17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vek athygli á því, að flest er nú að verða með eindæmum í landi okkar. Hér í forsrh.-stól, ef hann væri skipaður, sæti maður sem er í senn oddviti ríkisstj., forsrh. landsins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar sem varaformaður stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og stærsta stjórnarandstöðuflokksins.

Í einum og sama manninum sameinast þannig annars vegar oddviti ríkisstj., og hins vegar oddviti stjórnarandstöðu. Þetta er alveg furðulegt ástand og er lýsandi dæmi um hver ósköp dynja nú yfir Alþingi og íslensku þjóðina.

Í gær gerist það svo hér, og þykir sæta miklum tíðindum, að annar stjórnarandstöðuflokkurinn tók inn í sínar raðir — og fagnar honum vonandi vel — einn af þm. ríkisstj. Þá eru stjórnarsinnar í stjórnarandstöðuflokki orðnir hartnær fjórðungur af þingflokknum eða kannske rúmlega það.

Það hefur heldur aldrei áður gerst, að ég hygg, í allri sögu Alþ. að ráðh., sem leggur mál fyrir þingið, eins og hæstv. fjmrh. hefur gert, slæst í því frá morgni til kvölds að fá málið afgreitt, verður að láta undan síga og taka málið til útvarpsumræðu, að hann, sjálfur flutningsmaður frv., krefjist þess rétt fyrir miðnætti að umr. sé frestað. Ég man ekki til þess, og hef nú verið að reyna að kynna mér það í þskj. og hef ekki fundið að það hafi nokkurn tíma gerst í allri þingsögunni að sá fjmrh. hafi verið til á Íslandi sem hefur fengið mál frá sér tekið til útvarpsumræðu og hafi síðan krafist þess í alvöru að þeim útvarpsumræðum yrði frestað vegna þess, eins og fram kemur núna, að hæstv. ráðh. telur sig ekki hafa haft tíma til að hugsa málið nægilega vel.

Þannig rekur hvert fádæmið annað á þessum dögum: þessi fádæma stjórn með þennan fádæma forsrh. og þessi fádæma stjórnarandstöðuflokkur, þar sem Sjálfstfl. er, með það fádæma þinglið sem þar virðist eiga sæti. Virðast þar eiga sæti fulltrúar allra hugsanlegra sjónarmiða innan veggja Alþ.: í fyrsta lagi þeirra sem eru með ríkisstj., í öðru lagi þeirra sem eru á móti ríkisstj. og í þriðja lagi þeirra sem eru hlutlausir. Þetta er allt í einum flokki. Það má segja að í húsi föður míns séu mörg herbergi og furðulegar vistarverur.

Ég vil nú ekki segja margt um þessa undarlegu framkomu annað en að vekja athygli á því, að hv. þm. og vinur minn Guðmundur J. Guðmundsson hefur ekki sést í þingsalnum í dag, og er það merki um að það séu einhverjir til enn þá með samvisku í Alþb., þó að það sé ekki hæstv. fjmrh.

Ég vil vekja athygli á því í tilefni af því sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan, að nú gerist það í fyrsta sinn í erfiðu ástandi á vinnumarkaði að Alþb. fer með einn mikilvægasta þátt atvinnurekendavalds í landinu. Það er Alþb. sem fer nú með samningamál íslenska ríkisins, stærsta vinnuveitanda á öllu Íslandi. Hver er fulltrúi stærsta vinnuveitanda á öllu Íslandi? Það er Alþb. Hæstv. fjmrh. er nú stærsti atvinnurekandi á öllu Íslandi.

Nú vita menn að það hvorki gengur né rekur í samningamálum á vinnumarkaðinum. Skyldi ekki Alþb. hafa einhvern áhuga á því, fyrst það er orðið fulltrúi öflugasta atvinnurekendavaldsins í landinu, að leysa vinnumarkaðinn úr þessari sjálfheldu og ryðja einhverja braut? Skyldi Alþb. ekki hafa áhuga á að leysa þann rembihnút sem verið er að hnýta? Það hefur enginn betri aðstöðu til þess en Alþb. Það fer með öflugasta atvinnurekendavaldið á Íslandi. En hvað gerir hæstv. fjmrh., fyrrum formaður Alþb. og formaður þingflokks m. rn., þegar hann hefur þetta gríðarmikla vald í hendi sinni? Hæstv. fjmrh. lýsir því yfir, að hann og Alþb. allt á eftir honum ætli að skýla sér á bak við atvinnurekendavaldið í vinnuveitendasamtökunum. Íhaldið í vinnuveitendasamtökunum á að semja fyrir Alþb. á Alþ. Og hæstv. fjmrh. lýsir því yfir aftur og aftur í útvarpi og sjónvarpi að hann ætli sér ekki að hafa neina skoðun á launamálum opinberra starfsmanna og alls ekki svara opinberum starfsmönnum fyrr en hinn frjálsi vinnumarkaður sé búinn að ljúka sér af, m. ö. o. ekki fyrr en íhaldið í atvinnurekendasamtökunum er búið að tilkynna verkalýðshreyfingunni hvað það treysti sér að semja um. Þá ætla hæstv. fjmrh. og Alþb. að lötra í slóðina.

Ég vildi vekja athygli á nokkrum þeim fádæmum sem eru nú að gerast í þjóðfélagi okkar. Ég held að það síðasta, sem ég vakti athygli á, sé einna lærdómsríkast og umhugsunarverðast fyrir launþega þessa lands.