17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fagna því alveg sérstaklega að ríkisstj. skuli taka sér nokkurt hlé til að íhuga betur það skattalagafrv. sem liggur fyrir Ed., því að það felur í sér mjög verulegar hækkanir á beinum sköttum.

Það er hægt að bera beina skatta saman með margvíslegum hætti. Ef maður staldrar við kosningarnar 1978, sem mjög hafa markað stjórnmálaþróunina síðan, og íhugar þá skatta, sem voru á því ári, kemur í ljós að hækkun skatta á s. l. ári, þ. e. hækkun tekjuskatts á s. l. ári, þó sleppt sé afturvirka tekjuskattinum eða skattaukanum, var 20–25%. Og ef fjárlögin eru lögð til grundvallar einnig varðandi skattana 1980 kemur í ljós að heildarskattahækkunin miðað við 1978 er rúm 34%. Þetta er ekkert lítið þegar jafnframt er haft í huga að á þessum tíma hefur verkafólk, launþegar almennt, gefið eftir 2% af launum sínum vegna loforðs síðustu ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar um skattalækkanir, um lækkun beinna skatta. Þetta er athyglisverð þróun og sýnir ljóslega hversu hlunnfarið var verkafólk og almennir launþegar á s. l. tveim árum í viðskiptum sínum við þá ríkisstj. sem hélt á loft merkinu um samningana í gildi og mest hefur gumað af því að hafa hvers konar samráð og samstarf við launþega, og nú er svo komið að höfuðvinur verkalýðshreyfingarinnar, Alþb., ræður yfir sæti fjmrh.

Eins og fram kom í orðum hæstv. fjmrh. áðan er þýðingarlaust að hefja efnislegar umr. um skattamál á þessu stigi við ríkisstj. Hann tók skýrt fram, að það væri nánast hlægilegt að láta sér detta í hug að ríkisstj. væri yfirleitt reiðubúin til að taka þátt í þvílíkri umr., á sama hátt og hann hefur hvað eftir annað á liðnum vikum virt það að vettugi, ekki virt mig svars þegar ég hef spurt hann um þá stefnu sem kjaradeila opinberra starfsmanna við ríkisstj. er að taka. Ég skal ekki ræða það nánar nú, en ég minni á að í blöðum ber núna mjög á mótmælum hvaðanæva að vegna tómlætis og seinagangs ríkisstj. gagnvart starfsmönnum sínum.

Í mínum huga er enginn vafi á að skattstigarnir, eins og þeir eru nú í skattalagafrv., eru of háir. Það þarf að lækka þessa skattstiga verulega. Athygli þingheims, vonandi einnig ríkisstj., hlýtur að beinast að því nú með hvaða hætti þessir skattstigar verði lækkaðir.

Kjartan Jóhannsson, hv. 2, þm. Reykn., gerði áðan samanburð á gömlu skattalögunum og því kerfi sem nú á að taka upp. Í þeim samanburði miðaði hann við skattalögin eins og þau voru í fyrra, en það gefur ranga mynd vegna þess að sú ríkisstj., sem þá sat, hafði komið fram verulegum þyngingum á gömlu skattalögunum, einkum gagnvart lægst launaða fólkinu. Sú mynd var því villandi og sömuleiðis sú mynd sem Alþfl. gefur upp í þskj. í Ed. þar sem hann rekur þessi mál, eins og ég mun víkja að þegar þessi mál koma til umr. í Nd.

Ég vil vekja athygli á því, að við 3. umr. fjárlaga m. a. lýsti hæstv. fjmrh., sem ég sé að hefur vikið af fundi, yfir að hann gæti ekki á þessu stigi málsins og raunar treysti sér ekki til þess að lofa því að tekju- og eignarskattslögin, eins og frá þeim yrði gengið, mundu standast þá þolraun sem álagningin yrði, þar sem hér væri um grundvallarbreytingu að ræða í skattalögum, og hann lofaði því við 3. umr. fjárlaga, að ef ríkissjóður tapaði meira en áætlað væri yrðu nýir skattar á lagðir. Hins vegar kom ekki fram hvað hæstv. fjmrh. hygðist lækka skattstigana ef þeir reyndust vera of háir, og hefði þó verið skemmtilegt að fá þá yfirlýsingu einnig. En ég vil aðeins vekja athygli á því að síðustu atburðir í Ed., ekki aðeins ummæli hæstv. fjmrh., heldur þeirra þriggja annarra sem á undan honum voru, gefa vissulega tilefni til þess að þingflokkarnir fylgist með framkvæmd þessara tekju- og eignarskattslaga. Ég álít að nauðsynlegt sé að hver þingflokkur eigi fulltrúa sem fylgist með framkvæmd þessara laga, þannig að inn í sé hægt að gripa og þingheimur geti fylgst með því ef þar verður um stórslys að ræða. Ég held að óhjákvæmilegt sé fyrir fjh.- og viðskn. Ed. að nálgast málið með þeim hætti hvernig Alþ. gefist bestur kostur á að fylgjast með framkvæmd laganna eftir að þau hafa verið afgreidd frá Alþ., svo mörg stórslys sem orðið hafa í sögu þessarar löggjafar frá því hún var sett, ef marka má þau ummæli sem hæstv. fjmrh. hefur látið falla.

Ég vil svo að síðustu ítreka það, sem ég hef áður sagt ag m. a. hefur komið fram á fundi í verkalýðsráði Sjálfstfl. og einnig í ummælum Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Verkamannasambands Íslands, hér á Alþ., að sú skattpíningarstefna, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur markað, kemur til með að torvelda þá samningagerð á hinum almenna vinnumarkaði sem nú stendur yfir. Með því að sýna sanngirni og hóf í sambandi við tekjuskattinn og í sambandi við sjúkratryggingagjaldið er einhver von til þess að launþegar sætti sig við þær hóflegu kjarabætur sem þeir hafa nú farið fram á. En ef hæstv. ríkisstj. ætlar að miða skattalögin við 60–70% verðbólgu hljóta launþegar einnig að svara því með jafnósvífnum kröfum og skattheimta þessarar hæstv. ríkisstj. hefur verið ósvífin síðan hún settist að völdum.