17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki verða til þess að lengja þessa umr. að mun. En ég held að nú sé svo komið að full ástæða sé til þess að vekja athygli á og leggja þunga áherslu á hið gífurlega stjórnleysi og stefnuleysi sem einkennir störf núv. hæstv. ríkisstj. Ég vil benda á það m. a. að hæstv. fjmrh. treystist ekki til að hefja þá útvarpsumr., sem fram átti að fara í kvöld, vegna þess að hann hafði ekki þau gögn í höndum sem hann þurfti að hafa og hefði raunverulega átt að hafa. Ég vil einnig benda á að þetta stjórnleysi kemur m. a. fram í nær óstöðvandi skattahækkunum, sem virðast engan enda ætla að taka. Ég held að hv. þm. verði að átta sig á því að þetta snertir ekki bara okkur sem hér sitjum, heldur allan almenning í landinu, sem er orðinn óttasleginn og fyllist öryggisleysi sem eykst hvern daginn sem líður.

Ég vil minna á að hæstv. ríkisstj. hefur hækkað útsvör um yfir 10%, tekjuskatta yfir 40%, söluskatt um 1.5 stig og fyrirsjáanlegar eru hækkanir á sjúkratryggingagjaldi og ferðamannaskatti. Á sama tíma hefur hæstv. ríkisstj. lækkað gengið, hún boðar stórfellda hækkun á erlendum lántökum. Það er augljóst að ríkisstj., sem þannig hagar sér, hefur enga stefnu, hvorki í skatta- né efnahagsmálum.

Ég vil líka vekja athygli á því sem framundan er á efnahagsmálasviðinu. Það eru allir kjarasamningar lausir. Það er fyrirsjáanlegt samkv. upplýsingum Hagstofunnar að verðbótavísitala hækki um næstu mánaðamót um allt að 12%, en þá eru ekki teknar inn í hækkanir á hitaveitu, rafmagni, strætisvögnum og hækkanir sem eru afleiðing söluskattshækkunar, þannig að verðbótavísitalan getur hækkað enn meira. Þetta kemur á sama tíma og ganga verður til erfiðra og viðkvæmra kjarasamninga.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að fáar ríkisstj. hafa valdið eins miklum erfiðleikum hjá almenningi í þessu landi gagnvart eigin fjárhag, gagnvart eigin efnahagsmálum, persónulegum efnahagsmálum, og þessi ríkisstj. hefur gert. Það er nánast allt látið reka á reiðanum. Það er engin ákvörðun tekin um nokkurn hlut og þegar hún er tekin er hún tekin of seint og hlutirnir „fara í svíl“, eins og það er nefnt á sjónum.