17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það skal vera stutt og er einungis út af nýjustu ummælum hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. hélt því fram, að í umr. um stefnuræðu mundi Sjálfstfl. einungis fá 10 mínútur. Ég veit ekki betur en hæstv. forsrh. sé í Sjálfstfl. Þá fær Sjálfstfl. auðvitað 30 mínútur. Ef hæstv. forsrh. er ekki í Sjálfstfl. er hann utan flokka eða í sérflokki og þá hefði hann rétt samkv. því. En alla vega er það ljóst, að meðan hæstv. forsrh. er í Sjálfstfl. fær Sjálfstfl. 30 mínútur alveg eins og hinir flokkarnir við þessa umr. Málflutningur af þessu tagi dugar því ekki vel. Þess vegna er það út í hött þegar hæstv. forsrh. er að tala um að það þurfi að gera breytingu á þingsköpum vegna sérstakra aðstæðna sem ríki í þjóðfélaginu og þingsköpin séu ekki í samræmi við anda eða tilgang þingræðisins. Ég held að það sé frekar þannig, að ef menn ætla bæði að vera í flokki og ekki í flokki samtímis sé það ekki í samræmi við anda og tilgang þingræðisins og það, sem á ekki við, sé að menn séu bæði í flokki og ekki í flokki. Þetta mál snýst einmitt um það, að Sjálfstfl. og Gunnar Thoroddsen og félagar verða að gera það upp við sig hvort Gunnar Thoroddsen og félagar eru í Sjálfstfl. eða ekki (Gripið fram í: Þm. er kerfiskarl.) Það er rangt. (Gripið fram í: Það er rétt.)