16.04.1980
Neðri deild: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

109. mál, tollskrá

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haldið fund um mál það sem hér er á dagskrá með tilliti til þeirra umr. sem áður urðu. Við kvöddum á okkar fund fulltrúa fjmrn., deildarstjóra í tolladeild, Björn Hafsteinsson, og einnig fulltrúa frá tollstjóraskrifstofunni.

N. telur að þær brtt., sem fram hafa komið, eigi fullan rétt á sér og séu allrar athygli verðar, og n. telur einnig að ýmsar aðrar breytingar þurfi að gera á þessari löggjöf. Það er t. d. spurning hvort málefni öryrkja eigi heima í tollskrárlögum, hvort þau eigi ekki fremur heima í tryggingalöggjöfinni.

N. hefur orðið ásátt um að skrifa fjmrn. svo hljóðandi bréf og stíla það til tolladeildarinnar:

„Í framhaldi af umræðum á fundi fjh.- og viðskn., þar sem þér voruð viðstaddur, óskar n. eftir því, að ákvæði 27. liðs 3. gr. um tollskrá o. fl. verði tekin til endurskoðunar, m. a. með tilliti til meðfylgjandi brtt. Greinagerðir og tillögur til úrbóta óskast sendar n. fyrir 10. okt. n. k.“

Okkur í n. er ljóst að þessar reglur þurfa endurskoðunar við. Út af fyrir sig skiptir ekki höfuðmáli hvort breytingar á þeim verða lögfestar nú vegna þess að úthlutun á leyfum hefur í reynd þegar farið fram. Hins vegar hefur ekki verið hægt að senda þau út vegna þess að staðið hefur á löggjöf frá Alþ. Fjöldi öryrkja bíður því eftir að þessi löggjöf verði samþykkt. Við viljum því mjög reyna að greiða fyrir að þessi lög öðlist sem fyrst gildi á Alþingi, en það er ljóst að öryrkjar hafa í reynd þegar tapað nokkuð á þessum drætti. Gengi hefur breyst og söluskattur hefur einnig breyst.

Þær brtt., sem vísað er til í bréfi okkar, eru þær till. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur flutt og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Þær höfðu að vísu reiknað með að breyta orðalagi þessara brtt., og n. hefur þegar fengið hið breytta orðalag í hendur. Við munum senda rn. brtt. í því formi sem þær liggja nú fyrir í.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Ég vænti þess að það geti hið fyrsta gengið til Ed. þannig að það fólk, sem lengi hefur beðið eftir því að fá eftirgjöf á tollum vegna bifreiða sinna, geti fengið afgreiðslu hið fyrsta.