að söðla um þannig að aðalsamningurinn geti tekið mið af niðurstöðum sérviðræðna, alveg öfugt við það sem nú tíðkast. Það er alveg ljóst, að eins og málum er háttað nú er það hin mismunandi samsetning launanna sem skiptir sköpum í kjarasamningum. Það er tómt mál að tala um launajafnvægi eða launajöfnun á meðan ekki er horfið frá þeim vinnubrögðum er tíðkast hafa við gerð kjarasamninga. Að sjálfsögðu vegur hér einnig þungt á metunum það vísitölukerfi sem við búum við og viðheldur jafnvægisleysi og ranglæti meira en góðu hófi gegnir. Það er óhæfa hvernig þessar víxlverkanir og hvernig prósentuhækkun eftir vísitölukerfinu í 50–60% verðbólgu fer með launajafnvægi í landinu.

Í fimmta lið till. er lagt til að almennar kjararannsóknir verði efldar og í því sambandi verði endurskoðað starfssvið og starfshættir Kjararannsóknarnefndar. Til nefndarinnar var stofnað fyrir 15 árum með aðild fulltrúa frá ASÍ, Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandinu. Kjararannsóknarnefndin hefur tvímælalaust gegnt mjög mikilvægu hlutverki, m. a. með söfnun upplýsinga um kaup og kjör innan ASÍ, en það er auðsætt, að gagnlegt væri og nauðsynlegt að færa út starfssvið nefndarinnar þannig að það nái til alls vinnumarkaðarins, verði þar almennur vettvangur rannsókna og upplýsinga um ástand launa- og kjaramála í landinu. Þannig virtist mér það kjörið verkefni fyrir allsherjar kjararannsóknarnefnd að kanna og upplýsa þau atriði sem sérstaklega er fjallað um í þessari till., þ. e. samsetningu launanna, vægi kauptaxta, álagsgreiðslur, launahlutföll á vinnumarkaðinum, svo að nokkuð sé nefnt. Væri starfssvið nefndarinnar fært út með þessum hætti kæmi að sjálfsögðu til nauðsyn á endurskoðun á fjármögnun hennar, en starfsemi hennar er nú kostuð af Atvinnuleysistryggingasjóði.

Um það markmið, sem felst í sjötta lið till., verður, að ég hygg, naumast deilt þótt hægara muni sagt en gert að koma því í framkvæmd. Reynslan hefur fram að þessu sýnt að ráð og nefndir, sem stofnað hefur verið til í þessum tilgangi, eru því miður ekki uppörvandi. Þar hefur þó mikið verið talað, að mér er sagt — ég hef ekki setið í þessum nefndum, en minna orðið um athafnir og framtak á þessu sviði. Það væri mikið unnið ef hægt væri eftir einhverjum leiðum að gera hinum almenna launþega, hinum vinnandi manni, hvar í stétt sem hann stendur, kleift að fylgjast með og fræðast um eigin stöðu í síbreytilegu samfélagi, auka þekkingu sína og skilning á högum annarra og tillitssemi. Og ég held að ef vel tækist til um framkvæmd þeirrar nefndar, sem til er lagt að stofnað verði til, mundi hún hafa mikil og góð áhrif fyrir alla aðila. Ég er sannfærð um að hún mundi, ef hún reyndist hlutverki sínu vaxin, verka til góðs og hugsanlega draga nokkuð úr þeim óheillavænlega metingi og spennu milli starfshópa sem sjúklegt verðbólguástand hefur magnað sífellt ár frá ári.

Í sambandi við sjöunda og síðasta lið till. ber þess að geta, að 27. sept. s. l. var gefin út reglugerð samkv. efnahagslögum Ólafs Jóhannessonar, svokölluðum Ólafslögum, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason vill greinilega frekar kenna við sjálfan sig og kalla Vilmundarlög. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að skipuð skuli samráðsnefnd til að sjá um samráð stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins. Þar er gert ráð fyrir 20 manna samráðsnefnd er skipuð skal fulltrúum allra helstu samtaka launþega og vinnuveitenda. Það eru níu samtök samkv. reglugerðinni sem þarna koma til og fulltrúarnir eru samtals 20. Reglugerðin er til komin samkv. laganna hljóðan, áður tilgreindum Ólafslögum, en mér vitanlega er ekki búið að skipa þessa nefnd enn. Ég bind fyrir mitt leyti ekki miklar vonir við starf svo fjölmennrar nefndar til þessa hlutverks sem henni er í raun og veru ætlað.

Í málefnasamningi núv, hæstv. ríkisstj. er því lýst yfir, að hún sé „fyrir sitt leyti reiðubúin til þess að stuðla að einföldun launakerfisins í landinu með því að beita sér fyrir samstarfi helstu samtaka launafólks um stefnumótun í launamálum“. Þetta ákvæði stjórnarsáttmálans hefði að skaðlausu mátt vera ákveðnara, en vissulega felur það í sér vísbendingu um góðan vilja, sem er í sjálfu sér mikils virði og ég vona að verði þessu máli til stuðnings.

Annars væri kapítuli út af fyrir sig, sem ég gef mér ekki tíma til nú að fjalla um, þetta svokallaða samráð stjórnvalda við launþegasamtökin og vinnuveitendur. Þetta er orðið að nokkurs konar skrautorði, nokkurs konar tískuorði í íslenskum stjórnmálum, sem ég tel að hafi verið fram sett af undanförnum vinstri stjórnum sem pólitískt agn frekar en að það hafi verið meining manna að þetta væri raunverulega hægt. Og ég spyr: Er raunhæft að tala um það samráð eins og það hefur verið túlkað af svokölluðum vinstri verkalýðsflokkum fyrir kosningar?

Ég held að samráð sé nauðsynlegt, alveg nauðsynlegt sem vettvangur almennra skoðanaskipta og upplýsingamiðlana á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, en að það geti sagt ríkisstj. og Alþ. fyrir verkum er auðvitað fásinna. Þess vegna held ég að tími sé til kominn að það verði skilgreint rækilega við hvað er átt með þessu fallega slagorði: „samráð við aðila vinnumarkaðarins“. Það er greinilegt að hingað til hefur það verið, því miður, svo til nafnið tómt. Þess er skemmst að minnast nú við afgreiðslu fjárlaga hve fulltrúar launþegasamtakanna báru sig sáran undan fullkomnu sambandsleysi við Alþ. og fyrst og fremst ríkisstj., sem ekki lét svo lítið að minnast á viðamikil lagafrv. sem földu í sér stórkostlega íþyngjandi skattaálögur á launþega og þjóðina alla. Því var það, að mér fannst það koma úr hörðustu átt þegar hæstv. fjmrh. lét þau orð falla í hv. Ed. við umr. um orkujöfnunargjaldið og þetta samráð við launþegasamtökin barst í tal, en hann sagði orðrétt, að samráð við launþegasamtökin og aðila vinnumarkaðarins væri auðvitað bara „hjal út í bláinn“. Það getur hver flett upp í þingtíðindum og staðfest hvort ég fer hér rangt með.

Ég fjölyrði ekki frekar um þetta, en hér þarf að koma til meiri einlægni og hreinskilni en hefur átt sér stað í stjórnarathöfnum síðustu ára. Ég neita því ekki, að ég á fyrst og fremst við þær vinstri ríkisstjórnir sem hér eiga hlut að máli og hafa flaggað þessu óspart. (Gripið fram í: Hvaða þingtíðindi eru þetta?) Það eru þingumræður. Ég býst við að þetta hafi verið hljóðritað eftir hæstv. ráðh. eins og annað það sem fram fer á Alþ. og þm. getur kynnt sér það þegar það kemur hljóðritað í umræðuparti Alþingstíðinda.

Ég fjölyrði ekki um þetta frekar. Þessi till. er borin fram af einlægni og alvöru í þeim tilgangi að hér verði eitthvað gert til bóta, að við reynum að leggja til hliðar, eftir því sem unnt er, flokkspólitískan meting og slagorð og tylliorð, sem eiga að ganga í eyrun á fólki, en reynum að taka á þannig að til bóta verði fyrir allt vinnandi fólk í landinu og fyrir þjóðina alla. Ég hverf senn af þingi, en ég vona að þessi till. fái góða umfjöllun. Þó hún gerði ekki annað en að vekja til alvarlegrar umræðu um þessi málefni og þessi atriði, sem á er drepið, tel ég að betur hafi verið af stað farið en heima setið.