16.04.1980
Neðri deild: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

109. mál, tollskrá

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á 100. löggjafarþingi var lagt fram sams konar mál og hér er til umr., um breytingar á tollskrá o. fl. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins um að ræða breytingar í samræmi við hækkun á verðlagi sem orðið hefur frá þeim tíma þegar Alþ. samþykkti sams konar mál á 100. löggjafarþingi.

Við 1. umr. um þetta mál flutti ég brtt. þess efnis að heimilt skyldi að hækka þessar undanþágur árlega í hlutfalli við breytingar á verðlagi. Ég taldi sjálfsagt að slíka brtt., svo sjálfsögð sem hún er, ætti einmitt að samþykkja hér á Alþ. samhliða þessu frv. til þess að við þyrftum ekki á hverjum tíma að fjalla um þetta mál á Alþ. og láta það ganga í gegnum sex umr. og nefnd, en svo sjálfsagt er að þetta fylgi verðlagsþróun. Ég lagði brtt., eins og ég sagði, fram við 1. umr. þannig að n. hefði átt að geta haft nægan tíma til að athuga málið. Samt var það svo, að við 2. umr., þegar þetta mál kom á dagskrá, hafði n. ekki haft brtt. mína til umfjöllunar.

Fram kom í þeirri umr., sem þá fór fram, hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni, að þegar sams konar mál var lagt fram á 100. löggjafarþingi hefði það ekki verið ósk Öryrkjabandalagsins að sá háttur yrði hafður á sem fram kemur í brtt. minni, eftirgjöfin mundi haldast í hendur við verðlagshækkanir. Ég kynnti mér þetta milli 2. og 3. umr. hjá fulltrúum Öryrkjabandalagsins. Þarna var ekki rétt með farið vegna þess að í umsögn, sem fylgdi með frv. á 100. löggjafarþingi og gefin var af Öryrkjabandalaginu, kemur einmitt fram ósk Öryrkjabandalagsins um að tollaeftirgjöfin haldist í hendur við hækkun á verðlagi.

Það hefur komið fram ósk frá formanni n. um að ég dragi till. núna til baka. Í sjálfu sér sé ég ekki mikla ástæðu til að draga hana til baka, sérstaklega þegar liggur fyrir að hér er um að ræða einnig ósk frá Öryrkjabandalaginu. En með tilliti til þess að fram hafa komið fleiri brtt. og það er skoðun n. að þær þurfi nánari athugunar við, auk fleiri atriða og sjónarmiða sem uppi voru í n., get ég, þó með semingi sé, dregið till. mína til baka og fallist á að ekki sé einn þáttur af þeirri endurskoðun, sem fram á að fara, tekinn út úr og samþykktur. Og með vísan til þess bréfs, sem hv. formaður fjh.- og viðskn. hefur lagt hér fram um að þessi mál verði í heild skoðuð af rn. og sú endurskoðun liggi fyrir í októbermánuði n. k., og í trausti þess, að brtt. í þá veru, sem ég hef lagt fram og hv. þm. Guðrún Helgadóttir — ég styð brtt. hennar einnig, verði lagðar strax fram í byrjun þings í haust, mun ég fallast á að draga till. mína til baka. En eitt er víst, að það verður grannt fylgst með að slíkar brtt. verði lagðar fram næsta haust, en þær verði hvorki svæfðar í n. né rn.