15.04.1980
Neðri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

137. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr. og flutt er af hv. þm. Pétri Sigurðssyni — og fleirum raunar, hygg ég vera skynsamlegt frv. og vil lýsa þeirri skoðun minni strax, að ég hygg að þær breytingar, sem hér er verið að leggja til, séu af hinu góða. Ég hygg einnig að það sé rétt hugsun, sem fram kemur í fyrstu og raunar einu grein þessa frv., sem sé sú, að skilyrða þetta með þeim hætti, að ef 1/5 hluti félagsmanna krefst þess eða fer fram á það að hlutfallskosningar séu teknar upp í félögum launþega, þá eigi þeir rétt á slíku. Ég vil orða það svo, að hér sé ekki um það að ræða að verið sé að níðast á réttindum verkalýðsfélaga eða félaga launafólks, heldur sé þvert á móti verið að vernda rétt minnihlutahóps. Og ég er jafnvel þeirrar skoðunar, að þetta sé of hátt hlutfall. Þetta hefði mátt vera 1/10, þ. e. ef tíundi hver félagsmaður fer fram á slíkar hlutfallskosningar, þá sé það skylda í félögum yfir ákveðinni stærð að viðhafa slíkar kosningar.

Ég vil þegar í stað vísa á bug rökum af því tagi, að hér sé verið að ganga inn á hið frjálsa félagakerfi. Ég held þvert á móti að það eigi að vera starf Alþingis m. a. að vernda réttindi hvers konar minnihlutahópa í samfélaginu, og ef minnihlutahópur í launþegafélagi er 1/5 eða fimmti hver félagsmaður, þá er það orðinn býsna stór minnihlutahópur, og ef slíkur minnihlutahópur krefst þess að njóta þessara félagslegu réttinda, sem hlutfallskosningar vissulega eru, þá á hann að vera lögverndaður með slíka kröfu.

Ég ítreka þá skoðun mína, að ég hygg að almennt talað sé þetta frv. af hinu góða, og ég held líka að það sé bæði vel og snyrtilega fram sett, þannig að fyrir því ætti að geta verið meiri hl. fulltrúa hér á hinu háa Alþingi.

Það er auðvitað aldrei ofsagt, að verkalýðsfélögin í landinu eru orðin feikilega öflugur hluti stjórnkerfisins. Það er jafnvel talað um að aðilar vinnumarkaðarins myndi hinn fjórða meið stjórnarskrárinnar, að það sé ekki lengur um þrískiptingu valds að ræða í framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald, heldur séu aðilar vinnumarkaðarins orðnir hinn fjórði armur. Þekktir og viðurkenndir og virtir lögfræðingar hafa haldið þessari skoðun á lofti. En það er auðvitað að fara út fyrir efni þessa máls, ef sú hugmynd út af fyrir sig er gerð að umræðuefni, en engu að síður lýsa þessara skoðanir því, að við erum ekki að tala hér um smávaxið mál.

Þá má nefna, eins og kom fram í framsöguræðu hjá hv. frsm., að armar launþegafélaganna teygja sig víða. Félagsgjöld mynda háa upphæð. Í lífeyrissjóði og aðra slíka sjóði renna svo risavaxnar upphæðir að það skiptir miklu máli að svo sé um hnúta búið, að raunverulegt lýðræði í þessum félögum sé mikið.

Ég vil skjóta því hér inn, að þetta frv. er náskylt frv. sem flutt var hér á næstliðnu þingi af hv. þm., sem þá var, Finni Torfa Stefánssyni, ásamt okkur fleiri jafnaðarmönnum. Það var lýðræði í Sambandi ísl. samvinnufélaga, en eins og allir vita, sem um það vilja vita, er í Sambandi ísl. samvinnufélaga eins konar þrepalýðræði og óravegur frá æðstu stjórn, framkvæmdastjórn, „niður“ til hins — og ég undirstrika þessi orð — niður til hins almenna félagsmanns. Það sem við jafnaðarmenn lögðum til — og hlustuðum fyrir vikið á einhverjar hysterískusku umr. sem ég hef heyrt á hinu háa Alþingi — var það að æðsta stjórn samvinnuhreyfingarinnar væri kosin beinni kosningu af öllum þeim sem í kaupfélögum eru félagar með einum eða öðrum hætti. Þetta náði ekki fram að ganga, en við höfum í okkar hóp rætt um að endurflytja þetta frv. á þessu þingi. Ég vil aðeins vekja athygli á skyldleika þessara tveggja mála. Ég hygg að frumhugsunin sé sú sama í báðum tilvikum.

En til þess að koma aftur að launþegafélögunum, þá er það auðvitað ljóst, að þó að þetta séu að stofni og hugmyndum og hugsjónum sömu félögin og þau sem stofnuð voru á árunum fyrir og eftir 1916, þá hefur margt breyst. Þessi félög eru víða auðvitað miklu fjölmennari, enda þjóðfélagið allt orðið fjölmennara. Þau eru ekki lengur að berjast fyrir sömu frumþörfunum og barist var fyrir á bernskuárum verkalýðshreyfingarinnar — og guði sé lof fyrir það. M. a. fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar er allur þorri félagsmanna hennar ekki lengur nauðþurftafólk, heldur er þetta orðið oft fólk í góðum álnum, svo er verkalýðshreyfingunni sjálfri ekki síst fyrir að þakka. En jafnframt eru þó félög þau, sem hér um ræðir, ekki lengur fátæk félög, heldur stundum forrík og beinlínis bákn. Og vegna þess að svo er, þá hefur hugsjónaljóminn kannske fölnað eitthvað. Þetta er rekið meira eins og fyrirtæki og minna eins og hugsjónafélagsskapur og það þarf ekki að vera eingöngu af hinu illa. Það getur verið beinlínis af hinu góða. En vegna þessara breyttu aðstæðna, þó að meiðurinn sé auðvitað sá sami, þurfum við að hugsa margt í þessari hugmyndafræði alveg upp á nýtt.

Og eitt er það mál sem hér er verið að leggja til. Hugsum okkur félag með á fimmta þús. manns, eins og Dagsbrún í Reykjavík, eða Verslunarmannafélag Reykjavíkur, sem er með hátt í 10 þús. manns. Auðvitað hlýtur það að vera óþolandi, að 40% minni hl. hafi enga möguleika á því að koma manni í stjórn þessara félaga. Og auðvitað vitum við líka af hverju þetta er svona. Þetta er oft varnarkerfi — ég er ekki að tiltaka þessi sérstöku félög, heldur lýsa málinu almennt — þetta er varnarkerfi tiltölulega mjög þröngs valdahóps, sem kannske fyrir árum eða áratugum hefur sest að völdum í félagi og hefur — oft með illa auglýstum aðalfundum, löngum og leiðinlegum og svo fráhrindandi að þangað nenna ekki að koma nema nærri því „félagslegir maníakkar,“ aðrir koma ekki á slíka fundi, og þannig er völdunum haldið ár eftir ár. Þetta þekkja auðvitað allir sem nálægt slíkum málum hafa komið eða tekið þátt í félagslífi yfirleitt. Enn eitt hefur líka breyst. Hér á árum áður, á frumárum verkalýðshreyfingarinnar, gerði verkalýðsfélagið meira en að annast kjaramál. Þetta voru bókmenntafélög. Þetta voru skákklúbbar. Þetta voru íþróttafélög. Félagslífið hefur breyst og orðið fjölþættara, guði sé lof fyrir það. (Gripið fram í: Og stúkur líka). Jafnvel. Núna tefla menn skák í skákklúbbum eða stunda sínar íþróttir í íþróttafélögum og fá sína andlegu næringu annars staðar. Það er af hinu góða. En það þýðir auðvitað það, að starfsvettvangur launþegahreyfingarinnar hefur í raun þrengst, jafnvel þó að í boði sé sama fjölbreytni og áður. Fjölbreytni í félagslífinu almennt hefur töluvert breytt áherslum þessarar starfsemi.

Af þessu dreg ég þá ályktun, að það sé lýðræðislega og félagslega rétt, að kosningar í stórum verkalýðsfélögum — ég skal út af fyrir sig ekki segja hvort talan 300 er nákvæmlega sú rétta, það er auðvitað flókið matsatriði — fari fram á þennan hátt.

Hitt er svo annað mál og orkar auðvitað alltaf tvímælis og vekur alltaf spurningar, hvort hv. Alþ. er nákvæmlega rétti vettvangurinn til þess að taka ákvörðun af þessu tagi. Hv. þm. Pétur Sigurðsson endaði raunar mál sitt á því að leggja til að þetta frv. yrði sent Alþýðusambandsþingi til umfjöllunar. Ég er honum sammála um það, þó ég sé beinlínis trúaður á að hér sé um rétt frv. að ræða, að auðvitað er samráð af hinu góða, a. m. k. fyrst í stað. Samráð við launþegaforustu hefur sína galla. Það hefur þá galla, að það er hætta á að þar sé verið að hafa samráð við aðila sem beinlínis eiga hagsmuna að gæta í því, að svona frv. verði ekki samþ., jafnvel þó að allur þorri félagsmanna sé gagnstæðrar skoðunar. Það er valdakerfið að verja sig. Sú hætta er auðvitað alltaf og ævinlega fyrir hendi. Engu að síður er þetta frv., sem hér hefur verið mælt fyrir, af hinu góða. Það er skylt öðrum hugmyndum sem menn hér hafa verið að velta fyrir sér, skylt frv. sem mælt var fyrir hér í fyrra og ég hef þegar gert grein fyrir.

Því má aldrei gleyma, að þetta frv. á ekkert skylt við þann öfgafulla og oft dólgslega áróður gegn verkalýðshreyfingunni sem í vaxandi mæli hefur verið haldið á lofti af svokölluðum nýfrjálshyggjumönnum erlendis og lærisveinum þeirra hérlendis. Það kemst ekkert þjóðfélag af án sterkrar og voldugrar launþegahreyfingar. Og alveg eins og atvinnufyrirtæki eru misjafnlega sterk, en mörg þeirra sterk og það er af hinu góða, þá verða auðvitað launþegar líka að hafa sín sterku samtök til þess að verja hagsmuni sína og félagsmanna sinna og sækja fram til betra lífs. Ég vara við því að blanda framsöguræðu fyrir frv. eins og því, sem við hér erum að ræða, eða orðum mínum saman við hinn dólgslega áróður gegn verkalýðshreyfingunni, hugmyndir eins og þær, að verðbólga eigi rætur í verkalýðshreyfingunni einni, — eins og hægri „intelligentar“ á Bretlandi halda mjög stíft fram og hafa gert um margra ára skeið, — að allt illt sé frá verkalýðshreyfingunni komið. Slíkar hugmyndir geta verið stórhættulegar.

Ég lít ekki svo á, og það var ekki heldur að heyra á framsöguræðu hv. frsm. fyrir þessu frv., að þetta sé verkalýðsfjandsamlegt frv. Ég játa það, að ég hef oft heyrt þessi orð um sjálfan mig og í mínum eigin flokki, að ég sé verkalýðsfjandsamlegur maður. Ég er sannfærður um að það byggist á misskilningi þeirra sem slík orð láta falla. Engu að síður er ég þeirrar skoðunar, alveg eins og fram kemur hjá hv. frsm., að verkalýðshreyfingin sé um margt félagslega steinrunnin og að fyrir því séu vissar ástæður, þetta sé ekki alfarið tilviljun, þetta sé vörn valdakerfis sem situr og hefur setið. Ég er þeirrar skoðunar, að þessu frv. sé ætlað að kippa þar í spotta réttlætis. Ég er þeirrar skoðunar, að það séu rétt vinnubrögð sem lýst var af hv. frsm., að við höfum svo mikið samráð sem unnt er við svo marga sem mögulegt er, en þó er það endanlega Alþ. sem slíkar ákvarðanir tekur. Og jafnvel þó að neikvæðar umsagnir kæmu frá verkalýðsforustunni um þetta, þá er ég sannfærður um að vilji alls þorra félagsmanna, hinna almennu félagsmanna, venjulegra manna sem vinna sína vinnu, tefla sína skák og leika sínar íþróttir, — að vilji þeirra stendur til þess að frv. af þessu tagi nái fram að ganga. Sem þm. og kjörinn af hluta kjósenda, vil ég hafa samráð, en að lokum er mér skylt að taka sjálfur ákvörðun og það mun ég gera. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Pétur Sigurðsson eigi við það, að við skulum fara okkur hægt í þessum efnum. En endanlega vil ég styðja þetta frv. með þeim fyrirvörum sem ég hér hef lýst. Ég vil að það verði að lögum.