17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef óskað þess að taka til máls utan dagskrár vegna skyndilegrar og óvæntrar óskar fjmrh. nm að fresta umr. um skattstiga sem áttu að fara fram í kvöld.

Eftir því sem lesa má í blöðum í dag og ljóst er af dagskrá Alþingis hefur hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, tekið miklum sinnaskiptum undir miðnættið í gærkvöld. Í gærdag var hæstv. fjmrh. ólmur í að ljúka umr. um skattstigafrv. sem fyrst, og hann og ýmsir aðrir stjórnarliðar reyndu reyndar að þvælast fyrir því af öllum mætti að ósk okkar Alþfl.-manna um útvarpsumræður næði fram. Það gerðu þeir m. a. á þeim rökum að það tefði fyrir afgreiðslu málsins. Þá var greinilega ætlun hæstv. fjmrh. að renna málinu í gegn með hraði. Nú hefur sami ráðh. hins vegar óskað eftir því, að umr. verði frestað fram yfir helgi, eftir því sem heyra má í fjölmiðlum. Því vil ég spyrja hæstv, ráðh. og biðja hann um að gera þingheimi grein fyrir því, hvað valdi þessum miklu sinnaskiptum hans. Það er nefnilega í hæsta máta óvenjulegur gangur máls að heimta fyrst að öllu sé flýtt eftir fremsta megni og m. a. s. að þvælast fyrir ósk um útvarpsumræður, vera t. d. með óraunhæfar tillögur um að þær .færu fram í gærkvöld, sem þó var vitað að væri tæknilega ómögulegt, en koma svo nokkrum klukkustundum seinna og biðja um margra daga frest. Ætli það sé ekki einsdæmi í sögu Alþingis að flm. óski þess sérstaklega að hlaupa þannig skyndilega undan umr. um eigið mál, biðja um frestun s umr. á eigin máli rétt eftir að hafa viljað flýta því? Á þessu finnst mér eðlilegt að þingheimur fái skýringar.

En það er ekki úr vegi í þessu sambandi að rekja ástæður þess, að við Alþfl.-menn óskuðum eftir útvarpsumræðum um skattstigafrv., og hver viðbrögð hafa verið við því, svo dæmalaust er það og rétt að öllum þingheimi sé það ljóst nú þegar ráðh. gerir væntanlega grein fyrir sinnaskiptum sínum á eftir.

Við 2. umr. um þetta mál í Ed. s. l. þriðjudag gerði ég grein fyrir því, bæði í nál. og í ræðu, hvernig skattbyrði ykist samkv. tillögum ríkisstjórnarflokkanna. Ég benti reyndar á að við seinustu meðferð ríkisstjórnarflokkanna hefði skattur lækkað á einum hópi skattþegna, nefnilega þeim með allhæstu tekjurnar, hann hefur lækkað á þeim um 85 þús. kr., en hins vegar væri ætlunin samkv. þeim tillögum, sem væru til umr. og stjórnarliðið allt greiddi atkv. með í Ed. í gær, að stórauka skattbyrði á lægstu tekjum, sérstaklega hjá einhleypum, svo sem ekkjum og ungu fólki, sem er að byrja að fara út í lífið, og hjá einstæðum foreldrum, t. d. einstæðum foreldrum með eitt barn. Ég gerði grein fyrir þessu og benti á það t. d., að ef brúttótekjur hefðu verið 3 millj. kr. hjá einhleypum manni, t. d. ekkli eða ekkju, hefði samkv. gömlu lögunum, ef þeim hefði verið fylgt, tekjuskatturinn verið á bilinu 91–121 þús. kr. eftir því hvernig frádrætti hefði verið hagað, en samkv. þeim tillögum, sem boðaðar eru, yrði hann 152 þús. kr. hjá þeim manni sem hefur til ráðstöfunar 225–250 þús. kr. á mánuði, hjá þessum aðila, t. d. ekkju, væri verið að auka skattana um 34–67%. Reyndar er það svo, að samkv. tillögum okkar Alþfl.-manna hefði þessi skattur farið ofan í 35 þús. kr. í staðinn fyrir að hann verður hækkaður upp í 152 þús. kr., eins og stjórnarliðarnir samþ. í Ed. í gær.

Ég rakti líka dæmi af því, hvernig meðferðin væri á einstæðum foreldrum með eitt barn með mjög lágar tekjur. Ég tók sama dæmið, um 3 millj. kr, tekjur. Samkv. gamla kerfinu hefði verið borgaður 20% skattur af fyrstu 2.8 millj. rúmlega og ef við segjum að skattgreiðandinn hafi haft 5`% af brúttótekjum sínum í frádrátt hefði honum verið reiknaður skattur samkv. gamla kerfinu upp á 510 þús. kr., en skattafsláttur hefði þá verið 672 þús. og barnabætur 146 þús. hjá hinu einstæða foreldri. Þannig hefðu komið til útborgunar upp í útsvar og skatt samkv. gamla kerfinu 249 þús. kr., en samkv. þeim tillögum, sem stjórnarliðarnir vildu endilega fá að samþ. í Ed. í gær, væri útkoman 129 þús., eins og ég rakti í Ed. fyrir atkvgr. til sömu einstæðu móður með eitt barn. Það er sem sagt verið að auka skattinn um 120 þús. kr. í þessu tilviki.

Það má finna önnur dæmi þar sem er enn meiri aukning og má segja að aukningin sé á bilinu 120–150 þús. kr. Ég vakti ítrekaða athygli á þessu í umr. í Ed. í gær. Þetta er himinhrópandi dæmi. Ég benti reyndar á að mér hefði ekki verið ljóst, að það væri sérstakt markmið Alþb. að auka skattbyrði á þessum hópum, og mig ræki ekki minni til þess að Alþb. hefði fyrir kosningar boðað sérstaka skattahækkun hjá einstæðum foreldrum og t. d. ekkjum með lágar tekjur.

Það var ekki fyrr en eftir ítrekaðar tilraunir sem ráðh. fékkst til að ræða málið einu sinni, og þá sagði hann að hvergi væri um ósanngjarnan mun að ræða á skattlagningu eftir nýja kerfinu, sem hann var að tala fyrir, samanborið við það sem áður hefði gilt, allur munur væri óverulegur og hvergi ósanngjarn. Hann sagði m. a. s. að einstæðir foreldrar hefðu notið verulegra fríðinda eftir gamla kerfinu, og veit ég ekki hvort á að skilja það svo, að þeir hafi verið einhver sérstakur forréttindahópur í gamla kerfinu. Það hafði ég þó aldrei orðið var við í málflutningi Alþb. Að öðru leyti einkenndist málflutningur ráðh. af því, að hann vildi helst ekki ræða málið og svaraði allri gagnrýni á heldur hrokafullan hátt, það ætti bara að hraða afgreiðslu málsins.

Þegar þessi afstaða ráðh. og stjórnarflokkanna var ljós þótti okkur Alþfl.-mönnum rétt að ráðh, og þeir stjórnarliðar gerðu grein fyrir máli sínu frammi fyrir alþjóð, leyfðu fólkinu að heyra rök sín fyrir þessari skattastefnu og sérstakri hækkun á skatti hjá einhleypu fólki og einstæðum foreldrum með mjög lágar tekjur. Það var ekki síst ástæða til þess að slík almenn umr. færi fram frammi fyrir alþjóð með tilliti til þess, að ráðh. og stjórnarliðarnir höfðu áður gert mikið veður út af því að skattstigann yrði að undirbúa vel. Nú höfðu þeir haft rúmlega tvo mánuði til þess og í öllum málflutningi mátti merkja að nú væri málið vel undirbúið og allar ákvarðanir teknar að vel yfirveguðu ráði. Við Alþfl.-menn vildum ekki að þetta athæfi færi fram hjá þjóðinni, stórkostlegar skattahækkanir á hina tekjulægstu, ekki síst þar sem ríkisstj. er í rauninni að boða þessar aðgerðir sínar undir yfirvarpi skattalækkunar. Þess vegna töldum við rétt að fá útvarpsumræðu.

Nú verður hins vegar ekki annað séð en að ráðh. og ríkisstj. hafi guggnað þegar á að standa frammi fyrir því að verja gerðir sínar frammi fyrir alþjóð. Vonandi verður það svo, að það frumkvæði Alþfl. að krefjast útvarpsumræðna, sem stjórnarliðarnir töluðu reyndar um sem upphlaup í gær, verði til þess að ráðh, og ríkisstj. sjái sig um hönd. Ég vil a. m. k. vona það. Með því teldum við Alþfl.-menn að nokkrum áfanga væri náð, að tilganginum væri náð, að svo miklu leyti sem gengið er til móts við sjónarmið okkar. En það verður ekki annað séð en stjórnarliðið hafi brostið kjark til þess að verja athæfi sitt þegar það stóð frammi fyrir því að eiga að verja það frammi fyrir alþjóð.

Það væri gott að ráðh. svaraði því hvort hann ætli nú að taka gagnrýni okkar Alþfl.-manna til greina, eins og kannske liggur í ýmsum þeim orðum sem hann lætur hafa eftir sér í dag, og hversu langan umhugsunartíma ráðh. hefur hugsað sér að taka núna í því máli, sem hann vildi flýta svo mikið í gær, og hvenær umr. fari fram.

Hinu trúir auðvitað enginn, að ráðh. og stjórnarliðar hafi eftir tveggja mánaða umfjöllun verið svo illa að sér að þeir vissu ekki hvað þeir voru að gera. Ætlar ráðh. kannske að halda því fram að svo sé? Ef það er svo, þá held ég að ráðh. og hans lið ætti að hætta að stússast í þessu. Það, sem þeir sjá ekki eftir tvo mánuði, trúi ég að þeir sjái seint eða aldrei.

Það hlýtur hins vegar að teljast aumlegt yfirklór þegar hæstv. ráðh. heldur því nú fram, að komið hafi í ljós misræmi í útreikningum, og gefur í skyn að útreikningar Reiknistofnunar sýni ekki rétta mynd, sýni t. d. ekki þau atriði sem ég gerði sérstaklega að umræðuefni í Ed. á þriðjudaginn. Útreikningar Reiknistofnunar sýna auðvitað þessa mynd. Við getum t. d. tekið einstæða foreldra með eitt barn. Það sést mjög greinilega á bls. 10 í útreikningum Reiknistofnunar að skattbyrðin stóreykst. Í staðinn fyrir að samkv. gamla kerfinu væru 20 millj. í skatta eru það 200 millj. samkv. nýja kerfinu. Það sést að fyrir tekjuhópinn 2–3 millj. hjá einstæðum foreldrum er meðalaukningin upp á 63 þús. kr. og á næsta bili fyrir ofan, 3–4 millj., 119 þús. kr. Þetta stendur allt saman í útreikningum Reiknistofnunar og þarf engum að koma á óvart, og er auðvitað aumlegt yfirklór að ætla að halda því fram að þetta sjáist ekki í útreikningum Reiknistofnunar. Las ráðh. kannske aldrei útreikninga Reiknistofnunar — og til hvers voru þeir þá gerðir? Eða er það svo, að ráðh., sem hafði uppgötvað þetta í útreikningum Reiknistofnunar, sá ekki ástæðu til að skoða þessar tölur nánar og fara nánar ofan í dæmið?

Útreikningar á sköttum eru reyndar ekki flóknari en svo, að smáútreikninga á dæmi af þessu tagi geta menn gert á örstund. Menn geta jafnvel gert þá í huganum. Það þarf enga Reiknistofnun Háskólans til þess. Það getur verið notalegt að hafa smátölvu, eins og allir ganga nú með í vasanum, en það er ekkert skilyrði til að framkvæma útreikninga af þessu tagi. Við getum t. d. tekið dæmið af einstæða foreldrinu með eitt barn og 3 millj. í brúttótekjur og 2.7 millj. kr. í nettótekjur. Útreikningarnir eru svo einfaldir að það er hægt að fara yfir þá á örstund. Eftir gamla kerfinu eru 20% af 2.7 millj. 540 þús. mínus persónuafsláttur upp á 672 þús., mínus barnabætur upp á 140 þús. Útkoman er 278.8 þús. til þess að mæta greiðslum á útsvari og upp í beina útgreiðslu eftir gamla kerfinu. Eftir tillögum stjórnarinnar er útreikningurinn svona: 25% af 2.7 millj. eru 675 þús., persónuafsláttur 525 þús. til frádráttar og barnabætur 280 þús. Útkoma 130 þús. í staðinn fyrir tæp 280 þús. til að mæta útsvarsgreiðslu og til beinnar útgreiðslu til þessa fólks sem hefur kannske 225–250 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði hverjum. Svona einfaldir eru þessir útreikningar og ég trúi því ekki að ráðh. hafi aldrei í þessa tvo mánuði sest niður með penna til að reikna svona einfalt dæmi fyrir þá sem verst eru settir og hann hefur haldið fram að hann væri sérstaklega að verja kjörin hjá hér í landinu.

Ég óska eftir að ráðh. geri grein fyrir því, hvað valdi þeim sinnaskiptum sem nú hafa orðið hjá honum, hvers vegna hæstv. ráðh. guggni á því að verja í kvöld frammi fyrir alþjóð það hugarfóstur sem hann var svo stoltur af í gær. Hvers vegna vill hann nú að umr. verði frestað? Telur ráðh. kannske enn að hvergi sé ósanngjarn munur á sköttum eftir nýja kerfinu og gamla kerfinu, eins og hann hélt fram í umr. á þriðjudag, eða er að vænta tillagna frá ráðh. um breytingar? Er ætlun ráðh. nú að taka gagnrýni okkar Alþfl.-manna að einhverju leyti til greina? Þetta tel ég að þingheimur þurfi að vita, nóg er óvissan samt undir leiðsögu núverandi stjórnarherra.