15.04.1980
Sameinað þing: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

223. mál, íslenskukennsla í Ríkisútvarpinu

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara þeirri fsp. sem hér er fram borin af hv. þm. Lárusi Jónssyni varðandi staðarval næstu stórvirkjunar. Svar mitt er á þessa leið:

Næstu stórvirkjun utan eldvirkra svæða hefur enn ekki verið valinn staður. Samkv. fjárl. 1980 er gert ráð fyrir 500 millj. kr. fjárveitingu undir liðnum virkjunarrannsóknir. Er það gert til þess að herða á nauðsynlegum rannsóknum á virkjunarkostum utan eldvirkra svæða umfram þær rannsóknir sem Orkustofnun vinnur að. Í ár verður þessu fjármagni varið að meginhluta til rannsókna á Austurlandi, nánar tiltekið á virkjun Jökulsár í Fljótsdal. Tilgangur þessara rannsókna er að koma tæknilegum undirbúningi virkjunar Jökulsár í Fljótsdal á sambærilegt stig og aðrir þeir virkjunarkostir eru sem til álita koma fyrir landskerfið, þ. á m. Blönduvirkjun. Nauðsynlegt er að taka sem fyrst ákvörðun um næstu virkjun eftir Hrauneyjarfossvirkjun, en til þess að það sé unnt er æskilegt að koma tæknilegum undirbúningi þeirra virkjunarkosta, sem til greina koma, á sambærilegt stig. Með þessu fyrirkomulagi í fjárveitingum er farið út á þá braut að útvega lánsfé til þess hluta virkjunarrannsókna sem kominn er af almennu rannsóknarstigi og beinist að framkvæmdatilhögun virkjunar. Gert er ráð fyrir að virkjunaraðili standi undir þessum rannsóknarkostnaði, þegar í virkjun verður ráðist, svipað og gert hefur verið á vegum Landsvirkjunar varðandi þróun virkjunarkosta á hennar vegum. Iðnrn. hefur falið Rafmagnsveitum ríkisins að gegna hlutverki virkjunaraðila varðandi umræddar rannsóknir í Fljótsdal og að hafa um þær samráð við Orkustofnun og fleiri aðila. Svipuð tilhögun þarf að koma til álita á næstunni varðandi aðra virkjunarkosti á mótunarstigi utan Landsvirkjunarsvæðisins, sérstaklega um Blönduvirkjun. Viðleitni stjórnvalda til stofnunar eins öflugs fyrirtækis til að sjá um meginraforkuöflun og raforkuflutning hefur m. a. beinst að því að tryggja að virkjunarkostir sem víðast á landinu komi til álita og að unnt sé að standa að undirbúningi þeirra með svipuðum hætti og Landsvirkjun hefur haft bolmagn til. Verkefni Orkustofnunar er sem lög bjóða almennar rannsóknir á sviði orkumála, þ. á m. frumathugun virkjunarkosta. En þegar nær dregur verkhönnun og framkvæmdastigi er nauðsynlegt að virkjunaraðili sé til kvaddur og hafi forustu um frekari undirbúning.

Varðandi 2. lið fsp., um það, hversu langt rannsóknir eru á veg komnar varðandi Blönduvirkjun, er rétt að upplýsa í stuttu máli að þær rannsóknir og tæknilegur undirbúningur eru á því stigi, að næst liggur fyrir að vinna hina verkfræðilegu hönnunaráætlun og er ætlað fé til þess á fjárhagsáætlun Orkustofnunar í ár, en Orkustofnun er nú að yfirfara fjárveitingar sínar eftir að fjárlög hafa verið samþykkt. Að lokinni þeirri hönnunaráætlun er virkjunin komin á svokallað verkhönnunarstig. Ýmis önnur mál varðandi Blönduvirkjun eru enn óútkljáð, svo sem mál sem tengjast landnýtingu, en nauðsynlegt er að leysa slík mál á fullnægjandi hátt áður en ákvörðun er tekin eða ráðist er í framkvæmdir um virkjun. Nauðsynlegt er að huga einnig að þessum málum varðandi aðra virkjunarkosti, svo sem við Jökulsá í Fljótsdal. Þegar fyrrgreindum undirbúningi er lokið og ákvörðun hefur verið tekin um virkjun, hver sem hún verður, liggur næst fyrir að gera útboðsgögn og jafnframt því að framkvæma ýmsar viðbótarrannsóknir. Gerð útboðsgagna fyrir virkjun má ætla að taki eitt ár eða svo og getur verið eitthvað lengri tími, eftir því hve miklu fjármagni er til þess varið eftir að ákvörðun hefur verið tekin um virkjun.

Að lokum vil ég segja þetta: Það er nauðsynlegt, að á hverjum tíma liggi fyrir fleiri en einn kostur um næstu virkjun fyrir landskerfið. Brýnt er því að stöðugt sé unnið að rannsóknum á orkulindum landsins og samanburði á hagkvæmustu nýtingu þeirra. Við val á virkjunarkosti þarf að taka tillit til væntanlegrar raforkunotkunar, bæði hvað varðar þörf hins almenna markaðar, sérstakt átak til útrýmingar innfluttra orkugjafa til húshitunar svo og ný iðnfyrirtæki af ýmsu tagi.