15.04.1980
Efri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 3. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég get fyrst tekið undir áskorun hæstv. fjmrh. áðan til hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar um að hann endurtaki ræðu sína við 3. umr. þegar forsrh. er viðstaddur. Ég held að það sé holl ábending og eitt af því skásta sem hefur komið frá hæstv. fjmrh. mjög lengi.

Annars tel ég að það hafi verið mjög gott að hæstv. fjmrh. skyldi gefa þær yfirlýsingar sem hann gaf hér áðan, að ekki væri um ósanngjarnan mun að ræða hjá neinum þjóðfélagshópum að hans dómi í skattlagningu miðað við gamla kerfið, ef það hefði verið framreiknað, og svo það sem stjórnarliðar leggja nú til að verði notað.

Ég tók líka eftir því, að hæstv. fjmrh. orðaði það svo, að einstæðir foreldrar hefðu samkv. þeim skattalögum, sem giltu í tíð íhaldsstjórnarinnar, notið verulegra fríðinda — verið nokkurs konar forréttindahópur, þangað til núv. hæstv. fjmrh. gerir á þessu bragarbót, væntanlega með því að hækka sérstaklega á þeim skattana. Ég kannast ekki við að hæstv. fjmrh. hafi fyrr gefið yfirlýsingar af þessu tagi, um það, að að hans áliti væru einstæðir foreldrar — eða hefðu verið — eins konar forréttindahópur. (Fjmrh: Hvorki fyrr né síðar hef ég gefið slíka yfirlýsingu. — Gripið fram í: Íhaldið er alltaf best.) Ég heyrði ekki betur í þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. gaf hér, en að þeir hefðu notið alveg sérstakra fríðinda og í því felist einmitt þetta sem ég hef sagt. En það er mjög athyglisvert, að hæstv. fjmrh. skuli gefa þá yfirlýsingu, að hér sé hvergi um ósanngjarnan mun að ræða, það sé um óverulegan mun að ræða.

Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, að ég er alls ekki þessarar skoðunar, hvorki að því er varðar þá einhleypinga, sem ég gerði hér sérstaklega að umræðuefni, með mjög lágar tekjur, né heldur einstæða foreldra. Ef framreiknað er samkv. gamla skalanum annars vegar og hins vegar samkv. þeim till., sem stjórnarflokkarnir eru nú að gera, á þær tekjur sem menn höfðu á árinu 1979, þá kemur hér að mínum dómi fram mjög verulegur munur og mjög veruleg skattaþynging á fólki með mjög tágar tekjur. Og ég tel að fólk á þessu tekjubili, með kannske 225–250 þús. kr. á mánuði, muni um það þegar lagt er á það aukalega 120–150 þús. kr., eins og dæmið um einstæða foreldra hér áðan sannar. Það er það sem felst í þessum till., að einstæðu foreldri með eitt barn á þessu tekjubili er gert að greiða 120–150 þús. kr. meira en samkv. gömlu skattalögunum. Ég tel, að um mjög verulegan mun sé að ræða og hann mjög ósanngjarnan, og er því mjög ósammála hæstv. fjmrh. um þetta mál.