14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

126. mál, launa- og kjaramál

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér fáu við að bæta það sem ég sagði áður. Það er náttúrlega alger rangtúlkun á mínu máli að segja að ég vilji gera lítið úr till. á þskj. 14, sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Karl Steinar Guðnason og Karvel Pálmason eru flm. að. Ég tók það fram, að ég teldi hana athyglisverða og merka. En það er skoðun mín, sem ég ítreka hér, að ég tel að það, sem við þurfum nú, sé ekki að velta þessum hlutum lengur fyrir okkur, þessum meginatriðum sem ég get vel fallist á að felist, ef grannt er að gáð, í till. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En mér sýnist, og ég endurtek það, að ef við eigum að taka þessa till. alvarlega og gera ekki þær umbætur, sem ég tel að séu aðkallandi, nema með þeim hætti sem till. á þskj. 14 gerir ráð fyrir, þá hjökkum við enn um sinn nokkur árin í sama farinu. Ég hef heyrt menn, sem til þekkja, láta svo um mælt að það séu þegar fyrir hendi það haldgóðar upplýsingar um þau atriði, sem till. okkar þremenninganna fjallar um, að í rauninni sé hægt að hefjast handa strax. Ég er ekki að tala um að þetta kæmi til framkvæmda við þá kjarasamninga sem nú standa yfir. Ég veit að þar verður allt við það sama. Ég hlakka ekkert til þeirrar viðureignar sem fram undan er, ég segi það af einlægni, og ég held að fáir hlakki til að sjá endurtekna þá vinnuhætti sem tíðkast hafa við kjarasamninga undanfarin ár.

Ég lýsi því yfir, að að sjálfsögðu styð ég till. á þskj. 14, mér dettur ekki í hug að greiða atkvæði gegn henni því það er ekkert í henni sem ég er mótfallin, síður en svo. En ef við eigum að taka hana eins og hún er lögð fram og tökum hana alvarlega, eins og ég sagði áðan, tekur nokkur ár að koma í framkvæmd því sem hv. 1. flm. till. telur nauðsynlegt sem grunnvinnu og undirbúningsupplýsingar. Alla vega horfir málið þannig við mér.

Mér þykir leitt að hv. 5. þm. Vestf. hefur, eins og stundum áður, misskilið það sem sagt er í ræðustól hér. Ég lagði áherslu á að þessum málum þýddi ekki að skipa með lagaboði. Það hefur hann skilið á þann hátt, að ég vildi ekki skipa þeim með samkomulagi, auðvitað þveröfugt við það sem ég sagði. Ég taldi einmitt að þetta yrði að gerast með samkomulagi og samráði við þá aðila sem þarna eiga hlut að máli, þ. e. hina svokölluðu aðila vinnumarkaðarins.

Ég þarf ekki að orðlengja þetta frekar. Ég hygg, að þessi till. ætti heima hjá hv. allshn. Sþ., og leyfi ég mér að leggja til að henni verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.Hæstv. forseti og skrifari benda mér á að atvmn. væri eðlilegri og ég get vel fallist á það. Ég tek þá aftur till. mína um allshn., en fer fram á að till. verði vísað til hv. atvmn.