17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sem er manna hvatastur að krefjast þess að ráðh. séu viðstaddir umr. þó hann hafi ekkert sérstakt um að spyrja, er nú farinn eða flúinn af fundi áður en hægt er að svara hinni löngu ræðu hans. (VG: Þetta var ekki krafa Sighvats, hæstv. ráðh.) Það eru ekki margir dagar síðan við stóðum hér, þar sem Sighvatur Björgvinsson krafðist þess að ráðh. væru kallaðir á fundinn og það í deild sem þeir þó eiga ekki sæti í. Það veit hv. þm. vel.

Ég ætla að segja örfá orð út af aths. þeirra tveggja þm. sem síðast töluðu um að ég hafi sagt þingheimi rangt frá um þingsköp. Ég gerði að umtalsefni ákvæði þingskapa um útvarpsumr. Það er rétt að rifja það hér upp.

Ég tók það fram, að ég teldi að ákvæði þingskapa, bæði um stefnuræðu og um eldhúsumr., ættu ekki við eins og ástatt er nú í stjórnmálum okkar. Í þingsköpum er ákveðið svo um stefnuræðu, að fyrst flytji forsrh. ræðuna, síðan hafi fulltrúar annarra flokka en forsrh. 20 mínútur til umráða í þeirri umferð og síðar komi fulltrúar þingflokkanna í annarri umferð með 10 mínútur. Þetta þýðir það, ef engin breyting er gerð eða afbrigði veitt, að næsta haust, þegar flutt verður stefnuræða, mun stærri stjórnarandstöðuflokkurinn, þingflokkur sjálfstæðismanna, fá aðeins 10 mínútur til umráða í þeim umr. Ég tel þetta óeðlilegt og ég tel að hér þurfi að gera breytingu á, annaðhvort breytingu á þingsköpum eða veita afbrigði frá þingsköpum, sem líka er heimilt. Það er alrangt að ég sé að halda fram röngum skilningi eða rangri túlkun á þingsköpum. Ég er bara að skýra frá því, að ég tel að ákvæði núverandi þingskapa geti að þessu leyti ekki gilt, það verði að veita undanþágu eða afbrigði frá þeim, t. d. í þessu tilviki, vegna þess að niðurstaðan er ekki réttlát í þessu tilviki gagnvart stærri stjórnarandstöðuflokknum.

Að því er snertir eldhúsumr. er eingöngu tiltekið í þingsköpum að þingflokkar hafi hver um sig hálftíma til umráða. Nú vita það allir, nema kannske hv. þm. Sighvatur Björgvinsson eftir hans máli hér, að eldhúsumr. eru þannig til komnar og það er eðli þeirra og tilgangur að þá sé rætt um störf ríkisstj., hún skýri störf sín og stjórnarandstaðan gagnrýni. Þetta er sem sagt árlegt uppgjör um störf ríkisstj. Ég held að allir, sem um það hugsa, hljóti að vera sammála um að það er ekki í neinu samræmi við anda og tilgang þessa fyrirkomulags um eldhúsumr. og stangast á við hefðir ef forsrh. ríkisstj., en fyrstu störf hennar eru þar til umr., fengi ekki málfrelsi í þeim útvarpsumr. Þetta stangast auðvitað svo á við ekki aðeins allar hefðir, heldur heilbrigða skynsemi, að ég veil ekki hvernig mönnum dettur í hug að halda því fram, að það eigi að halda sig við bókstaf þingskapa í stað þess að vitanlega verður, eins og hæstv. forseti Sþ. hefur þegar tekið til athugunar og eins og ég gat um bæði hann og skrifstofustjóri Alþingis, ef eitthvert vit á að vera í þessari tilhögun, annaðhvort að ná samkomulagi á milli þingflokka eða veita beinlínis afbrigði frá þingsköpum. (Gripið fram í: Er þetta ekki innanflokksmál Sjálfstfl.?) Nei, nei, nei. Þetta er það sem ég hef verið að skýra hér og ég vænti þess að þeir tveir hv. þm., sem hafa verið að andmæla, skilji þetta.

Auk þessa vil ég taka annað fram, sem hv. þm. Vilmund Gylfason og Sighvat Björgvinssyni virðist skorta gersamlega skilning á. Þeir virðast ekki geta hugsað í öðru en flokkum og flokksræði og þeir virðast ganga út frá því, að þau ákvæði, sem nú eru í þingsköpum, séu það eina rétta. Vitanlega hefur oft verið deilt um það, hvort ákvæði núverandi þingskapa séu réttlát að því er útvarpsumr. snertir, og þá hefur m. a. þetta komið til orða: Er það endilega sjálfsagt að t. d. tveggja manna þingflokkur hafi jafnlangan ræðutíma og 25 manna þingflokkur? Ef menn hugsa eingöngu í flokkum, en ekki í persónum, mönnum eða þm., þá er þetta rétt. Ef menn hugsa hins vegar á annan veg er þetta ekki réttlátt. Þess vegna er ekki sjálfgefið að líta eigi á ákvæði þingskapa um ræðutíma í útvarpsumr. sem einhvern heilagan, óumbreytanlegan sannleika sem alltaf eigi að standa. Vitanlega koma þarna til greina og eiga rétt á sér mörg önnur sjónarmið en þau sem í þingsköpunum eru.

Þetta vil ég láta koma hér fram. Þetta er engin nýlunda, hefur oft verið rætt. Það, sem menn þurfa að leita að og finna í sambandi við framkvæmd umr. í þinginu og ekki síst útvarpsumr., er hvað er eðlilegur og réttlátur ræðutími, hvernig er skynsamlegast og sanngjarnast að koma þessu fyrir. Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því, að ég tel að í sambandi við stefnuræðu næsta haust sé ekki sanngjarnt gagnvart þingflokki sjálfstæðismanna, sem er stærri stjórnarandstöðuflokkurinn, að hann fái aðeins 10 mínútur til umráða og það í seinni umferð. Enn fremur tel ég algera fásinnu að ætla að fara í eldhúsumr. þannig að formaður viðkomandi ríkisstj. komist e. t. v. ekki að í þeim umr. Af þessum ástæðum verður auðvitað að ræða um þetta á milli flokka til þess að finna skynsamlega lausn.