15.04.1980
Neðri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

56. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til meðferðar, er gamall kunningi. Það fjallar eingöngu um það, að landbrh. fái heimild til að veita leyfi til slátrunar í sláturhúsum sem ekki hafa fengið löggildingu. Síðast mun þetta hafa verið til umr. hér á hv. þingi fyrir tveimur árum, og þessi heimild nú skal veita til ársloka 1982.

Fyrir rúmum 10 árum var nefnd sett á laggirnar til þess að gera áætlun um uppbyggingu sláturhúsanna. Ekki man ég hvernig það stóð þá, en skömmu áður voru sláturhús, sem var slátrað í 116. Á s. l. hausti mun hafa verið gefið leyfi til að slátra í 56 sláturhúsum, en þar af voru aðeins 11 með löggildingu. Ég sé það í áætlun frá nefndinni, frá n. sem skipuð var 1969 og skilar áliti í mars 1970, að þá var gert ráð fyrir að byggja upp 12 sláturhús á næstu fimm árum. Í fyrsta og öðru sæti þar eru sláturhúsið á Patreksfirði og endurbygging sláturhúss á Ísafirði. Það er ekki farið að byggja þessi sláturhús enn. Og það verður að segjast eins og er, að þessi mál standa engan veginn nógu vel. A. m. k. á sumum þeim stöðum, sem eru með undanþágu, er ástandið þannig að við það er ekki hægt að búa til langframa.

Árið 1974 var aftur skipuð nefnd til þess að gera áætlun til næstu fimm ára, og eins og í fyrra tilvikinu hefur þessi áætlun ekki staðist, þó að vissulega hafi þokast ögn á leið, því að 11 sláturhús eru þó komin með löggildingu, 3–4 eru í uppbyggingu og menn fara að sjá fyrir endann á því að þau muni fá löggildingu, sennilega á þessu ári.

Ég vil drepa á þetta hér vegna þess að menn hafa talið að nokkurt fjármagn þyrfti til þess að byggja upp vinnslustöðvar landbúnaðarins, en þrátt fyrir það er þetta verk ekki nema svo sem hálfnað. T. d. á Vestfjörðum er ekki nema eitt hús með löggildingu. Það er að vísu verið að byggja annað og endurbyggja það þriðja, en á Vestfjörðum var slátrað á tólf stöðum á s. l. hausti, og a. m. k. á sumum þessum stöðum er ástandið þannig að það verður ekki slátrað þar aftur.

Þetta mál var borið fram í Ed. og þar af leiðandi láðist okkur í landbn. Nd. að kanna formið á frv. Því miður mun vera á því formgalli. Í öðru lagi hefur komið fram ósk um það, bæði frá einum nm. í landbn. og enn fremur frá hagsmunaaðilum, að n. athugi frv. á milli 2. og 3. umr. Það væri kannske ekki mikið mál að biðja hæstv. forseta að sjá til þess, að komið yrði réttu formi á till., því að þessi breyting er ekki við 1. gr., heldur við 2. gr. frv. En þar sem n. þarf að fjalla um þær beiðnir, sem komið hafa fram, mun verða boðað til fundar í n. milli 2. og 3. umr. og málið athugað frekar í heild.