14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

126. mál, launa- og kjaramál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., er í sjálfu sér góðra gjalda verð svo langt sem hún nær og get ég efnislega tekið undir það sem í henni felst. Ég kemst þó ekki hjá því að minna á í þessu sambandi aðra þáltill., sem liggur fyrir hv. Alþ., um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum, á þskj. 14, sem ég er flm. að ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni og Karvel Pálmasyni og hv. flm. þessarar þáltill. kom raunar lítillega inn á áðan. Sú till. tekur til nær allra þeirra þátta sem þáltill. á þskj. 217 gerir ráð fyrir, en till. um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum var lögð fram á 100. löggjafarþingi og aftur í byrjun þessa þings. Sú till. er þó mun yfirgripsmeiri en sú till. sem hér er til umr., en hún gerir einnig ráð fyrir ýmsum undirstöðukönnunum sem nauðsynlegt er að framkvæma ef hægt á að vera að einfalda og samræma uppbyggingu launakerfa í landinu, sem er aðalefnisinnihald þeirrar till. sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði áðan að till. mín væri of yfirgripsmikil til aðhægt væri að taka mark á henni. Ég tel engu að síður nauðsynlegt að slík yfirgripsmikil könnun sé framkvæmd til að hægt sé af þekkingu og heildaryfirsýn að taka raunhæft á þessum málum og við getum byggt á traustum upplýsingum ef breyta á launamálastefnunni. Þetta eru undirstöðuþættir sem verður að framkvæma til að hægt sé að einfalda og samræma launakerfin eins og þessi þáltill. gengur út á. Annað er óraunhæft.

Ljóst er, að ef einfalda á og samræma launakerfin í landinu, m. a. með því að afnema eða draga úr álögum á kaup- og aukagreiðslum og fella þessa þætti inn í taxtakaup, og að endurskoða kauptaxta hinna ýmsu starfsstétta með hliðsjón af raunverulegu kaupi, eins og í till. á þskj. 217 felst, auk þess, eins og fram kemur í till., að í kjarasamningum verði í auknum mæli miðað við greidd laun, en ekki taxtakaupið eitt, eru þessir hlutir vart framkvæmanlegir nema við þekkjum orsök vandans og gerum okkur áður glögga grein fyrir hvernig uppbygging launagreiðslna hefur þróast og hvert er hlutfall hinna ýmsu launakerfa í launakjörum almennt, þannig að hægt sé að sjá hvaða þáttur launakjara er mest ákvarðandi um launakjör almennt. Einnig má benda á nauðsyn þess að rannsaka forsendur flokkaskipunar og annarra kjaraatriða hinna margvíslegu kjarasamninga, þ. e. meta vægi hinna ýmsu eðlisþátta vinnunnar með tilliti t. d. til ábyrgðar, áhættu, starfsreynslu og fleiri þátta. Þekking á þessum þáttum ásamt mörgum fleiri þáttum, sem í till. felast sem ég hef lagt fram um kannanir á tekjuskiptingu og launkjörum, er algjör forsenda fyrir því, að hægt sé að framkvæma á raunhæfan hátt það sem í till. felst sem hér er til umræðu. Staðreyndir hafa einfaldlega ekki legið fyrir til að draga af réttmætar og sanngjarnar ályktanir af þróun þessara mála undanfarna áratugi svo að hægt sé að samræma og einfalda launakerfin í landinu, enda má ætla að einföldun kjarakerfa í landinu hefði þegar verið framkvæmd hefðu þær. upplýsingar, sem nauðsynlegar eru, legið fyrir. Þeirrar þekkingar er hægt að afla ef framkvæmdar eru þær till. sem í þáltill. um tekjuskiptingu og launakjör felast, enda gerir sú till. ráð fyrir að að fengnum þeim upplýsingum verði aðilum vinnumarkaðarins falið að samræma og einfalda kjaraákvæði og launataxta í landinu. Er þar um sambærilegt atriði að ræða og í till. sem hér er til umræðu. Auðvitað geri ég mér ljóst að slíkt tekur nokkurn tíma, en úr upplýsingum er hægt að vinna jafnóðum og þær liggja fyrir. Sum atriðin er hægt að framkvæma á tiltölulega stuttum tíma, önnur taka lengri tíma, enda felst í þeirri till. að niðurstöðurnar verði lagðar fyrir Alþ. jafnan þegar þær liggja fyrir.

Það hefur margsinnis komið fram hjá stjórnmálaflokkunum vilji til að framkvæma það sem felst í till. á þskj. 217 sem hér er til umr. En ég geri ráð fyrir að í reynd hafi enn enginn treyst sér í framkvæmd þeirra mála vegna þess að í dag byggjum við ekki á nógu traustum upplýsingum um ýmsa undirstöðuþætti í uppbyggingu kjaraatriða og launakerfa í landinu.

Herra forseti. Þeir flm., sem að þessari till. standa, hljóta að sjá, séu till. tvær bornar saman sem ég hef hér fjallað um, að í till. um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum felast öll þau atriði sem till., sem hér er til umr., hefur að geyma. Geri ég mér því góðar vonir um að flm. þáltill. á þskj. 217 muni styðja þáltill. um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum og telji að með samþykkt hennar sé tilganginum með tillöguflutningnum á þskj. 217 náð, en sú till. hefur nú verið afgreidd úr n. þar sem allir nm. hafa mælt með samþykkt hennar. Hefur hún einnig hlotið jákvæðar undirtektir aðila vinnumarkaðarins, þó svo hún sé svo yfirgripsmikil að hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir telji orka tvímælis að taka mark á henni, en það er furðuleg röksemdafærsla. Till. má framkvæma í áföngum, eins og ég kom inn á áðan, en hún mun skila betri og traustari upplýsingum um alla þætti kjaramála til að hægt sé að byggja upp sanngjarna launamálastefnu og einfalda hin flóknu launakerfi sem við búum við.