15.04.1980
Sameinað þing: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

223. mál, íslenskukennsla í Ríkisútvarpinu

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er svo sem til lítils að taka þátt í umr. um svo veigamikil mál og hafa til umráða tvær mínútur, en ég þarf ekki að hafa málalengingar í frammi því að ekkert kom fram í svari hæstv. ráðh. sem bitastætt er. Það er þó öllum vitanlegt og ljóst, að einstefna sú í virkjunarmálum, sem ríkt hefur á Íslandi um alllangt árabil, heldur óhikað og ótrufluð áfram, — einstefna sem Sjálfstfl. ber höfuðábyrgð á, var frumkvöðull að og virðist stefna áfram með undir forustu Alþb.mannsins hæstv. Hjörleifs Guttormssonar iðnrh. Það vill svo til, að í hvert skipti sem talin er brýn þörf á að leggja stórt undir í virkjunarmálum, þá er tilbúið næsta stórátakið á Þjórsársvæði og það er formaður Landsvirkjunar sem semur um það við aðalbankastjóra Seðlabankans hvernig haldið skuli áfram þar, og það samkomulag hefur tekist með ágætum, sú samningsgerð öll.

Ég minnist þess, að þegar við strituðum hér á sínum tíma með lánsfjáráætlun ár eftir ár, þá henti það jafnan á næstsíðasta eða síðasta degi fyrir jólahlé að datt á borð manna álíka upphæð og við höfum verið að togast á um á milli okkar, a. m. k. í Framkvæmdasjóði og hluta hans af lánsfjáráætlun, eins og formanni Landsvirkjunar og aðalbankastjóra Seðlabankans, sem er raunar einn og sami maðurinn, þóknaðist hverju sinni að taka til handa sér við stórvirkjanir á eldvirka svæðinu við Þjórsá. Svona hefur þetta gengið og þeir hafa vafið tungu um höfuð sér hver fram af öðrum, hæstv. iðnrh. og orkumálaráðh., í þessu máli, ekkert síður hæstv. núv. forsrh. meðan hann var orkumálaráðh. heldur en núv. hæstv. orkumálaráðh., sbr. útgáfu hans korter fyrir tólf á lögum til þess að ráðast í Bessastaðaárvirkjun 11. okt. s. l., daginn sem hann veltist þá úr sessi. Og það er eðlilegt, (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Ég sé að núv. hæstv. forseti passar klukkuna miklu betur en framsóknarmaðurinn sem er aðatforseti. En ég þarf ekki, eins og ég segi, mörgu við þetta að bæta. Ég vissi ekki fyrr — og það var það eina sem ég heyrði nýtt í máli hæstv. ráðh. að Blönduvirkjun væri komin lengra á veg í undirbúningi heldur en Fljótsdalsvirkjun. Þetta vissi ég ekki. En þetta upplýsir mann um það, sem ég þykist hafa ráðið í að undanförnu, að Blönduvirkjun er auðvitað það sem að er stefnt núna, enda kannske að sumu leyti skiljanlegt.

Ég hélt þó að það væri ýmislegt annað eftir fyrir austan um landnýtinguna eins og nyrðra, því að mér skilst að nýlegar samþykktir hjá hreppsnefndum eystra stefni ekki beinlínis í þá átt að greiða fyrir þessu máli. En allt er málið þann veg farið, að menn þyrftu betri tíma og lengri að ræða það heldur en okkur gefst nú. Að hinu leytinu vil ég geta þess, að Samtök sveitarfélaga á Austurlandi gerðu ályktun um þessi virkjunarmál í sept. s. l. á Höfn í Hornafirði, þar sem sú stefna, sem ég hafði haldið fram frá upphafi, var alfarið samþykkt.