15.04.1980
Sameinað þing: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

223. mál, íslenskukennsla í Ríkisútvarpinu

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans enda þótt mér fyndust þau dálítið afslepp. Það kom þó greinilega fram, að með þessu orðalagi er ekki búið í raun að ákveða hvar næsta stórvirkjun skuli vera utan eldvirkra svæða. En þá vaknar sú spurning, hvort það að vinna nú sem mest að því að athuga marga virkjunarkosti utan eldvirkra svæða geri það ekki að verkum að menn missi af strætisvagninum í þessu efni, því að mér skilst að það þurfi að vinda bráðan bug að því að byrja fljótlega á næstu stórvirkjun í landinu til þess að forða mönnum frá orkuskorti, eftir því sem fram hefur komið af hálfu ýmissa aðila um það efni. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðh. hvort hann treysti sér til þess að gefa þingheimi upplýsingar um það, hvenær þurfi að hefja framkvæmdir við næstu stórvirkjun að hans mati og hvort fyrir liggi nú þegar nægjanlegar upplýsingar um hagkvæmni Blönduvirkjunar t. d. gagnvart Jökulsá í Fljótsdal.