15.04.1980
Sameinað þing: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

223. mál, íslenskukennsla í Ríkisútvarpinu

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ekki skal ég öfundast yfir því, að fé sé veitt til rannsókna á Austurlandi. Ég hef fram að þessu stutt það að stórvirkjanir risu og stóriðja að vissu marki, og sjálfsagt er að hraða undirbúningi þess. Hins vegar hygg ég að stefnt muni vera að því að leggja aðra línu til Austurlandsins, þannig að um hringtengingu verði að ræða, og þess vegna yrðu auðvitað raforkumál Austfirðinga í miklu betra lagi og miklu meira öryggi þar heldur en verið hefur að undanförnu. Hitt er alveg ljóst, að það er Blanda, sem næst á að virkja, og kemur þar margt til sem enginn tími vinnst til að rökstyðja hér, enda er undirbúningi þar lengra komið og það á strax að hefjast handa um virkjun hennar.

Það er engin leið að sætta sig við það, að einhverjir örfáir menn geti stöðvað slíka stórframkvæmd. Ég er sannfærður um að það má ná samningum við landeigendur, við bændur í Húnavatnssýslu og Skagafirði, ef vel er að því máli staðið. Og það ber að gera, jafnvel þó að það kynni að kosta það að virkjunin yrði eitthvað minni en hún hefur nú verið hönnuð eða verið er að hanna hana og landspjöll þar af leiðandi eitthvað minni. Hún er engu að síður mjög hagstæð virkjun, og það heppilega er, að nú má flytja raforku eftir byggðalínu frá Blöndu bæði austur á við og til Suðurlandsins. T. d. má sjá málmblendiverksmiðjunni fyrir rafmagni um nokkurra ára skeið að norðan, á meðan verið er að koma upp orkufrekum iðnaði þar, sem að sjálfsögðu kemur í smáum eða stórum stíl. Nú er t. d. verið að ræða um steinullarverksmiðju í Skagafirði, sem vonandi verður byggð, en tekur að vísu ekki mjög mikið rafmagn, en engu að síður: mjór er mikils vísir.

Ég get ekki — úr því að ég er kominn hér í pontuna — látið hjá líða að mótmæla þeim ummælum sem hv. síðasti ræðumaður lét falla um formann Landsvirkjunarstjórnar, vegna þess að ég veit að hann er mjög mikill áhugamaður um það að virkjanir rísi annars staðar en á Þjórsársvæðinu. Og það vill svo einkennilega til, að við ræddum þetta mál saman einmitt í fyrradag og hann hvatti mig mjög til þess að gera allt sem í mínu valdi stæði til þess að einmitt Blanda yrði virkjuð næst.