15.04.1980
Efri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

131. mál, flugvallagjald

Frsm. 3. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég reifaði þetta mál lítillega þegar það var til 1. umr. og sagði að okkur Alþfl.-mönnum lítist ekki á þá miklu hækkun á flugvallagjaldinu, sem hér væri fyrirhuguð, og þó einkum og sér í lagi í ljósi þess að ríkisstj. gengi þannig á undan með því að heimta í sinn hlut meira en aðrir, á sama tíma og hún gerði ráð fyrir að draga úr verðbólgunni. Það væri haft á orði að markmiðið væri einhvers staðar í kringum 30% og í leiðinni ætti af verðlagsástæðum að skerða lífskjör almennings um 4.5%, og þá væri ekki rétti tíminn til þess að ríkið heimtaði stórkostlega hækkun á gjöldum í sinn hlut, 60% að viðbættri einhverri byggingarvísitöluþróun, sem enginn veit hver verður eða hvernig ráðh. muni ráðskast með að nýta heimild um. Við höfum þvert á móti verið þeirrar skoðunar, að ríkið þyrfti að ganga nokkuð á undan í þessum efnum, sýna aðhald, það gæti ekki gengið að ríkið ætlaði öðrum aðhald, en hrifsaði sífellt meira í sinn hlut.

Ég hef hér skilað nál. í samræmi við þessi sjónarmið sem er svo hljóðandi:

„Í ljósi þeirrar gífurlegu skattheimtu, sem ríkisstj. ryður nú fram á öllum sviðum, er ekki stætt á því að hækka sérstaklega um 60% flugvallagjald, sem innheimt er af öllum flugfarþegum eins og fyrirliggjandi frv. gerir ráð fyrir, enda er það andstætt tilraunum til viðnáms gegn verðbólgunni.

Þvert á móti á ríkisvaldið að gæta þess, að álögð gjöld af þess hálfu hækki minna en áætluðum verðhækkunum nemur, og ryðja þannig brautina og sýna fordæmi um niðurtalningu verðbólgunnar.

Í annan stað er að ýmsu leyti óréttlátt að innheimta flugvallagjald af innanlandsflugi og skattleggja þannig sérstaklega dreifbýlið, sem verður að reiða sig í ríkum mæli á flugsamgöngur. Til þess að sníða þessa agnúa af fyrirliggjandi frv. er á sérstöku þskj. flutt brtt. um að flugvallagjald verði ekki innheimt af innanlandsflugi, en af flugi til útlanda hækki það um ca. 35% í stað þeirrar 60% hækkunar sem fyrirliggjandi frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir.“

Nánar tiltekið er þessar brtt. að finna á þskj. 317, þar sem í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að í 1. gr. frv. komi 7400 kr. í stað 8800 kr. Þetta á við flugför til útlanda annarra en Færeyja og Grænlands.

Í annan stað er gerð till. um það, að orðin „innanlands eða“ í 1. málsl. 3. gr. falli niður, og einnig að niður falli 4. 7. málsl. gr.

Í þriðja lagi er síðan gert ráð fyrir því, að 3. gr. orðist þannig:

Lög þessi öðlast gildi 15. maí 1980.

Ég tók eftir því, þegar talað var fyrir áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn., að hún mælti með því að frv. yrði samþykkt óbreytt. Í 3. gr. frv. segir að lög þessi öðlist gildi 1. apríl 1980. Hann er liðinn. Er það hugmynd 1. minni hl. að sendir verði bakreikningar til allra flugfarþega innanlands og erlendis fyrir tímabilið sem liðið verður frá 1. apríl þegar lög þessi öðlast gildi? Ef svo er, þá hefði ég gjarnan þegið upplýsingar um það innheimtuform sem verður notað við innheimtu flugvallagjalds sem fellur á tímabilið frá 1. apríl og þangað til þetta frv. yrði orðið að lögum. Það er vegna þess að ég taldi vissa agnúa á þessu og að innheimta aftur fyrir sig með þessum hætti yrði torveld og kostnaðarsöm sem ég flutti líka brtt. um að gildistíminn breyttist í samræmi við það sem ætla má að hæfilegt sé.