17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Auðvitað er það að gerast hér og nú að það er að komast upp um þann svikavef á hverjum núv. hæstv. ríkisstj. er reist. Það er auðvitað fáheyrt og á sér áreiðanlega engin fordæmi í þingsögunni, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson rakti áðan, að ríkisstj. skuli hafa verið að berjast fyrir því að flýta tilteknu máli, að þessu sinni umr. um skattstiga, en skuli síðan koma á hnjánum og biðja um, að sömu umr. verði frestað, og bera við vitlausum reikningum.

Kjarni þessa máls er auðvitað sá, að sú óvissa, sem fólkið í landinu verður að búa við, er með eindæmum. Landið er stjórnlaust í raun og veru. En það eru óvart fleiri hliðar á þessu máli. Hvað er það sem gerir núv. hæstv. ríkisstj. svo feimna við útvarpsumræður? Hvers vegna treystir núv. hæstv. ríkisstj. sér ekki til þess að flytja stefnuræðu sína? Auðvitað er málið það, að hegðun hins þingreynda hæstv. forsrh., Gunnars Thoroddsens, er með eindæmum. Hann situr í þingflokki Sjálfstfl., þar vill hann eingöngu njóta réttindanna, en ekkert hafa með skyldurnar að gera.

Hugsum okkur, hv. þm., að útvarpsumræður hefðu verið haldnar annað kvöld. Gunnar Thoroddsen hæstv. forsrh. situr í Ed. (Gripið fram í: Núna í kvöld.) Já, ég bið afsökunar, núna í kvöld. — Hvað ætlaði hæstv. forsrh. að gera? Ætlaði hann að tala og ef hann ætlaði að tala hvernig ætlaði hann að tala? Ætlaði hann að tala í ræðutíma Sjálfstfl.? Hann getur ekki talað í ræðutíma Eggerts Haukdals því hann situr víst í Nd., eftir því sem ég hef fregnað. Hvernig ætlaði hæstv. forsrh. að fara að? Það, sem er að gerast, er að hæstv. forsrh. er með annan fótinn í þingflokki og hinn fótinn fyrir utan. Hann vill heimta réttindin sem því fylgja að vera í þingflokki, en vill ekkert hafa með skyldumar að gera. Ég er ekki vanur að nota stór orð og mun ekki gera það að þessu sinni heldur, en þetta er auðvitað framkoma fyrir neðan allar hellur.

En hvað er málið? Málið er það, að vegna hinnar sérstöku innri baráttu, sem forsrh. heyr við metnaðinn í sjálfum sér, verður fólkið í landinu að bíða og kannske í fullkominni óvissu um skattamál. Hæstv. fjmrh. var svo einfaldur, því hann er einfaldur maður í háttum og hegðan, þegar þetta barst í tal hér, nákvæmlega þetta, út af umr. um stefnuræðuna sem aldrei var flutt, að hann endaði umr. með því að spyrja hreinskilnislega hvort hv. þm. skildu ekki hvað þetta mál snerist um í raun og veru nefnilega það, að ómögulegt var að koma því fyrir í þeim þingsköpum sem í gildi eru, hvernig með skyldi fara okkar virðulega forsrh.: hvar hann ætti að tala, hvernig hann ætti að tala og með hverjum hætti. Og vegna hvers er forsrh. að hluta til í þingflokki? Þar sem hann getur grætt á því, en hinu neitar hann sem vinnur gegn honum persónulega. Auðvitað er það kjarni málsins.

Hv. Alþ. verður að fara að gera upp við sig hvernig með hv. þm. Gunnar Thoroddsen á að fara. Er hann í þingflokki eða er hann ekki í þingflokki? Við getum ekki þolað að þjóðin fái ekki að vita um skattstiga, sem þjóðin t. d. fær að vita um í formi útvarpsumræðna, vegna þess að metnaður Gunnars Thoroddsens er í rembihnút, eins og allir vita. Þetta er auðvitað lykilástæðan fyrir því að ekki verða útvarpsumræður í kvöld. Þetta er auðvitað höfuðástæðan fyrir því að ekki var hægt að hafa umr. um stefnu stjórnarinnar. Það veit enginn hvort hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen er í þingflokki eða ekki í þingflokki. Það veit enginn í hvaða ræðutíma hann á að tala.

Þetta er auðvitað innanflokksmál Sjálfstfl. Sú hefð er hér samkv. þingsköpum, að þegar um fjóra þingflokka er að ræða, að viðbættum Eggert Haukdal, er ræðutíma skipt í fjóra jafna hluta. Sjálfstfl. fær sinn fjórðung. Og hvað ætti hann að gera við hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen? En að metnaður Gunnars Thoroddsens verði til þess að fólkið í landinu sé í fullkominni óvissu um, hvað það á að borga í skatta, vikum og mánuðum saman er auðvitað einum of mikið. Hæstv. forsrh., Gunnari Thoroddsen er þess vegna skylt að segja þinginu hvort hann er í sérstökum þingflokki með vinum sínum eða hvort hann er einn á báti. Er hann í þingflokki Sjálfstfl. með þeim réttindum og þeim skyldum sem slíku fylgja? Auðvitað getur hæstv. forsrh. verið óháður þm. Þá hefur hann ekki skyldur og ekki heldur réttindin sem starfi í þingflokki fylgja.

Þetta er auðvitað lykilástæðan, því að þessi útvarpsumræða hefði vel getað farið fram og auðvitað væri þar tekið sanngjarnt tillit til þess ef það verður reiknivilla í tölvu einhvers staðar eða í handavinnu. Auðvitað skilja það allir og engum dettur í hug að vera með ódrengilegar athugasemdir af þeim sökum. Það segir sig alveg sjálft. En það er ekki kjarni málsins. Þetta er í annað skiptið sem það kemur fyrir að útvarpsumræðu er frestað og skýringarnar eru í bæði skiptin þær sömu: rembihnútur metnaðarins er slíkur að auðvitað er kostulegt hér innan veggja, en harmsögulegt utan þessara veggja fyrir fólkið sem þarf að líða fyrir sérkennilega samsetningu ríkisstj. sem hvorki er til hægri né vinstri.

Því má svo bæta við þetta, að vitaskuld er hæstv. ríkisstj. ekki mynduð nema utan um eitt mál, þ. e. óbreytt ástand og ýkt í landbúnaðarmálum. Þessir miklu skattar, sem við höfum verið að samþ. einn af öðrum, og það, sem nú er sérstaklega verið að tala um, sem er skattstiginn, með hvaða þunga skattar eiga að leggjast á launafólk, allt er þetta tilfærsla í gegnum skattakerfið. Stundum heitir það „út af olíuvanda“ og stundum út af einhverju öðru. Allt er þetta tilfærsla meira og minna í hina botnlausu hít sem landbúnaðurinn er orðinn. Því er hann tilgreindur að það er eini málaflokkurinn þar sem hægt er að henda reiður á einhverri stefnu hjá núv. hæstv. ríkisstj. Hún er mynduð annars vegar utan um landbúnaðinn og hins vegar utan um metnaðinn í dr. Gunnari. Þessi ríkisstj. á engar aðrar forsendur en þessar tvær. En þegar svo er komið sem skynsamir og skýrir menn gátu sagt sér þegar í upphafi, að metnaðurinn í dr. Gunnari og landbúnaðarhítin eru farin að valda því, að mánuðum saman er fólk í fullkominni óvissu um hvað það á að greiða í skatta, er gamanið orðið nokkuð grátt.

Auðvitað á að segja þetta hreinskilnislega. Menn hafa verið að tæpa á þessu hér og farið eins og köttur í kringum heitan graut með þetta. Auðvitað er þetta sjálfur vandinn sem um er að ræða. Enginn hefur nefnt það hér fyrr en maður, sem er einfaldur í háttum og kostum, hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds, missti þetta út úr sér, að ég hygg óvart, og dauðsá eftir því um leið og hann var búinn að því. En það var gott hjá honum, því einfeldnin getur oft verið af hinu góða.

Ég held að segja megi bæði pólitískt og fræðilega að vafasamt er hvort hægt er að kalla núv. ríkisstj. þingræðisstjórn, alla vega er meiri hl. tæpur í þinginu. Þá á ég ekki aðeins við kommann með samviskuna, hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, sem er farinn að vera æ sjaldséðari gestur í þinginu, sem sýnir enn og undirstrikar kenningu mína um samvisku hans, heldur á ég einnig við að allt samspilið innan Sjálfstfl. er með þeim hætti að óljóst er, hvort dr. Gunnar, hæstv. forsrh., og félagar hans eru í þingflokki Sjálfstfl. eða ekki, og ef þeir eru í honum, hvort þeir beygja sig þá undir samþykktir hans eða ekki. Það er allt óljóst með hvort þessi stjórn hefur raunverulega þingræðislegan meiri hl. Hún hefur getað komið nokkrum málum í gegn, en það hefur verið með herkjum. Nú er að stranda enn eitt málið í þinginu, tölvunni kennt um það sem raunverulega er dr. Gunnari að kenna.

Ríkisstj., sem svona starfar, er auðvitað engin ríkisstj. Þetta er kjarni málsins, og ég held að það sé að renna upp fyrir þeim skynsamari hjá kommunum, vinum mínum, að þetta er auðvitað sjálft málið. Þeir voru svo ákafir í að kljúfa íhaldið á sínum tíma að þeir gleymdu að ríkisstj. þarf að vera mynduð utan um fleira en metnað og klofning ef vel á að fara. (Gripið fram í: Hefur hv. þm. svona mikinn áhuga á aga í Sjálfstfl.?) Ég hef áhuga á aga, hvar sem hann er að finna, og m. a. við þetta borð þarna, hjá sessunaut mínum!

Allt um það, ríkisstj. ræður ekki við þingið. Ég hygg að hún ætli að reyna að lifa fram á haust. Ég spái því, að hún lendi í mjög verulegum vandræðum með önnur fjárlög sín ef hún lifir svo lengi. Lífsvon hennar er fólgin í því að geta sent þingið sem fyrst heim og stjórnað með brbl. Þá reynir ekki á hvernig og hvort þingmeirihluti er til. Við skulum orða það svo, að það er leikinn línudans á mörkum þingræðis. Það eru ill örlög fyrir hámenntaðan mann, fjölgáfaðan mann, sem kom hingað inn 1934 og hefur langa reynslu og mikla sögu, að enda þannig, hafandi verið lagaprófessor og hæstaréttardómari, — og raunar yrði ég fljótari að telja hin embættin, sem hann ekki hefur gegnt. En að enda svo, að dansa línudans á sjálfu þingræðinu með þeim hætti sem hér er verið að gera, það er afleitt. Dr. Gunnar Thoroddsen verður vegna fólksins í landinu að fara að gera upp við sig, hvort hann er í þessum þingflokki eða ekki. Það er ótækt og auðvitað óþolandi að stefnuræða sé ekki flutt, henni átti að útvarpa. Nú er sama vandamál komið upp. Það er ekki hægt að ræða skattamál fyrir framan fólkið í landinu nú af sömu ástæðu, af því að þingið veit ekki hvernig með dr. Gunnar skal fara. Fólksins vegna, dr. Gunnar, þessa hluti verður að fara að gera upp. Það er gaman að mynda ríkisstj., en það getur verið erfitt að stjórna landi.