20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. 4. þm. Suðurl. varðandi fæðingarorlofið, því hafi verið böðlað hér í gegn, að mér skilst, með mikilli frekju og hávaða. Svo var alls ekki. Það hlaut sína þinglegu meðferð og gekk venjulega leið eins og þingmál gera. Mér sýnist að það séu miklu frekar önnur og nýrri mál sem falla undir þessa skilgreiningu hv. þm. en þetta mál, sem er orðið nokkuð langt síðan hér var í þingsal til umræðu, fæðingarorlofið, þó að það sé náttúrlega alltaf ferskt í huga hv. þm. vegna þess að umbjóðendur hans a.m.k. þurfa á því að halda.

En ég vil aðeins með örfáum orðum benda á að það er nokkuð ólíkt þarna um að vera og það er ólíkt aðhafst í sambandi við þessi tvö frv. Annars vegar er fæðingarorlofið. Þar er um að ræða konur sem eiga aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði. Það hefur verið greitt fyrir þær í þennan sjóð vegna aðildar þeirra að viðkomandi stéttarfélögum. Þær eru að leita í eigið tryggingarfé, þótt ég viðurkenni fúslega að sú trygging eigi ekki að vera til langframa undir atvinnuleysistryggingum. Þetta mál sem nú er fjallað um, á heima undir almannatryggingalögunum, ætti að vera þar ef við værum menn til þess að taka á því hér á Alþingi Íslendinga, og við eigum auðvitað að láta verða af því fyrst eða síðar. Það, sem hér skeður og greinir í milli, er að með frv. um eftirlaun aldraðra er verið að blanda óskyldu fólki saman við og verið að færa það undir Atvinnuleysistryggingasjóð þegar hann er vanbúinn að mæta skylduútgjöldum sínum, hvað þá nýjum.

Ég man eftir því að ég var meðflm. að frv. um fæðingarorlof að vísu aftarlega á listanum, en ég varaði þá við að sjóðurinn mundi ekki þola nema mjög skamman tíma það álag sem þar væri að skapast. En ég hafði vissulega þá trú, að með þessu værum við að brjótast út úr þeim vítahring sem við erum í raun í enn þá, nema þetta er eina sporið sem við höfum reynt að stíga til þess að komast út úr honum, í sambandi við fæðingarorlof fyrir þær fjölmörgu konur sem ekki njóta þess, en eins og kunnugt er nutu þess ekki áður aðrar en þær sem hafa verið í þjónustu hins opinbera, sveitarfélaga og ríkis.

Ég tel að brugðið hafi til hins verra, og á ekki aðeins við þá ríkisstj. sem átti þátt í að þetta samkomulag var gert, heldur líka næstu ríkisstj. sem tók við, sem var ríkisstj. hinna vinnandi stétta, vinstri stjórnin, sem var sprengd í loft upp í þingbyrjun í haust, og verður kannske enn þá versa þegar haft er í huga að næsta vinstri stjórn leggur hið sama til.